18.01.1968
Neðri deild: 51. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í C-deild Alþingistíðinda. (2423)

80. mál, söluskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi taka undir það, sem hér kom fram hjá 1. flm. þessa frv. um aðalefni þess. Ég er frv. samþykkur í öllum aðalatriðum, ég álít, að innheimta á söluskatti, af þeim viðskiptum, sem upp eru talin í þessu frv., sé alveg fráleit.

Ég vil minna á það í þessum efnum, að við Alþb.menn höfum flutt hér nokkrum sinnum á Alþ. till. um það að lækka söluskattinn eða afnema hann með öllu á ýmsum greinum, og það er enginn vafi á því, að það er réttmætt að fella niður söluskattinn, a.m.k. á því, sem þetta frv. fjallar um. Það er rétt, að menn hafi það í huga, að þegar söluskatturinn var aftur lagður á í smásölu á sinum tíma, var hann tiltölulega lágur og var alltaf sagt, að hann yrði mjög lágur, eða rétt í kringum 3%. En síðan hefur söluskatturinn jafnt og þétt verið hækkaður úr 3% upp í 5½% og síðan upp í 7½%, eins og hann er nú, ásamt svo söluskattinum af innfluttum vörum. Og það er því komið þannig, að á brýnustu lífsnauðsynjum t.d. eins og fiski, sem menn kaupa svo að segja daglega í matinn, eða ýmsum kjötvörum, er innheimtur 7½% söluskatturinn jafnt og þétt verið hækkaður úr 3% azt, eins og menn vita, í meðförum þeirra, sem hafa með fiskinn að gera til sölumeðferðar, frá því verði, sem annars er skráð til fiskimannanna eða fiskibátanna, sjá menn það, að 7½% söluskattur er orðinn talsvert mikill skattur á hverju kg.

Nú liggur auðvitað fyrir, að fiskverð hækkar. það hefur þegar verið tilkynnt, að fiskverð muni almennt hækka um 10%, og þó er búizt við því, að fiskverðið hækki nokkru meira á úrvalsfiski, einmitt þeim fiski, sem aðallega fer til neyzlu innanlands. Það stendur því auðvitað fyrir dyrum almenn hækkun á þessum lífsnauðsynjum almennings, fiski, og á svo að leggja ennþá hærri söluskatt á fiskinn en gert hefur verið, í krafti þess, að það á að innheimta þar 7½%? Ég álít, að einmitt núna, eins og á stendur, væri rétt að horfast í augu við þennan vanda og fella niður söluskattinn, t.d. af fiski, sem seldur er hér á innanlandsmarkaði, fella niður þennan 7½% skatt. Og nákvæmlega það sama tel ég, að eigi að gera varðandi kjötvörur, sem hér eru seldar. Það sjá auðvitað allir, að það er auðvitað hreinasta vitleysa að vera að leggja þennan skatt á í þeim tilfellum, þar sem um er að ræða niðurgreiðslu á verðlaginu frá hálfu ríkisins. Þá er þarna aðeins um óþarfa vinnu að ræða, sem allar líkur eru einmitt til, að leiði til meiri verðlækkunar hjá almenningi en sem nemur tekjuaukanum hjá ríkinu af þessum skatti. En svo ber auðvitað einnig þess að gæta, eins og hér hefur komið fram, að hér er um að ræða þó nokkrar kjötvörutegundir, sem ekki eru greiddar niður og hafa alltaf átt hér í vök að verjast á markaði, vegna þess að þær hafa ekki notið neinnar niðurgreiðslu, eins og t.d. aðalkjötvörurnar, sauðfjárafurðirnar, og af þeim ástæðum er auðvitað ennþá minni ástæða til þess að fara að skattleggja þær í sölumeðferðinni sérstaklega með þessum söluskatti í smásölunni. Þessi skattur á því að leggjast niður að mínum dómi. Og eins og nú er ástatt með þróun verðlagsmála og útlitið er í kaupgjalds- og kjaramálum er sérstök ástæða til þess nú að undirstrika það, að nú væri réttmætt að nota tækifærið til að fella þennan skatt niður, hann getur ekki skipt ríkissjóð verulega miklu máli, og talsverð hætta er á því, að allmikið af þessum skatti skili sér aldrei til ríkissjóðs. Það eru einmitt þannig aðilar í ýmsum tilfellum, sem hafa þau viðskipti með höndum og eiga að greiða þennan skatt, að það verður að teljast mjög vafasamt, að hann skili sér alla leið til ríkisins.

Ég er einnig samþykkur því ákvæði í þessu frv. að leggja það til, að söluskatturinn verði felldur niður af vátryggingariðgjöldum fiskiskipa. Það hefur í rauninni alltaf verið alveg furðulegt að innheimta þennan söluskatt af vátryggingariðgjöldunum á sama tíma, sem það hefur svo verið hér í l., að ríkið hefur þar hlaupið undir bagga að verulegu leyti um langan tíma, eða a.m.k. með alveg ákveðinni aðferð. Það má vera, að ætlunin sé að fella niður þann söluskatt, og þá er það gott út af fyrir sig, en það er ekki nægilegt. Það á að fella niður söluskattinn í öllum þeim greinum, sem fjallað er um í þessu frv., og þyrfti einnig að bæta við ýmsum fleirum.

Aðalatriði þessa máls er ekki það, sem mér fannst, að hér kæmi fram í ræðu hæstv. landbrh., hvort bændur hefðu hér hagsmuna að gæta eða neytendur. Ég hygg nú, að hagsmunir þessara aðila fari nokkuð mikið saman, og veit ekki annað betur en launakjör bænda séu miðuð við launakjör þeirra, sem algengast er að kalla neytendur eða launafólk í landinu, svo að það fer mjög saman. Og auðvitað á þessi skattlagning engan rétt á sér, jafnvel þó að það sé hægt að segja við bændur — ja, þó að þessi vara hækki nú í útsölu vegna söluskattsins, verður tekið tillit til þess í verðútreikningnum annars staðar, og þetta fellur ekki á ykkur .sem bændur sérstaklega. — Það eru vitanlega engin rök fyrir þessum skatti. Hér er aðeins um það að ræða, hvort ástæða sé til að leggja þennan skatt á þessar brýnustu nauðsynjar almennings í landinu. Er ástæða til þess, og er það hagkvæm innheimtuaðferð í sambandi við tekjur ríkisins að hafa þennan skatt á þessum vörum? Ef talið er, að það muni eitthvað verulega um söluskatt í þessum tilfellum á þessum vörum, er þá ekki til einhver önnur tekjuleið fyrir ríkissjóð, sem er frambærilegri en að leggja söluskatt á þessar vörur, sem hér er um að ræða. Það held ég. Ég held, að það sé ekki mikill vandi að finna tekjustofna, sem væru réttlátari.

Ég vil fyrir mitt leyti mæla með þessu frv. og vænta þess, að hæstv. ríkisstj. íhugi það nú alveg sérstaklega, eins og nú er ástatt hér í verðlagsmálum og kaupgjaldsmálum, hvort ekki sé hægt að mæta þeim óskum, sem fram koma í þessu frv. og fella niður söluskattinn a.m.k. að þessu leyti.