21.03.1968
Neðri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Þau tíðindi hafa hér gerzt, að þeir hv. þm. Lúðvík Jósefsson og Hannibal Valdimarsson hafa allt í einu orðið mjög sammála. Og þeir eru sammála um það, að flytja eigi aðalstöðvar síldarútvegsnefndar frá Siglufirði til Reykjavíkur. Þeir eru sammála um það, að gera eigi ráðstöfun, sem mjög muni veikja baráttu þeirra manna, sem vilja stuðla að jafnvægi í byggð landsins, vilja stuðla að því, að sem mest af atvinnurekstri geti þróazt úti um land, að þar geti verið öflugt atvinnulíf og þar geti verið áhrif — öll áhrif og völd í þjóðfélaginu flytjist ekki til Reykjavíkur.

Það má kannske segja, að það hafi verið orðið tímabært, að þessir tveir menn yrðu sammála um eitthvert mál, en ég hélt nú samt ekki, að einmitt þetta yrði það, sem mundi sætta þá. Ég hef ekki orðið var við, að nein rök væru í ræðum þeirra færð fram fyrir nauðsyn þess, að þessi ráðstöfun yrði gerð. Hv. þm. Hannibal Valdimarsson tví- eða þrítók þá fullyrðingu sína, að miklu erfiðara væri að ná símasambandi frá Austfjörðum til Siglufjarðar heldur en frá Austfjörðum til Reykjavíkur. Ég vil gera hv. þm. það tilboð, að ef við könnum það sameiginlega, hvort þessi skoðun hans sé rétt eða röng, að því sé öfugt farið, að það sé betra að ná símasambandi frá Austfjörðum til Siglufjarðar heldur en frá Austfjörðum til Reykjavíkur, sættumst við á, að það verði látið skera úr um það, á hvorum staðnum aðalstöðvar síldarútvegsnefndar eiga að vera, vegna þess að ég fullyrði, að það er betra að ná símasambandi frá Austfjörðum til Siglufjarðar en frá Austfjörðum til Reykjavíkur. Þetta voru hans einu rök, sem mér fannst vera bitastætt í.

Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu um þetta mál að þessu sinni. Það gefast til þess tilefni síðar. En ég vildi þó aðeins mótmæla fullyrðingum þessara manna og vekja á því athygli, að það er síður en svo, að það sé rétt, eins og hv. þm. Hannibal Valdimarsson hélt fram, að svo til allir síldarsaltendur væru á því máli, að flytja bæri aðalstöðvar síldarútvegsnefndar til Reykjavíkur. Síldarútvegsnefnd hefur um þriggja áratuga skeið verið staðsett á Siglufirði og svo til allir saltendur norðanlands vilja, að hún sé þar áfram. Ég vek á því sérstaka athygli, að síldveiðar undanfarin ár hafa verið fyrir Austur og Norðurlandinu. Þar hefur öll síldarsöltun eða svo til öll átt sér stað, en engin eða lítil sem engin hér sunnanlands. Ef yfirstjórn einhvers atvinnuvegar á Íslandi má vera úti á landi fyrir þeim mönnum, sem vilja hafa allar nefndir í Reykjavík og spóka sig í þeim þar, ef einhver atvinnurekstur á að vera annars staðar en hér, er það þessi atvinnurekstur. Það er einmitt á Norðurlandinu, Norðausturlandinu og Austurlandinu, sem þessi atvinnurekstur á heima, og það væri vissulega mjög mikið spor aftur á bak, ef ráðstafanir yrðu gerðar til þess að flytja hann suður. Hvað mundu þá menn í ýmsum landshlutum segja um allan atvinnurekstur annan? Mundu þeir treysta sér til þess að reyna að berjast þar áfram? Mundi ekki skoðunin verða sú, að úr því að ekki má einu sinni líða það, að sú nefnd, sem um þrjá áratugi hefur verið norðanlands á þeim stað, þar sem mest og bezt aðstaða er til síldarmóttöku, á þeim stað, þar sem verður mikil síldarmóttaka í sumar, þó að síldveiðarnar verði langt norður í hafi, vegna þess að það vita allir, að síldveiðiskipin munu salta um borð meira og minna og móttaka þeirrar síldar verður ekki hvað sízt á Siglufirði, þar sem aðstaða og kunnátta er til að meðhöndla síldina. Ég veit þegar um nokkuð mörg veiðiskip, sem ætla sér að leggja þar upp. Það kæmi mér ekki á óvart, þó að kannske mesta síldin næsta sumar kæmi einmitt á land á Siglufirði úr skipunum, sem verka hana að hluta til um borð. En einmitt nú, þegar þannig vill til, að líklega er Siglufjörður á ný að fá síld, á að flytja aðalstöðvarnar þaðan í burtu. Ég ætla á þessu stigi ekki að fjölyrða meira um þetta mál, en ég mun svo sannarlega ræða það síðar.