14.04.1967
Neðri deild: 66. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

6. mál, almannavarnir

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. n. skýrði frá, varð n. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls, og leggur meiri h1. til, að frv. verði samþ. óbreytt, en ég kaus að skila séráliti og sértill. Því miður hefur mér ekki unnizt tími til þess að gefa út sérstakt nál. eða að láta útbýta till., en ég vil leyfa mér að gera það hér úr ræðustól og flytja hér á eftir skriflega till.

Ástæðan til þess, að ég er ekki reiðubúinn að mæla með samþykkt þessa frv., er ekki sú, að ég sé efnislega andvígur því, sem í frv. felst, heldur hitt, að ég tel, að málið þurfi frekari athugunar við og að lögin séu ekki nægilega vel grunduð og það skipulag, sem í þeim felst. Í l. um almannavarnir er núna gert ráð fyrir, að almannavarnakerfið gripi inn í, þegar um er að ræða náttúruhamfarir eða annað stórtjón á sér stað, og það helzta, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er einmitt að ítreka og leggja áherzlu á þessi atriði. Það er í raun og veru verið að leggja jafnþunga áherzlu á að bæta tjón af völdum náttúruhamfara eins og ef um hernaðaraðgerðir er að ræða. Ég tel, að skipulag þessara mála hafi verið heldur klaufalegt frá byrjun og að þessi mál þurfi frekari athugunar við. Eins og kunnugt er, var almannavörnum upphaflega ætlað það hlutverk að hafa með höndum björgunarstarf, þegar um væri að ræða hernaðarárásir, sem að sjálfsögðu leiða af því, að í landinu er erlendur her og erlendar herstöðvar. Frá upphafi var ljóst, að raunhæfasta ráðstöfunin í almannavörnum væri sú að afnema herstöðvar á Íslandi og afstýra þannig þeirri hættu, sem herstöðvarnar kalla yfir þjóðina. Síðan þetta skipulag var fyrst upp tekið, hafa verið gerðar breyt. á lögunum, sem hafa stefnt í þá átt að víkka verksvið almannavarna, og nú síðast liggur fyrir sú breyt., sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Í sambandi við afgreiðslu þessa máls tel ég rétt að varpa fram hér einni spurningu.

Fyrir rúmum fjórum árum fól þáv. dómsmrh. forstöðumanni afmannavarna að gera skýrslu um áhrif hernaðarárásar á Íslandi og líkur fyrir því, að slík árás ætti sér stað. Þáv. forstöðumaður almannavarna, dr. Ágúst Valfells, gerði þessa skýrslu, sem var mjög ýtarleg og greinargóð, og þá ekki síður mjög athyglisverð og fróðleg. Í þessari skýrslu kemur það fram; að þessi sérfræðingur telur rétt að álykta, að líkur fyrir árás á Ísland séu 75%. Hann telur 75% líkur til þess, að landið verði fyrir árás, og þessi sérfræðingur ríkisstj. telur einnig, að ástæða sé til að ætla, að 2/3 hlutar þjóðarinnar muni farast, ef slík árás á sér stað. Einnig kemur það glöggt fram í þessari skýrslu, að það eru fyrst og fremst herstöðvarnar, hinar erlendu herstöðvar í landinu, sem kalla háskann yfir þjóðina. Þessi skýrsla var því miður aldrei birt, en nokkur blöð hér í Reykjavík komust yfir eintali af henni og birtu kafla úr henni, sem vöktu mjög mikla athygli. Hins vegar voru það aldrei nema stuttir kaflar, sem birtust þarna, og sjálf skýrslan, sem er mjög ýtarleg og mun hafa verið um 150 blaðsíður að stærð, í nokkuð stóru broti, hefur aldrei verið birt. Hún mun hafa verið send þáv. hæstv. dómsmrh., Bjarna Benediktssyni, og ég held, að ég geti leyft mér að fullyrða, að hann hafi stungið þessari skýrslu undir stól og hún muni vera til í allstóru upplagi einhvers staðar í afkimum dómsmrn., a.m.k. hefur ekkert frétzt af örlögum hennar í seinni tíð. Ég held, að hv. þm. hljóti að vera það ljóst, að þessi skýrsla er langsamlega mikilsverðasta framtak, sem almannavarnakerfið á Íslandi hefur lagt fram, og einmitt nú, þegar umræður um íslenzk varnarmál eru að losna úr hinni þröngu spennitreyju kalda stríðsins og menn eru farnir að reyna að átta sig á því, hvort hyggilegt er að hafa hér herstöðvar til frambúðar, og menn neyðast einnig til þess að átta sig á því, hvort rétt sé, að Ísland verði áfram í hernaðarbandalagi, nú, þegar þessi mál eru tekin til endurskoðunar og nýrrar athugunar, er óhjákvæmilegt og bráðnauðsynlegt, að eina skýrslan, sem gerð hefur verið um varnarmál Íslendinga og áhrifin af herstöðvunum, sé lögð fram og alþm. gert kleift að kynna sér hana og þá ekki síður, að hv. utanrmn. fái að kynnast niðurstöðum þessarar skýrslu. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. dómsmrh., hvort hann telji ekki rétt, að alþm. eigi kost á að kynna sér þessa skýrslu, og hún verði lögð fram hér á Alþ. sem mikilsvert gagn í varnarmálum Íslendinga.

Um frv. það, sem hér liggur fyrir, hef ég ekki annað að segja en það, sem ég nefndi hér áðan. Ég tel, að það sé ekki nægilega vel grundað og legg til, að málið allt verði tekið til nýrrar endurskoðunar. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja svofellda rökstudda dagskrá, sem ég vil leyfa mér að lesa hér upp, með leyfi forseta:

„Með tilliti til þess, að l. nr. 94 29. des. 1962, um almannavarnir, hafa ekki komið til framkvæmda nema að óverulegu leyti, og með því að ástæðan til þess virðist sú, að lögin séu reist á veikum stoðum, er geri þau í senn óvinsæl og lítt framkvæmanleg, telur d. nauðsynlegt, að fram fari allsherjarendurskoðun laganna, og að sérstaklega verði athugað í því sambandi, hvort það sé ekki líklegt til góðs árangurs að fela Rauða krossi Íslands, Slysavarnafélagi Íslands og öðrum skyldum samtökum að undirbúa og annast þá hjálparstarfsemi, sem um ræðir í lögunum og því lagafrv., sem hér liggur fyrir. Í trausti þess, að ríkisstj. hlutist til um þessa endurskoðun, telur d. rétt að fresta afgreiðslu frv. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“