31.10.1966
Efri deild: 9. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

6. mál, almannavarnir

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Eins og fram kemur í aths. við lagafrv. þetta, fluttu nokkrir þm. þáltill. á síðasta þingi, 1. flm. er hv. 3. þm. Austf., um endurskoðun laga um almannavarnir vegna hafíshættu o.fl. Þessi þáltill. kom fram svo að segja í þinglokin og hlaut þess vegna ekki venjulega afgreiðslu, en efni hennar var þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta endurskoða lög um almannavarnir í því skyni að fella inn í þá löggjöf fyllri ákvæði, að því er varðar hættu af völdum náttúruafla, svo sem jarðskjálfta, eldgosa og hafíss, sem kynni að loka siglingaleiðum umhverfis land, einstökum höfnum eða svæðum. Enn fremur verði athugað að fella inn í lögin ákvæði um aðstoð til hjálparsveita, sem stofnaðar hafa verið eða kunna að verða stofnaðar, um þjálfun hjálparsveitanna og kaup á tækjum til þeirra. Áherzla sé lögð á, að endurskoðun þessari verði lokið fyrir næsta reglulegt Alþingi“.

Þannig hljóðaði þessi ályktun, og í umr. um málið hét ég þess getið, að mér fyndist eðlilegt, að þessi endurskoðun færi fram. Hefur svo verið unnið að því í dómsmrn. og þetta frv. flutt í framhaldi af því.

Breytingin, sem felst í þessu, er aðallega sú, að leggja meiri áherzlu á, að almannavarnir taki til ráðstafana og varna vegna náttúruhamfara, og kemur það strax fram í 1. gr. frv. Sem aths. með frv. fylgir álitsgerð skrifstofu almannavarna um þessa þáltill., sem ég gat um áðan, og þar er nánar gerð grein fyrir ástæðunum fyrir þeirri endurskoðun, sem felst í þessu frv.

Í 2. gr. eru ákvæði skýrari um þetta atriði, m.a. það, að forstöðumaður almannavarna hverju sinni skuli fylgjast með og stuðla að athugunum vegna hættu af ísalögum, eldgosum eða annarri vá, en skv. eldri lögunum var ekki gert ráð fyrir, að slík athugun eða íhlutun ætti sér stað, nema því aðeins að ráðh. gerði sérstakar ráðstafanir til þess.

Í niðurstöðum álitsgerðar almannavarna kemur fram í fjórum liðum viðhorf þeirra til málsins, þegar þeir voru beðnir um að framkvæma þessa athugun og endurskoðun, og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

1) Framkvæmd laga um almannavarnir hefur gengið mjög hægt, þannig að telja verður óeðlilegt og óæskilegt. Þetta stafar sennilega af því, að lögin taka til hernaðaráhrifa fyrst og fremst.

2) Viðbúnaður gegn hættum af völdum náttúruhamfara og hernaðar er í flestum tilfellum sama eðlis og krefst hliðstæðs undirbúnings. Þetta á við um margháttaðan undirbúning, búnað til björgunarstarfa, þjálfun, skipulagningu, fjarskipti og birgðasöfnun, svo að nokkuð sé nefnt.

3) Hætta af völdum eldgosa, jarðskjálfta og hafísa er mikil hér á landi. Viðbúnaður gegn meiri háttar áhrifum þessara afla er ekki fyrir hendi. Almennt mun hætta af þessum orsökum talin nálægari en þær hættur, sem af hernaðarátökum kunna að stafa.

Fyrir þessu er gerð nánari grein í álitsgerðinni, sem ég sé ekki ástæðu til að taka upp og þm. hafa haft aðstöðu til að kynna sér.

4) Slysa-, hjálpar- og björgunarsveitir, sem starfandi eru innan félagssamtaka áhugamanna, geta skapað kjarna almannavarnasveita og starfsemi þeirra mundi styrkjast almennt við aðstoð, sem almannavarnir geta látið í té, að því er varðar búnað og þjálfun.

Um þetta atriði snýst m.a. ein breyt., sem felst í þessu frv. En áður höfðu ýmsar hjálparsveitir, bæði skáta o.fl., snúið sér bæði til mín sem ráðh. þessara mála og forstöðumanns almannavarna um aðstoð, sem hins vegar var mjög erfitt að láta í té, miðað við lögin eins og þau voru. Ég hafði einnig á sínum tíma, eftir að hafís lagðist hér að í fyrra, beðið forstöðumann almannavarna að gera sérstaka könnun á möguleikum til birgðasöfnunar á þýðingarmiklum vörum, og þá fyrst og fremst eldsneyti og olíu, með hliðsjón af því, að slíkt kynni að endurtaka sig, að ís legðist eins og þá að landinu, og höfð yrði um það samvinna við olíufélögin, svo að nokkuð var þegar á þessum málum byrjað.

Þetta er aðalefni og ástæðan fyrir flutningi þessa frv., sem hér liggur fyrir, en eins og forstöðumaðurinn gerir grein fyrir í álitsgerð sinni, má segja, að eftir l. sé stofnun almannavarnanefnda forsenda þess, að ráðstafanir til almannavarna geti hafizt. Og það er í raun og veru það, sem á vantar enn, nema hér í Reykjavík. Ráðstafanir til almannavarna hafa, enn sem komið er, aðeins hafizt í Reykjavík, en almannavarnanefnd Reykjavíkur hóf störf í ársbyrjun 1964. Að þessu hefur verið vikið og nokkur gangskör að því gerð, en það þarf að vinna betur að því, að koma á fót almannavarnanefndum víðar en í Reykjavík, og er mér þá að sjálfsögðu efst í huga nágrenni Reykjavíkur, þar sem nú er orðin samfelld byggð svo að segja, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðahreppur og svo Keflavík.

Þó að hægt hafi gengið, eins og ég hef vikið að, framkvæmd almannavarnalöggjafarinnar, hefur verið varið til hennar nokkru fé á fjárl. á undanförnum árum, eins og hv. þm. er kunnugt um. Fyrst í stað var dr. Ágúst Valfells forstöðumaður almannavarna, en Jóhann Jakobsson verkfræðingur tók við starfi hans 1964, ef ég man rétt.

Í stórum dráttum má segja, að það, sem helzt hefur verið unnið að á undanförnum árum, er margs konar skýrslugerð, og nú á þessu ári hefur verið unnið að því að koma upp birgðastöð uppi í Mosfellssveit, sem kostar töluvert fé, en því miður hafa birgðir af hjúkrunargögnum og öðrum nauðsynjum, sem almannavarnanefnd Reykjavíkur á og ríkið hefur lagt fé til, verið nokkuð á við og dreif fram til þessa og erfiður aðgangur að því. Það hafa verið samdar reglur um skipulag almannavarna, um staðsetningu hernaðarmannvirkja, um frumáætlun um skýlakönnun á Íslandi, um vandamál Keflavíkur og nágrennis og einnig unnið að frumáætlun um aðvörunar- og fjarskiptakerfi og hegðun eftir árás. Einnig hefur verið unnið að því að útbúa leiðbeiningar til almennings, sem hægt væri að dreifa út með skjótum fyrirvara, ef hættu eða alvarlega hluti bæri að höndum.

Nokkrum sinnum hafa verið sendir menn á Almannavarnakennaraskólann í Danmörku, og reyndar annars staðar á Norðurlöndum, þar sem þessir aðilar hafa haft aðstöðu til að kynna sér almannavarnir og starfsemi þeirra hjá þessum nágrannaþjóðum okkar, og einnig hefur verið efnt til námskeiða hér á landi, síðast á Akureyri, til þess að veita nokkrar upplýsingar og þjálfun mönnum, sem hægt yrði að grípa til, þegar á þyrfti að halda.

Skv. því yfirliti, sem ég hef hér, er mismunurinn á fjárveitingum á árunum 1962–66 og kostnaði 4.5 millj. kr. Það er þá það fé, sem ekki hefur verið notað af því, sem veitt hefur verið til almannavarna fram til þessa. En nokkrum hluta þessa fjár er þegar ráðstafað til ýmissa þátta, sem nú eru í gangi, þ. á m. er þetta, sem ég vil gera grein fyrir. Það er kostnaður á skrifstofunni, sem er áætlaður 500 þús. kr. Það er birgðastöðin, eftirstöðvar á framlagi til birgðastöðvarinnar í Mosfellssveit 750 þús., búnaður, tjöld o.fl. 250 þús., fræðslubæklingur 100 þús. og námskeið á Ísafirði, sem er nýlokið, 100 þús. kr. Í athugun eru nú þessar framkvæmdir: Fjarskipta- og aðvörunarkerfið, stjórnstöð og búnaður hennar, öflun sjúkragagna, ca. 200 rúm, fullkominn búnaður, annaðhvort samstæður eða í minni einingum.

Ég vildi gera þessa smávægilegu grein fyrir því, sem unnið hefur verið að, jafnframt því sem ég hef áður gert grein fyrir aðalefni þessa frv. og ástæðunum fyrir því, að það er flutt.

Ég vildi svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.