23.10.1967
Neðri deild: 7. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (2272)

3. mál, æskulýðsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Frv. þetta var lagt fyrir síðasta Alþ., skömmu áður en það lauk störfum, og hlaut því ekki afgreiðslu. En því var engu að síður vel tekið, enda fjallar það um málefni, sem almennt samkomulag er um, að nauðsyn sé að sinna í ríkara mæli en nú á sér stað, og æskilegt sé, að sett sé löggjöf um.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hvarvetna er nú litið svo á, að tvö einkenni nútímaþjóðfélagshátta, einkum og sér í lagi í svonefndum velferðarríkjum, hafi haft í för með sér sérstök og sérstæð vandamál, ekki hvað sízt fyrir æskufólk. Ég á hér annars vegar við auknar tómstundir og hins vegar aukin fjárráð. Að sjálfsögðu hefur það verið keppikefli umbótamanna, að vinnudagur styttist og tómstundir aukist þar með og að raunveruleg laun hækki. Hvort tveggja hefur átt sér stað í nútíma iðnaðarríkjum, ekki sízt velferðarríkjunum svonefndu, á undanförnum áratugum.

En smám saman hefur mönnum orðið ljóst, að þessum framförum hafa fylgt ný vandamál, ekki sízt fyrir æskufólk. Auknum tómstundum hefur ekki alltaf verið varið til þess að efla þroska og lífsgleði. Þær hafa oft orðið undirrót lífsleiða, tómleikatilfinningar, öfuguggaháttar og jafnvel glæpa. Og aukin fjárráð æskufólks hafa ekki alltaf orðið til þess, að það noti fé sér til menningarauka eða hollrar skemmtunar, heldur oft til afkáraskapar, óhollra skemmtana og jafnvel skaðlegra nautna. Þetta hefur víða um lönd opnað augu manna fyrir því, að hið opinbera eigi skyldum að gegna í þessum efnum, það sé nauðsynlegt, að hið opinbera stuðli með ýmsum hætti að því, að unglingar noti auknar tómstundir og aukin fjárráð skynsamlega. Skoðanir eru með eðlilegum hætti nokkuð skiptar um það, hversu mikil bein afskipti ríkið eða aðrir opinberir aðilar eigi að hafa af þessum málum eða í hversu ríkum mæli afskiptin eigi að vera óbein, þ.e.a.s. í formi stuðnings við ýmiss konar frjálsa einkastarfsemi á þessu sviði. En ágreiningur virðist ekki um það, að eðlilegt sé, að hið opinbera hafi nokkur afskipti af þessum málum og þá á grundvelli einhvers konar rammalöggjafar um æskulýðsmál.

Ríkisstj. hefur verið ljóst, að eðlilegt væri og skynsamlegt, að sett yrði hér á landi löggjöf um þessi efni, enda er slík löggjöf til í nálægum löndum eða verið að undirbúa hana. Þess vegna var það, að í desember 1963 skipaði ég nefnd til þess að semja frv. til l. um æskulýðsmál, þar sem sett væru ákvæði um stuðning hins opinbera, þ.e.a.s. ríkis og sveitarfélaga, við æskulýðsstarfsemi, er m.a. miði að því að veita æskufólki þroskandi viðfangsefni í tómstundum. Í nefndina voru skipaðir séra Bragi Friðriksson þáv. framkvæmdastjóri Æskulýðsráðs Reykjavíkur, séra Eiríkur J. Eiríksson sambandsstjóri Ungmennafélags Íslands, Gísli Halldórsson forseti Íþróttasambands Íslands, Jón Pálsson tómstundaráðunautur, Jónas B. Jónsson skátahöfðingi, Ólafur Egilsson þáv. formaður Æskulýðssambands Íslands, Ólafur Þ. Kristjánsson stórtemplar, séra Ólafur Skúlason þáv. æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar, Þorsteinn Einarsson íþróttafulltrúi ríkisins og Knútur Hallsson deildarstjóri í menntmrn., sem jafnframt var skipaður formaður n. Frá því í sept. 1965 var Sigurður Þorkelsson fulltrúi á fræðslumálaskrifstofunni skrifari n. N. skilaði áliti í marz 1967, og er þetta frv. samið af n. og flutt hér óbreytt eins og hún gekk frá því.

N. safnaði gögnum um opinberan stuðning við æskulýðsmál í nokkrum löndum, og fylgja sem fskj. með frv. ýmsar upplýsingar um skipan þessara mála í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og sambandslýðveldinu Þýzkalandi. Með tilstyrk Sambands ísl. sveitarfélaga safnaði n. upplýsingum um stuðning sveitarfélaga við æskulýðsmál. Þá safnaði n. ýmsum upplýsingum um framlög hinna frjálsu æskulýðssamtaka sjálfra til starfsemi sinnar, og enn fremur var safnað upplýsingum um félags- og tómstundastarfsemi í skólum. Ýmsum fleiri upplýsingum um æskulýðsmál safnaði n., og er gerð grein fyrir þeim helztu í grg. frv.

Fyrir milligöngu Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna og með fjárhagsstyrk hollenzkra stjórnarvalda kom hingað til lands hollenzkur sérfræðingur í æskulýðsmálum, en hann er framkvæmdastjóri Landssambands æskulýðsmiðstöðva í Hollandi og formaður Sambands hollenzkra æskulýðsfélaga og forstöðumaður stjórnskipaðrar nefndar, sem á að kanna möguleika á setningu heildarlöggjafar um æskulýðsmál í Hollandi. Í sambandi við komu hans boðaði n. til ráðstefnu um æskulýðsmál, þar sem þessi mál voru rædd ýtarlega og allir helztu aðilar, sem hér eiga hlut að máli, fengu tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri. Var sérfræðingurinn nefndinni til leiðbeiningar og aðstoðar við samningu þessa frv.

Frv. er skipt í fimm kafla. Í I. kaflanum eru almenn ákvæði um tilgang laganna og hvaða aðilar skuli njóta stuðnings samkv. þeim. Er þar í fyrsta lagi lögð áherzla á stuðning við svonefnda frjálsa æskulýðsstarfsemi, þ.e.a.s. hin fjölmörgu félagssamtök æskumanna sjálfra og áhugamanna um æskulýðsmál. N. er þeirrar skoðunar, að þessi frjálsa starfsemi eigi að gegna áfram forustuhlutverki í íslenzkum æskulýðsmálum og gangi opinber stuðningur við æskulýðsmál fyrst og fremst til hennar. Allmikill fjöldi æskufólks stendur þó utan þessarar félagsstarfsemi. N. bendir á, að þó að æskilegt sé, að unglingar starfi sem mest innan æskulýðsfélaga í tómstundum sínum, geta þó ýmsar ástæður valdið því, að þeir laðist ekki að slíku félagsstarfi. Bendir n. á, að ekki sé síður mikilvægt, hvernig þetta æskufólk verji tómstundum sínum. Það er einkum fyrir þennan hóp æskufólks, sem ýmis sveitarfélög hafa á síðari árum komið á fót nokkurri tómstundastarfsemi, þ. á m. svokölluðum opnum húsum, þar sem æskufólki í viðkomandi byggðarlagi er venjulega frjálst að koma að vild og njóta dægrastyttingar í menningarlegu umhverfi. N, telur eðlilegt, að frumkvæði í þessum efnum verði áfram í höndum sömu aðila, þótt frv. geri ráð fyrir því, að leita megi til ríkisvaldsins um ýmiss konar stuðning, ef þess er talin sérstök þörf. N. bendir á nauðsyn þess, að eðlileg verkaskipting skapist milli sveitarfélaganna annars vegar og skóla og frjálsra félaga hins vegar, þannig að afskiptum sveitarfélaganna verði haslaður völlur, þar sem starfsemi hinna síðarnefndu sleppir.

Innan skólanna fer að sjálfsögðu fram víðtæk æskulýðsstarfsemi. Nefndin er þeirrar skoðunar, að félagslíf í skólum eigi fyrst og fremst að vera í höndum skólanna sjálfra og aðallega nemenda hvers skóla. N. telur þessa starfsemi mjög mikilvæga og því eðlilegt, að æskulýðslöggjöf taki til hennar og heimili að veita félagslífi í skólum nokkurn opinberan stuðning. N. bendir og á, að ekki sé unnt að líta fram hjá skólunum, ef samræma eigi aðgerðir í æskulýðsmálum þjóðarinnar. Afmarka þurfi afskipti skóla af nemendum utan kennslustunda og stuðla að samvinnu skóla við æskulýðsfélög og sveitarfélög um afnot skólahúsnæðis til æskulýðsstarfsemi á þeim tíma, sem kennsla fer ekki fram í skólahúsnæðinu. Í þessu sambandi má geta þess, að nokkur undanfarin ár hefur menntmrn. heimilað allt að 150 klst. afslátt af kennslustundaskyldu í viku í skólum gagnfræðastigsins í Reykjavík vegna félags- og tómstundastarfsemi í þágu nemenda. Á skólaárinu 1964–1965 var varið um 550 þús. kr. í þessu skyni. Í lögum þeim um skólakostnað, sem sett voru á síðasta Alþ., er heimilað að styðja sambærilega skóla annars staðar á landinu með sama hætti. Þá hefur menntmrn. gengizt fyrir listkynningu í skólum um mörg undanfarin ár.

Íþróttasamtök hafa nokkra sérstöðu meðal æskulýðsfélaganna. Þau hafa með sér sterk heildarsamtök og standa fastari fótum skipulagslega og fjárhagslega en flest eða öll önnur æskulýðssamtök. Þessu frv. er að sjálfsögðu ekki ætlað að veikja að neinu leyti þá aðstöðu, sem íþróttahreyfingin hefur skapað sér, heldur þvert á móti leitast við að veita henni viðbótarstuðning. Og svipuðu máli gegnir um bindindisstarfsemi meðal ungs fólks.

Ekki hefur þótt rétt að útiloka, að stjórnmála- og trúfélög, sem sinna æskulýðsmálum, geti notið góðs af ákvæðum lagasetningar um þessi efni, eftir því sem efni kunna að standa til. Í nágrannalöndum hefur sú stefna yfirleitt orðið ofan á, að opinber stuðningur í þessum efnum fari eftir því, hver verkefnin séu, en ekki hvaða aðilar hafi þau með höndum.

II. kafli frv. fjallar um stjórn æskulýðsmála. N. telur eðlilegt, að framkvæmd laga um æskulýðsmál heyri stjórnskipulega undir menntmrh. og rn. hans. Sums staðar erlendis heyrir þessi málaflokkur undir félmrn., og enn annars staðar hefur verið komið á fót sérstökum æskulýðsmálaráðuneytum. N. er þeirrar skoðunar, að þar sem æskulýðsmál séu nátengd uppeldis- og skólamálum, fari bezt á því, að þau falli undir það rn., sem fjallar um þau mál. Frv. gerir ráð fyrir því, að ráðh. og rn. til aðstoðar í þessum efnum skuli vera 5 manna ráð, æskulýðsráð ríkisins. Ráðinu er fyrst og fremst ætlað að vera ráðgefandi aðili. Verður hlutverk þess að samræma og samstilla þau öfl, sem að þessum málum vinna, því að ekki er ætlað að auka bein ríkisafskipti af æskulýðsmálum, heldur stuðla að því, að störf þeirra aðila, sem nú vinna að slíkum málum, nýtist betur og markvissar. Því er ætlað að vera stjórnvöldunum til aðstoðar við að skapa ákveðna stefnu í æskulýðsmálum í samræmi við efni og anda löggjafarinnar, líkt og segja má, að stefna hafi verið mótuð á sínum tíma við einn þátt æskulýðsmála með setningu íþróttalaga. Ráðið á að vera þannig skipað, að þrír skulu tilnefndir af aðildarsamtökum Æskulýðssambands Íslands og öðrum hliðstæðum æskulýðssamtökum samkv. nánari ákvæðum í reglugerð, einn skal tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga, en ráðh. skipar formann ráðsins án tilnefningar. Skipunartími er 3 ár.

Auk þeirra verkefna, sem ég nefndi áðan, er gert ráð fyrir því, að æskulýðsráðið safni gögnum um æskulýðsmál og fylgist með þróun þeirra. Það á og að efna til umræðufunda um æskulýðsmál eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Er gert ráð fyrir, að þar verði ýmist um að ræða fámenna umræðufundi sérfræðinga á vissum sviðum eða fjölmennar æskulýðsráðstefnur með þátttöku fulltrúa frá stofnunum og félagsheildum. Þá er það hlutverk ráðsins að gera till. til menntmrn. um fjárveitingar til æskulýðsmála.

Gert er ráð fyrir, að ráðinn verði sérstakur æskulýðsfulltrúi ríkisins, er annist framkvæmdastjórn fyrir æskulýðsráð. Slíkur fulltrúi hlýtur að starfa í náinni samvinnu við íþróttafulltrúa ríkisins, æskulýðsfulltrúa þjóðkirkjunnar og framkvæmdastjóra hinna ýmsu æskulýðsráða sveitarfélaganna.

Þá gerir frv. ráð fyrir því, að í hverju kjördæmi skuli vera æskulýðsráð, tala fulltrúa í því fari eftir aðstæðum í hverju kjördæmi, en gert er ráð fyrir, að þeir verði eigi færri en fimm. Talið er æskilegt, að í hverju kjördæmi starfi slíkt ráð, er hafi yfirsýn yfir starf þess svæðis í æskulýðsmálum. Ætlazt er til, að sveitarstjórnaraðilar í hverju kjördæmi undir forustu Sambands ísl. sveitarfélaga setji þessum ráðum starfsreglur. Nú starfa sérstaklega í kaupstöðum sjálfstæð æskulýðsráð eða nefndir. Frv. gerir ráð fyrir því, að þær starfi áfram og nýjar verði stofnaðar, eftir því sem sveitarstjórnum sjálfum kann að sýnast. Það er stefna frv., að sjálfræði og frumkvæði sveitarfélaga í þessum efnum verði í engu skert, en hins vegar er mikilvægt, að starfsreglur slíkra æskulýðsnefnda verði samræmdar eftir föngum, sérstaklega í því skyni, að þær fari ekki inn á svið hinna frjálsu æskulýðssamtaka, þar sem þau eru virk.

Allir þeir, sem sinna æskulýðsmálum hér á landi, virðast sammála um, að eitt af því, sem helzt háir slíkri starfsemi hér, sé skortur á þjálfuðum leiðbeinendum og skortur á fé til að greiða leiðbeinendunum laun. Í frv. er þess vegna gert ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði allt að 50% kostnaðar við þjálfun leiðbeinenda og allt að 50% af launum þeirra. Er litið svo á, að íþróttahreyfingin eigi að njóta tilsvarandi styrks úr íþróttasjóði, þ.e.a.s. 50% af kostnaði við íþróttakennslu. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því, að sveitarfélag greiði annan leiðbeinendakostnað, svo og æskulýðssamtökin sjálf. Verkefni slíkra leiðbeinenda eru mjög margvísleg: leikstjórn, söngstjórn, föndur ýmiss konar, sjó- og búvinna, dans, skák, bridge, bindindisfræðsla, félagsfræðsla og íþróttir. Ákvæði frv. um þennan fjárstuðning frá ríkissjóði eru heimildarákvæði. Það er eðlilegt, að Alþ. sjálft ákveði hverju sinni, hversu miklu fé það vill ráðstafa í þessu skyni. Þótt frv. verði að lögum, veitir það sveitarfélögum og æskulýðsfélögum enga lagakröfu á slíkum stuðningi, heldur fer hann eftir fjárveitingum á hverjum tíma.

Annað atriði, sem menn virðast sammála um, að hái mjög æskulýðsstarfsemi, er skorturinn á leiðtogum, þ.e.a.s. mönnum, sem hafa vilja og getu til að stjórna félagsmálum og skipuleggja þau. Erlendis er reynslan sú, að námskeið, sem haldin hafa verið til að mennta menn til slíkra starfa, hafa borið mjög góðan árangur og orðið til þess að örva menn til ýmiss konar starfa í félagslífi. Æskilegt væri, að slíkum námskeiðum væri komið á fót hér á landi.

Þá er í frv. fjallað um stuðning við sumarbúðir og útivistarsvæði og ferðalög. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að oft hafa hlotizt vandræði af ferðum unglinga að sumarlagi til ýmissa fagurra og vinsælla staða. N. er þeirrar skoðunar, að ein höfuðástæða til þess losarabrags, sem oft og tíðum hefur verið á samkomum eða útiskemmtunum æskufólks víðs vegar um landið, sé skortur á aðstöðu til leikja og dægradvalar og aðrar ófullnægjandi ytri aðstæður, t.d. í hreinlætisefnum. N. telur, að með því að bæta þessar aðstæður megi stíga mikilvægt skref í þá átt að efla menningarlega umgengnishætti á útivistarsvæðum. N. telur, að frjáls æskulýðsfélög og hlutaðeigandi sveitarfélög eigi að hafa frumkvæði í þessu efni, en ríkið eigi að styrkja slíka viðleitni eftir föstum reglum. N. bendir á það, að æskilegt væri að styrkja hér þá sérstöku tegund af útivistarsvæðum, sem nefna mætti tjaldbúðarsvæði eða camping, sem mjög tíðkast erlendis, en setja þyrfti þá um leið ströng og ákveðin fyrirmæli um góða umgengni og reglusemi. Þá bendir n. á nauðsyn þess að efla sumarbúðastarfsemi, þ. e. skilyrði til dvalar í varanlegum húsakynnum að sumarlagi, þar sem aðstaða er til leikja og starfa undir stjórn þjálfaðra æskulýðsleiðtoga.

Frv. gerir ráð fyrir því, að unnt sé að styrkja enn fleiri verkefni en þau, sem ég hef þegar nefnt, t.d. útgáfustarfsemi, fræðslunámskeið og ýmiss konar starfsemi, sem haldið er uppi í svonefndum opnum húsum. Þá er nefndur möguleiki á stuðningi við nýjungar og tilraunir í æskulýðsstarfi, og bendir n. á, að fjölmiðlunartæki nútímans, svo sem sjónvarp, virðast bjóða upp á ýmsa nýja möguleika í æskulýðsstarfsemi.

Þá er í frv. fjallað um stuðning sveitarfélaga við æskulýðsmál. Ýmis sveitarfélög hafa látið sig æskulýðsmál miklu skipta. Nauðsynlegt er, að heilbrigð samvinna komist á milli ríkisvalds og sveitarstjórna á þessu sviði. Gerir frv. ráð fyrir því, að Samband ísl. sveitarfélaga verði tengiliður við ríkisvaldið í þessum efnum og það beiti sér fyrir því, að samdar verði reglur um, hvernig stuðningi ríkisins við starfsemi sveitarfélaganna verði háttað í megindráttum, en menntmrh. staðfesti reglurnar, að höfðu samráði við æskulýðsráð ríkisins.

Ég er sammála því meginsjónarmiði n., sem samning þessa frv. byggist á, að ekki sé rétt að setja í lög nákvæm og tæmandi fyrirmæli um einstök atriði þessara mála, heldur gera ráð fyrir því, að þeim verði skipað með reglugerðum, eftir því sem þróun og reynsla kann að gefa tilefni til. Ég tel þá stefnu n. og frv. rétta að setja á þessu stigi rúma löggjöf, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Á grundvelli hennar má síðan marka breytilega stefnu, eftir því sem þörf er fyrir hverju sinni. Það mundi að sjálfsögðu falla í hlut æskulýðsfulltrúa ríkisins, sem skipa yrði þegar í stað; ef lög þessi næðu fram að ganga, og æskulýðsráðs ríkisins, sem einnig yrði komið á fót þegar í stað, að móta stefnuna í þessum efnum og hafa forustu um það nýja starf, sem eðlilegt væri, að hafið yrði, ef frv. nær fram að ganga. Ég er sannfærður um, að af lagasetningu sem þessari og skipun æskulýðsfulltrúa æskulýðsráðs mundi margt gott geta leitt í þágu íslenzkrar æsku.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.