19.04.1968
Sameinað þing: 56. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2117 í B-deild Alþingistíðinda. (1952)

Skýrsla utanrrh. um Atlantshafsbandalagið og varnarsamninginn

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 425 báru þrír hv. Alþb.-menn fram till. til þál. um að skora á utanrrh. að gera Alþ. grein fyrir afstöðu ríkisstjórnarinnar til hervarnarsamningsins við Bandaríkin og enn fremur að gera hliðstæða grein fyrir afstöðu ríkisstj. til Atlantshafshandalagsins. Till. er svo hljóðandi:

Alþ. ályktar að fela utanrrh. að gera Alþ., munnlega eða skriflega, ýtarlega grein fyrir afstöðu ríkisstj. til herverndarsamningsins við Bandaríkin með tilliti til þeirra breytinga, sem orðið hafa á alþjóðamálum og hernaðartækni, síðan samningurinn var gerður. Einnig ályktar Alþ. að fela utanrrh. að gera hliðstæða grein fyrir afstöðu ríkisstj. til Atlantshafsbandalagsins og aðildar Íslands að því.“

Þó að þessi till. hafi ekki hlotið venjulega þinglega meðferð né samþykki Alþ., þykir rétt að verða við þessari ósk. En þar sem nú er komið að þinglausnum, verður þessi grg. mín styttri en ella mundi og mun snúast að mestu leyti um þau tvö atriði sem beðið er um, en fleiri atriði varðandi utanríkismál hefði þó mátt minnast á, en það verður að bíða betri tíma. Erlendis víða mun það vera tíðkanlegt að ræða utanríkismál á þjóðþingum, þó að ekki sé annað tilefni en að ríkisstj. gefi skýrslu um gang þeirra og geri grein fyrir afstöðu sinni. Þetta hefur ekki tíðkazt hér, svo að ég muni eftir a. m. k. Hins vegar hafa verið ræddar stórpólitískar ákvarðanir í utanríkismálum, sem teknar hafa verið, eins og t. d. þátttaka í NATO og fleira þess háttar, enn fremur þáltill., sem fram hafa verið bornar af þm., en einhvern veginn hefur það líka atvikazt svo, að sambandið milli ríkisstj. og Alþ. hefur ekki verið mjög náið, sem þó þyrfti að vera, og ætti ekki fyrst og fremst að mótast af því, að þm. væru fylgjandi ríkisstj. á hverjum tíma eða hið gagnstæða. Afstaðan til utanríkismála á að mótast af málefninu sjálfu og engu öðru.

Ég er fyrir mitt leyti fylgjandi því að umr. um utanríkismál verði hér upp teknar. Ég hef reynt að undirbúa þetta lítillega, í fyrsta lagi með því, að stjórnarandstaðan fái tækifæri til að senda fulltrúa á þing Sameinuðu þjóðanna, og með því, að fundir væru upp teknir á ný í utanrmn., hvort tveggja í trausti þess, að unnið verði á þessum vettvöngum báðum lojalt og af heilum hug, og ég vil vona, að svo verði.

Íslenzk utanríkisþjónusta er ekki gömul. Hún hefst raunverulega ekki fyrr en sambandið við Danmörku rofnar 1940. Það er því ekki að undra, þó að starfið þar sé ekki að öllu leyti eins fast mótað og þyrfti að vera. Kemur þar einnig til féleysi og ýmislegt fleira, sem væntanlega stendur til bóta. Þó vildi ég láta það koma fram, að utanrrn. hefur í þjónustu sinni ýmsa ágætismenn, sem inna af höndum mjög gott starf.

Nú hefur verið samþykkt hér þáltill. um að endurskoða lög um utanrrn., og fer sú endurskoðun fram í sambandi við þingflokkana, væntanlega fljótlega.

Ég skal þá leyfa mér að fara nokkrum orðum um afstöðu utanrrn. til þessara tveggja mála hér á Alþ., sem óskað hefur verið eftir að rædd væru. Skal ég þá fyrst nefna til þátttöku Íslands í Norður-Atlantshafsbandalaginu.

Íslendingar höfðu 1918 í sambandi við fullveldissamninginn við Dani lýst yfir ævarandi hlutleysi, en menn höfðu þá enn trú á því, að hlutleysið yrði virt, þó að til styrjaldarátaka kæmi. Allir vita nú, hvers virði hlutleysisyfirlýsingar eru og voru í heimsstyrjöldunum báðum og þó alveg sérstaklega í þeirri síðari. Hlutleysi var því aðeins virt, að hægt væri að tryggja það með vopnavaldi. Þannig komust Svíar og Svisslendingar hjá því að verða hernumdir af styrjaldaraðila, en hinir, sem ekki höfðu nægilegan herafla til varna, voru herteknir. Það var því eðlilegt, að Íslendingar, sem voru vopnlausir með öllu og höfðu enga möguleika til að verja sig, ef á þá yrði ráðizt, væru áhyggjufullir um framtíð þjóðarinnar, ef til átaka kæmi á ný. Þessi sama hugsun kom einnig fram hjá mörgum Evrópuþjóðum öðrum, þó að þeir hefðu í landi sínu nokkurn herafla. Hugmyndin um varnarbandalag þjóðanna um Norður-Atlantshaf mun þó fyrst frá Kanadamönnum komin. Þessari hugmynd óx fljótlega fylgi, og 1948 var málið komið á fastan rekspöl, og var þetta bandalag síðan stofnað 4. apríl 1949. Slíkt svæðisbandalag var í fyllsta samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem einmitt gerir ráð fyrir því, að efla megi friðarvonir með slíkum samtökum. Tilraunir Norðurlanda um myndun slíkra svæðissamtaka fyrir sig höfðu um þetta leyti mistekizt þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir rétt áður, og gripu þá Danmörk og Noregur tækifærið, þegar það gafst, og gerðust aðilar að Norður-Atlantshafsbandalaginu.

Meginatriðið í þessum samningi er að árás á eina bandalagsþjóð skoðast sem árás á þær allar, og ber þá hinum að koma til aðstoðar. Seint á árinu 1948 var Íslandi boðin þátttaka í þessum samtökum, og var hún samþykkt á hinum sögufræga þingfundi 30. marz 1949.

Ísland gerðist síðan aðili að bandalaginu á stofnfundi þess 4. apríl sama ár, þó með fyrirvara um sérstöðu landsins, þ. e. að viðurkennt væri af aðildarríkjunum, að ekki þyrfti hér að stofna til vígbúnaðar og hers af Íslands hálfu. Auk þess var því lýst yfir í undirbúningsviðræðunum við Bandaríkin, að ekki yrði hér her á friðartímum og að ef til ófriðar kæmi, mundu bandalagsþjóðirnar óska eftir svipaðri aðstöðu á Íslandi og var í síðasta stríði, en það væri algerlega á valdi Íslendin a sjálfra, hvenær sú aðstaða yrði veitt.

Í samningnum var gert ráð fyrir, að ef aðildarríkin óskuðu eftir að hætta þátttöku í bandalaginu, væri það heimilt, eftir að 20 ár væru liðin frá undirskrift samnings, með eins árs uppsagnarfresti. Þessi 20 ár eru nú liðin á næsta ári, og er þá þessi möguleiki fyrir hendi fyrir hvaða aðildarríki sem er. Sá orðrómur hefur gengið bæði hér og annars staðar, að Frakkar a. m. k. mundu nota þetta tækifæri í framhaldi af því, að þeir hafa dregið her sinn undan hinni sameiginlegu yfirstjórn bandalagsins. En hvergi hef ég orðið þess var, að Frakkar stefni að þessu marki, og ég vildi bæta því við, að samheldni hinna 14 ríkjanna hefur, að talið er, aldrei verið meiri. En hver hefur þá orðið árangurinn af stofnun og starfsemi Norður-Atlantshafsbandalagsins þessi 19 ár, sem liðin eru frá stofnun þess?

Ég held, að það liggi alveg ljóst fyrir, að bandalagið er varnarbandalag og hefur þann eina tilgang að styrkja það aðildarríki, sem ráðizt kynni að vera á. Þetta hefur tekizt. Svæðið, sem Atlantshafsbandalagið tekur til, hefur verið blessunarlega laust við öll vopnuð átök á þessu tímabili, og ég vildi mega trúa því, að það sé fyrst og fremst tilveru NATO að þakka. Valdajafnvægi hefur komizt á með tilvist bandalagsins. Íslenzka ríkisstj. hefur ekki heldur haft uppi neina tilburði til að segja sig úr bandalaginu, enda hefur Ísland fengið með aðild sinni að því hið ákjósanlegasta öryggi fyrir sjálfstæði landsins og tilveru, sem óvarið hlutleysi væri allsendis ófært um að tryggja.

Þó að hernaðarátök hafi ekki nein orðið í Evrópu, hafa þau orðið annars staðar, bæði í Afríku og Asíu, þar sem litlu hefur mátt muna, að átökin breiddust út og yrðu að miklu stærra báli. Á meðan svo er, að spennan er fyrir hendi og átökin í Asíulöndum, bæði nær og fjær, er óhjákvæmilegt, að hafður sé nauðsynlegur viðbúnaður hér, og kem ég þá að öðru atriði, sem um var spurt, dvöl varnarliðsins hér nú.

Í lok seinni heimsstyrjaldarinnar héldu herir Sovétríkjanna inn í Norður-Kóreu, en Bandaríkjamenn inn í suðurhlutann. Ekkert samkomulag tókst um bráðabirgðastjórn fyrir allt landið. Fóru kosningar fram í suðurhlutanum undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna, og var þar myndað lýðveldi. Í sama mund var myndað alþýðulýðveldi í norðurhlutanum, og voru mörkin milli ríkjanna sett við 38. breiddarbaug.

Það næsta, sem skeði, var það, að vopnuð átök hófust milli ríkjanna árið 1950 með innrás norðanmanna á suðurhlutann. Þessi innrás var þegar tekin fyrir og rædd í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Komst öryggisráðið að þeirri niðurstöðu, að Norður-Kóreumenn hefðu rofið friðinn, og skyldi gripið til hernaðarlegra gagnráðstafana. Var skorað á þjóðir bandalagsins að koma Suður-Kóreu til aðstoðar við að hrekja innrásaraðilann úr landi. Kóreustríðið var nú í fullum gangi, og komu margar hinna Sameinuðu þjóða með Bandaríkin í fararbroddi Suður-Kóreu til aðstoðar. Þær þjóðir, sem ekki áttu sæti í öryggisráðinu, gáfu margar út yfirlýsingar um, hvort þær væru samþykkar gerðum ráðsins eða ekki. Var fjöldi þeirra, sem studdu ákvörðun öryggisráðsins um hernaðarlegar refsiaðgerðir, yfirgnæfandi meiri hluti samtakanna. Ríkisstj. Íslands gaf einnig út yfirlýsingu um, að Ísland væri samþykkt gerðum öryggisráðsins, aðeins tæpum hálfum mánuði eftir að átökin hófust.

Strax í byrjun átakanna í Kóreu var talin mikil hætta á, að styrjöldin gæti breiðzt út, og þegar friðarhorfur höfðu versnað svo, var augljóst, að Ísland gæti ekki verið varnarlaust með öllu, og skömmu eftir áramótin 1950–1951 hófust viðræður milli íslenzkra og bandarískra yfirvalda um varnir Íslands samkv. ósk Atlantshafsbandalagsins. Samningurinn milli þessara aðila var undirritaður 5. maí 1951 og var staðfestur á Alþ. um haustið. Samkomulagið var gert á vegum Atlantshafsbandalagsins, og starfa Bandaríkjamenn að vörnum Íslands á vegum þess og í umboði þess. Eins og spennan var mikil í heiminum um þetta leyti og hætta á, að Kóreustyrjöldin breiddist út, var talið óforsvaranlegt, að Ísland yrði óvarið með öllu. Yfirgnæfandi meiri hl. alþm. greiddi atkv. með samningnum um haustið 1951, og raunverulega voru kommúnistar einir á móti. Efni samningsins er óþarft að rekja. Aðalatriðið er, að Bandaríkin taka að sér fyrir hönd Norður-Atlantshafsbandalagsins varnir Íslands með ýmsum skilyrðum, sem nánar eru tilgreind í samningnum. Keflavíkursamningnum frá 1946 var um leið sagt upp, en í honum voru heimildir fyrir Bandaríkjamenn til nokkurrar aðstöðu eða afnota af Keflavíkurflugvelli. Þá voru í samningnum ákvæði um endurskoðun og uppsögn. Gert er ráð fyrir, að umr. um endurskoðun geti tekið allt að 6 mánuði og ef ekki næst þá samkomulag um endurskoðun, sé hægt að segja honum upp með eins árs fyrirvara. Í samræmi við þennan samning komu svo Bandaríkjamenn hingað 1951.

Leið nú og beið fram til ársins 1956. Hinn 28. marz 1956 var samþ. á Alþ. ályktun, sem að vísu sló því föstu, að stefna íslenzku þjóðarinnar skyldi vera sú í utanríkismálum að tryggja sem bezt sjálfstæði og öryggi landsins, vinsamlega sambúð við allar þjóðir og að Íslendingar ættu samstöðu um öryggismál sín við nágrannaþjóðir sínar, m. a. með samstarfi í Atlantshafsbandalaginu. Síðan sagði svo í þáltill.: Með hliðsjón af breyttum viðhorfum, síðan varnarsamningurinn frá 1951 var gerður, og með tilliti til yfirlýsinga um, að eigi skuli vera erlendur her á Íslandi á friðartímum, skyldi þegar hafin endurskoðun varnarmálasamningsins. Fengist ekki samkomulag um, að varnarliðið hyrfi úr landi, skyldi málinu fylgt eftir með uppsögn samningsins. — Um þetta leyti gegndi ég störfum utanrrh. í veikindaforföllum Guðmundar Í. Guðmundssonar, í stjórn Hermanns Jónassonar, vinstri stjórninni svokölluðu. Varð það að samkomulagi, að ég færi á fund John Foster Dulles, sem þá var utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og ræddi við hann um málið. Kom okkar tal þar niður, að hafnar skyldu samningaumr. á milli aðila um endurskoðun og færu þær viðræður fram í Reykjavík. Þessar viðræður voru síðan upp teknar hér undir forustu Guðmundar Í. Guðmundssonar, að ég ætla í nóvembermánuði, en þá hafði hann aftur tekið við störfum sem utanrrh.

Um svipað leyti hófst uppreisnin í Ungverjalandi, og ástandið í heimsmálunum var talið mjög ótryggt að nýju, svo ótryggt, að ekki var talið forsvaranlegt, að varnarliðið yrði sent úr landi. Samningaviðræðum hér lauk með því, að þeim skyldi frestað, og var ekki annað vitað en ríkisstj., vinstri stjórnin, sætti sig við það.

Síðan hefur samningurinn ekki verið til umr. á þeim grundvelli, að samningnum við Bandaríkin yrði sagt upp. Ástandið í heiminum hefur verið ótryggt. Stórorrustur hafa verið háðar víða, og má þar sérstaklega nefna til styrjöldina í Víetnam. Ein af meginástæðunum fyrir því, að leitað hefur verið samkomulags þar um stöðvun átakanna, hefur verið talin sú, að mikil hætta væri á því, að styrjöldin í Víetnam gæti breiðzt út og orðið að þriðju heimsstyrjöldinni. Ástandið hefur verið mjög ótryggt og talið, að varlegast væri að vera við öllu búinn. Þó að allt hafi verið með kyrrum kjörum í Evrópu, síðan Atlantshafsbandalagið kom til sögunnar, gætu átökin í heiminum annars staðar en í Evrópu orðið sá neisti, sem orðið gæti að stóru báli.

Annað hættusvæði, þar sem komið hefur til stórátaka, er í Austurlöndum nær. Átökin milli Ísraels og Arabaríkjanna hafa brotizt út í ljósum loga, og er ástandið þar enn mjög ótryggt, svo ótryggt, að hvenær sem er virðist möguleiki á því, að stórátök með ófyrirsjáanlegum afleiðingum geti hafizt. Á meðan þessi mál eru óleyst, er bezt að vera við öllu búinn, og sýnilegt, að varnarliðið á Keflavíkurvelli getur haft úrslitaþýðingu, og kemur þá varla til mála, að það fari burt á meðan.

Ég gat þess áður, að ríkisstj. hefði ekki neinar fyrirætlanir uppi um að segja Ísland úr NATO, og ég tel, að sama gildi um varnarsamninginn við Bandaríkin, tími til uppsagnar sé ekki fyrir hendi nú, ástandið í heiminum megi mjög breytast, áður en til þess komi. Þessi mál hafa ekki verið til umr. í ríkisstj. nýlega, en ég tel mig mega fullyrða, að ríkisstj. hafi ekki hug á, eins og stendur a. m. k., að segja upp þessum tveimur samningum. Ástæðurnar, sem bornar hafa verið fram af þeim, sem vilja uppsögn samningsins við Bandaríkin, fyrir uppsögninni eru aðallega tvær, að mér hefur skilizt. Hin fyrri er, að ástandið í Evrópu sé nú orðið svo friðsamlegt, að engin þörf sé á því að hafa varnarlið í landinu. En hin ástæðan er, að varnarliðið sé ekki þess megnugt að veita nokkurt viðnám, ef til átaka kemur.

Um fyrri ástæðuna vil ég aðeins vísa til þess, sem ég hef áður sagt, að þó að friðsamt sé í Evrópu eiga sér samt stað annars staðar í heiminum átök, sem gætu áður en varir breiðzt út, og þess vegna er nauðsynlegt að hafa hér varnarlið, á meðan stríðshættan er yfirvofandi. Um hina ástæðuna vil ég aðeins segja það, að því hefur verið lýst yfir af forsrh.s. l. haust, að ríkisstj. muni vinna að því, að íslenzkur aðili, maður eða menn, verði sérmenntaður til þess að geta skorið úr um þetta. Eins og er, telur ríkisstj. rétt að hafa hér varnarlið, á meðan ástandið í heiminum er eins ótryggt og ískyggilegt og raun ber vitni.

Fleira tel ég raunar ekki ástæðu til þess að segja nú á þessu stigi, en vil aðeins endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að ég hef ekkert á móti því að taka til umr. utanríkisstefnu ríkisstj. hér á Alþ., þ. e. á næsta þingi, og síðan eftir því sem ástæða þykir til í sambandi við utanríkismálin.