11.04.1967
Neðri deild: 64. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

166. mál, Iðnlánasjóður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal nú ekki stofna til neinna meiri ýfinga um þetta mál en ástæða er til. Sannleikurinn er sá, að ég hef haft töluverðar áhyggjur af þessu veiðarfæramáli. Ég dreg enga dul á það, en það eru líka fleiri, sem hafa haft áhyggjur af veiðarfæraiðnaðinum í landinu en ég, sem hafa verið í ráðherrastóli, og sannast að segja er því miður þá sögu að segja, að hvert fyrirtækið á fætur öðru hefur gefizt upp, sem hefur stundað þennan veiðarfæraiðnað, eins og hv. þm. er kunnugt um. Nú er þetta mál í því formi, að ég hef ástæðu til þess að ætla, að því sé tryggður framgangur hér í þinginu, og mér þykir vænt um það, að hv. þm., sem áður lýstu áhyggjum sínum yfir álögum, sem hér var lagt til, að lagðar yrðu á útveginn, hafa fallizt á málið í því formi, sem það núna er. Það er mjög mikill misskilningur hjá hv. 5. þm. Reykv., að þetta mál sé borið fram aðeins til þess að styðja við bakið á einu fyrirtæki, Hampiðjunni, eins og hann komst að orði. Það vakir fyrir okkur í ríkisstj. að reyna að stuðla að því, að hér komist upp öflugur veiðarfæraiðnaður almennt í landinu. Það er hins vegar rétt, að það er núna aðeins eitt fyrirtæki, sem stundar þessa atvinnugrein, svo að nokkru nemi a.m.k., en til þess að undirstrika áform og vilja ríkisstj. í þessu efni, hef ég, í samráði við mína starfsbræður í stjórninni, skipað 4 manna n. til þess að halda áfram frekari könnun á veiðarfæraiðnaðinum hér á landi og annars staðar með það fyrir augum að komast að niðurstöðu um það, hvernig stendur á því, að aðrar þjóðir geta haldið uppi öflugum veiðarfæraiðnaði og keppt við okkur, og hvernig stendur á því, að okkur heppnast ekki að reka hér þann iðnað í landinu, sem þó í raun og veru virðist augljóst, að ætti að vera auðvelt að reka, vegna þess stóra markaðar, sem veiðarfæraiðnaðurinn hefur hér á landi. Í þessari 4 manna n. eiga sæti forstjóri Iðnaðarmálastofnunar Íslands, einn deildarstj. í iðnmrn., skrifstofustj. Fiskifélags Íslands og fulltrúi L.Í.Ú. Þessum 4 mönnum hef ég falið, fyrir hönd ríkisstj., að halda áfram að kanna þetta mál betur en gert hefur verið, og þó hefur þetta mál verið kannað töluvert miklu meir en oft áður hefur átt sér stað.

Eins og kunnugt er, var sérstakri n. falið að kanna ástand veiðarfæraiðnaðarins í landinu, og ég held, að þm. séu vel kunnar niðurstöður þeirrar n. Hér verður haldið áfram, og ég hef nýlega lagt fyrir þessa aðila að kynna sér til hlítar ástand þessarar atvinnugreinar hjá samkeppnisþjóðum okkar, eins og Portúgölum, Japönum, Norðmönnum og fleiri aðilum, þannig að við getum fengið, þm. og aðrir, viðhlítandi upplýsingar um það, í hverju þeir erfiðleikar, sem þessi atvinnugrein hefur átt við að búa hérlendis, eru fólgnir.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég veit það, og það kom í raun og veru fram við 1. umr. þessa máls, að allir hv. þm. hafa fullan áhuga fyrir því, að veiðarfæraiðnaður í landinu geti eflzt. En við höfum mismunandi skoðanir á því, hvernig það mætti verða. Ég vonast til, að þetta frv. verði a.m.k. til þess að viðhalda þessari einu veiðarfæragerð, sem hér er, en það er miklu víðtækara, eins og ég sagði áðan, því að efni málsins er það að styðja og örva til veiðarfæraiðnaðar í landinu, ekki aðeins þessa einu veiðarfæragerð, sem fyrir er, heldur skapa möguleika til þess, að aðrir geti fengið áhuga fyrir slíkum iðnrekstri, og sjálfur hef ég mikinn áhuga fyrir því, að það gætu komizt upp í landinu á ný fleiri veiðarfæragerðir. Það er að vísu rétt, að þarna er lagt dálítið gjald á útveginn. Það hefur þó verið dregið úr því til helminga, frá því sem upphaflega var ráðgert. Ég hef sjálfur þá skoðun, að það muni ekki hafa veruleg áhrif á verðlag veiðarfæra, vegna þeirrar miklu samkeppni, sem er í þessari atvinnugrein, frá þeim aðilum, sem selja okkur veiðarfærin, og það er líka komið til móts við þá menn, sem töldu rétt, að það kæmi einhvers staðar annars staðar frá eitthvert framlag. Ég hef fengið þarna 11,6 millj. kr. stofnframlag í þessa veiðarfæradeild í iðnlánasjóði, og það eru nokkrar tekjur, sem koma frá vöxtum og afborgunum af þessu. Jafnframt er gert ráð fyrir því, ef þurfa þykir, að heimilt sé að útvega lán til þess að hjálpa mönnum, sem vilja reyna að koma þessari iðngrein á meiri rekspöl en verið hefur fram til þessa. Ég veit, að ýmsir menn hafa lagt sig í líma við það að sætta mismunandi sjónarmið. Það hefur verið svolítill ágreiningur á milli ýmissa iðnrekenda, útvegsmanna og annarra í þessu. Það er mín ósk, að það sé hægt að koma á betra samkomulagi og meiri skilningi en verið hefur í þessu efni, og ég held, að þetta frv. geti skapað grundvöll til þess. Og ég vildi mega vona það, að við þyrftum ekki að efna til frekari ágreinings en orðinn er í þessu máli, því að í aðalatriðum held ég, að við hljótum að vera sammála um það, að það er auðvitað mjög mikils virði fyrir okkur Íslendinga að geta rekið okkar veiðarfæraiðnað þannig, að hvert fyrirtækið á fætur öðru þurfi ekki að gefast upp, og reyna að halda í horfinu við þá samkeppni, sem við þurfum að horfast í augu við frá öðrum þjóðum.