19.04.1968
Sameinað þing: 56. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2134 í B-deild Alþingistíðinda. (1955)

Skýrsla utanrrh. um Atlantshafsbandalagið og varnarsamninginn

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég tek undir það, að eðlilegt er, að rætt sé um utanríkismál hér á Alþ., en þá vitanlega eftir því sem efni standa til. Áður fyrr á árum mátti segja, að miklar og langar umr. urðu um utanríkismál á hverju þingi, og var það vegna þess, að þá gafst beint tilefni í málefnameðferð og í almennum stjórnmálaumr. Vegna þess, hversu þessi mál bar þá hátt í huga manna, þá gafst efni til þess, að um þau yrðu rækilegar umr. Það er rétt, að á seinni árum hefur ekki eins oft verið um þessi mál rætt, vegna þess að ekki hefur þurft að taka um þau sérstakar ákvarðanir. Hvort menn telja, að rétt sé að bæta úr því með því að gefnar séu formlegar skýrslur og síðan ákveðnar umr. í 1–2–3 daga á hverju þingi það er vissulega til athugunar, og sízt skal ég vera því andvígur, vegna þess að ég tel fulla þörf á því og raunar fátt mikilsverðara en þessi mál séu rædd málefnalega og skýrð, bæði fyrir þingheimi og alþjóð.

Nú hefur svo atvikazt, að þessar umr. eru í þinglok og hér er einungis fjallað um tvö atriði, tvö mál. Og ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, að hér er um tvö sjálfstæð mál að ræða, annars vegar vist okkar í Atlantshafsbandalaginu og hins vegar hvort við viljum hafa varnir á Íslandi.

Um tildrög Atlantshafsbandalagsins þarf ekki að fjölyrða ákaflega mikið. Það hefur þegar verið gert og er óumdeilanlegt, að Atlantshafsbandalagið var stofnað vegna þess, að Sameinuðu þjóðirnar reyndust þess ekki megnugar að gegna því verkefni sínu að halda uppi friði og öryggi í heiminum og hafa þá öryggisgæzlu, þar með varnarlið, sem ráðgert er í stofnskrá þess. Þetta máttleysi Sameinuðu þjóðanna kom af ósamlyndi stórveldanna sín á milli, ósamlyndi, sem við vissulega hljótum að harma, en getum ekki við gert. Og við verðum að játa, að þetta ósamlyndi á sér enn stað. Úr því hefur ekki verið bætt. Við vonum vissulega, að úr því rætist, og það má sjá nokkur merki þess, að betur horfir en áður. En því fer fjarri, að enn sé komið það ástand, að Sameinuðu þjóðirnar gegni því hlutverki sínu að halda uppi friði og öryggi í heimsbyggðinni. Það er glöggt dæmi þess, einmitt það mál, sem er til umr. hér á Alþ. í dag, Víetnammálið, að aðilar sjálfir hafa skorazt undan því, hliðrað sér hjá því, að það væri tekið til umr., hvað þá ákvörðunar, hvort heldur í öryggisráðinu eða á þingi Sameinuðu þjóðanna. Það er þó viðurkennt af öllum, sem segir í tillögugerð, sem hefur átt sér stað hér á þingi og allir hv. stjórnarandstæðingar standa að og ég hygg, að raunar hafi verið samþ. í Ed. í dag, að stór hætta sé á, að Víetnamstyrjöldin geti hvenær sem er breiðzt út og orðið upphaf nýrrar heimsstyrjaldar. Þrátt fyrir þessar staðreyndir hafa Sameinuðu þjóðirnar ekki haft bein afskipti af þessum málum. Það er að vísu svo, að bak við tjöldin hefur aðallega þeirra framkvstj. reynt að koma á friði, en formlega hafa samtökin ekki látið málið til sín taka. Þetta er glöggt dæmi um það máttleysi, sem enn ríkir í þessu höfuðverkefni, sem Sameinuðu þjóðunum var ætlað, og það er ómögulegt að neita því, að þær hafa að þessu leyti mjög brugðizt þeim vonum, sem menn báru til þeirra. Með því er ekki sagt, að Sameinuðu þjóðirnar hafi ekki reynzt mjög nytsamlegar. Þær hafa vissulega unnið mörg mjög góð verk, og enginn okkar vill verða þess áhorfandi, að þær leggist niður eða þessi samtök rofni. Við vonum þvert á móti, að sá tími komi, að Sameinuðu þjóðirnar verði þess umkomnar að gegna sínu meginhlutverki, vegna þess að þær eru eðli sínu samkv. og samkv. berum ákvæðum stofnskrárinnar, þá eru þær hernaðarbandalag, fram hjá því verður ekki komizt. Það var einn þeirra megintilgangur. En þessu meginverkefni hefur aldrei verið fullnægt. Og við skulum gera okkur það vel ljóst, að jafnvel þó að Sameinuðu þjóðirnar tækju við þeirri öryggisgæzlu, sem Atlantshafsbandalagið nú hefur í vissum hluta heims, þá er engan veginn þar með sagt, að við værum lausir við það að þurfa að hafa varnarlið í þessu landi. Það gæti vel að því komið, að Sameinuðu þjóðirnar óskuðu eftir einmitt slíkri bækistöð hér á landi. Einmitt á þeim tíma, þegar menn enn vonuðu, að Sameinuðu þjóðirnar gætu gegnt þessu hlutverki sínu, þá talaði þáv. forseti Íslands, herra Sveinn Björnsson, einu sinni um það í ræðu, sem hann flutti, að vel gæti komið til þess, að Íslendingar yrðu að láta þeim, Sameinuðu þjóðunum, bækistöð í té til þess að geta gegnt þessari skyldu sinni. Þannig er það ekki neitt nýtilkomið og ekki sérstaklega bundið við Atlantshafsbandalagið, að við séum í hernaðarbandalagi og verðum að vera við því búnir að inna eitthvað af höndum til þess að halda uppi öryggi í heiminum að okkar leyti.

En eins og ég segi, þá er það staðreynd, að Sameinuðu þjóðirnar voru ekki á sínum fyrstu árum og eru ekki enn megnugar að gegna þessari höfuðskyldu sinni. Og því verður ekki heldur lengur mótmælt og allra sízt nú síðustu dagana verður því mótmælt, að Sovétstjórnin fylgdi útþenslustefnu, mjög ótvíræðri og hatrammri, á árunum þangað til Atlantshafsbandalagið var stofnað. Síðasta dæmi þess, sem gerðist á þeim árum og var beinn undanfari stofnunar Atlantshafsbandalagsins, var valdataka kommúnista í Tékkóslóvakíu. Nú hefur nokkuð rofað til í Tékkóslóvakíu, og svo virðist a. m. k. um sinn sem þar sé meira frelsi en áður. Eitt af því fyrsta, sem þessir frjálshugsandi menn nú segja, eftir að þeir eru orðnir svo lausir við undirokun, að þeir láta uppi, hvað í brjósti þeirra býr, þá segir eitt höfuðmálgagn ríkisstj. þar í landi, að þáv. utanrrh. hafi verið myrtur af sendimönnum sovézku stjórnarinnar á árinu 1948, þannig að Sovétstjórnin hafi þá haft beina íhlutun í mál Tékkóslóvakíu með þessum hætti. Þetta var mjög vefengt af málsvörum Sovétmanna á sínum tíma. Nú er þessu haldið fram af hinum nýju valdamönnum í Tékkóslóvakíu og þess krafizt, að þetta sé kannað til hlítar. Það verður þess vegna ekki með neinu móti haldið fast við það af málsvörum þessara manna, að það hafi verið að ófyrirsynju, sem menn óttuðust útþenslustefnu Sovétstjórnarinnar á þessum tíma. Þarna er um að ræða alveg ný gögn, nýjar fullyrðingar frá þeim, sem gleggst mega um vita, að allt, sem þá var haldið fram af þeim, sem vildu gjalda varhug við þessari útþenslustefnu, hefur reynzt vera rétt. Við verðum einnig að játa, að eftir að Atlantshafsbandalagið var stofnað, hefur tekizt að stemma stigu við þessari útþenslu í þeim hluta heimsins, þar sem Atlantshafsbandalagið tekur til. Um það verður ekki deilt.

Hins vegar skulum við einnig hafa í huga, að önnur merki þessarar útþenslustefnu hafa sézt síðan. Við skulum minnast Ungverjalandsmálsins 1956, við skulum einnig minnast afskipta Sovétstjórnarinnar af deilunni milli ríkjanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Við skulum gera okkur það alveg ljóst, að Sovétstjórnin, sem áður fyrr hafði engar bækistöðvar eða aðstöðu í Miðjarðarhafinu, er nú orðin annað mesta flotaveldi í þessu gamal-umdeilda hafi, að Sovétstjórnin hefur einmitt á síðasta árabili stórlega styrkt stöðu sína á þessari mjög þýðingarmiklu siglingaleið. Þar sem færi gefst til, sýnist því enn vera svo, að Sovétstjórnin reyni að styrkja stöðu sína og sækja fram.

Þetta er ekki sagt í neinu áfellisskyni gagnvart Sovétstjórninni. Það er einungis verið að rifja upp óumdeilanlegar staðreyndir. Þetta er óhagganlegt. En þar sem Atlantshafsbandalagið hefur tekið til, hefur jafnvægi haldizt og menn verða vissulega að hugsa sig um oftar en einu sinni, áður en þeir vilja, að það jafnvægi raskist á ný, og reyna að gera sér grein fyrir öllum afleiðingum þess. Það er talað um það af sumum, að það eigi að koma á öryggisbandalagi allrar Evrópu. Við vitum að um þetta er talað, og ég tel, að út af fyrir sig væri æskilegt, að leitað væri eftir því, hvort slíkur öryggissáttmáli fengist gerður. En að sjálfsögðu yrðu Bandaríkin að vera með sem aðili að slíkum öryggissáttmála. Á dögum okkar, sem nú lifum og þykjumst ekki vera komnir enn þá á grafarbakkann, hefur það tvisvar skeð, að Bandaríkin hafa orðið að koma til Evrópu, ekki eftir eigin ósk, ekki fyrr en eftir þrábeiðni frjálshuga manna í Evrópu, til þess að bjarga þeim frá ógnaröflum, sem ella hefðu hlotið yfirráð í álfunni. Það væri of mikil gleymska, of mikil blindni á samhengi sögunnar, á þær hættur, sem yfir vofa, ef menn héldu nú, að Evrópa væri orðin þess umkomin að geta tryggt öryggi sitt ein, eins og allt er í óvissu enn. Við skulum líka minnast þess, að þó að það séu liðin meira en 20 ár, meira en tveir áratugir, jafnlangt tímabil eða lengra þó en var á milli heimsstyrjaldanna tveggja, er enn ekki búið að semja frið á milli Bandamanna og Þýzkalands. Þýzkaland er enn án friðarsamninga, og Þýzkaland er enn klofið, liggjandi í miðri Evrópu með óleyst öll sín vandamál. Við getum haft hverja þá skoðun sem við viljum á því, hvernig lausn eigi að verða á þessum vandamálum. En um það verður ekki deilt, að þessi vandamál, höfuðvandamálin, sem áttu verulegri þátt í því, að tvær heimsstyrjaldir brutust út einmitt í sambandi við þetta land, þau vandamál eru óleyst enn, um þau er ósamið, og það er auðvitað alveg fráleitt að telja, að öruggur friður sé kominn á í heiminum, jafnvel í okkar heimshluta, meðan þetta vandamál er enn með öllu óleyst og ekki eygir enn fyrir, hvernig fram úr því verði ráðið. Ég veit það, að ýmsir í Austur-Evrópu, vafalaust Sovétstjórnin og ýmsir fleiri, hafa mikla tortryggni í garð Vestur-Þjóðverja. Sjálfur er ég sannfærður um það af minni þekkingu, sem víst er takmörkuð, að þeir hafa fullan hug á friðsamlegri sambúð við Austur-Evrópu og á þeim stendur ekki um að ná samningum. En þarna ríkir enn tortryggni á milli, tortryggni, sem verður að eyða, áður en við getum sagt, að það væri vit fyrir Evrópu að kasta frá sér aðstoð og aðild þeirra, sem tvisvar á okkar ævi hafa orðið að skerast í leikinn til þess að bjarga frelsi og ég vil segja a. m. k. í síðara skiptið velsæmi í heiminum. Það er einnig alger misskilningur, þegar því er haldið fram af sumum, að Frakkland hafi gengið úr Atlantshafsbandalaginu. Við getum haft ólíkar skoðanir og höfum áreiðanlega á atferli de Gaulles og hversu heppilegar margar hans framkvæmdir hafi verið, en enn hefur hann ekki sagt Frakkland úr Atlantshafsbandalaginu. Hann er aðili þess, og eftir þeim upplýsingum, sem enn liggja fyrir, hyggjast Frakkar ekki segja sig úr bandalaginu í náinni framtíð. Þeir, sem gerst þekkja, telja því, að jafnvel þó að þeir séu fúsir til samkomulagsumleitana við Austur-Evrópu og sjálfsagt sé að stuðla að því, að þær geti átt sér stað, þá sé ekkert vit í því á þessu stigi mála, að Evrópa geri án atbeina og aðildar Norður-Ameríku öryggissáttmála sín á milli, sem kæmi í stað Atlantshafsbandalagsins.

Þeim mun fjarlægara er það, sem mér skildist, að hv. 4. landsk. þm., Jónas Árnason, talaði um, að bandalag Norðurlanda gæti komið hér í staðinn. Hann talaði nú að vísu allóglöggt um það bandalag, er ætlunin væri að stofna. Hann talaði um það sem hlutlaust bandalag. Nú erum við að vísu í bandalagi við Norðurlöndin, með aðild okkar að Norðurlandaráði og Helsingfors-samningnum frá 1961, en það er ekki varnarbandalag. Það var ómögulegt að skilja hv. þm. öðruvísi en svo, að hann ætti í raun og veru við varnarbandalag, en hann fékkst ekki til þess að nefna það orð. En hann talaði um, að bandalag Norðurlanda gæti komið fyrir Íslendinga í staðinn fyrir Atlantshafsbandalagið. Það er alveg nauðsynlegt, að það sé ljóst, við hvað er átt. Er hér í huga hans og þeirra sem hugsa á sama veg, ætlunin, að varnarbandalag Norðurlanda komi í staðinn? Þá ætlast þeir til þess, að Ísland sé eftir sem áður í sérstöku varnarbandalagi fyrir utan Sameinuðu þjóðirnar. Það er vissulega til athugunar, hvort slíkt bandalag fengist stofnað, hvort það sé í raun og veru nokkur kostur á að fá t. d. Svíþjóð til þess að taka ábyrgð á öryggi Íslands í varnarbandalagi. Ekki mundi standa á mér að kanna það atriði til hlítar. Slíkt hlýtur að hafa þýðingu fyrir ákvörðun okkar um frambúðarskipun okkar málefna. Hitt er svo fráleitt, þegar hv. 4. landsk. þm. talar í sömu andrá um hlutleysi Svía og Finna. Þetta hlutleysi er auðvitað ákaflega ólíkt. Svíar eru hlutlausir og hafa fylgt þeirri stefnu lengi. Finnar vilja vera hlutlausir, en þeir eru í varnarbandalagi við Sovét-Rússland, fram hjá því verður ekki komizt. Þeir eru í varnarbandalagi, mjög sérstaks eðlis að vísu, við Sovét-Rússland, bandalagi, sem veitir Sovét-Rússlandi mjög víðtækar heimildir til hernaðaraðgerða í Finnlandi, ef á þarf að halda, svo að aðstaða þessara þjóða er auðvitað gersamlega ólík. En það er þeim báðum sameiginlegt, að þær vilja vera hlutlausar og þær vernda sitt sjálfstæði með mjög miklum herafla. Hvorugri þjóðinni, þeir finnsku né sænsku, kemur til hugar, að það gagni, eins og heimurinn er, að tala um hlutleysi, án þess að það hlutleysi sé stutt öflugum vörnum. Sú þjóð, sem lengst gengur í tryggð sinni við hlutleysið, Svisslendingar, hefur tiltölulega enn þá öflugri her og varnir, svo öflugar, að það má segja, að hver fullvaxinn borgari sé vígbúinn, hafi vopn til þess að verja land sitt, ef á það verður gerð árás. Hlutleysi án varna er ímyndun, einskis verð, eins og við sárlega fundum til í maí 1940 og ætti í raun og veru ekki að þurfa að fara fleiri orðum um.

Ég tel, að það sé sjálfsagt, — ég hef sagt það oft áður, og það er sannfæring mín, — að við eigum rækilega að skoða okkar aðstöðu nú, þegar aðstaðan breytist varðandi uppsagnarheimild eða úrgönguheimild úr Atlantshafsbandalaginu. Ég tel, að við eigum að nota það tækifæri til þess að kanna þessi mál öll til hlítar og gera okkur grein fyrir þeim. En ég er sannfærður um það sjálfur, að sú skoðun leiði til þess, að því fari fjarri, að tímabært sé að leggja Atlantshafsbandalagið niður eða fyrir Íslendinga að ganga úr því. En ég segi: Við skulum hafa það, sem sannara reynist. Við skulum skoða málin ofan í kjölinn, athuga, hvaða aðrir möguleikar eru fyrir hendi. Hitt skulum við ekki láta okkur koma til hugar, að Íslendingar geti einir allra þjóða og Ísland eitt allra ríkja verið án þess að sjá öryggi sínu borgið. Það leiðir af því, að við erum sjálfstæð, fullvalda þjóð, að við verðum að tryggja okkar fullveldi. Við höfum ekki til þess eigin mátt að halda hér uppi fullnægjandi vörnum, a. m. k. að mínu mati, og þá verðum við að gera það með öðrum hætti, á þann veg, sem meginhluti landsfólksins telur eðlilegastan.

Varðandi hitt atriðið, sem er til umr., hvort hér eigi að haldast bandarískt varnarlið í landinu, er hægt að ítreka það enn einu sinni, að það er sérstakt mál, og það er vel hugsanlegt, og meira að segja sjálfsagt að athuga það til hlítar, hvort yfirlýsing, trygging Atlantshafsbandalagsins verði metin næg til öryggis Íslendingum. Það var von okkar í fyrstu, að svo yrði. Við breyttum síðan um skoðun, vegna þess að við töldum ekki um friðartíma að ræða. Það er að vísu svo, að síðan eru liðin mörg ár. En ég minnti hér áðan á till., sem samþ. hefur verið í Ed. í dag og allir stjórnarandstæðingar standa að, einnig hér í hv. Nd., þar sem talað er um, að nú geisi styrjöld eða stríð, sem geti orðið upphaf nýrrar heimsstyrjaldar, hvenær sem er. Þetta er samþykkt Ed. Alþ. í dag, að það geisar styrjöld, sem menn óttast að geti orðið upphaf nýrrar heimsstyrjaldar hvenær sem er.

Nú segir að vísu hv. 4. landsk. þm., að við ætlum að láta úlfinn gæta lambanna, vegna þess að hættan þarna stafi frá Bandaríkjunum. Ég segi: reynsla Evrópumanna og þar með Íslendinga af Bandaríkjunum er ekki sú, að þau séu árásarþjóð. Þvert á móti hafa þau í tveim heimsstyrjöldum frelsað Evrópu og hafa nú herlið í Evrópu, t. d. í Þýzkalandi, vegna þrábeiðni fólksins sjálfs. Við skulum játa, að Víetnamstyrjöldin er mikið vandamál, og allir vildum við, að þar kæmust sættir á sem fyrst. En það væri fullkominn barnaskapur, ef nokkur okkar þættist þess umkominn að rekja til hlítar orsakir þess harmleiks, sem þar er að gerast. Það er miklu flóknara mál en svo, og það er örugglega ekki vegna þess, að Bandaríkin séu árásarþjóð í eðli, sem þau hafa flækzt í það mál, ef svo má segja, heldur aðrar orsakir, sem ég skal ekki rekja að sinni. Við höfum ekki aðra reynslu af Bandaríkjunum en þá, að þau hafa í einu og öllu gagnvart okkur staðið við skuldbindingar sínar og aldrei látið okkur kenna aflsmunar. Og það er staðreynd, sem hv. 3. þm. Norðurl.v., Ólafur Jóhannesson, sagði áðan, að ákvörðunin um, að varnarliðið skyldi ekki fara 1956, var tekin af Íslendingum. Menn geta svo haft sína skoðun á því, hvort sú ákvörðun hefði ekki verið tekin þrátt fyrir það, þó að Ungverjalandshörmungarnar hefðu ekki átt sér stað. Það verður hver að hafa það um það, sem honum þykir líklegast. En þar beittu Bandaríkjamenn Íslendinga ekki þvingun frekar en þeir beittu þá þvingun, þegar Atlantshafssáttmálinn var samþ. af Íslendingum eða varnarsamningurinn gerður. Þetta gerðu Íslendingar allt af frjálsum vilja. Ég er því sammála, að ég tel ekki heppilegt eða æskilegt, að hér dveljist erlent herlið, varnarlið, um alla framtíð. En ég tel, að okkur beri, alveg eins og 4. landsk. þm. hv. sagði, ekki einungis að hugsa um okkur sjálfa, heldur einnig um aðra, og ég tel, að við eigum bæði vegna annarra og sjálfra okkar að leggja til okkar framlag, til þess að öryggi og valdajafnvægi haldist í þessum heimshluta. Dvöl varnarliðs hér er einn hluti þessa valdajafnvægis og þessa öryggis, og ég er sannfærður um, að þetta hefur hingað til stuðlað að því, að friður hefur hér haldizt, þess vegna eigum við að skoða vel okkar hug, áður en við gerum nokkuð, sem getur stefnt því valdajafnvægi og öryggi í hættu. Þetta er sjálfsagt að skoða, og það er einnig rétt að gera sér grein fyrir því, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, hvort Íslendingar geta tekið við þeim störfum, sem nú eru unnin að verulegu leyti af varnarliðinu, og þjálfað menn til þess, eins og hv. þm. sagði. En þá verðum við að hafa hreinskilni til að segja: Til hvers á að þjálfa mennina? Þá er það til hernaðarstarfa, sem á að þjálfa þá. Það tjáir ekki að vera að tala um, að það eigi að þjálfa þá til einhvers og einhvers. Eftir till. Framsfl. á að fara efnislega að þjálfa menn til hernaðarstarfa. Það má vel vera, að það sé til vinnandi að gera þetta í því skyni að losna við erlent varnarlið úr landi. Þetta er eitt af því, sem við eigum að athuga og velta fyrir okkur. En við eigum að hafa hreinskilni og manndóm, kjark gagnvart sjálfum okkur og öðrum til þess að segja, hvað það er, sem er verið að tala um, með hverju við getum leyst okkar vanda, en þá væri það ekkert sérstakt fyrir Íslendinga, að við yrðum að hugsa um okkar eigin varnir, því að eins og ég segi, þá er ekkert land til, ekkert sjálfstætt ríki til, sem ekki verði að tryggja sínar eigin varnir, sitt eigið öryggi. Fram hjá þeirri staðreynd komumst við Íslendingar ekki frekar en aðrir.