24.10.1967
Neðri deild: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

13. mál, vörumerki

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti.

Þetta frv. er einnig flutt hér á Alþ. að tilhlutan hæstv. dómsmrh., sem ekki er viðstaddur nú, eins og menn vita. Það er um endurskoðun á vörumerkjalögum, en þau hafa verið að stofni til óbreytt frá því 1903 og er því eðlilegt, að endurskoðunar hafi verið þörf. Slík endurskoðun var ákveðin á árinu 1958, því að þá skipaði ríkisstj. þrjá menn í nefnd til þess að framkvæma endurskoðun og skiluðu þeir af sér frv. fyrir réttu ári. Það var svo lagt fyrir síðasta þing, en þá vannst ekki tími til afgreiðslu og ég hygg í raun og veru ekki til neinnar efnismeðferðar málsins. Þetta er lögfræðitæknilegt mál, sem ég skal ekki rekja hér frekar, en er eðlilegt að fái athugun í þn., og ég leyfi mér að leggja til, að því sé vísað til hv. allshn. og 2. umr.