04.04.1968
Neðri deild: 89. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

20. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Á Alþ. f fyrra var samþ. breyting á 33. gr. stjórnarskrárinnar og þessi stjórnarskrárbreyting hefur legið fyrir þingi því, er nú situr, til endursamþykktar. Breyting sú, sem gerð er á stjórnarskránni með þessu frv., sem ég nefndi, varðar lágmarksaldur kjósenda, sem færður er úr 21 ári niður í 20 ár. Enn fremur er breytt því ákvæði í 33. gr. stjórnarskrárinnar, sem kvað á um það, að til þess að öðlast kosningarrétt þyrfti 5 ára búsetu í landinu. Því er breytt þannig að lögheimili nægi, og þar sem í hinni eldri gr. er talað um að vera fjárráður, þá er í nýju gr. talað um lögræði.

Frv., sem hér liggur fyrir, er, eins og hv. frsm. meiri hl. sagði, borið fram af hæstv. ríkisstj. til samræmis við breytinguna á stjórnarskránni, og þessu frv. var útbýtt hér í þessari hv. d. 24. okt. s.l. Hv. frsm. meiri hl. gerði grein fyrir því, hverja hann hygði vera ástæðuna til þess, að málið hefði ekki verið afgreitt úr n. fyrr en þetta, sem sé, að beðið hefði verið eftir afgreiðslu sjálfs stjórnarskrárfrv. En frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 20, var afgreitt frá allshn. rétt fyrir mánaðamótin, þannig að nál. minni hl. er dags. 28. marz, en nál. meiri hl. dags. 30. marz.

Þegar þetta mál kom til meðferðar í n., kom það fram, að allir nm. voru sammála um, að stjórnarfrv. eins og það lá fyrir og liggur fyrir, ætti að ganga fram, og þeir vildu mæla með því, enda er það, eins og fram hefur verið tekið, bein afleiðing af stjórnarskrárbreytingunni og borið fram til þess, að hún komi til framkvæmda. Hins vegar bar það til, þegar að því kom að greiða atkv. um frv., sem mundi hafa fallið mjög á einn veg, að formaður n. bar jafnframt fram tvær brtt., sem hefur verið útbýtt í þinginu fyrir nokkru, till. á þskj. 303 og á þskj. 437. En þessar brtt. eru ekki við sömu gr. l. og brtt. frv., sem eru við 1. og 15. gr., heldur við 27. og 58. gr. kosningalaganna og lagði formaður til, að brtt. þessar yrðu afgreiddar ásamt frv. og að n. mælti með því, að þær yrðu samþykktar, önnur till. óbreytt, þ.e.a.s. till. frá hæstv. dómsmrh., og hin till., á þskj. 303, nokkuð breytt. En till. á þskj. 303 frá 4 hv. þm. er þess efnis, að þar sem fleiri en eitt hreppsfélag eigi í sameiningu félagsheimili, skuli hreppsnefnd heimilt, að fengnu samþykki yfirkjörstjórnar, að hafa kjörstað í félagsheimilinu, þó að það sé ekki staðsett innan hreppsins. Það sem formaður lagði til og meiri hl. n. stendur að, er hins vegar ákvæði á þá leið, að hreppsnefnd skuli vera heimilt, að fengnu samþykki yfirkjörstjórnar, að hafa kjörstað utan hreppsfélagsins, þ.e.a.s. í öðrum hreppi, án tillits til þess, hvort hrepparnir eiga sameiginlegt félagsheimili eða ekki. Af þessu má sjá, eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, að þarna er um að ræða í meðferð hv. meiri hl. n. töluverða breytingu á till. á þskj. 303. Till. á þskj. 303 er mjög takmörkuð, og má segja, að það sé eðlilegt, að hreppsfélög, sem hafa komið sér upp sameiginlegu félagsheimili, væntanlega til sameiginlegra afnota, geti notað það í þessu skyni, þó að ýmsir kunni að líta svo á, að það sé engan veginn sjálfsagt. En hver verða mundi framkvæmd á þeim ákvæðum sem í brtt. meiri hl. n. felast, sýnist mér eiginlega ekki liggja fyrir.

Ég vil svo í sambandi við þessar brtt. báðar, þ.e.a.s. varðandi kjörstaðinn, segja það, úr því að ég er farinn að nefna þær, að náttúrlega eru ákvæðin um kjörstaði og kjördeildir ekki sett vegna hreppsnefnda eða til hagræðis sveitarstjórnum, heldur eru þau sett vegna kjósendanna, og þá sér í lagi kjósenda í afskekktum bæjum eða þar sem strjálbýli er mikið og þegar svona ákvæðum er breytt, verður náttúrlega að hafa þeirra sjónarmið mjög í huga. Með þessu er ég ekki neitt að mæla á móti þessum brtt., hvorki brtt. fjórmenninganna né meiri hl. n., efnislega, enda tilheyrir það ekki þeirri afstöðu, sem minni hl. hefur til málsins, en vildi aðeins leyfa mér að benda á þetta, að hér má umfram allt sjónarmið kjósendanna ekki gleymast.

Þetta var þannig, eins og ég nefndi, að þessar tvær brtt. voru þarna teknar upp af formanni ásamt frv., þannig að afgreiðslan í n. snerist í raun og veru ekki aðeins um frv., heldur um þessar brtt. líka. Ég hygg, að brtt. hefðu getað komið til meðferðar hér í þingi með venjulegum hætti, án þess að ágreiningur væri í n. Nefndir taka ekki ævinlega fyrir brtt., sem kunna að vera komnar fram, þegar þær taka mál til meðferðar, enda mun það ekki talið skylt, heldur aðeins málið sjálft, eins og það liggur fyrir. Þarna voru sem sé á ferðinni og komnar á afgreiðslustig tvær brtt. við sjálft stjórnarfrv., sem leiðir af lækkun kosningaaldursins. En fleira hafði borið á góma í þessu sambandi. Það hafði legið fyrir þinginu alllengi brtt. frá hæstv. dómsmrh. á þskj. 224 við 27., 32. og 42. gr. l. Einnig hafði það komið fram við umr. í n., að einstakir nm. voru þeirrar skoðunar, að ástæða væri til að athuga um breytingarmöguleika á fleiri greinum kosningalaganna, og sumt af þessu var nokkuð rætt í n. Þessar umr. í n. vörðuðu a.m.k. þrjár greinar kosningalaga þ. e. 63. 93. og 110 gr., og hv. frsm. meiri hl. hefur sagt lauslega frá einni þessari till., ef nefna má hana því nafni, þar sem hún kom ekki fram skriflega, en þar var rætt um nauðsyn þess, að sjúkt fólk á sjúkrahúsum gæti fengið möguleika til þess að greiða atkv. utan kjörstaðar. Og ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég er alveg sammála þeim þm., sem var sérstaklega nefndur í þessu sambandi um það, að þetta ákvæði þarf að athuga, og ég hef orðið var við óskir í þá átt. Mér finnst þetta vera svo mikið sanngirnismál eða sanngirnisóskir, sem þarna er um að ræða, að það sé full ástæða til að gefa því gaum, enda þótt aldrei verði lögð of mikil áherzla á það, að við megum ekki hverfa aftur til þess ástands, sem var fyrir nokkuð mörgum áratugum í þessum efnum og a.m.k. var almennt talið að gæti raskað öryggi atkvgr. Við megum ekki hverfa aftur til þess ástands. En það er sanngirnisósk sem hér er á ferðinni.

Ég ætla ekki að ræða hér meira um þetta, sem fram kom munnlega í n., en ég nefni þetta, sem ég nú hef nefnt, eins og gert er í nál. minni hl., til þess að skjóta stoðum undir þá skoðun, að það er ekki ástæða til þess núna, að Alþ. fari að samþykkja aðrar breytingar á kosningalögunum en þær, sem í stjórnarfrv. felast. En af því leiðir, að við töldum í minni hl. ekki ástæðu til þess að breyta því frv. Í raun og veru hefur meiri hl. fallizt á þetta sjónarmið, að það þurfi að endurskoða kosningal., algerlega fallizt á það, því að í nál. meiri hl. er að þessu vikið. Þar segir: „Það kom til umr. í n., að ástæða væri til, að fram fari heildarendurskoðun á kosningal., því að ýmislegt hefur leitt í ljós, að þar þarf breytingar að gera, einkum í sambandi við utankjörfundarkosningar.“ Þetta segir meiri hl. En ég veit ekki, hvort ég mundi vilja skrifa undir þetta orð: einkum. Það eru e.t.v. önnur atriði í kosningal., sem alveg eins mikil ástæða er til þess að taka til endurskoðunar. Síðan segir: „Það eru því ákveðin tilmæli okkar, að ríkisstj. láti endurskoða þessi lög fyrir næsta reglulegt Alþingi.“ Þessu erum við í minni hl. sammála að því leyti, að við teljum, að það eigi að láta endurskoða kosningalögin núna á milli þinga, en við höfum ekki rætt það sérstaklega okkar á milli í minni hl., hvort við mundum leggja til, að endurskoðunin yrði framkvæmd á þennan hátt, sem meirihlutamenn virðast vera sammála um að leggja til. En þáltill. um slíka endurskoðun liggur enn ekki fyrir. Hins vegar er með tilliti til beggja nál. og þess sem sagt hefur verið, óhætt að ganga út frá því, að allshn. sé sammála um, að endurskoðun eigi að fara fram á kosningalögunum.

Nú er það svo, að þegar kunnugt er um það, að fyrir dyrum stendur endurskoðun á l. af þessu tagi, hefur Alþ. yfirleitt ekki haft þá aðferð að breyta rétt fyrir endurskoðunina ákvæðum slíkra laga, nema ríka nauðsyn beri til, og af eðlilegum ástæðum, því að það er ekki eðlileg hagræðing að samþykkja breytingu á slíkum l. og fyrirskipa svo strax á eftir endurskoðun á breytingunni ásamt öðru því, sem í l. stendur. Það liggur fyrir, að þau ákvæði, sem felast í stjórnarfrv., ber nauðsyn til að samþykkja vegna stjórnarskrárbreytingarinnar. En við fáum ekki séð í minni hl. að neina slíka sambærilega nauðsyn beri til þess að gera aðrar breytingar nú á þessu stigi, þegar menn eru sammála um, að það eigi að endurskoða kosningal. og að sú endurskoðun eigi að líkindum að hefjast þegar að loknu þessu þingi. Það sýnist vera miklu eðlilegra, að breytingarnar bíði þangað til sú meðferð kosningal. hefur átt sér stað, sem um er rætt, þ.e.a.s. endurskoðunin.

Vera má, að hér á þingi hefði getað tekizt samkomulag um till. eins og þá, sem 4 hv. þm. hafa lagt fram á þskj. 303, þannig að ekki hlytist nein töf af nú undir þinglokin. Ég fæ þó ekki séð, að þeirri breytingu bráðliggi á. Og í því formi, sem hún kemur frá meiri hl. n., er ég ekki frá því að hún kunni að orka nokkuð tvímælis. En að því er varðar brtt. á þskj. 437, frá hæstv. dómsmrh., þá er víst ekki nokkur vafi á því, að þar er um ágreiningsmál að ræða hér í þingi. Hv. frsm. meiri hl. vék að því og honum fórust orð eitthvað svipað og mér um það efni. Hann sagði, að það hefði komið fram á öndverðu þingi, að það væri mikill ágreiningur um þessa breytingu. Ég hef ekki hugsað mér að svo stöddu að fara neitt út í þennan ágreining efnislega, En mér sýnist það algerlega ástæðulaust og nálgast ofurkapp að heimta nú á þessu stigi þingmálanna umr. og atkvgr. um þetta ágreiningsmál, á sama tíma og menn eru sammála um að gera ráð fyrir, að endurskoðun hefjist á kosningal. eftir nokkrar vikur og þá m.a. og ekki sízt á þessu ákvæði. Hér er um mál að ræða, sem alls ekki er einfalt og kann að standa í nokkru sambandi við önnur ákvæði í kosningalögunum, og þess vegna miklu heppilegra á allan hátt, að þetta sé gert allt í einu, þ.e.a.s. endurskoðuð þessi og önnur atriði, sem fram hafa komið, og einnig önnur atriði, sem síðar kynnu fram að koma innan eða utan þess hóps, sem endurskoðar kosningalögin. Eins og ég sagði, ætla ég ekki að ræða efnislega a.m.k. ekki að svo stöddu eða án þess að tilefni gefist til, efni þessarar brtt. En ég vil nú skjóta því til hæstv. ráðh., sem hefur borið fram till., hvort honum sýnist ekki að öllu athuguðu eðlilegt að láta hana ekki kom til meðferðar nú á síðustu dögum þingsins í sambandi við þetta ágreiningslausa og nauðsynlega stjórnarfrv., og að menn taki sér tíma til að íhuga þessi mál öll og reyna að komast að samkomulagi. Það er æskilegt, ef unnt er, að kosningalög séu gerð með samkomulagi á Alþ. Það er nóg að deila um í kosningum, þó að menn þurfi ekki að deila um það, hvort kosningal. séu réttlát eða ranglát eða hverju einn eða annar hafi haldið fram við gerð þeirra.

Ég legg svo til, herra forseti, fyrir hönd okkar minnihlutamanna, að stjórnarfrv. á þskj. 20 verði samþ. óbreytt.