25.10.1966
Efri deild: 7. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

5. mál, fávitastofnanir

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Áður en ég kem að efni þessa frv., sem hér liggur fyrir um fávitastofnanir, er rétt að gefa örstutt yfirlit yfir fávitahælisrekstur ríkisins. En það er í stórum dráttum þannig, að 20. des. 1941 keypti ríkissjóður af læknishéraðsstjórn Kleppjárnsreykjalæknishéraðs læknisbústað á Kleppjárnsreykjum, sem þá var verið að leggja niður sem slíkan, og svo jörðina Kleppjárnsreyki. Og fyrst var þar rekið dvalarheimili ungmenna, en í okt. 1943 er húsið autt, og þá kemur fram sú hugmynd að setja þar á stofn fávitahæli, og í bréfi heilbrmrn., dags. 12. jan. 1944, segir svo, að „heilbrmrn. hefur ákveðið að setja á stofn fávitahæli á Kleppjárnsreykjum, og hefur það verið í undirbúningi um nokkurt skeið og mun hælið taka til starfa innan fárra daga.“ Þar er síðan rekið fávitahæli til sumarsins 1958, en þá flutt á Kópavogshæli.

Kvenfélagið Hringurinn stofnsetti fyrir löngu, — það mun hafa verið fyrir 1930, — í landi jarðarinnar Kópavogs hressingarhæli fyrir berklasjúklinga og rak það fyrir eigin reikning. Með bréfi, dags. 14, marz 1939, færir landlæknir heilbrmrh. þau skilaboð eigenda Kópavogshælis, að þeir bjóðist til þess að afhenda ríkinu að gjöf hælið, þ, e. húseignina með öllu innanstokks. Og gjöfin var þegin og tekið við henni um áramótin 1939–1940. Kópavogshælið var fljótlega tekið undir holdsveikisjúklinga, en í bréfi, dags. 24. maí 1945, setur landlæknir fram þá hugmynd, að Kópavogshælið verði framtíðarstaður fyrir fávitahæli ríkisins og Kleppjárnsreykjahælið smám saman lagt niður og vistmenn fluttir í Kópavogshæli og þar reistar sérstakar byggingar fyrir fávitahæli. Þá voru á holdsveikraspítalanum 40 sjúklingar, og því taldi landlæknir æskilegt, að önnur stofnun risi upp á staðnum samfara því, að holdsveikraspítalinn drægist saman. Í bréfi til landlæknis, dags. 16. júlí 1945, samþykkir rn. till. hans um fávitahælið í Kópavogi og heimilar honum í samráði við húsameistara ríkisins að undirbúa, að reistur verði þegar 1945 skáli fyrir allt að 20 fullorðna fávita, karlmenn, og verði hann settur niður með hliðsjón af því, að hælinu í Kópavogi verði smátt og smátt breytt í fullkomið fávitahæli.

Það mun samt lítið hafa gerzt í þessu máli eftir þetta, því að 6. jan. 1949 skrifar rn. landlækni og leggur fyrir hann að hlutast þá þegar til um, að húsameistari ljúki þegar teikningu af einni deild fávitahælis, og í bréfi rn., dags. 20. júní 1949, er húsameistara falið að hefja hið fyrsta byggingu skála fyrir fávitahæli í Kópavogi. Byggingarframkvæmdir eru síðan hafnar það sumar og standa yfir við þann skála þangað til 1953. Með bréfi, dags. 18. febr. 1952, er síðan lagt fyrir húsameistara að hefja undirbúning að öðrum skála sams konar og þeim fyrrí. Rekstur fávitahælis hefst síðan í Kópavogi 13. des. 1952 með því, að önnur deildin í fyrsta skálanum tekur til starfa, en síðari deildin tekur síðan til starfa nokkrum mánuðum síðar, og þá er hvor deild ætluð 15 vistmönnum. Síðari skálanum var ekki lokið fyrr en á árinu 1958 og tekur til starfa að hluta 17. júlí það ár, og um það leyti er Kleppjárnsreykjahælið lagt niður og vistmenn fluttir þaðan í Kópavogshælið. Síðan hefur ekki verið fyrr en nú aukið við vistmannarými í Kópavogshæli, en hælið er talið rúma, — og það mun hafa verið áður en síðasta stækkun kom til greina, sem ég skal gera grein fyrir, eða haustið 1965, — er það talið rúma 81 vistmann, en oftast höfðu þá verið 100–115 vistmenn, og í árslok 1964 voru rúm í notkun í hælinu 113. Byggingarkostnaður framangreindra tveggja skála var greiddur af fjárveitingum úr ríkissjóði, gjafafé að upphæð 825 þús. kr. frá Stórstúku Íslands, það var af eignum Stórstúkunnar vegna Laugarnesspítala, og frá 1958 af Styrktarsjóði vangefinna. Næstu framkvæmdir við hælið voru svo bygging starfsmannahúss, sem ákveðin er með bréfi rn., dags. 20. apríl 1960. Var sú bygging að mestu leyti kostuð af styrktarsjóðnum, en byggingarkostnaður er þá ca. 7.5 millj. kr. Með bréfi, dags. 26. júli 1963, heimilaði rn., að reistar verði 3 hælisdeildir, sem hver rúmi 15 vistmenn, og tveim af þessum deildum var lokið á s.l. hausti, og er gert ráð fyrir, að sú þriðja ætti að geta tekið til starfa von bráðar. Kostnaður við þessar deildir verður sennilega ekki undir 20 millj. kr. og greiðist svo til alveg af styrktarsjóðnum, verður sennilega röskar 20 millj. kr., 21 millj. kr. gætu þær orðið. Með bréfi, dags. 20. apríl 1965, samþykkir rn. till. byggingarnefndar hælisins um næstu áfanga við hælisbyggingarnar. Það eru vinnustofur, verkstæði, kennslustofur og leikstofur fyrir sjúklinga, vinnustofur lækna, rannsóknarstofur, skrifstofur og almenn afgreiðsla, eldhús fyrir stofnunina, borðstofa fyrir starfsfólk og tvær sjúkradeildir fyrir börn. Í hvaða röð þessar byggingar verða byggðar eða hvenær fé verður fyrir hendi til þeirra, liggur ekki að öllu leyti fyrir enn, en það mun vera um þær mundir að mótast, a.m.k. áætlanir um það núna, röð bygginganna á næstunni, frá þeim, sem þarna eiga hlut að máli, byggingarnefndinni.

Land það, sem hælið stendur á, er tilheyrandi þjóðjörðinni Kópavogi og með bréfi, dags. 27. júli 1939, afhenti atvmrh. heilbrn. óráðstafað land jarðarinnar til afnota fyrir fávitahæli. Land þetta takmarkast af Hafnarfjarðarvegi, Kópavogsbraut, Urðarbraut og sjó, auk þess sem hælið hefur yfirráð yfir Kópavogslandi austan Hafnarfjarðarvegar. Kvenfélagið Hringurinn hafði búrekstur í Kópavogi með hælisrekstrinum. 1948 keypti ríkið þann rekstur, og hefur búið síðan verið rekið á vegum ríkisspítalanna.

Rekstri hælisins er hagað á sama hátt og annarra ríkisspítala. Stjórnarnefnd ríkisspítalanna og skrifstofur þeirra sjá um reksturinn. Daggjöld vistmanna hafa verið þar hin sömu og á Vífilsstaðahæli og Kleppsspítala, og s.l. ár — eða árið 1964 er átt við þarna — var útkoman á rekstri hælisins þannig, að segja má, að það hafi staðið undir sér fjárhagslega, en annars er rekstrarhalli greiddur af ríkissjóði. Samkv. lögum um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla greiðir ríkið 80% af daggjaldi vistmanna, en sveitarfélag þeirra 20%.

Þessu hæli stjórnar forstöðumaður, nú Björn Gestsson, og jafnframt er þar yfirlæknir. Það er nú kona Björns, Ragnheiður Ingibergsdóttir, og hafa þau hjón sérstaklega lært til slíkra starfa. Starfslið hælisins er sennilega nálægt 70 manns nú og gæzla og umönnun vistmanna að mestu leyti í höndum svonefndra gæzlusystra, en það eru stúlkur, sem til þessa starfs eru þjálfaðar í hælinu sjálfu.

Þegar teknar voru til starfa hinar tvær nýju deildir á s.l. hausti, hafði ég aðstöðu til að skoða þetta hæli, og verður að segja, að það er allt með hinum mesta myndarbrag og þar hefur verið unnið af mikilli framsýni, enda eftir fyrirframgerðum áætlunum og búið þannig að þessu sjúka fólki, sem þarna á hlut að máli, eins og verður bezt á kosið, að því er ég hygg. Og ég tel, að þeir eigi miklar þakkir skildar, sem hafa veitt forstöðu rekstri hælisins, og einnig byggingarnefndin, sem hefur séð um og hefur með höndum byggingarnar.

Hjá okkur hafa áður verið í lögum frá 1936 ákvæði um fávitahæli, og í stórum dráttum eru það eftirtalin atriði, sem í þessum lögum felast: 1) Að ríkisstj. lætur reisa fávitahæli, þegar fé hefur verið veitt til þess í fjárl. 2) Fávitahæli skuli vera þrenns konar: skólaheimili, eitt eða fleiri, fyrir vanvita eða fávita, sem eitthvað geta lært, hjúkrunarhæli fyrir örvita og aðra, sem ekkert geta lært eða unnið, vinnuhæli, eitt eða fleiri, fyrir fullorðna, sem teljast ófærir til að vinna alveg fyrir sér. 3) Heimild til að semja við bæjar- eða einkafélög um námsvist, hjúkrunar- og vinnuvist fávita í stofnunum þessara aðila. 4) Greint er nánar frá hlutverki hinna þriggja tegunda hæla. 5) Þriggja manna n. skal hafa eftirlit með heimilum eða hælum fávita. Þessi nefnd hefur aldrei verið skipuð. 6) Í reglugerð skal ákveða um skýrslusöfnun um tölu fávita, hvernig aðgreina skal börn og skólaheimili og hjúkrunarhæli og hvernig haga skal aðstoð við fávita, sem dveljast ekki á stofnunum samkv. lögum. Um þetta ákvæði þessara laga, sem var reyndar gert ráð fyrir, mun aldrei hafa verið sett nein reglugerð. Þetta hefur þess vegna verið nokkuð laust í reipunum hjá okkur, bæði að því er snertir löggjöf og framkvæmd.

Nú var það, eins og fram kemur í grg. þessa frv., í nóvembermánuði 1965, að ég skipaði þriggja manna n. til þess að endurskoða lög um fávitahæli. Benedikt Tómasson skólayfirlæknir var formaður n., Björn Gestsson forstöðumaður fávitahælisins í Kópavogi annar nm. og Hrafn Bragason lögfræðingur, sem var skipaður af menntmrn.

Það má segja, að aðalatriði þessarar nýju löggjafar felist í þeim 8 liðum, sem gerð er grein fyrir í grg. frv., I. kaflanum, og er kannske skjótlegast að átta sig á því með því að telja þá upp, en frv. fjallar í fyrsta lagi um fávitastofnanir eða vistmenn þeirra, um skiptingu fræðsluskyldu milli heilbrigðisyfirvalda og fræðsluyfirvalda, þegar í hlut á andlega vanþroskað fólk, og heimild til að veita því félagslega aðstoð. í öðru lagi er gert ráð fyrir einu ríkisreknu hæli, aðalfávitahæli ríkisins, sem skal vera deildaskipt og í senn hjúkrunarhæli, uppeldis- og kennsluhæli og vinnuhæli, og heimilað er að koma upp útibúum frá aðalhælinu, er hvert um sig ræki tiltekið hlutverk. Í þriðja lagi: Veita má bæjar- og sveitarfélögum og einkaaðilum leyfi til að reka fávitahæli og dagvistarheimili fyrir fávita. Í fjórða lagi: Allar fávitastofnanir skulu háðar eftirliti frá aðalhælinu, og allar umsóknir um vist á fávitastofnunum skulu berast þangað. Í fimmta lagi: Ákvæði ríkisframfærslunnar um fávita eru tekin upp í frv., og fávitar .á dagvistarheimilum geta einnig notið hennar að hluta að undangengnum sams konar úrskurði og þarf til greiðslu dvalar á fávitahæli. Sjötta: Sérstakt ákvæði er um greiðslu ríkisins á kennslukostnaði á fávitastofnunum, sem ríkið rekur ekki. Og sjöunda: Ákvæði er um rekstur skóla við aðalhælið til þess að sérmennta fólk til fávitagæzlu. Og í áttunda lagi: Frv. í heild er miðað við þá þróun, sem gerzt hefur í fávitamálum undanfarið í grannlöndunum, en tillit er tekið til sérstöðu vegna fámennis íslenzku þjóðarinnar.

Með þessu má segja, að sé gerð grein fyrir aðalefni frv., en ég skal nú víkja nokkru nánar að einstökum atriðum þess og einstökum atriðum, sem fram koma í grg. n., sem mér þykir ástæða til þess öðrum fremur að vekja athygli á.

Það kemur fram í grg., hvernig ástandið er í þessum málum nú hjá okkur. Það er að vísu sagt svo, að þar sem skýringin á fávitahætti er á reiki og allmargir lenda á mörkunum, er örðugt að meta tíðni hans og þá einkum að bera saman tíðnina í löndum, en eftir því sem næst verður komizt, mun hún svipuð hér á landi og í grannlöndunum, segir nefndin, sem undirbjó frv. Og eftir að hafa nánar gert grein fyrir henni er það skoðunin, að samkv. því, sem bezt verður vitað, þyrftu að vera til fávitahæli hér fyrir allt að 400 manns. Og til þess að halda í við fólksfjölgun þyrfti að auka við 7–8 rúmum á ári eða sem svarar einni hælisdeild annað hvert ár. Og eins og sakirnar standa núna, eru talin upp þarna hælin: Kópavogshæli, sem eru með 111 rúmum og 15 í smíðum, sem bráðlega verða tekin til afnota, Skálatún með 15 rúm og 30 í smíðum, þegar þetta er samið, Sólheimar með 40 rúm og Tjaldanes með 10 rúm. Fyrir utan þetta ríkisrekna hæli og ríkishæli í Kópavogi er þarna um að ræða annan hælisrekstur áhugamanna í landinu, bæði einstaklinga og félagasamtaka, sem ber vissulega að meta að verðleikum, og hafa þar margir ágætis menn lagt margt gott af mörkum, þó að þeir hafi að sjálfsögðu átt við ákaflega erfið vandamál að glíma, eins og ég þykist vita, að hv. þm. geri sér fulla grein fyrir. En samkv. þessum niðurstöðum er mikil vöntun á rými fyrir fávita hér, og þess vegna er nú lögð áherzla á að halda áfram af miklum krafti þeim áætlunum, sem liggja fyrir um áframhaldandi stækkun og byggingu fávitahælisins í Kópavogi.

Það var mikils virði, að hingað kom ágætur maður, sérfræðingur, 1962 á vegum heilbrigðismálastjórnarinnar og að frumkvæði landlæknis, forsorgschef Bang-Mikkelsen, sem er yfirmaður málefna vangefinna í Danmörku, og þessi maður kynnti sér ástand þessara mála hér á landi og skilaði rækilegri grg., þar sem hann lýsti skipan fávitamála í Danmörku og gerði till. um skipan þeirra hér á landi, og hefur það verið mikill stuðningur við þær áætlanir og byggingarframkvæmdir, sem unnið hefur verið að, og einnig ýmis grundvallaratriði í samningu þessa frv.

Það eru ekki tekin í ákvæði þessa frv. nein ákvæði um sérstaka eftirlitsnefnd fávitahæla né heldur fitjað upp á neins konar ráðgefandi nefnd um fávitamál, en í stað þess er gert ráð fyrir því, að fávitahæli ríkisins, aðalstofnun um þessi efni, verði um leið, eða þeir sem stjórna henni, stjórnendur þessara mála í heild. Ríkishælið er undir umsjón stjórnarnefndar ríkisspítalanna á sama hátt og aðrar heilbrigðisstofnanir ríkisins. Þá er ekki heldur að finna í ákvæðum þessa frv. fyrirmæli um þátttöku ríkissjóðs í kostnaði vegna nýbygginga eða viðhalds fávitastofnana sveitarfélaga eða einkaaðila, og eins og gerð er grein fyrir, er það einkum tvennt, sem ber til þess: Í fyrsta lagi væri ekki aðeins óþarft, heldur beinlínis til óþurftar að fjölga sjálfstæðum fávitastofnunum, er álit n., sem undirbjó frv., frá því, sem nú er. Þegar þetta var samið, er heimíld til þess að reisa fávitastofnun á Akureyri, og það er nú unnið að því máli. Það eru svo í öðru lagi í gildi fyrir forgöngu Styrktarfélags vangefinna sérstök, en að vísu tímabundin lög, sem Alþ. hefur samþ. og gert breytingu á á s.l. þingi, um aðstoð við vangefið fólk og þá um leið samtök hjarta- og æðaverndarfélaga, sem bætt var inn í á s.l. þingi eins og kunnugt er, og um þetta er reglugerð, en samkv. þessari löggjöf er lagt sérstakt gjald á gosdrykki og öl til að reisa fyrir það stofnanir handa vangefnu fólki. Af þessu fé er myndaður sjóður, Styrktarsjóður vangefinna. Hann er í vörzlum félmrn., en rn. ráðstafar fénu sem lánum eða styrkjum að fengnum till. Styrktarfélags vangefinna og í samráði við önnur rn., sem hlut kunna að eiga að máli hverju sinni.

Stofnun þessa styrktarsjóðs hefur orðið til mikillar blessunar, og það hafa á undanförnum árum úr þessum sjóði runnið verulegar fjárhirðir til þess að byggja fávitastofnanir, bæði ríkisins og til styrktar fávitastofnunum, sem einstaklingar hafa beitt sér fyrir að reisa. Ég vil til upplýsingar í þessu sambandi geta þess, að samkv. ársreikningum sjóðsins 1958–1965 hefur honum verið ráðstafað sem hér segir: Í Kópavogshæli 26 millj. 100 þús. kr., í Lyngás, þ.e. dagvistarheimili, 800 þús., í Skálatún 11 millj. 700 þús. kr., í Sólheima 5 millj. 178 þús. kr. og í Tjaldanes 1 millj. 500 þús. kr., eða samtals 45 millj. 278 þús. kr.

Til fróðleiks vil ég gefa hér stutt yfirlit um þennan Styrktarsjóð vangefinna til þess að átta sig á því, hvers af honum má vænta. Frá því 1958 er eftirfarandi yfirlit um tekjurnar, þ.e. flösku- eða tappagjaldið, sem kallað hefur verið: Á árinu 1958 974 992 kr., 1959 1993 421 kr., 1960 2 044 953 kr., 1961 2190 749 kr., 1962 6 396 799 kr., 1963 9174 023 kr., 1964 10 891766 kr. og 1965 11788 892 kr. Svo hafa komið framlög frá sveitarfélögum: á árinu 1961 99 765 kr., 1962 121810 kr. og 1963 91030 kr., og vextir á þessum árum 1208 716 kr., þannig að samtals hefur sjóðnum þannig áskotnazt á þessu árabili 46 976 920 kr.

Tekjustofnarnir eru, eins og ég hef vikið að, aðallega flöskugjaldið. Það er fyrst með l. nr. 43 frá 1958 10 aurar, með l. nr. 16 1962 er það hækkað upp í 30 aura og svo með breytingunni, þeirri síðustu, sem gerð var á síðasta Alþ., þegar gjaldið var hækkað úr 30 aurum upp í 60 aura, var hækkun inni skipt til helminga milli hjartaverndarfélagsins og Styrktarsjóðs vangefinna, þannig að hann fær nú 45 aura af hverri flösku, þ.e.a.s. 50% hækkun frá því, sem verið hefur. Þar kemur veruleg hækkun á þessu ári, en á árinu 1965, meðan gjaldið var 30 aurar, hafa tekjurnar, eins og ég gerði grein fyrir áðan, numið tæpum 12 millj. kr.

Ég vil aðeins víkja að 6. gr. sérstaklega, sem er nýmæli, að dagvistarheimilið Lyngás, sem er rekið af Styrktarfélagi vangefinna, það er eina dagheimili sinnar tegundar í landinu, og það má segja, að þarna muni af ákvæðum 6. gr. leiða kannske nokkurn kostnaðarauka fyrir ríkið. En á það er að líta, sem kemur fram í aths. n., sem samdi frv., við 6. gr., að þó að hækki að sjálfsögðu greiðslur úr ríkissjóði frá því, sem nú er, samkv. þessari gr., verða þær engu að síður miklu lægri en þær mundu verða, ef börnin í Lyngási væru á fávitahæli. Daggjald á árinu 1965 var 230 kr. á fávitahælum og hefði þá numið alls 3 609 850 kr. fyrir 43 börn fyrir árið, ef þau hefðu verið vistuð á fávitahæli, eða um það bil tvöföldum rekstrarkostnaði Lyngáss. Að öðru leyti er gerð grein fyrir í aths. um þessa grein, hvernig skipzt hefur kostnaður milli ríkis og sveitarfélagsins Reykjavíkurborgar, sem hefur borið þyngstan kostnað af rekstri þessa hælis.

Ég vil leyfa mér að mega vænta þess, að með þessu frv. sé fenginn viðunandi rammi löggjafarinnar til þess að starfa eftir á sviði þessara mála, og þegar einnig er höfð í huga sú tekjuöflun, sem tryggð er með öðrum lögum. Að sjálfsögðu yrði vel tekið öllum ábendingum hér í þessari hv. d. og frá þeirri n., sem fær málið til meðferðar, sem gætu orðið til bóta á þessu frv., en ég vil leyfa mér að mega vænta þess, að um það geti engu að síður orðið gott samkomulag og því verði tryggður framgangur á þessu þingi. Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.