26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

Framkvæmd vegáætlunar 1967

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Mér skildist á ræðu hæstv. samgmrh., að í vegamálum væri farið eftir þremur áætlunum. Það er í fyrsta lagi farið eftir vegáætlun að því er varðar fjárveitingar til vega. Í öðru lagi, þegar um lánsheimildir er að ræða, skilst mér, að það sé ekki nema í sumum tilfellum, sem vegáætlun gildir, en það sé framkvæmdaáætlun ríkisins, sem þar ræður meiru um, þ. e. a. s. að þeir vegir, sem teknir eru inn á vegáætlun með lánsheimildir, þá gildir ekki heimildin nema gert sé ráð fyrir henni á framkvæmdaáætlun ríkisins, það sé unnið fyrir þær fjárhæðir, sem þar standa, en aðrar ekki. Í þriðja lagi minntist ráðh. nokkuð á vegagerð samkv. Vestfjarðaáætlun. Þess vegna er það, að ég vildi minnast á tvo vegi, sem teknir eru á vegáætlun, 1967 og 1968 með lánsheimildum, þ. e. Heydalsvegur, sem hefur 4.7 millj. kr. lánsheimild á þessum tveimur árum, og Klofnings- og Skarðsstrandarvegur með 2½ millj. á þessu sama tímabili. Nú vildi ég vita um það og fá skýr svör við því hjá hæstv. samgmrh., hvort svo hafi verið ráð fyrir gert nú á þessu ári, að þessar lánsheimildir séu teknar inn á framkvæmdaáætlun ríkisins, þannig að vænta megi þess, að á þessu ári verði unnið fyrir heimildarlán. Ég ætla mér ekki að fjölyrða um nauðsyn þess, að unnið sé í þessum vegum, því að þau mál hefur oft borið á góma hér á hv. Alþ., og ég ætla, að hæstv. ráðh. sé vel ljóst, hve mikil þörf er á því að hraða vegagerð í báðum þessum tilfellum. Ég er sammála því, sem hæstv. ráðh. minntist á, að ráð þarf að finna til að afla meira fjár í vegi. Á það hefur oft verið bent, hverjar leiðir skyldi fara í þeim efnum, en ráðh. ekki aðhyllzt þær leiðir, en ég vænti þess, að sú endurskoðun, sem fram fer á vegáætlun á þessu ári, komi hæstv. ráðh. í skilning um það, hvaða leiðir eru heppilegastar, og að miklu meira fjármagni verði varið til nýbyggingar þjóðvega í landinu í framtíðinni heldur en unnt hefur verið á undanförnum árum.