19.04.1968
Efri deild: 99. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er náttúrlega nánast ástæðulaust að vera að karpa við hv. þm., vegna þess að hann sýnist ekki vilja neitt skilja, svoleiðis að það er tilgangslítið. Það verður þá að ráðast, hvort aðrir hv. þdm. hafa sama skilning á æru stjórnmálaflokkanna og því, sem þeir háfa lofað, eins og virðing hans fyrir loforðum síns eigin flokks virðist sýna, þannig að ég hygg, að hér sé það ekki síður æra Framsfl., sem er í veði, því það vill svo til, að maður hefur þó í þetta skipti treyst því, að loforð Framsfl. væri gilt, en það virðist hv. þm. ekki telja ástæðu til að staðfesta. Það er einmitt kjarni málsins. Ástæðan til þess, að þetta var ekki sett inn í frv. í haust, er sannast sagna sú, að þetta var talið vera klappað og klárt mál. En þegar farið var að athuga frekari breytingar við þetta frv., var talið, enda þótt menn teldu það út af fyrir sig ekki skipta höfuðmáli, þar sem því var treyst, að það væri samstaða allra þingflokka fyrir því, að það væri þó rétt að fá það staðfest í þessu frv., úr því að það lá fyrir, og því var þetta atriði tekið inn í frv. Þetta er ástæðan. Það var alls ekki í huga manna í haust, að þetta þyrfti í rauninni að gerast, en það virðist ekki vanþörf á því, úr því að það eru þó a.m.k. til hér menn, sem telja, að ekki þurfi að standa við gefin loforð.