01.02.1968
Neðri deild: 56. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í C-deild Alþingistíðinda. (2450)

106. mál, smíði fiskiskipa

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þar sem hæstv. iðnmrh. er ekki viðstaddur, þykir mér sjálfsagt að taka hér undir það, sem hv. 1. flm. sagði, að frv. verði vísað til n. og það fái þar eðlilega meðferð. Eins og hann sagði, er það ekkert nýtt, að ríkisvaldið eða almannavaldið hafi forgöngu í þvílíkum efnum. Hv. þm. minnti m.a. á það, sem gert var á nýsköpunarárunum. Frá fyrri tíð má minna á það, þegar Jón Þorláksson, þáv. borgarstjóri í Reykjavík, beitti sér fyrir því, að nokkrir bátar væru smíðaðir og síðan seldir til þess að verða gerðir út til fiskveiða frá Reykjavík. Eins er það, að á síðustu árum hefur með atbeina ríkisins, tekizt að bæta mjög starfsaðstöðu í innlendum skipasmíðastöðvum, bæði hér á Suðvesturlandi, á Akureyri, og raunar að því er ég hygg viðar, þótt framkvæmdirnar muni hafa verið einna mestar hér. Að vísu veit ég, að það hefur einnig verið komið upp mjög myndarlegum slipp á Ísafirði og einnig bætt aðstaðan á Norðfirði, hygg ég. Ríkið hefur átt beina aðild að flestum þessum framkvæmdum, og eins og ég segi, án atbeina ríkisins hefði ekki tekizt að koma þeim áleiðis. Eins er það nú, að á síðustu mánuðum, eftir að í ljós kom, að í bili er minni eftirspurn eftir fiskiskipum en áður, hefur ríkið haft forystu um það að afla skipasmíðastöðvunum verkefna. Ég vonast til þess, að hv. þm. hafi ekki verið að gagnrýna það, þó að hann væri ekki sérstaklega af því hrifinn, að ríkisstj. ákvað að fela skipasmíðastöðinni á Akureyri smíði tveggja strandferðaskipa, því að þeirri ákvörðun hefur yfirleitt verið tekið vel, og þó að hv. þm. teldi að fiskiskipasmíði væri brýnni nauðsyn, fælist ekki í því gagnrýni á hinu. Það viðurkennum við allir, að það er nauðsynlegt, að hér séu til skipasmíðastöðvar, sem, eins og hv. þm. sagði, geti annazt viðhald og nauðsynlegar breytingar, og þær hafa ekki nóg verkefni, nema þær geti einnig sinnt skipasmíðum. Og eins og ég segi, hefur verið öfluglega að því unnið nú síðustu mánuði að greiða fyrir því, að skipasmíðastöðvarnar gætu fengið verkefni við sitt hæfi í þessum efnum.

Það er sjálfsagt að athuga allar till., sem fram koma um fyrirkomulag slíkrar fyrirgreiðslu, sem er beint framhald af því, sem þegar hefur verið gert og upp tekið. Hvort það er skynsamlegt að semja um smíði mjög margra skipa í einu með þeim hætti, sem hér er ráðgert, eins og nú standa sakir, þarf að sjálfsögðu að athuga nokkru nánar. Það er enginn vafi á því, að ríkið verður að hafa forystu um fjáröflun til þess að slíkar framkvæmdir verði, hvort sem um mörg skip eða fá er að ræða. Án lána af hálfu opinberra sjóða er vonlaust, að slíkar framkvæmdir verði gerðar. Á hitt verðum við svo að líta, að nú er mikil eftirspurn eftir lánsfé til margra hluta um leið og okkar eigin geta til lánveitinga hefur, af þeim ástæðum, sem öllum er kunnugt um, um sinn dregizt nokkuð saman. En ég tek undir það með hv. þm., að það er engin nýjung, að erlent lán sé tekið í þessu skyni, vegna þess að þessir bátar, sem innfluttir eru, eru einmitt keyptir með erlendum lánum, svo að ef við getum fengið erlend lán með viðunandi kjörum, án þess að þar með sé dregið úr nauðsynlegum lánsfjármöguleikum í öðru skyni, finnst mér það fyllilega koma til álita. Það verður svo að meta, hvernig við notum þá takmörkuðu lánsfjármöguleika, sem við höfum, bæði innanlands og utan. En ég tek undir það, að þetta er eitt af brýnustu verkefnum bæði vegna þess að það er hagkvæmt í sjálfu sér og nauðsynlegt að hafa hér innlendar skipasmíðastöðvar og eins vegna þess, að það er mikill þáttur í að halda hér uppi heilbrigðu atvinnulífi í landinu, kemur bæði sjávarútveginum og iðnaðinum og þar með öllum almenningi að gagni. Ég vil þess vegna eindregið mæla með því, að frv. gangi greiðlega til n. og fái þar eðlilega skoðun, og það verði athugað með hverjum hætti bezt sé að stuðla að innlendum skipasmíðum.