09.04.1968
Neðri deild: 95. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta mál að þessu sinni á almennum eða breiðum grundvelli, því að þetta mál fer í þá n., sem ég á sæti í, og þar verða eflaust lagðar fram upplýsingar um hin einstöku atriði málsins. En mig langar til þess að gera hér almenna aths. af svipuðum toga og ég hef gert hér áður, þegar eins hefur verið ástatt,.að ríkisstj. hefur verið að leita eftir lánsheimildum í sambandi við afgreiðslu sína á framkvæmdaáætlun ríkisins. Eins og hv. þm. taka eftir, þá er þetta frv. í rauninni aðeins lántökuheimildarfrv. Það er aðeins um það að veita ríkisstj. heimild til að taka lán að ákveðinni upphæð eftir ýmsum leiðum. En frv. sem slíkt fjallar ekki um framkvæmdaáætlun ríkisins.

Hæstv. fjmrh. gat þess hér í framsöguræðu sinni fyrir þessu frv., að hann mundi í næstu viku flytja Alþ. skýrslu um framkvæmdaáætlun og ýmis málefni í sambandi við hana. Auðvitað hefði slík skýrsla frá hæstv. fjmrh. átt að vera komin hér fram að mínum dómi, og það hefði einnig átt að hafa þann hátt að leggja fram till. ríkisstj. um framkvæmdaáætlun ríkisins, og hún hefði átt að samþykkjast á Alþ. Þetta er auðvitað alveg fráleit stefna og verður enn þá fráleitari eftir því, sem lengra sækir í þessa átt að færa á þennan hátt, sem nú er verið að gera, hið raunverulega fjárveitingavald úr höndum Alþ. og í hendur ríkisstj. Ríkisstj. fær heimildir til þess að taka lán svo hundruðum millj. kr. skiptir, og hún ákveður síðan ein, án þess að leita þar samþykkis Alþ., að ráðstafa þessu láni og breyta raunverulega fyrri ákvörðun Alþ. um fjárveitingar til ýmissa málaflokka. Alþ. er áður búið að ákveða, hve miklu fé skuli varið til hafnarframkvæmda, skólabygginga, rafmagnsframkvæmda o.s.frv., en svo kemur bara hitt, að ríkisstj. fær heimild Alþ. til þess að taka lán í allstórum stíl, og hún ákveður að breyta fyrri samþykktum með því að ákveða viðbótarfjárframlög til tiltekinna framkvæmdaliða, en auðvitað ekki til annarra.

Ég tel fyrir mitt leyti, að þetta sé óeðlilegt. Hið rétta er, að ríkisstj. undirbúi framkvæmdaáætlun þá, sem nauðsynlegt þykir að hafa til viðbótar við fjárlög. Séu ekki tök á því, að slík áætlun fylgi fjárlagafrv. og fjárlagaafgreiðslu, sem auðvitað væri æskilegast, þá á slík tillagnagerð að koma eins fljótt þar á eftir og tök eru á, og Alþ. á að fjalla um þessi mikilvægu mál. Ég vil alveg sérstaklega benda á, út í hvaða ófæru er raunverulega verið að fara hér, þegar þessar upphæðir fara vaxandi, eins og raun hefur orðið á. Það má búast við því, að eftir stuttan tíma verði ekki orðið um fjárhæð að ræða eins og rætt er um í þessu frv., upp á 575 millj., heldur verði hún fljótlega komin upp í 1 milljarð og þar er ríkisstj. ein á ferðinni og ákveður alla þá fjárveitingu. Þetta er auðvitað að brjóta þá grundvallarreglu í okkar þingræði, að fjárveitingavaldið sé Alþingis.

Það má að vísu segja, að það var hægt að afsaka það að nokkru fyrstu árin, að þessar framkvæmdaáætlanir væru nýsmíði á vegum ríkisstj. og ekki komnar í alveg fast form, en ég trúi því ekki, að hæstv. ríkisstj. viðurkenni ekki, eins og nú er komið, að hér er um svo stórkostleg fjárveitingamálefni að ræða, að þau eiga eðli málsins samkvæmt að berast undir Alþ. Alþ. á að fjalla um slíkar fjárveitingar sem þessar, jafnvel þó að þar sé verið að ráðstafa lánsfé.

Ég fyrir mitt leyti get verið samþykkur því í öllum aðalatriðum að veita ríkisstj. heimild til þess að taka þau lán, sem þetta mál fjallar um. Ég er að vísu enn þá ósammála ríkisstj. um það að hafa ríkisskuldabréfalánin með þeim hætti, að þau skuli vera undanþegin framtalsskyldu og fellst ekki á nokkur önnur atriði í sambandi við formið, en ég get verið samþykkur því, að ríkisstj. fái heimild til að taka þessi lán. Hins vegar tel ég mig eiga fullan rétt á því sem alþm. að eiga hlutdeild í því að ákveða, hvernig eigi að ráðstafa þessum lánsfjárhæðum. Það er ekki og á ekki að vera einkamál ríkisstj. að ráðstafa þessum upphæðum, sem teknar eru að láni í sambandi við þessar framkvæmdir, og þó að þetta verði ekki frekar í þetta skipti en það hefur verið á undanförnum árum, þá vil ég vænta þess, að hæstv. ríkisstj. taki þessi mál til íhugunar á ný og að hún geti fallizt á, að það er rétt að breyta hér um.

Það á að leggja drög að framkvæmdaáætlun fyrir Alþ. Alþ. á að fjalla um þær till. Þær eiga að sendast til n. og athugast þar. Þm. geta komið fram með sínar brtt. um ráðstöfun á þessu fé og það er Alþ., sem á að leggja blessun sína yfir þessa framkvæmdaáætlun og síðan á eftir henni að fara, en þetta á ekki að vera einkamál ríkisstj.

Og þó að það kunni að vera svo, að þeim þyki þetta hagkvæmt, sem í ríkisstj. sitja hverju sinni, þá hygg ég nú, að þeir verði að hafa það í huga, að vissulega getur það verið svo, að þeir, sem nú eru í ríkisstj., verði utan ríkisstj. einhvern tíma og þá sjái þeir það, að hér er verið að taka af þeim stórkostlegan rétt, sem þeir eiga samkvæmt okkar grundvallarlögum, þar sem fjárveitingavaldið er Alþingis.

Þetta hef ég minnzt á áður við afgreiðslu á hliðstæðum málum og ég geri það enn, en að öðru leyti ætla ég ekki að ræða málið hér við 1. umr. Það fer til fjhn., sem ég á sæti í, og þar mun ég leita eftir upplýsingum um ýmis atriði, eftir því sem mér þykir vera ástæða til.