16.10.1967
Neðri deild: 3. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (2282)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Forsrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki fara í einskisvert karp við hv. stjórnarandstæðinga, sem hér hafa talað. Í þeirra málflutningi hefur lítið nýtt komið fram. Það var áberandi hjá þeim báðum hv. þm., að þeir vildu sem minnst gera úr þýðingu þeirra breyttu viðhorfa um tekjur okkar útflutningsatvinnuvega frá því, sem verið hefur, og virtist þó hv. 6, þm. Reykv. frekar viðurkenna, að þar hefði nokkurn vanda borið að höndum, heldur en hv. 1. þm. Austf., en báðir héldu því fram, að verðlækkunin væri þó ekki meiri en svo, að enn væri verðið sambærilegt við það, sem hefði verið í upphafi viðreisnartímabilsins, svo að ef ríkisstj. hefði haldið rétt á málum, þá væri þessi vandi auðleystur. En hv. þm. gleymdu því þá, sem var aðalatriði þessa máls, að þær auknu tekjur, sem hefur leitt af hækkuðu afurðaverði og aukinni veiði, hafa runnið til þess að bæta lífskjör alls almennings. Hv. viðskmrh. gerði grein fyrir því áðan, hverjir útreikningar eru fyrir hendi um það. Sjálfsagt er hægt að deila um það í einstökum atriðum, en það er ljóst, að þegar á heildina er litið, þá hafa lífskjör alls almennings raunverulega batnað a.m.k. frá því um rúman þriðjung upp undir helming frá því, sem var í árslok 1959. Það er greinilegt, að þessi stórkostlega breyting hefur orðið vegna þess, að þær miklu tekjur, sem til landsins hafa runnið, hafa komið öllum almenningi að gagni. Ef allar þessar tekjur hefðu eingöngu runnið til atvinnurekenda, þyrftu þeir vissulega nú ekki undan að kvarta, þótt þeir yrðu fyrir nokkrum áföllum í bili. En því fer fjarri, að svo sé. Nú hafa þeir að vísu einnig stórbætt sinn hag á þessu tímabili, en óhnekkjanlegt er, að launþegar, allur almenningur, hefur fengið til sín hlutfallslega meira en nemur hlutfalli þjóðartekna, sem sýnir, að atvinnurekendur hafa borgað launþegum hlutfallslega meira, hærri hluta af sínum tekjum en áður var. Þetta stendur óhagganlegt, og ef þessir hv. þm. vilja fallast á það, sem engum kemur til hugar, að almenningur í þessu landi ætti nú að taka upp sömu lífskjör og voru 1959 eða 1960, hefðu atvinnurekendur og atvinnuvegirnir ekki undan neinn að kvarta. Það eina, sem er hins vegar farið fram á, er, að menn hverfi nú um sinn aftur til þess ástands, sem þeir nutu í kringum árslok 1965 og ársbyrjun 1966 eftir hraðasta lífskjarabata, sem orðið hefur í sögu íslenzku þjóðarinnar, þann hraðasta og mesta.

Þetta er auðvitað höfuðstaðreynd, sem engan veginn verður fram hjá komizt. Um hitt þurfum við svo ekki að deila, að allir vildum við hafa getað komizt hjá því að bera fram slíkar till. Við vitum ofurvel, að það er ekki vinsælt og ekki æskilegt að þurfa að bera fram slíkar till. En þeir, sem bera ábyrgð á málefnum þjóðarinnar, verða að líta á hag þjóðarheildarinnar. Þeir verða að horfa til framtíðarinnar, gæta þess, að þjóðarbúið lendi ekki í þrotum. Þeim nægir ekki útsmogin og neyðarleg illkvittni til þess að koma höggi á sína andstæðinga. Þeir þurfa að ráða málum til lykta og láta fyndna illkvittni sem vind um eyru þjóta, vita, að auðvitað eru ætíð til smámenni, sem reyna að nota sér vandræði þjóðarinnar til þess að koma höggi á þá, sem trausts hennar njóta og ábyrgð bera. Það fylgir eðli þess, að þjóðin treystir mönnum, að það eru nokkrir níðhöggar til, sem reyna að gera lítið úr því, sem vel er gert, og það er vissulega fróðlegt, að einn slíkur skuli nú hafa bætzt hér í hópinn í sölum Alþ.

Báðir þessir hv. stjórnarandstæðingar héldu því fram, að ég talaði nú mjög öðrum orðum um efnahagsmálin og þann vanda, sem væri okkur á höndum, heldur en ég hefði gert á s.l. vori. Ég vil einungis af því tilefni, með leyfi hæstv. forseta, vitna til þess, sem ég sagði í síðustu umr., sem voru háðar hér á Alþ. fyrir kosningarnar, síðustu ræðu, sem ég þá flutti hér í hinum almennu stjórnmálaumr. Þá sagði ég m.a.:

„Síðan á miðju s.l. ári hefur hraðfrystur fiskur farið lækkandi í verði, nú þegar yfir 10%, og óttast framleiðendur, — því miður að því er virðist ekki að ástæðulausu, — að lækkunin kunni að verða mun meiri. Á s.l. ári tóku síldarlýsi og síldarmjöl einnig stórkostlegum verðsveiflum, þannig að síldarlýsi lækkaði um 37½% frá því, að það var hæst á árinu, og síldarmjöl um 25%, og er þó rétt að geta þess, að lækkunin frá því verði, sem lagt var til grundvallar um vorið, var nokkru minni eða 29% og 15%. Hvar sem væri mundu þvílíkar verðlækkanir á aðalútflutningsvöru þjóðar vera taldar alvöruefni og raunar meira en það.

Hér er um að ræða atvik, sem engin íslenzk stjórn getur ráðið við. Markaðsverð erlendis er utan valdsviðs okkar, og er þó einnig í þessu efni rétt að hugleiða skammsýni stjórnarandstæðinga. Þeir láta eins og þessar verðlækkanir skipti ýmist litlu máli eða mundu vera vel viðráðanlegar, ef annarri efnahagsstefnu hefði verið hér fylgt. Ekki hafa þeir þó einu sinni haft tilburði í þá átt að gera grein fyrir, með hvaða undrum það hefði átt að verða. Samtímis tala þeir með ýtrustu fyrirlitningu og stöðugum aðvörunum um þátttöku Íslands í hinum miklu markaðsbandalögum, sem nú starfa hér í álfu. Ríkisstj. þarf engrar áminningar við um að gæta fyllstu aðgæzlu í þeim efnum, því að slíka aðgæzlu hefur stjórnin sannarlega sýnt. Fram hjá hinu verður ekki komizt til lengdar, að ein af orsökunum fyrir hinu lága verði á síldarlýsi og því, að háar sölur á ísfiski nýtast ekki sem skyldi, er, að við erum utan þessara bandalaga og njótum þess vegna ekki tollfríðinda af veru þar. Þessi vandi blasir nú þegar við og fer fyrirsjáanlega vaxandi.“

Síðan minni ég á, að vöruútflutningur er rúmlega ¼ hluti af þjóðartekjum okkar og nær verðfallið til rúmlega 2/3 hluta af öllum okkar útflutningsvörum. Ef hið gífurlega aflamagn á síldveiðunum bætti ekki úr skák, mundi vandinn vera miklu meiri en hann þó er. Undir ræðulokin segi ég síðan: afla og verðlags sem raun ber vitni, er ógerlegt að segja fyrir um það, hverjum úrræðum þurfi að beita á hverri stundu, en frelsið mun lengst af reynast bezta leiðarstjarnan. Jafnframt ber að keppa eftir að draga úr óvissu og sveiflum, og verður það ekki sízt gert með því að skjóta fleiri stoðum undir efnahaginn, hagnýta allar auðlindir landsins.“

Þetta er í höfuðatriðum hið sama, sem við höfum verið að segja í okkar ræðum nú. En vandinn hefur reynzt miklu meiri en við gerðum ráð fyrir í vor, verðfallið hefur orðið varanlegra, miklu tilfinnanlegra, sbr. það, að þá var enn reiknað með síldarlýsisverði milli 50 og 60 pund. Nú er það komið niður í 36–37 pund og talið, að það sé engan veginn víst, að það staðnæmist þar. Talið er, að verðlækkun á hraðfrystum fiski sé meiri en nemur 10%. Framleiðendur halda því fram, að það sé nær 20%. Til viðbótar þessu kemur svo hin erfiða síldarvertíð, og þá tjáir ekki að vitna til þess, að það hafi mikið borizt á land hér í sumar. Það verður vitanlega að miða við tækin og kostnaðinn, sem hverju sinni er varið til þess að ná aflanum, og a.m.k. er það svo, að einn hv. þm., sem að vísu á ekki sæti hér í hv. d., en ég sé hér sitja, hefur skrifað undir bréf nýlega til ríkisstj. frá atvinnumálanefnd Norðurlands, þar sem talað er um aflabrest á síldveiðum, að því er ég bezt man. Og hygg ég, að þeir, sem til almennings þekkja, en eru ekki tilbúnir málsvarar verkalýðs og alþýðu þessa lands, líti sömu augum á og hv. þm. Björn Jónsson.

Þá hélt hv. 6. þm. Reykv. því fram og gerði það að aðaluppistöðu í sínu máli, að ég hefði brugðizt loforðum, sem ég hefði gefið verkalýðnum í hinu svokallaða júnísamkomulagi, og gerði þá, þegar hann var að leggja áherzlu á þetta, lítið úr þýðingu niðurgreiðslna og annars þess og fór um þær háðulegum orðum, sem hann raunar hefur gert í blaði sínu langa hríð. Hann hefur talið þær til lítillar blessunar fyrir launþega gagnstætt því, sem hann gerði svo í síðari hluta ræðu sinnar, þegar honum þótti það betur henta að snúa snældu sinni í þá átt. Það verður einnig að segja, að það lætur dálítið einkennilega í eyrum okkar, sem höfum fylgzt með blaðaskrifum þessa hv. þm., að hann skuli nú meta svo mikils júnísamkomulagið. Ég veit ekki nokkurn mann á Íslandi, sem hafi hatramlegar barizt gegn þeirri samningsgerð, og síðar hefur hann átt í kapphlaupi við hv. þm. Þórarin Þórarinsson og hv. þm. Eystein Jónsson um að gera sem allra minnst úr þýðingu þess fyrir launþega landsins, enda hefur það einmitt verið eitt af aðalárásarefnum þessa hv. þm. á hv. þm. Hannibal Valdimarsson, að hann beri ábyrgð á júnísamkomulaginu og því litla, sem þá hafi verið að lotið.

Nú veit ég það, að þessum hv. þm. er auðvitað sízt í huga að vilja láta illt af sér leiða. Hann heldur enn þá, að stjórnmál séu fyrst og fremst stráksskapur, leikaraskapur að reyna að stríða mönnum og annað slíkt. Hann á eftir að læra miklu betur af setu sinni á þingi, sem ég vona að vísu að verði ekki mjög löng. En jafnskarpur lendir í góðum félagsskap. Ég veit, að hv. þm. vill auðvitað jafnvel og við aðrir, þó að hann hafi tekið upp þennan misskilning í sinni baráttuaðferð. En ég segi honum í fullri alvöru, að það er mesti misskilningur, að það greiði fyrir eða auki tiltrú að vera með svikabrigzl gagnvart sínum andstæðingum. Það er höfuðskilyrði þess að geta haft áhrif í lýðræðisþjóðfélagi og áttað sig á lýðræðislegum baráttuaðferðum, að menn geti með eðlilegu móti litið misjöfnum augum á málefni. Viðhorfin eru ólík, og það er ósköp eðlilegt, að sitt sýnist hverjum, og þess vegna höfum við frelsið, að við vitum, að menn geta allir, hver í góðri trú, haft sínar ólíku skoðanir. Og hvað sem um viðskipti mín við verkalýðshreyfinguna verður sagt, frá því að ég tók við því starfi, sem ég hef nú með höndum, hef ég reynt að gæta þess vandlega, að það yrði ekki með réttu á mig borið, að ég brygðist í einu né neinu þeim skuldbindingum, sem ég hef þar gengizt undir eða átt þátt í því, að gerðar væru. Og ég vil taka það alveg ótvírætt fram, að fullyrðingar hv. þm. um það, að ég hafi brugðizt og bregðist verkalýðshreyfingunni og svíki hana nú með því að leggja til, að áhrifum verðtryggingar sé frestað um sinn, en hún að vísu haldi svo áfram aftur, — þessar ásakanir eru gersamlega haldlausar og hljóta að vera byggðar á misskilningi, vegna þess að ég vil ekki trúa því, að hann hefji sinn þingferil hér með því að segja vísvitandi ósatt frá. Það er annað en sá stráksskapur, sem hann tíðkar í skrifum og menn geta skilið, en á raunar ekki heima, þegar alvarleg mál eru rædd hér á Alþingi.

Það kemur raunar glögglega fram, ef menn lesa júnísamkomulagið, að það er tímabundið og þar er ekki ætlunin að skuldbinda ríkisvaldið eða aðila til fastrar vísitölugreiðslu nema þann tíma, sem þeir samningar gildi, sem þá var verið að greiða fyrir, og raunar ekki nema því aðeins, að þeir samningar takist, án þess að grunnkaupshækkun verði. Slíkur er fyrirvarinn samkv. sjálfu júnísamkomulaginu. Ég hef fengið hér hjá skrifstofu þingsins það, sem ég þá sagði, þegar ég lagði frv. fyrir Alþingi hinn 20. okt. 1964, þá sagði ég þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Um einstakar greinar frv. sé ég ekki á þessu stigi ástæðu til þess að fjölyrða. Ég hygg, að miðað við þá ákvörðun að taka upp verðtryggingu launa sé þarna ekki um bein ágreiningsatriði að ræða, a.m.k. sem máli skipta. Á sínum tíma var það skýrt fram tekið, að skuldbinding um gildi þessara laga gilti að sjálfsögðu ekki lengur en þeir samningar eða samkomulag, sem frv. byggist á. Það þótti hins vegar ekki ástæða til þess að hafa neinn slíkan gildistíma ákveðinn í frv. sjálfu. Það verður að fara eftir aðstæðum, viðhorfum á hverjum tíma, hvað í þessum efnum er ákveðið.

Frá því að vísitala fyrst var hér upp tekin, hygg ég á árinu 1939, hefur um hana gilt margháttuð og mismunandi löggjöf. Hún veitir launþegum að vissu leyti tryggingu, það er óumdeilanlegt, en hins vegar hefur hún hættur í sér fólgnar varðandi of öran verðbólguvöxt, sem einnig kemur niður á launþegum eins og öðrum landsmönnum. Það er þess vegna hvorki hægt að segja, að verðtrygging eða vísitala skuli undir öllum kringumstæðum vera lögboðin né heldur að algert bann við þessu skuli að staðaldri vera í lögum. Það verður að fara eftir ástandi og horfum í efnahagsmálum hverju sinni, hvað tiltækilegt þykir í þessum efnum. Eins og á stóð 1960 vegna þeirra breytinga, sem þá voru taldar óhjákvæmilegar og leiddi af ástandi fyrri ára, þótti ekki fært að halda fyrri ákvæðum um vísitölubindingu kaups í lögum. Þessu fylgdi aftur á móti það, að kaupgjaldssamningar voru gerðir til mjög skamms tíma. Vinnufriður varð ærið ótryggur, og þegar það kom í ljós í vor, að það var skilyrði af hálfu verkalýðshreyfingarinnar fyrir samningsgerð, sem að öðru leyti þótti viðhlítandi og átti að standa til eins árs, að verðtrygging kaups væri tekin upp að nýju á þessu tímabili og bannið úr lögum numið, þótti ekki áhorfsmál, að rétt væri að verða við þeim óskum, enda hygg ég, að það sé almannadómur, að mikið hafi áunnizt með þeim vinnufriði, sem í vor tókst að semja um.“

Þetta sagði ég orðrétt hinn 20. okt. 1964 í þessum stól. Og ég vil taka það fram, að í umr. á eftir tóku þátt tveir þm., sem voru aðilar að þessu samkomulagi og höfðu manna mest að því unnið af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, hv. þm. Eðvarð Sigurðsson og hv. þm. Hannibal Valdimarssonar. Þeir líta allt öðruvísi á þýðingu og gildi verðtryggingar heldur en ég, en þeir gerðu enga aths. við þessar yfirlýsingar mínar. Þeir eru þeim efnislega ósamþykkir, en þeir vissu, að þetta voru þær yfirlýsingar, sem ég gaf, áður en þessi samningur var undirritaður, þannig að hann var með öllum fyrirvara gerður um það, að eftir að árstími væri liðinn frá 5. júní 1964, væru menn frjálsir um ákvarðanir varðandi verðtrygginguna eins og önnur atriði, sem þá var samið um og ekki var sérstaklega fram tekið, að skyldu gilda til lengri tíma. Þetta er höfuðatriði, sem er nauðsynlegt að menn átti sig á. Nú get ég ákaflega vel skilið, og það er allt annað mál, ef menn segja þetta rangt, það sé verið að níðast á verkalýð og launþegum með því að afnema verðlagsvísitölu. Það er málefnaleg deila. En það greiðir ekki fyrir máli að blanda inn brigzlyrðum um svik og heitrof, þegar liggja fyrir alveg gagnstæðar yfirlýsingar, fullkominn fyrirvari um, að þetta verði að skoðast eftir aðstöðu hverju sinni.