29.01.1968
Efri deild: 47. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í C-deild Alþingistíðinda. (2568)

103. mál, nýsmíði fiskiskipa

Flm. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Frv. það, sem ég ásamt hv. 3. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Norðurl. v. flytjum hér í hv. þd. um nýsmiði fiskiskipa, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er heimilt að láta smíða innanlands fiskiskip með það fyrir augum, að þau yrðu seld einstaklingum, félögum eða bæjarfélögum í hendur til útgerðar. Heimild þessi nái til nýsmiði fiskiskipa samtals allt að 9 þús. rúml., og verði smíðinni dreift á árin 1968—1971.

2. gr. Til framkvæmda samkv. 1. gr. er ríkisstj. heimil lántaka, en lánin greiðist, er skipin hafa verið seld.“

Megintilgangurinn með flutningi þessa frv. er fyrst og fremst sá, að það verði breytt um stefnu í þessum málum. Að í stað þess, að meginhluti fiskiskipanna hefur verið keyptur frá erlendum skipasmíðastöðvum á undanförnum árum og áratugum, verði skipin byggð innanlands f vaxandi mæli. Þess er tæpast að vænta, að slík stefnubreyting verði framkvæmd að nokkru ráði, nema til komi forysta af h álfu ríkisvaldsins. Sérstaklega þó eins og nú er ástatt í efnahagslífi þjóðarinnar og ríkjandi óvissu um afkomu sjávarútvegsins. Hætt er við, að fáir treysti sér til að gera samninga um smíði nýrra fiskiskipa vegna þess, hvernig ástatt er með efnahag útgerðarinnar.

Í annan stað er hér um að ræða mjög jákvæða uppbyggingu atvinnuvegar, sem tvímælalaust á fullan rétt á sér í landi okkar, þar sem eftirspurn eftir nýjum fiskiskipum hlýtur að halda áfram svo lengi, sem við Íslendingar rekum sjávarútveg. Hér er um að ræða atvinnugrein, sem mundi treysta mjög atvinnulíf víðs vegar um landið og koma í veg fyrir samdrátt og atvinnuleysi á fjölmörgum stöðum. Það athugist, að við smíði stálfiskiskips þarf atbeina margra iðngreina. Ég held, að þar komi við sögu allar hinar hefðbundnu iðngreinar, sem snerta framkvæmdir nema þá múrverkið. Ef fiskiskipasmíðar yrðu fluttar inn í landið, mundi það treysta og efla hinar mörgu iðngreinar meira og minna almennt. Þess er að vænta, að íslenzk skipasmíði gæti orðið traustur hlekkur í eflingu íslenzkra atvinnuvega. Engin skynsamleg ástæða virðist því til fyrirstöðu, að við Íslendingar gætum komið málum svo fyrir, að við yrðum samkeppnishæfir við nágrannalöndin um smíði fiskiskipa fyrir okkur sjálfa, og kem ég nánar inn á það atriði síðar. Það er einnig hægt að hugsa sér byggingu fiskiskipa til útflutnings. Það er engin goðgá í raun og veru að ætlast til þess, að við Íslendingar með þá tækniþekkingu og kunnáttu, sem við búum nú yfir, getum ekki, ef skilyrði almennt eru til staðar, keppt við þjóðir eins og t.d. Norðmenn um smíði á fiskiskipum.

Frv. gerir ráð fyrir nýsmiði fiskiskipa samtals allt að 9 þús. rúm1. á 4 árum. Ráð er fyrir gert, að í framkvæmdinni yrði þetta þannig, að árið 1968 yrðu smíðuð fiskiskip allt að 1600 rúml. með þessum hætti, árið 1969 yrði rúmlestatalan allt að 2000, árið 1970 allt að 2400 og 1971 allt að 3000 rúml. Að sjálfsögðu þarf mál eins og þetta mikillar athugunar við. Það þarf að gera úttekt á hinum innlenda skipasmíðaiðnaði ásamt skipulegri áætlun um uppbyggingu stöðvanna. Mér er kunnugt um, að það mun vera n., líklega stjórnskipuð n., sem vinnur að þessum málum. Hversu langt hennar störfum er komið, er mér ekki kunnugt um. Það má benda á, að þar sem þessi starfsemi er að hefjast, væri e.t.v. skynsamlegt að styðja hana sérstaklega í byrjun. T.d. með því að veita sérstakan fjárstuðning út á fyrsta verk, minni stuðning út á næsta og leggja síðar niður slíkan stuðning, sem mundi væntanlega verða liður í skólunarkostnaði stöðvarinnar, þegar stöðin getur sjálf staðið á eigin fótum, hvað snertir kunnáttu, vélvæðingu og yfirleitt getu til að standast eðlilega samkeppni í þessum efnum. Ég hef þá skoðun, að því aðeins getum við byggt upp skipasmíðaiðnað til langframa hér í landinu, að hann verði samkeppnishæfur við slíkar smíðar hjá erlendum þjóðum, þegar til lengdar lætur. Hins vegar er enginn vafi á því, að þessi iðnaður þarf vernd í byrjun og aðstoð, meðan verið er að byggja hann upp.

Þegar við Íslendingar fórum að leggja áherzlu á smíði fiskiskipa úr stáli, sérstaklega í sambandi við síldveiðarnar, var m.a. leitað mikið til Noregs, þó að áður hafi verið leitað annað, meira og minna um alla Vestur-Evrópu. Þegar íslenzkir útgerðarmenn, sem höfðu samið um smíði á skipum, komu til Noregs í öndverðu, háttaði svo til víða, að skipasmiðastöðvarnar í Noregi, sem höfðu tekið að sér smíði jafnvel allstórra stálfiskiskipa, voru mjög svo fátæklegar, bæði hvað snerti kunnáttumenn og aðstöðu. Þær voru fáliðaðar og yfirleitt illa útbúnar. Að sjálfsögðu eru svo ýmsar aðrar stöðvar í Noregi, sem eru miklu stærri og hafa starfað að þessum smíðum um áraraðir. En Norðmennirnir hafðu eitt, sem okkur skorti e.t.v. á þessum tíma, fyrir eins og t.d. 10—13 árum, það var hreinlega bjartsýni í þessum efnum. Þeir trúðu því, að þeir mundu geta byggt upp smærri skipasmíðastöðvar, sem gætu annað þessum verkefnum. Og það var það, sem gerðist í Noregi. Við Íslendingar áttum talsverðan þátt í því, að þar hafa byggzt upp margar smærri skipasmíðastöðvar, sem hafa byggt fiskiskip úr stáli,bæði fyrir okkur Íslendinga og fleiri. Vandamálin hér hjá okkur hafa ekki verið tæknilegs eðlis. Okkar verkfræðingar og iðnaðarmenn eru fullfærir og hafa verið fullfærir um smíði stálskipa um nokkurn tíma. Það, sem hér hefur skort á, er fyrst og fremst fjármagn til fjárfestingar í þessum stöðvum og rekstrarfé til þessarar starfsemi.

Á undanförnum árum hefur átt sér stað nokkur uppbygging nýrra skipasmiðastöðva innanlands, sem geta smíðað stálskip, svo og endurbætur eldri stöðva. Það munu vera 4 stöðvar, sem hafa smíðað hér stálskip og eru starfandi. Það er í fyrsta lagi Stálvík h.f. í Arnarvogi í Garðahreppi, sem hefur smíðað líklega 8 stálskip á s.l. 5 árum. Slippstöðin á Akureyri hefur smíðað tvö stálskip. Þorgeir og Ellert á Akranesi hafa smíðað eitt skip. Stálsmiðjan í Reykjavík hefur smíðað 3 stálskip, en starfsemi hennar að þessu leyti hefur legið niðri síðan árið 1963 að ég hygg. Það var Stálsmiðjan í Reykjavík, sem smíðaði fyrsta stálskipið, sem var dráttarbáturinn Magni, og það mun hafa verið árið 1955. Ein stöð í viðbót, Stálskipasmiðjan h.f. í Kópavogi, byggði bæði flóabátinn Baldur, sem er 180 rúmlesta skip, og einnig Eldinguna, sem er björgunarskip, sem Hafsteinn Jóhannsson hefur gert út. rúmlega 100 rúmlestir. Þetta fyrirtæki er nú undir gjaldþrotaskiptum og hefur hætt starfsemi sinni. Svo eru fleiri stöðvar, sem hafa til þess tækniútbúnað og möguleika að smíða stálskip. Það er t.d. skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar á Ísafirði. Hún mun hafa allt, sem til þess þarf. Ég skal ekki segja um fjármagnið, það er annað mál. Á Seyðisfirði er verið að smíða 45 rúmlesta stálbát. Það virðast því vera 6 stöðvar í landinu, sem geta smíðað stálfiskiskip, eins og nú er háttað. Njarðvík kemur væntanlega inn í þessa starfsemi, áður en langt um líður, og Hafnarfjörður mun einnig hafa áhuga í þessu efni. Í Neskaupstað er verið að byggja dráttarbraut, og kunna að verða möguleikar á því, að þeir geti þar smíðað stálfiskiskip, áður en langt um liður. Það eru því sennilega upp undir 10 stöðvar, sem fljótlega kæmu til greina í þessu efni. Afkastageta stöðvanna, eins og hún er í dag, er talin vera 2—3 þús. rúmlestir á ári. Þær stöðvar, sem fyrir eru, þarf að efla og styrkja og stefna að því, að stöðvarnar verði færar um að valda raunverulega stálskipasmíðinni. Í smíðum eru nú innanlands 4 fiskiskip. Það er skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts á Akranesi, er hefur skip í smíðum, Vélsmiðja Seyðisfjarðar, eins og ég minntist á áðan, og Stálvik h. f. er að byrja á um 130 rúmlesta stálskipi.

Það er ástæða til þess að fagna ákvörðun ríkisstj. um að láta smíða tvö ný strandferðaskip fyrir Skipaútgerð ríkisins á Akureyri, og ég hygg, að Slippstöðin á Akureyri, sem annast þessa smíði, muni hafa næg verkefni fram á árið 1970, að því er mér hefur verið tjáð.

Skipaskoðun ríkisins gefur út árlega skrá yfir íslenzk skip. Þessi skrá er nú nýlega komin út og er miðuð við 1. jan. 1968. Þar er að finna mikinn fróðleik um íslenzk skip, gerð þeirra og stærð og hvenær þau hafa verið smíðuð og hvar. Það kemur í ljós, að elzta skrásett skip hefur verið smíðað árið 1894, og skrásett fiskiskip eru nú samtals 756 í landinu og þar að auki 30 togarar. En alls eru skrásett íslenzk skip 868. Það er athyglisvert, að nærri því 500 af þeim fiskiskipum, sem eru á skipaskrá, hafa verið smíðuð á tveimur síðastliðnum áratugum, eða um og eftir 1950. Auk þess er talsvert mikið af skipum, sem hafa verið smiðuð á þessu tímabili, sem hafa farizt. Ég hygg, að þau séu milli 15 og 20 talsins, og gefur þetta glöggt yfirlit um það, hversu geysilega mikinn iðnað hér er um að ræða í sambandi við fiskiskipasmíðina fyrir okkur Íslendinga eða um 500 skip á aðeins 17—20 árum. Á árinu 1967 bættust 32 fiskiskip í íslenzka skipastólinn. 8 skip voru smíðuð innanlands, samtals 1584 rúmlestir, og 24 skip erlendis, samtals 7180 rúmlestir, eða samtals 8764 rúmlestir. Tvö þessara skipa eru smíðuð úr tré, en 30 stálskip að stærð frá 196 rúmlestum upp í 415, nema síldarleitarskipið Árni Friðriksson, sem er 449 rúmlestir. Nú eru í smíðum erlendis 6 stálfiskiskip, 300 —500 lestir að stærð flest, og eitt lítið eikarfiskiskip, 45 smálestir. Þessi skip verða yfirleitt afgreidd á þessu ári. Það mun láta nærri, að þessi skip, sem eru í smíðum, séu um 3000 rúmlestir samtals.

Við höfum valið þann kost í sambandi við flutning þessa lagafrv. að hafa heimildirnar dálítið rúmar og gert svo grein fyrir því nánar í stuttri grg. Það er gert ráð fyrir mismunandi stærðum og lögð áherzla á smíði systurskipa eða seríusmiði. Nú mun vera till. til þál. í Sþ. um stöðlun fiskiskipa eða seríusmíði, en Íslendingar hafa oft beitt sér fyrir seríusmiði erlendis. Þar er skemmst að minnast á t.d. nýskipunartogarana svonefndu, sem voru byggðir fyrir ríkið á sínum tíma og seldir einstaklingum og bæjarfélögum, en þeir voru 42 talsins. Svokölluð togarakaupanefnd vinstri stjórnarinnar undir forustu ríkisvaldsins lét byggja fjóra þúsund rúmlesta togara. Ríkisábyrgð mun hafa verið fyrir lánum til þessara skipakaupa og heildarlán tekið í því sambandi.

Mörg dæmi eru um seríusmíði fiskibáta eða minni fiskiskipa erlendis. Ég nefni hér nokkur. Á árinu 1957 eða um það leyti voru smíðaðir fimm 75 rúmlesta bátar í Stalinstadt, sem nú heitir Fiirstenberg í Austur-Þýzkalandi. Það var Desa h. f., sem var stofnað með sérstökum hætti at sérstökum ástæðum til þess að sjá um þessar framkvæmdir, þannig að í raun og veru var þetta á vegum ríkisins, ekki ósvipað því, sem gert er ráð fyrir hér í þessu frv. Í öðru lagi voru smíðuð á árunum 1958 og 1959 12 togskip, 249 smálestir að stærð. Þau voru smíðuð í Straalsund í AusturÞýzkalandi og má nefna þar skip eins og Hafþór, Reykjavík, sem nú er í síldarleitinni, Hólmanes, sem áður hét Steingrímur Trölli, Stíganda frá Ólafsfirði, sem fórst s.l. sumar, og fleiri skip. Í kringum 1960 voru smíðuð allmörg 100 rúmlesta fiskiskip, eða 15 talsins, einnig í AusturÞýzkalandi, í Brandenburg. Það voru skip eins og t.d. Leó, Vestmannaeyjum, Eyjabergið, sem lenti á Faxaskeri hér um árið, og fleiri. Þessi skip hafa reynzt vel á línu, netum og togveiðum. Sumir hafa að vísu haldið því fram, að það væri kannske heppilegra, að þau væru svolítið stærri, e.t.v. 120-130 rúmlestir. Í Boizenborg í AusturÞýzkalandi voru svo á árunum 1965—1967 smíðaðar tvær seríur af stálfiskiskipum að stærð frá 256 til 264 rúmlestir, eða samtals 18 skip. Það eru skip eins og Barði, Neskaupstað, Gullver og fleiri og fleiri skip. Þetta fyrirkomulag með Desa h. f. hefur, að því er mér skilst, þróazt í þá átt, að það félag hefur nú starfað meira sjálfstætt jafnhliða þessum seríukaupum, eftir því sem árin hafa liðið. Auk seríusmíðanna er geysilegur fjöldi fiskiskipa, sem hafa verið smíðuð hingað og þangað erlendis á undanförnum árum.

Það er ljóst, ef athugun er gerð á smiði þessara um 500 fiskiskipa, sem smíðuð hafa verið á s.l. tveimur áratugum eða tæplega það, að langflest hafa þau verið smíðuð erlendis. Og við viljum leggja áherzlu á það, að megintilgangurinn með flutningi þessa frv. er, eins og ég sagði áður, að ríkisvaldið hafi forustu um það, að breytt verði um stefnu í þessum efnum og Íslendingar reyni að færa skipasmiðarnar inn í landið í vaxandi mæli. Í raun og veru höfum við sofið allt of lengi í þessum málum og mál að vakna. Við höfum hjálpað grannþjóðum okkar til að byggja upp og efla skipasmiði hjá sér, en höfum minna hirt um eigin hag. Nú er svo ástatt, eins og ég sagði áður, að Slippstöðin á Akureyri hefur næg verkefni til ársins 1970. Stálvík h. f. er að byrja á 130 rúmlesta skipi, Ísafjörður eða skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar mun vera með í undirbúningi 200 rúml. skip, skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts á Akranesi mun eiga að afhenda 390 rúml. skip í maímánuði n. k. og vélsmiðja Seyðisfjarðar er að smiða lítinn bát eða 45 rúml. stálfiskibát. Þetta eru þau verkefni, sem nú eru fram undan hjá þessum stöðvum. Stöðvarnar hafa verið oft og tíðum meira og minna verkefnislausar um langan tíma. En eitt aðalskilyrðið fyrir því, að hægt sé að reka sæmilega hagkvæman rekstur eins og þennan, er, að skipasmíðastöðvarnar hafi nokkurn veginn stöðug verkefni. Það leiðir af eðli málsins. Það er því nauðsynlegt, að skipulegt átak verði gert til að lyfta undir þessa starfsemi, og það þarf myndarlegt átak í þessum ofnum. Endurnýjunarþörf fiskiskipastólsins er talin vera nálægt 15 skipum árlega, og þar að auki verður að gera ráð fyrir því, að þjóð eins og Íslendingar auki nokkuð við sinn fiskiskipastól, eftir því sem tímar líða, þannig að næg verkefni verði til staðar í þessum efnum á næstu árum og vonandi áratugum. Um fjárhagshlið málsins segir í 2. gr. frv. „Til framkvæmda samkv. 1. gr. er ríkisstj. heimil lántaka. En lánin greiðist, er skipin hafa verið seld.“ Þetta er ekkert nýtt „princip“ á neinn hátt í lögum hér á landi, því að fyrir yfir 20 árum síðan voru hér í gildi lög með svipuðu fyrirkomulagi eins og hér er gert ráð fyrir, bæði að ríkisvaldið léti smíða fiskiskip og þá náttúrlega aflaði fjár í því skyni. Vitanlega þurfum við að greiða öll þau fiskiskip, sem við látum smiða erlendis, og þar eru tekin stórlán í því skyni, þannig að það ætti að vera hægt að koma svo fyrir málum, að lántökur gætu farið fram í þessu skyni á annan hátt en í sambandi við smíðina erlendis, eins og verið hefur. Það virðist vera nokkuð almennur áhugi fyrir þessum málum, að ég hygg í öllum stjórnmálaflokkum. Hér á Alþ. hafa verið flutt frv. og þáltill., sem snerta þessi mál, og ég sé, að það hefur verið lagt fram í morgun annað frv. til l. um smíði fiskiskipa innanlands í Nd. Því vonast ég til, að þetta mál fái góðar viðtökur, og legg til, að því verði að loknum umr. vísað til hv. iðnn.