08.02.1968
Neðri deild: 59. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (2161)

86. mál, hægri handar umferð

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni í sambandi við þetta frv. gat ég þess, að ég mundi að mestu leyti leiða hjá mér deilurnar um það, hvort æskilegra væri að taka upp hægri umferð hér eða halda vinstri umferðinni. Það mál hefði verið til lykta leitt á sínum tíma, og spurningin væri um það nú, hvort ætti að fresta þessu máli. Ég var einn af þeim, sem greiddu atkv. með málinu á sinni tíð, og gerði hins vegar grein fyrir því í ræðu minni, að þannig væri háttað að mínum dómi undirbúningi málsins, að það væri mjög óráðlegt, úr því sem komið væri, að hefja hinar fyrri deilur, en um það sýndist hv. þm. sitt hvað, eins og fram hefur komið, þegar vitnað hefur verið til atkvgr. hér í þinginu, þó að ríflegur meiri hl. væri í báðum deildum fyrir þeirri löggjöf, sem þá var sett. Ég skal að mestu leyti einnig halda mig við það í þessari ræðu minni að leiða hjá mér þessar deilur, sem fram hafa komið í umr. manna nú og hafa verið með nokkuð sérstökum hætti, því að við höfum ekki einungis þurft að hlýða á óvanalega langar ræður í þessu máli, heldur hafa sömu ræðurnar verið fluttar fyrir okkur tvisvar og þar að auki lesnar ræður, sem fluttar hafa verið hér í þinginu fyrir mörgum árum. Þetta er ákaflega óvanalegt hér í þingsölum.

Ég ætla nú alveg að leiða hjá mér þann kosningaham, sem sumir settu sig í hér og fóru að tala um, að menn skyldu fá að kenna á hlutunum við næstu kosningar, og þá vissu menn, hvað þjóðin vildi, o.s.frv. Ég held, að það sé miklu betra, að við reynum að stilla skap okkar, málið sé þannig vaxið, að það fari betur á því, að það verði afgreitt hér með öðrum hætti en þeim.

Það er náttúrlega erfitt að eiga við hv. 4. þm. Reykv. í þessu máli, því að hann hefur valið sér tvær leiðarstjörnur og ekki af verri endanum, aðra Björnstjerne Björnson og hina Jón heitinn Þorláksson, og segist nú bara fara að þeirra ráðum í þessu máli. Ekki hefur nú þessi hv. þm. alltaf farið að ráðum Jóns heitins Þorlákssonar, hvað sem segja má um málafylgjuna við Björnstjerne Björnson. En það, sem gaf mér sérstakt tilefni til að standa upp, er m.a. það, að hv. 4. þm. Reykv. sagði á síðasta fundi, þegar þetta mál var rætt, og endurtók það nú, að farið hefði verið á bak við bifreiðastjórastéttina, og einkum, að lögin hefðu verið samþykkt hér á röngum forsendum í þinginu. Um þetta urðu nokkur blaðaskrif í sumar, að 1. hefðu verið samþ. á röngum forsendum og það hefðu legið villandi upplýsingar fyrir þinginu, þegar l. voru sett, og það var endurtekið af einhverjum öðrum, sem ég man nú ekki, hér í þessum umr., að einstakar stjórnir í félögum bifreiðaeigenda og bifreiðarstjóra hefðu tjáð sig um málið, en aldrei verið tekin afstaða til þeirra á félagsfundum eða af þeim aðilum, sem bæri um það að fjalla. Þetta var á s.l. vori, eins og ég sagði.

Það mun hafa verið í marz–apríl 1967, sem um þetta urðu nokkur blaðaskrif og því var sérstaklega haldið fram, að það væru aðeins stjórnir félaganna, og nokkrir bílstjórar héldu því fram með mjög ógætilegum orðum, að það hefði verið farið með klár ósannindi í þskj., eins og það var orðað, eða eitthvað því um líkt. Já, það stóð þannig með undirskrift nokkurra bifreiðarstjóra, með leyfi hæstv. forseta, þar sem sagt var í grg., að vissir aðilar hefðu tjáð sig með þessu máli, eins og Landssamband vörubifreiðarstjóra og Félag ísl. bifreiðaeigenda. Hér getur að líta hrein og klár ósannindi hvað Landssamband vörubifreiðarstjóra og Félag ísl. bifreiðaeigenda snertir. Báðir þessir aðilar svöruðu fyrir sig þá, og ég bjóst þess vegna ekki við því, að þetta hefði farið fram hjá hv. þm. núna, og það kom alveg greinilega í ljós, að þetta var alveg hrakið. Það má svo vel vera, að einhverjum af þessum mönnum hafi snúizt hugur eins og hv. 4. þm. Reykv. Það er önnur saga, hvort svo er og hvort einhverjir af þeim, sem þá tjáðu sig um málið, voru ekki andvígir því, hafi síðan skrifað undir einhver mótmæli. En þingið afgreiddi ekki málið á röngum forsendum að þessu leyti.

Um Landssamband vörubifreiðarstjóra liggur það fyrir, að það mun fyrst hafa verið 21. marz 1964, að stjórn þess þá svaraði fsp. frá Alþingi um afstöðu til þáltill., sem þá var hér uppi um að athuga undirbúning að hægri umferð, og tjáði sig meðmælta henni. En síðan upplýsir stjórnin, að á 6. þingi Landssambands vörubifreiðarstjóra, sem haldinn var í Reykjavík dagana 7.–8. nóv. 1964, var eins og ávallt á þingum sambandsins rætt um umferðarmál, og gerði þingið sérstaka samþykkt um málið, og síðan er öll samþykktin rakin. En það, sem hér skiptir máli í því sambandi, er þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Að lokum lýsir þingið yfir fullum stuðningi við álitsgerð stjórnar Landssambands vörubifreiðarstjóra, dags: 21. marz 1964, þar sem mælt er með því við Alþ. af hálfu samtakanna, að hér á landi verði tekinn upp hægri handar akstur, og telur, að slík samræming við þróun umferðarmála í öðrum löndum stuðli að auknu umferðaröryggi.“

Þessi samþykkt 6. þings Landssambands vörubifreiðarstjóra var á sínum tíma birt í blöðum og útvarpi, auk þess sem hún var birt í þingtíðindum sambandsins, en þau eru send öllum vörubifreiðarstjórafélögum innan sambandsins. Af framansögðu er ljóst, að þing sambandsins, sem er æðsta vald í málum þess, hefur tekið mál þetta fyrir og gert um það sérstaka samþykkt, sem staðfestir, að allar aðgerðir sambandsstjórnar voru í fullu samræmi við vilja þingsins. Þetta liggur sem sagt fyrir í nóvembermánuði 1964.

Félag ísl. bifreiðaeigenda gerði einnig grein fyrir sínu máli, og þar var það rakið, að samkv. sögu þess frá upphafi höfðu fyrirsvarsmenn þess og stjórnendur ætíð álitið, að æskilegt væri að hafa hægri umferð hér á landi, og félagsstjórnin hafði margsinnis mælt með því, og segir í grg. frá félaginu á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta :

„Um áramótin 1964–1965 var kunnugt, að ríkisstj. hafði í undirbúningi lagasetningu um breytingu í hægri handar umferð, og þótti stjórn FÍB því eðlilegt, að mál þetta yrði enn einu sinni borið fram til umr. og atkvgr. Á aðalfundi var lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Aðalfundur FÍB, haldinn 3. marz 1965, telur, að hraða beri ákvörðunum um breytingu í hægri handar akstur hér á landi, þar sem breytingin er framtíðarnauðsyn og kostnaður við hana fer hraðvaxandi með ári hverju, sérstaklega ef ekki verður hafizt handa um nauðsynlegan undirbúning strax.“

Ályktun þessi var samþ. með shlj. atkv. og enginn ágreiningur um þetta þá á aðalfundi, svo að aðalfundur hefur algerlega staðfest þessar fyrri yfirlýsingar stjórnarinnar í þessu sambandi, sem áður er búið að gera grein fyrir og ég þarf ekki að rekja. Og síðan er bent á, að í blaði félagsins hafi verið skýrt frá afskiptum stjórnarinnar af málinu árin 1963, 1964 og 1965.

Samkv. þessu fæ ég ekki skilið, hvernig menn geta nú sagt, að það hafi verið á röngum forsendum og vegna villandi upplýsinga, eins og segir í grg. frv. um hægri handar umferð, að þm. þá hafi afgreitt málið. Þetta finnst mér nauðsynlegt að komi fram.

Hv. 4. þm. Reykv. hefur gerzt mikill talsmaður þessa máls hér nú og telur tvær ástæður fyrir því, — ég veit ekki, hvort hann hefur breytt um skoðun eða tekið ákveðna skoðun. Það eru annars vegar villandi upplýsingar um kostnaðinn og svo afstaða bílstjóranna. Ég skal ekki frekar víkja að þeim nú. Það er kunnugt, að ýmis samtök bílstjóra og einstakra félaga og undirskriftir hafa verið á móti málinu, sem haggar ekki því, að það er rangt, sem haldið er fram, að Alþingi hafi á sínum tíma verið eitthvað hlunnfarið í þeim efnum.

Um kostnaðinn má náttúrlega lengi deila. Það hafa verið birtar villandi tölur. Ég gaf við fyrri umr. skýrslu um, að það virðist nokkurn veginn, að sú áætlun, sem lá fyrir, mundi standast, en þó fer ýmislegt þar fram úr áætlun, eins og t.d. umferðarfræðslan, sem ekki hafði sérstaklega verið ætlað fyrir, og hefur framkvæmdanefnd hægri aksturs verið heimilað að verja til hennar allt að 8 millj. kr. Það má segja, að þetta verði umfram áætlaðan kostnað, eins og vikið hefur verið hér að. En auðvitað þarf að verja fé til umferðarfræðslu, hvort sem er hægri umferð eða vinstri umferð hér á landi, svo að það skiptir í sjálfu sér ekki mjög miklu máli í þessu sambandi. Hann talaði einnig um mjólkurflutningana, að þeir yrðu miklu kostnaðarsamari vegna hraðatakmörkunar. Þetta benti ég á í fyrri ræðu minni að væri á misskilningi byggt, því að hraðinn væri sá sami á mjólkurbílunum eftir sem áður. Leyfður hraði utan þéttbýlis er yfirleitt 70 km á klst., en undantekningar eru á almenningsvögnum fyrir 10 farþega o. fl. og vörubifreiðar 8,5 smál. eða meira að heildarþunga eða með hlassi, sem ekki mega aka hraðar en 60 km á klst. Þessir bílar eiga að aka aðeins 50 km í 3 daga, mega ekki aka nema 50 km á klst. í 3 daga, en síðan mega þeir halda sínum 60 km ökuhraða, svo að þetta snertir á engan hátt kostnað á flutningum á mjólkinni, þær takmarkanir, sem þarna eru ráðgerðar.

Hv. 4. þm. Reykv. vék að löggæzlunni, og það hafa margir gert, og það er auðvitað augljóst mál, að vegna þessarar umferðarbreytingar verður að auka löggæzluna verulega, og það kann að hafa kostnað í för með sér. Hv. frsm. meiri hl. n. gerði grein fyrir viðhorfi 1ögreglustjóra til þess, og ég vil aðeins segja það, að sumum hefur fundizt, að það væri kannske ekki nógu skelegg afstaða lögreglustjóra til nauðsynjar á aukningu á löggæzlunni. Ég leyfi mér að svara þarna fyrir hönd lögreglustjóra, að hann hefur haft mikinn og vaxandi áhuga á þessum málum frá upphafi og alveg sérstaklega þeirri brýnu nauðsyn á aukinni löggæzlu og góðum undirbúningi, áður en að framkvæmdinni kæmi. Dómsmrn, mun fyrir sitt leyti og hefur þegar ákveðið að hafa samband við alla lögreglustjórana í landinu og samræma aðgerðir þeirra, og það er ástæðulaust að fara nokkuð út í það nánar. En það liggja fyrir ákveðnar ráðagerðir um það, sem allar miða við það að auka eftir fyllstu getu löggæzluna með einum eða öðrum hætti, bæði þetta almenna löggæzlulið og fá að einhverju leyti viðbót við það og að lokum með sjálfboðaliðum, meðan á sjálfri breytingunni stendur, eins og áður hefur verið gerð grein fyrir. Hvort það tekst að koma nógu góðri löggæzlu á, skal ég ekki fullyrða, en hins vegar mun verða lögð megináherzla á það, að þeirra hluta vegna verði hægt að komast sem mest hjá vandkvæðum við þessa erfiðu skiptingu, sem hér er um að ræða, frá vinstri umferð til hægri umferðar, því að það tekur náttúrlega til fleiri en þeirra, sem aka. Það tekur einnig til hinna gangandi.

Ég vil aðeins lýsa nokkuð viðhorfum mínum til þess, sem kannske ræður hvað mestu í mínum huga um að það sé rétt að gera þessa breytingu núna. Ég tel, þó að ég hafi verið uggandi, að reynslan, sem af þessu fékkst hjá Svíum, staðfesti það, að við slíka breytingu sem þessa út af fyrir sig fáist tækifæri, sem ella bjóðist ekki, til þess að kenna allri þjóðinni umferðarreglur og umferðarmenningu, sem síðar er auðveldara að halda við, og þetta geti út af fyrir sig verið alveg ómetanlegt. Mér hefur svo oft orðið hugsað til þess, hversu betur við stæðum að vígi, hefðum við gert þessa breytingu 1940, og í almennum orðum hef ég vikið að því, hvað mikið hefur gerzt á þessum aldarfjórðungi til þess að torvelda framkvæmdina. En það vekur í mínum huga óttann við það, að ef við frestum þessari aðgerð nú, verði eftirkomendur okkar neyddir til þess, eins og Svíar, þrátt fyrir þjóðaratkvgr. á sínum tíma, að taka upp þessa breytingu, og það er ekki vegna þess, að ég álíti, að landamærin breytist eða við flytjumst upp að neinu landi, heldur það, að við lifum á þeim tímum, þar sem tæknibreytingarnar eru svo gífurlegar, að menn þurfa ekki að brosa að því, eins og gert var hér um daginn, þegar hv. 1. þm. Norðurl. e. hélt sína ágætu ræðu, sem var bæði hófleg og rökföst, eins og hans er vandi, en þegar hann sagðist ekki hafa heyrt um það, að skip rækjust á flugvélar eða bílar á skip o.s.frv. En það er ekkert víst, að menn brosi að þessu, áður en langt um líður, og finnist þetta eitthvað afkáralegt. Það hefur verið hér á götum borgarinnar bíll, sem fer bæði á láði og legi, og öllum þessum tækjum getur á sára skömmum tíma fjölgað svo gífurlega, að við gerum okkur ekki í dag neina minnstu grein fyrir því. Auk þess verður sjálfsagt í gífurlega auknum mæli loftumferð hér á landi í minni flugvélum, og okkar land virðist vera einmitt þannig gert, að eina og við höfum að vissu leyti á undursamlegan hátt í — ég vil segja: fátækt þjóðarinnar getað tileinkað okkur flugtæknina, geti menn í náinni framtíð horft fram á þá hluti sem engan hefur órað fyrir í dag um það, hvað umferðin kunni að aukast í lofti, og þá á ég ekki aðeins við í almennum fólksflutningum, heldur bara einkaflutningum manna í lofti, eins og einkaflutningar manna í bifreiðum hafa aukizt á síðasta aldarfjórðungi.

Árið 1940, þegar það var samþ. hér að hverfa til hægri umferðar, en frestað svo, eins og margoft er tekið fram, voru skráðar hér á landi 2080 bifreiðar, og af þeim voru 900 venjulegar fólksbifreiðar, og íbúafjöldinn var þá 121 þús., og það svaraði til þess, að 74 fólksbifreiðar hafi verið á hverja 1000 íbúa, eða eins og menn oftar miða við, 13,4 íbúar á hverja fólksbifreið. En núna árið 1966, eða 26 árum síðar, eru bifreiðar yfir 37 þús., og þar af voru 30400 fólksbifreiðar á móti 900 fyrir 25 árum. Og íbúafjöldinn er þá um 195 þús., og svarar það til þess, að 156 fólksbifreiðar árið 1956 hafi verið á hvert þúsund íbúa eða 6,4 íbúar á hverja fólksbifreið, og það er tekið meðaltal íbúa á bifreið í ársbyrjun og árslok. Árið 1967 má ætla, að þetta hlutfall hafi breytzt aðeins, en samkv. spá Efnahagsstofnunarinnar, sem gerð var í febrúar 1967, var gert ráð fyrir því, að 169 fólksbifreiðar væru þá á hverja 1000 íbúa eða 5,9 íbúar á hverja fólksbifreið. Ef við horfum fram í tímann, er gert ráð fyrir því með svipaðri spá, sem menn verða að taka með fyrirvara, að á árinu 1981, eftir 14 ár, verði hér á landi 260 þús. íbúar og 98400 bifreiðar alls, en fólksbifreiðar 89 þús. eða tæpar 90 þús., og samkv. því verða þá 2,9 íbúar á hverja fólksbifreið, en fjöldinn er orðinn þetta mikill, 90 þús. Það hefur verið spáð, að fólksfjöldinn geti orðið hér á landi nálægt 400 þús. um aldamót. Að vísu hefur dregið úr hugboði manna um fjölgunina, segjum bara um 360 þús., og ég skal ekki leiða neinum getum að því, hvað bílafjöldinn verður orðinn mikill þá, og ég skal ekki heldur vera með neina spá, því að ég er enginn Jules Verne, um það, hvers konar farartæki verði þá hér á Íslandi. Og um miðja öldina næstu eða árið 2050 minnist ég þess að hafa séð á sínum tíma spá um það, að þá yrðu Íslendingar um 1 millj. manna. Þetta er nú ekki mjög langur tími, sem við erum að tala um, en 1 millj. Íslendinga og hlutfallslega jafnmörg farartæki og eru í dag, og svo skulum við taka hlutfallslega jafnmikil aukin samskipti við umheiminn eins og við höfum aukið okkar samskipti við umheiminn á liðnum 25 árum.

Það er þetta, sem er mjög ofarlega í mínum huga, að segja mætti, að við gerðum bezt í því í dag að varpa af okkur áhyggjunum, vera ekki að taka þennan vanda á okkar herðar, hafa engan kostnað af því, enga örðugleika af að breyta umferðarreglunum. En enda þótt við gerðum það og það væri þægilegast fyrir okkur, mundum við vera að varpa margfalt meiri vanda yfir á herðar eftirkomendanna. Og það er athyglisvert atriði líka, að í sambandi við íbúafjöldann má benda á, að eldri aldursflokkunum í þjóðfélaginu, sem talið er; að einna erfiðast eigi með að laga sig að breyttum háttum, og það er alveg rétt, sérataklega í þessu sambandi, að þeim fer sífellt fækkandi. Í mínum huga hefur þess vegna allt hnigið að því nú sem fyrr, að við ættum að halda áfram að settu marki og hverfa ekki frá þessari aðgerð, enda þótt ég viðurkenni fyllilega, að það eru auðvitað mörg sjónarmið í þessu máli, og það hefur verið haft eftir mér, sem er rétt, að út af fyrir sig er ekki betri vinstri umferð heldur en hægri umferð. Það er aðeins, hvernig við metum þetta í sambandi við aðstæður okkar gagnvart öðrum þjóðum og gagnvart öðrum umferðarreglum í lofti og á sjó. Menn segja sem svo: Aldrei hefur það heyrzt, að sjómenn hafi neinn áhuga á þessu. Nú er það að vísu svo, að ég veit það af hreinni tilviljun, að einn af okkar mikilsvirtustu síldarsjómönnum sagði mér frá því fyrir nokkrum dögum, að þrisvar sinnum var hann tekinn, þegar hann kom af síldveiðunum, fyrir rangan akstur í umferðinni, af því að hann miðaði við hægri umferð. Ekki skeði neitt slys í þessu sambandi, en í öll skiptin fékk hann áminningu fyrir það, að hann færi rangt að í umferðinni. Það er ekki alveg lokandi augunum fyrir því, að þetta verði í vaxandi mæli.

Það hefur oft verið talað um það, að það þýddi ekki að vitna til Svíþjóðar, af því að þeir hafi verið komnir svo langt í umferðarmenningu. Nú hefur ekkert verið sagt um þessa umferðarmenningu hér, heldur bara slegið föstu. Þegar ég var í haust sem leið í Svíþjóð, í Stokkhólmi, og við vorum þar að aka um borgina og maður var að láta í ljós, hvað umferðin fór vel fram, og það er rétt, að það var hægari umferð heldur en oft áður o.s.frv., þá sagði þar maður, Svíi, sem var í bílnum með mér, ók bílnum : „Já, en þú hefðir átt að sjá, hvernig þetta var áður, því að þetta var alveg hreinn „kaos“ hér í umferðinni í Stokkhólmsborg“ — Og það má merkilegt vera, ef það væri tilfellið, að þetta væri bara svona hjá Svíum núna, af því að þeir hefðu áður verið búnir að tileinka sér svo mikla umferðarmenningu. Ég þori ekkert um þetta að segja. En ég nefni þetta bara af því, að það hefur oft verið að þessu vikið. En hér kemur margt til athugunar og ákaflega erfitt að gera samanburð. En þetta er ekki heldur mjög mikilvægt atriði, sem ég skal ekki frekar fara út í.

En ég vil að lokum víkja að einu atriði, sem fram hefur komið í ræðum hv. stuðningsmanna þessa frv. Þeir hafa sagt og vikið að því, að bæði ég og aðrir hefðum gert ráð fyrir því, ef svo færi, að frv. þetta yrði fellt, þá mundu án efa þeir, sem nú væru andvígir hægri umferð, leggja sig fram sem aðrir um það að stuðla að sem farsælastri framkvæmd, er að því kæmi að breyta frá vinstri til hægri í umferðinni. Ég beindi orðum mínum að þessu leyti alveg sérstaklega að Félagi ísl. vegfarenda, þar sem til þess er vitnað í grg. frv., sem hér er til umr., að tilgangur þessa félaga sé að vinna að bættri umferðarmenningu, og af því dró ég þá sjálfsögðu ályktun, að ef hægri umferð yrði án nokkurs efa tekin hér upp að vörmu spori og eftir að reynt hefði þó verið að hindra það eða tefja án árangurs, yrði það orðin stefna eða tilgangur þessa félags að vinna að sem beztri framkvæmd hins nýja umferðarkerfis, þ. á m. að vinna að því mikilvæga atriði, sem margir hv. þm. hafa bent á, að með þjóðinni skapist samstilltur vilji um framkvæmd umferðarbreytingarinnar, en þetta atriði hefur einmitt verið rómað mjög við framkvæmd hjá Svíum.

Það gladdi mig, að það kom fram hjá hv. 1. flm. frv. í síðustu ræðu einmitt þetta sjónarmið, að ef svo færi, að þetta frv., yrði fellt, mundi hann auðvitað eins og aðrir leggja sitt lóð á vogarskálina, að svo miklu leyti sem hver einstakur getur gert það, til þess að stuðla að farsælli framkvæmd. En það hefur komið fram aðeins eitt sjónarmið, sem ég vildi svolítið vara við. Menn hafa sagt og ég hef heyrt því fleygt, það hefur aðeins örlað á því hér í ræðunum, lítillega þó: Auðvitað verðum við, sem nú erum á móti hægri umferð, með sem farsælastri framkvæmd, þegar þar að kemur, ef þetta frv. verður fellt. — En menn hafa svo bætt við: Við munum þá gera þá kröfu, að þetta og hitt verði gert, og verði það látið undir höfuð leggjast, erum það ekki við, sem berum ábyrgðina, ef illa fer. — Þetta finnst mér alvarlegt mál, því að undir slíku gæti búið, — en það ætla ég auðvitað engum af þeim hv. þm., sem mælt hafa með þessu frv., — að segja sem svo: Ef ekki verður varið hundruðum eða millj. kr. í þetta eða hitt, bætt vegakerfi eða aukna löggæzlu, þá erum við ekki með í spilinu lengur og þá bera aðrir ábyrgðina, á umferðarslysum e.t.v., sem hljótast og erfitt er að koma í veg fyrir, að mundi verða, þó að vinstri umferð héldi áfram, og öðrum vandkvæðum, sem upp kynnu að koma. Ég endurtek það, að mig grunar ekki, að neitt slíkt búi í huga neins þeirra hv. flm., sem að þessu frv. standa, og ekki heldur þeirra, sem hafa talað með því, engan veginn.

Fyrir hönd ríkisstj. vil ég segja það, að hún mun auðvitað af sinni hálfu gera eða láta gera hvað eina, sem tök eru á, til þess að breytingin á umferðarreglunum verði sem bezt, að þær verði sem bezt undirbúnar og megi sem bezt fram fara. Ríkisstj. lét undirbúa frv. til l. um hægri umferð að fyrirlagi Alþingis, og eftir að Alþ. hafði samþ. lög um hægri umferð, hefur hún sem handhafi framkvæmdavaldsins unnið að framkvæmd l. og treystir einnig í þeim efnum á samhug allra, svo alvarlegt og viðurhlutamikið mál sem hér er um að ræða. Eðli málsins samkv. er framkvæmdin fyrst og fremst í höndum embættismanna og þeirra framkvæmdaaðila, sem lögin ákveða, framkvæmdanefndar hægri aksturs, matsnefndar og dómnefndar o.s.frv., eins og mönnum er kunnugt um, umferðarnefnda, lögreglustjóra og löggæzlunnar almennt.

Ég vil svo segja, að hvernig sem fer um þetta frv., hvort sem það verður samþ. eða fellt, skulum við forðast það að stæra okkur af því, að einn hafi sigrað annan, hvernig sem fer. Þetta mál hefur aldrei verið pólitískt, og það hafa allir þm. vikið að því. Það er engum efa blandið, að það eru mörg matsatriði í máli eins og þessu. Því lýk ég orðum mínum nú með því, að enda þótt flutningur þessa máls hafi kannske verkað eitthvað truflandi á undirbúning málsins, held ég, að það sé smáræði og skaði ekki neitt málið, og ég er sammála flm. um það, að út af fyrir sig væri gott að rifja upp gang málsins og ræða málið hér á þingi og vekja athygli fólks á því. En mér finnst, að umr. séu nú þegar orðnar það langar, að menn gætu vel sætt sig við að fara að stytta þær úr þessu, því að það er æskilegra að mínum dómi, að það dragist ekki lengi úr þessu, að úr þessu fái skorizt, og þá, eins og ég segi, hver sem niðurstaðan verður, verðum við allir að sætta okkur við hana og munum að lokum standa eins sameinaðir í því að stuðla að sem beztri framkvæmd málsins, og ég vildi mega vona, að það líði ekki langt úr þessu, að umr. gæti lokið og síðan atkvgr. farið fram eina og lög standa til.