01.11.1967
Sameinað þing: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (2635)

24. mál, listasöfn og listsýningar utan Reykjavíkur

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Sú till., sem hér er til umr., hefur verið flutt á nokkrum undanfarandi þingum, en aldrei fengið neina fullnaðarafgreiðslu. Við flm., hv. 3. þm. Norðurl. v. og ég, teljum ekki eftir okkur að bera hana fram enn einu sinni, og þó að ég hafi mælt allýtarlega fyrir henni á síðasta þingi, skal ég fara enn á ný um hana nokkrum orðum, enda er hér sízt um minna eða ómerkilegra mál að ræða en margt af því, sem rætt er hér á hinu háa Alþ.

Langt er síðan sú stefna var viðurkennd í verki, að fjárveitingarvaldið eða Alþ. veitti nokkurt fé til þess að efla listir og listsköpun með þjóðinni. En listgreinar eru margar og það fé, sem varið hefur verið til eflingar list­ um og bókmenntum, hefur aldrei verið svo mikið, að allir væru fyllilega ánægðir, og hefur ekki verið hægt að sinna, öllu, sem æskilegt og nauðsynlegt mætti telja. Því miður efast ég um, að Alþ. geti hrósað sér af því að hafa verið tiltakanlega örlátt eða stórhuga í sambandi við stuðning við bókmenntir og listir, en það er saga út af fyrir sig. Hitt er staðreynd, að mörgu er ábótavant í sambandi við fjárveitingar til listastarfseminnar og framkvæmdir á því sviði. Glögg stefna og markmið í þessum efnum er tæplega fyrir hendi, enda sést afleiðingin m.a. á því, að þær listgreinar, sem einna mest gróska hefur verið í undanfarna áratugi, eins og t.d. myndlistin, eru naumast nokkur almenningseign hér á landi. Það er nauðsynlegt að leiða athygli manna að þessari staðreynd.

Það er vissulega ástæða til þess að gefa því nánari gætur, þegar svo er komið, að íslenzka þjóðin er farin að skiptast í flokka eftir því, hvers menn fá notið af andlegum verðmætum og listrænni sköpun og listrænni túlkun. Það er öldungis nýtt fyrirbæri í sögu íslenzku þjóðarinnar, að slík skipting eigi sér stað. Svo fábreytt sem íslenzk menning kann að hafa verið fyrr á öldum, er hitt víst, að hér ríkti tiltölulega mikill menningarlegur jöfnuður, og menningaráhugi og listnautn voru ekki sérréttindi útvaldra stétta eða mannfélagshópa. En þróun undanfarinna áratuga stefnir í gagnstæða átt. Jafnframt því sem menningar- og menntalífi fleygir fram í heild, hefur skapazt á ýmsum sviðum menningarlegur ójöfnuður, sem á rætur að rekja til þess, að ýmis menningarskilyrði eru lakari á einum stað en öðrum. Um þetta eru mörg óræk dæmi og vitni. Ég vil benda á skólamálin og fræðslumálin yfirleitt. Aðstöðumunur í fræðslumálum er stórfellt vandamál, sem menn hafa allt of lengi lokað augunum fyrir. Uppbygging fræðslu- og skólakerfisins hefur orðið með þeim hætti, að í stað þess að jafna aðstöðumun til fræðslu og skólamenntunar barna og unglinga, hvar sem er á landinu, hölum við um langt skeið horft aðgerðarlausir upp á það, að þetta bil breikkaði ár frá ári. Að þessu hafa menn hvorki leitt hugann nægilega né gert nokkuð, sem verða mætti til þess að draga úr aðstöðumuninum. Ástæður til þessa sljóleika og aðgerðarleysis, sem ríkt hefur á þessu sviði, eru áreiðanlega fleiri en ein. Hér eru margir samsekir, og ég ætla ekki að ásaka einn öðrum fremur. En á það vil ég benda, að engum er skyldara en Alþ. og ríkisstj. að hafa forustu um úrbætur og stefnumótun á þessu sviði sem flestum öðrum.

Auk þess sem ég nefni skóla- og fræðslumálin, vil ég geta um það, sem ég hef sérstaklega í huga að þessu sinni, en það er sú fáránlega mismunun, sem á sér stað í sambandi við listkynningu í landinu og aðstöðu landsmanna til þess að kynnast af eigin raun gildum þætti í menningarlífi þjóðarinnar. Það er alger undantekning og skeður allt of sjaldan, að merkar listsýningar séu haldnar úti um land eða utan Reykjavíkur. Afleiðingin verður sú, að þeir, sem ekki hafa aðstöðu til þess að fylgjast með hlutunum hér í Reykjavík, kynnast þeim alls ekki nema af afspurn. Eins og nú háttar samgöngum og flutningamöguleikum á hvers kyns góssi, er engin afsökun til fyrir því, að ekki eru gerðar ráðstafanir til þess að flytja listina út um landið, halda sýningar og koma upp listasöfnum. Húsnæðisleysi er heldur engin afsökun fyrir því, að landsmönnum er mismunað á þessu sviði. Það er varla til svo aumt sveitarfélag, að ekki sé möguleiki á því að viðhafa slíka starfsemi með allsæmilegum hætti, a m. k. með viðunandi hætti.

Það er sagt, að verið sé að framkvæma menningarbyltingu í Kína, en hér á landi hefur einnig orðið allstórtæk menningarbylting á síðustu mannsöldrum, sem m.a. er fólgin í því, að mikil gróska hefur verið í ástundun fagurra lista, m.a. tónlist og myndlist, sem íslenzka þjóðin hefur lengst af farið á mis við í samanburði við flestar Evrópuþjóðir. Íslenzkir listamenn hafa unnið stórvirki og aukið menningarauðæfi þjóðarinnar meira en í tölum verði talið. En hvers virði eru þessi menningarverðmæti, ef almenningur í landinu fær ekki aðstöðu til að njóta þeirra? Hvers konar skipulag er það, sem lætur viðgangast, að helmingur þjóðarinnar sé útilokaður frá persónulegum kynnum af starfi helztu listamanna sinna? Ég held, að það sé mikil nauðsyn að rísa upp gegn svo ranglátu skipulagi.

Úr því að Alþ. hefur viðurkennt réttmæti þess, að stuðlað sé að listsköpun í landinu, leiðir af því, að það á einnig að gera sitt til þess, að listin nái út til fjöldans, að öllum almenningi, hvar sem er á landinu, sé gert kleift að njóta verka beztu listamanna sinna, enda vinnur listamaðurinn ekki fyrir sjálfan sig einvörðungu. Hann er að vinna fyrir þjóð sína, fyrir alla þá sem hafa vit og þroska til þess að njóta þess, sem er fagurt og göfgandi. Og slíkar persónur eru ekki aðeins finnanlegar í Rvík. Íslenzk alþýða er vel upplýst, listelsk, bókmenntahneigð og menntfús, og það fer ekki eftir búsetu manna, hvað menn skilja og hvað menn skynja af því , sem vel er gert í mennt og listum. En skipulag okkar gerir hér mikinn mun á. Hér ríkir útilokunarstefna, eins konar apartheid-stefna í mennta og menningarmálum. Það kemur ekki sízt fram í því, hvernig listkynningu er háttað í landinu. Þetta er öllum til stórrar skammar og ýmsum til skapraunar, að minnsta kosti mér, og því hef ég þing eftir þing reynt að opna augu ráðamanna og raunar listamanna sjálfra fyrir nauðsyn þess, að eitthvað raunhæft verði gert til þess að draga úr þeim aðstöðumun og ranglæti, sem ríkir að þessu leyti í landinu og fer, að ég held, versnandi, að minnsta kosti ekki batnandi, eftir því, sem bezt verður séð.

Tillaga sú, sem hér er til umræðu, hefur það markmið að bæta úr á þessu sviði. Hún gerir ráð fyrir, að listasöfn verði stofnuð utan Reykjavíkur og að nefnd manna geri tillögur um, hversu þeim verði bezt fyrir komið og hvernig þau skuli starfa. Einnig gerir till. ráð fyrir, að nefndin bendi á leiðir til þess að fjölga listsýningum, sem haldnar verði utan höfuðborgarinnar, og hafi samráð um það við samtök myndlistarmanna. Þannig eru tveir aðskildir þættir í tillögunni, sem þó eru samtvinnaðir og miða að hinu sama, að efla listmennt í landinu og gera raunhæfar ráðstafanir til þess að gera listina að alþjóðareign, koma listinni út til fólksins, miðla menningarauðæfum og gera sem allra flestum kleift að kynnast hinu bezta á sviði listsköpunar.

Ef þessi till. næði fram að ganga, eða starfað yrði í anda hennar, þá mundi árlega verða farið um landið með ýmsar sýningar, samsýningar fleiri en eins myndlistarmanns eða sérsýningar eins manns og fólki með því móti gefinn kostur á að sjá með eigin augum úrvalsverk beztu listamanna. Þá mundu fleiri en Reykvíkingar eiga þess kost að sjá yfirlitssýningar á verkum helztu myndlistarmanna á einhverju tilteknu árabili, og mundu fleiri en höfuðstaðarbúar og þeir, sem þangað slæðast, fá að sjá yfirlitssýningar stórmenna á sviðum íslenzkrar myndlistar, eins og Ásgríms og Kjarvals, svo að þeir tveir séu nefndir, sem enginn þorir að gera lítið úr, og allir viðurkenna, að eru í hópi fremstu snillinga þjóðarinnar frá upphafi Íslandsbyggðar. Þá mundu ungir listamenn verða kynntir fyrir sinni eigin þjóð með ekki minni hátíðarbrag en nú gerist, þegar ísl. listamenn fara land úr landi með sýningar, en láta annars eins og ísl. menning og ísl. þjóð takmarkist við þá landsspildu, sem liggur milli Selsvarar og Elliðaánna Hvað mundu menn segja við því, ef ekki væru til bókabúðir og bókasöfn annars staðar en í Rvík? Eða ef íslenzkir sveitamenn og íbúar kaupstaða og kauptúna úti um land þekktu ekki aðrar bókmenntir en vísnatilbúning næstu nágranna sinna? Ég held, að flestum þætti þetta heldur fátæklegt andans fóður,

Sem betur fer er almenningur á Íslandi svo vel menntur, að hann kann vel að gera greinarmun á skáldskap Egils Skallagrímssonar og erfiljóðum í dagblöðunum, og því eru menn færir um þetta, að þeim hefur verið kennt að njóta skáldlistar, að skilja hismið frá kjarnanum, menn hafa frá blautu barnsbeini þroskað smekk sinn á þessu sviði, lært að meta það, sem vel er gert og gildi hefur, og sækjast eftir því að hafa það um hönd, sem einhverju varðar til þroska og menningarauka. Það er ekki til siðs að hindra menn í að kynnast góðum bókmenntum, þeim er dreift með ýmsum hætti út á meðal almennings. Hafi menn ekki sjálfir efni á að eignast bækur, þá eru þær fáanlegar á söfnum í næsta nágrenni. Það er ekki nauðsynlegt að fara til Reykjavíkur til þess að sjá hvernig bók Iítur út og hvað á hana er skráð. En myndlistarverk eru ekki síður þroskandi og ánægjuleg en bókmenntin. Það er ekki minna um vert að eiga góða málara en skáld og rithöfunda. Og það er ekki síður nauðsynlegt að almenningur kynnist myndlist en skáldskaparlist. Myndlistin er jafnlifandi þáttur í menningarlífi þjóðarinnar og bókmenntirnar og hennar eiga menn að fá að njóta engu síður. Myndlistin á ekki að vera eitthvert einangrað fyrirbæri, sem einn fær notið og annar ekki.

Við flm. þessarar till. erum sannfærðir um nauðsyn aðgerða í þessu máli. Við erum einnig þeirrar skoðunar, að hér sé ekki um neitt risaverkefni að ræða, sem ógerningur sé að leysa. Við höfum víst oft axlað þyngri byrðar og ekki látið á sjá. Það sem fyrst og fremst þarf að gera, er að samstilla þá krafta, sem telja má, að eigi hér einhvern hlut að máli og helzt gætu orðið að liði, en það er yfirstjórn menntamála, listamenn sjálfir og samtök þeirra og allir áhugamenn heima í héruðum og annars staðar, þar sem þá er að finna

Ég skal ekki þreyta hv. þm. með lengri ræðu að þessu sinni, en ég vænti þess, að hv. alþm. geti orðið okkur flm, sammála um mikilvægi þessa máls og stuðli að því. að tillaga okkar fái greiða og góða afgreiðslu hér á þingi. Ef til vill má einhverju breyta í orðalagi hennar áður en hún fengi endanlega afgreiðslu, en ég vænti þess fastlega, að sú n. í þinginu, sem fær hana til meðferðar, ræði hana af gaumgæfni og leggi hana fyrir til endanlegrar samþykktar eins fljótt og verða má.

Herra forseti. Eftir því sem stendur á dagskránni, er ákveðin ein umr. um þessa till., er það ekki rétt? (Forseti: Nei, það eru tvær umr.) Þá legg ég til, að till. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.