20.03.1967
Neðri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

166. mál, Iðnlánasjóður

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hæstv. iðnmrh. þurfti að skreppa frá og er þess vegna ekki við nú. Ég hafði ekki búið mig undir í forföllum hans að tala fyrir þessu frv. í einstökum atriðum, en vildi mælast til þess, að það yrði nú afgr. til n. og menn gætu þá tekið upp efnisumr. um það við 2. umr. og á síðari stigum málsins. En tilgangur þessa frv. er sá að bæta hag veiðarfæraiðnaðarins eftir öðrum leiðum en frv. lá fyrir um hér á haustþinginu, en um það mál varð mikill ágreiningur, eins og kunnugt er. Ætlunin nú er að stofna sérstakan sjóð eða sjóðsdeild, sem annist það verkefni, sem nánar er í frv. greint, og fé til hans á að veitast með þeim hætti, sem í frv. er gerð grein fyrir.

Ég játa, að þessi framsaga er ærið ófullnægjandi, en þar sem ég hafði ekki áttað mig á því, að ráðh. yrði ekki við, hafði ég ekki undirbúið mig um frekari grg.