19.04.1968
Efri deild: 99. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (1382)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. upplýsti, að það hefði á sínum tíma verið leitað samþykkis þingflokkanna fyrir því að afhenda

BSRB hluta úr prestssetrinu að Saurbæ, en ég held, að þegar það mál var rætt í þingflokkunum, hafi það ekki legið fyrir, eins og komið hefur í ljós síðar. Ég held, að það hafi ekki legið fyrir, að neinn ágreiningur væri um það að fá hluta úr jörðinni eða afhenda jörðina alla eða hluta úr henni. Ég minnist þess ekki. Og mig furðar á því, ef hægt er að afhenda prestssetur kvaðalaust til ábúðar, og það hefur komið til tals áður eftir því, sem hæstv. fjmrh. upplýsti, að nota hluta af prestssetrinu til annarra þarfa, og tilkynna svo hlutaðeigandi presti það ekki. Mig furðar á því. (Gripið fram í.) Eftir því, sem fram hefur komið hjá prestinum, og ég ætla, að hann fari með rétt mál, þá hafði hann ekki hugmynd um það, þegar hann tók við prestssetrinu, og enginn varnagli varðandi jörðina sleginn í þessum efnum. Ég held, að þetta hafi ekki legið fyrir, þegar samþykki þingflokkanna var fengið, eða ég minnist þess ekki, það eru aðrir hér, sem gætu upplýst það, ef svo hefur verið.

Enda þótt ýmislegt í þessu frv. sé nauðsynlegt að samþykkja, þá hefur hæstv. fjmrh. m.a. upplýst, að það eru ýmis ákvæði í því sem valda misskilningi og er ágreiningur um. Því þá ekki að kippa þeim út úr og samþykkja það, sem einhugur er um? Ég mundi leggja það til, að við samþykkjum þann þátt málsins, sem samstaða er um á hv. Alþ., en fellum hitt úr frv., sem ekki er samstaða um. Og það er víst fleira en eitt og fleira en tvennt, sem ekki er samstaða um, og ég vildi vænta þess, að þessu máli yrði frestað, í það minnsta til morguns, ef fundur væri hér og það yrði þá hægt að ná samstöðu um viss ákvæði frv. og samþykkja þau.