09.04.1968
Neðri deild: 95. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 2. minni hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. N. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa frv. Meiri hl. eða 5 hv. nm. leggja til, að frv. verði samþ. með tveimur brtt., sem ég mun koma að síðar. Hv. 4. þm. Vestf. leggur fram sérálit og leggur til, að 1. og 5. gr. falli niður. Hann var að ljúka hér máli sínu áðan og ég er nú alveg sammála honum með þessar till., en legg samt fram hér, eins og fram kemur, sérstakt nál., vegna þess að ég vil breyta fleiru í þessu frv.

Það er æðimargt, sem þyrfti að athuga í sambandi við tekjuöflun sveitarfélaga, mörg þeirra hafa átt í miklum erfiðleikum með að afla nægjanlegra tekna til að rísa undir lögboðnum gjöldum. Ekki er hægt að sjá annað en að þeir erfiðleikar fari hraðvaxandi, eins og nú horfir í atvinnumálum þjóðarinnar. Því ber að vinna að því að útvega sveitarfélögum nýja tekjustofna. Aðstöðugjaldið er þyrnir í augum margra, ekki sízt fyrir það, að þeim mun óhagstæðari sem atvinnureksturinn er og fleiri óhöpp henda, þeim mun hærra verður gjaldið frá hlutaðeigandi aðila, en gjaldþolið minnkar að sama skapi. Ýmis ófyrirsjáanleg óhöpp, sem fyrir koma í atvinnurekstrinum og skera úr um það, að hallarekstur verður á óhappaárinu, geta hækkað til mikilla muna gjöld fyrirtækisins til sveitarfélagsins. Á þennan hátt er hallareksturinn skattlagður, og íþyngir þetta oft erfiðum rekstri það mikið, að til stöðvunar getur leitt. Ekkert samræmi er í álagsþunga aðstöðugjaldsins og í mörgum tilfellum getur hann orðið allt að 4 sinnum meiri á einum stað en öðrum, miðað við sams konar rekstur. Ef ekki þykir fært að afnema aðstöðugjaldið með öllu, en að því ber að stefna, verður að samræma álagningarprósentuna þannig, að sama prósenta gildi á öllu landinu á sams konar rekstri og óhöpp séu undanskilin gjaldskyldu að öllu leyti.

Ég get ekki fallizt á 1. gr. frv. óbreytta, sé enga nauðsyn að gera breyt. á l., þó að hæstaréttardómur hafi fallið á þá leið að milda beri framkvæmd þessarar skattheimtu miðað við það, sem hún er hörðust. En framkvæmdin hefur verið mjög breytileg og sums staðar a.m.k. í samræmi við túlkun hæstaréttar á lögunum. Mér finnst óviðeigandi, að Alþ. hlaupi þannig til og breyti lagafyrirmælum í samræmi við mistúlkun ranglátrar skattheimtu, sem er í rauninni byggð á því, að ekki sé hægt að koma framtölum fyrirtækja í það horf, að þau gefi rétta mynd af rekstri og efnahag. Í þessu felst uppgjöf viðkomandi yfirvalda við það verkefni að leggja á eftir efnum og aðstæðum og að framtölunum sé komið í það horf, að sumum haldist það ekki uppi að telja aðeins hluta af tekjum sínum fram til skatts, eins og almennt er talið, að nú eigi sér stað og það í stórum stíl. Ég held, að það væri sæmra að fylgjast betur með framtölunum en nú er gert og hlaða minni gjöldum á rekstur, sem engan arð gefur og ekkert getur því borgað. Erfiðleikar slíkra fyrirtækja eru nægir fyrir því, þó að þeim sé ekki íþyngt á þann veg.

Í stað 1. gr., eins og hún er í frv., legg ég til, að 9. gr. orðist svo: Á eftir orðunum „sem nemi brúttótekjum“ komi: „Kostnaður vegna óhappa eða náttúruhamfara skal undanskilinn aðstöðugjaldi.“ Ég hef aldrei skilið þessa skattheimtu, að ef tjón verður, þá skuli tjónþoli verða að borga gjald til sveitarfélagsins af þeim kostnaði, sem leiðir af tjóninu. Slík skattheimta er vitanlega fyrir neðan allt velsæmi og því mál til komið, að hún sé afnumin, og því legg ég til, að 1. gr. frv. falli niður í núv. formi, en í staðinn komi þessi breyt. á 9. gr.

Á eftir 1. gr. legg ég til að komi ný gr. og aðrar gr. frv. breytist þá skv. því. Þessi nýja gr. gerir ráð fyrir ákveðinni prósentu á hverja starfsemi fyrir sig, og er talið upp, hvernig það skuli vera. Þessi flokkun er eins og aðstöðugjaldið var lagt á í Reykjavík og Kópavogi á s.l. ári. Hv. 1. þm. Norðurl. v., Skúli Guðmundsson, lagði þessa till. fram í frv.-formi á öndverðu þingi ásamt 5. þm. Norðurl. v., Guðmundi Jónassyni, og sofnaði málið í n., eins og flest það, sem stjórnarandstaðan flytur. Þykir mér rétt að taka málið upp, þar sem þar er um að ræða breytingu á sömu l. og þetta frv. fjallar um, svo að það fái þinglega meðferð, enda er það gert í fullu samráði við flm. þessa fyrra frv. og raunar eftir ósk hans. Með þessari breytingu er gerð tilraun til þess að samræma álagningarprósentuna þannig, að hún sé alls staðar sú sama á landinu á sams konar framleiðslu eða rekstri. Greinin byrjar þannig: „Aðstöðugjald má eigi hærra vera en hér greinir“ eða óbreytt frá því, sem hér er, og hefur það sýnt sig undanfarin ár, að álagningarprósentan hefur hvergi verið lægri heldur en í Reykjavík og Kópavogi á samskonar rekstur, en ósamræmið ótrúlega mikið á milli annarra staða, eins og ég kem að síðar. Þar sem álagningarprósentan, sem till. gerir ráð fyrir, er eins og álagningin hefur verið í Reykjavík og Kópavogi, verður að gera ráð fyrir, að þessum tilgangi yrði náð með samþykkt þessarar till., þó að ákvæðið sé ekki fast skorðað, þannig að t.d. er hugsanlegt að setja einhvern rekstur í lægri álagningarflokk en hann er ákveðinn í l. Fyrir mitt leyti er ég þess fullviss, að slík frávik mundu í reyndinni heyra til fárra undantekninga, sem litlu máli mundu skipta. Hins vegar vil ég ekki með öllu binda hendur sveitarstjórnar að þessu leyti. Ég veit, að sumar sveitarstjórnir hafa t.d. ekki lagt aðstöðugjald á tilbúinn áburð, en aðrar allt upp í 2%, á 50 þús. kr. kaup mundi þetta verða 1000 kr. Þetta misræmi er mjög óeðlilegt og ranglátt og er raunar hliðstætt því, að verzlunarstaðir væru látnir borga misháa tolla af sömu vörutegund. Mundi það verða vel séð? Á þessu sést, að þessi skattur er í sumum tilfellum þrisvar til fjórum sinnum hærri á einum stað en öðrum og er ekki við slíkt ósamræmi unandi. Til frekari skýringar á þessu máli vil ég lesa kafla úr grg., sem fylgdi frv. þeirra hv. alþm., Skúla Guðmundssonar og Guðmundar Jónassonar, með leyfi forseta:

„Í nokkur ár hefur verið heimild í l. um tekjustofna sveitarfélaga til að leggja á svonefnd aðstöðugjöld. Allir kaupstaðirnir, kauptúnahreppar og fleiri sveitarfélög hafa notað þessa heimild. En sá stóri galli fylgir l, eins og þau hafa verið framkvæmd, að aðstöðugjöldin koma mjög misjafnlega þungt á gjaldendur eftir því, hvar þeir eru búsettir á landinu. Veldur þetta óþolandi ranglæti.

Hér skulu nefnd fáein dæmi, sem sýna þetta.

Á árunum 1966 og 1967 voru aðstöðugjöld á matvöruverzlunum í Reykjavík og Kópavogi 0.5% af viðskiptaveltunni. Í 7 öðrum kaupstöðum og kauptúnahreppum voru gjöldin á slíkum verzlunum 1% eða 100% hærri. Í 16 kaupstöðum og kauptúnum nam álagningin á matvöruverzlanirnar frá 1.2 til 1.7% og var þannig 140–240% hærri en í Reykjavík og Kópavogi. Og dæmi má finna um það, að aðstöðugjöldin á matvöruverzlunum voru 2%, eða 300% hærri en í áðurnefndum kaupstöðum við Faxaflóa.

Aðstöðugjöldin hvíla einnig misjafnlega þungt á iðnaðarfyrirtækjum, þó að munurinn sé þar ekki eins stórkostlegur. Í Reykjavík og á 8 öðrum stöðum var álagningin á flest iðnaðarfyrirtæki að undanskildum þeim, sem reka kjöt- og fiskiðnað, 1% árin 1966 og 1967, en á 13 öðrum stöðum var álagning á slík fyrirtæki 1.5% eða 50% hærri.

Háu aðstöðugjöldin, sem lögð eru á nauðsynjavöruverzlanir víða um land, bitna vitanlega á því fólki, sem þar býr. Hvers á það fólk að gjalda, sem er látið borga allt upp í 300% hærri opinber gjöld en lögð eru á aðra? Á að halda áfram að refsa þeim, sem enn halda tryggð við hinar fámennari byggðir í stað þess að flytjast í fjölmennið á suðvesturhorni landsins? Hvað mundu menn segja um misháa tolla? Hvernig yrði því tekið, ef ákveðið væri að innheimta mismunandi há aðflutningsgjöld af innfluttum vörum eftir því, til hvaða verzlunarstaðar þær væru fluttar frá útlöndum? En segja má að það væri sama aðferðin og nú er beitt við álagningu aðstöðugjaldanna. Aðstöðugjöldin leggjast á vörurnar með sama hætti og tollarnir til ríkisins.

Starfsemi atvinnujöfnunarsjóðs og áætlanir um byggingu og eflingu atvinnulífs á vissum landssvæðum koma að takmörkuðum notum, ef haldið verður áfram að leggja margfalt hærri opinber gjöld á fólkið á þessum svæðum heldur en á þá, sem í þéttbýlinu búa. Ranglætið, sem framkvæmd l. um aðstöðugjald veldur nú, þarf að afnema. Hér er því lagt til, að sömu reglur um álagningu aðstöðugjalda skuli gilda um land allt.“ Þannig segir í þessari grg.

2. gr. frv., sem yrði 3. gr., ef mínar till. yrðu samþykktar, get ég fyrir mitt leyti samþykkt, eins hún kom frá Ed., en brtt. meiri hl. um að setja 20% í staðinn fyrir 15% yfir meðalútsvarið get ég ekki fallizt á. Þetta er auðvitað matsatriði og fer eftir því, hvort menn aðhyllast frekar, að þeir fjármunir, sem eru þarna til skiptanna komi á fá sveitarfélög og þá meira í hvert þeirra, eða fleiri, sem mundu þá fá minni upphæð í sinn hlut. Ég tel síðari leiðina eðlilegri og réttlátari og vil því láta 15% standa óbreytt.

Síðari till. mín er við 3. gr. frv., eins og það er, en verður við 4. gr. skv. mínum till. Hún er þannig: Á eftir orðunum „skv. a-lið 47. gr. verið ákveðnir“ komi: er skylt að auglýsa það hlutaðeigendum fyrir janúarlok álagningarárið og er sveitarstjórn þá heimilt o.s.frv.

Í 47. gr. l. segir: „Sveitarstjórn setur nánari reglur um þessar greiðslur fyrir 15. jan. ár hvert.“ Meiri hl. heilbr.- og félmn. leggur til, að skylt sé, að búið sé að auglýsa hlutaðeigendum þetta fyrir 15. jan., ef innheimta á eftir vissum gjalddögum skv. a-lið 47. gr. Ég tel það eðlilegra, að tímamörkin þarna séu fyrir janúarlok, en ekki bundið við sama mánaðardag og ákvörðunin um greiðslufyrirkomulagið er komin í eindaga hjá sveitarstjórnunum.