26.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í C-deild Alþingistíðinda. (2528)

169. mál, áfengislög

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er með þetta frv. eins og sagt var um Aþenu forðum, að það virðist hafa stokkið út úr höfði Seifs alskapað, án þess að venjuleg fæðing hafi átt sér stað, slík, sem tíðkazt í mannheimum.

Það liggur alveg ljóst fyrir, að þetta frv. er annað en það frv., sem var lagt fyrir í fyrra. Hvort það er eins og n. þá hafði flutt brtt. um eða ekki, skal ég ekki segja. En það liggur fyrir yfirlýsing dómsmrh, um það, að þær breyt., sem eru gerðar á frv. frá því, sem var í fyrra, eru ekki gerðar í dómsmrn. Þær eru ekki gerðar í dómsmrn. og fylgdu ekki með málaleitan ríkisstj. um, að málið væri tekið upp, þannig að einhver annar hlýtur að hafa samið þær, enda kemur glögglega fram í bréfi rn., að það hefur ekki gengið frá frv. í heild, vegna þess að þar er m.a. vitnað til samþykktar borgarstjórnarinnar í Reykjavík, sem einhver hefur fært í frumvarpsform, og ég get ekki skilið, að það sé annar en n. sjálf, og hv. 1. þm. Norðurl. e. hafi hlotið þar eitthvað nærri að koma. Annars upplýsir form. eða frsm. n. sjálfsagt nánar þá dularfullu atburði, sem hér hafa gerzt.