06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í D-deild Alþingistíðinda. (2919)

132. mál, embættaveitingar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég hafði nú hugsað mér að leiða hjá mér umr. um þessa till., þáltill. um embættaveitingarnar, taldi þetta alltaf ómerkilega till., og verður hún þeim mun ómerkilegri í mínum augum sem ég heyri meira talað fyrir henni En hitt er svo annað mál, að það hefur nokkuð spunnizt inn í umr., sem gefur mér tilefni til þess að leggja nokkur orð í belg. Og það er þó eitt gott við þessa till., að hún er ekki flutt út af neinni sérstakri embættisveitingu eða í sambandi við deilur um einstaka embættisveitingu, sem oft leiða til þess, að umræður og rökræður um málin eru blönduð margvíslegum sjónarmiðum öðrum en þeim, sem snerta efnishlið málsins, bæði persónulegum og ýmsum öðrum. Frá því sjónarmiði er í sjálfu sér ágætt að fá tækifæri til þess að ræða nokkuð um embættaveitingar, án þess að taugaóstyrkurinn hafi gripið um of um sig í þingliði eða öðrum, þegar deilt er oft harkalega um slíkar stjórnarathafnir.

Það er í sjálfu sér ekki nema gott til þess að vita, að þm. vilja vera réttlátir og hlutlausir í stjórnarathöfnum og vilja að það komi til framkvæmda, að slíkar reglur séu settar hjá okkur, sem tryggi það sem bezt, eins og mér skilst að ætlunin sé með þessari þáltill. En ég er hins vegar sjálfur þeirrar skoðunar, að till. út af fyrir sig sé byggð á verulegum grundvallarmisskilningi á okkar stjórnskipunarlögum og okkar venjubundna þingræði. En ég skal ekki fara nánar út í þá sálma.

Það var talað um áðan af hv. 1. flm., að „ef menn væru sekir í embættaveitingum“, og augljóst væri, hverjir væru þeir „seku“. Það áttu að vera við ráðh. Sjálfstfl. og þá sennilega einna helzt ég, sem embættaveitingar í okkar hópi heyra öllu helzt undir. Talað var um „jafnseka“ stjórnarflokka o.s.frv. Ég ætla af þessu tilefni að fara yfir þær embættaveitingar, sem ég hef staðið að í minni stjórnartíð, og alveg sérstaklega vegna þess, að það hefur verið sagt í umr. af hv. 1. flm., að menn þyrftu að hafa flokksskírteini upp á vasann til þess að fá embætti, sýslumannsembætti og dómaraembætti og önnur slík embætti, og reynslan af embættaveitingum sannaði það. Ég hef hér fyrir framan mig lista yfir embættaveitingar í dómarastöður og sýslumannsembætti og fógeta, samtals 19, á þeim rúmum fjórum árum, sem ég hef haft veitingarvaldið.

Ég skal fara fljótt yfir sögu. Hinn 30. apríl 1964 var Ásberg Sigurðsson skipaður sýslumaður í Barðastrandarsýslu. Ásberg Sigurðsson hefur setið hér á þingi, og vita allir, að hann er sjálfstæðismaður. Umsækjendur með Ásberg Sigurðssyni voru Bárður Jakobsson og Pétur Gautur Kristjánsson, báðir sjálfstæðismenn. Hvernig átti að veita manni úr öðrum flokki embættið? Eða er hægt að veita embætti mönnum, sem ekki sækja um það? Og átti ég ekki að veita neinum af þessum þremur sjálfstæðismönnum embættið, bara af því að þeir voru sjálfstæðismenn, en auglýsa að nýju og litast um eftir öðrum í embættið?

Hinn 23. maí 1964 var skipað í tvö dómaraembætti í Hæstarétti. Einar Arnalds var skipaður í annað og Logi Einarsson í hitt. Um þessi embætti sóttu nokkrir aðrir menn, bæði sjálfstæðismenn og framsóknarmenn. Ég hygg, að hað hafi sótt tveir framsóknarmenn og fjórir sjálfstæðismenn, og einn af þessum 4 er Logi Einarsson. Hinn, Einar Arnalds, var talinn áður Alþýðuflokksmaður, en hvorugur þessara manna hafði nokkurn tíma haft pólitísk afskipti, og mér er ókunnugt um, að þeir hafi nokkurn tíma verið innritaðir í nokkur stjórnmálafélög, enda held ég, að þessi veiting dómaraembættanna hafi aldrei verið gagnrýnd af neinum.

Hinn 3. júlí 1964 skipaði ég Hákon Guðmundsson í yfirborgardómaraembættið í Reykjavik. Aðrir 8 menn sóttu, þar af 7 sjálfstæðismenn. Mér er ekki kunnugt um, að Hákon Guðmundsson hafi nokkurn tíma haft neitt skírteini upp á vasann um, að hann væri sjálfstæðismaður.

Hinn 3. júlí 1964 skipaði ég í yfirsakadómaraembættið í Reykjavík. Þórður Björnsson hlaut stöðuna.

Hinn 8. maí 1965 skipaði ég Friðjón Þórðarson í sýslumannsembættið í Snæfellsnessýslu. Aðrir umsækjendur voru Benedikt Blöndal, Jón Magnússon og Jón A. Ólafsson. Friðjón var áður sýslumaður í Dalasýslu, eins og kunnugt er. Hitt voru allt yngri menn, og ég veit, að tveir þeirra eru sjálfstæðismenn. Um þann þriðja veit ég ekki, hvort hann hefur verið eða er einhvers staðar í flokki.

Hinn 7. júlí 1965 skipaði ég Yngva Ólafsson í sýslumannsembættið í Dalasýslu. Um embættið sóttu einnig Bárður Jakobsson, Benedikt Blöndal, Guðlaugur Einarsson, Pétur Gautur Kristjánsson, allt sjálfstæðismenn. Yngvi Ólafsson hafði lengstan embættisaldur af þessum mönnum í þjónustu ríkisins. Ég átti ekki kost á að skipa mann úr neinum öðrum flokki.

Hinn 3. nóv. 1965 skipaði ég Unnstein Beck í borgarfógetaembætti í Reykjavík. Það sóttu sjálfstæðismenn um þetta embætti, en mér er ekki kunnugt um, að Unnsteinn Beck hafi nokkurn tíma verið sjálfstæðismaður eða haft neitt skírteini upp á það, að hann væri flokksbundinn sjálfstæðismaður, heldur þvert á móti. Mér hefur verið sagt, að hann væri í öðrum flokki.

Hinn 6. nóv. 1965 skipaði ég Einar Ingimundarson í bæjarfógetaembættið í Hafnarfirði. Um það sóttu Björn Sveinbjörnsson og Jóhann Gunnar Ólafsson, og það mál er svo kunnugt og var svo mikið um það deilt hér á sínum tíma að ég skal ekkert fara frekar út í það að þessu sinni Það yrði aðeins til þess að ýfa upp deilur. Það er ekki það, sem fyrir mér vakir, heldur það að gera hv. Sþ. grein fyrir þeim embættaveitingum, sem ég hef staðið að.

Hinn 22. des. 1965 skipaði ég Benedikt Sigurjónsson í dómaraembætti í Hæstarétti. Það hefur ekki farið dult, að hann væri framsóknarmaður. Um þetta embætti sóttu tveir sjálfstæðismenn og tveir framsóknarmenn.

Hinn 22. des. 1985 skipaði ég Elías I. Elíasson í bæjarfógetaembættið á Siglufirði. Hann var fulltrúi í dómsmrn. og hafði starfað þar lengi, og aðrir, sem sóttu, voru miklu yngri starfamenn, a.m.k. á ríkisins vegum í stjórnarráðinu, en það voru tveir aðrir sjálfstæðismenn, sem sóttu. Annar hafði verið starfsmaður ríkisins á öðrum vettvangi, en var að vísu eldri maður, einn framsóknamaður, sem var yngri, starfsmaður í fjmrn.

Hinn 25. ágúst skipaði ég Hafstein Hafsteinsson í lögreglustjóraembættið í Bolungarvík. Um það sótti einnig Þorsteinn Geirsson. Ég hygg, að hann sé sjálfstæðismaður líka, Þetta voru jafngamlir menn. En um lögreglustjóraembættið gildir það, að það á að skipa í það að fenginni till. hreppsnefndarinnar, og hún mælti með Hafsteini Hafsteinssyni.

Hinn 5. des. 1966 skipaði ég í sýslumannsembættið í Suður-Múlasýslu. Valtýr Guðmundsson hlaut embættið. Það var enginn annar umsækjandi.

Hinn 20. des. 1967 skipaði ég í borgardómaraembætti í Reykjavík, Magnús Thoroddsen hlaut embættið. Það var enginn annar umsækjandi.

Hinn 20. marz 1967 skipaði ég Halldór S. Rafnar í borgarfógetaembætti í Reykjavík. Um það sóttu þrír aðrir menn á svipuðu reki og Halldór, en Halldór hafði eindregin meðmæli yfirborgarfógeta.

Hinn 18. maí 1967 skipaði ég Friðjón Skarphéðinsson í yfirborgarfógetaembættið í Reykjavik. Um það sóttu tveir aðrir menn, Jónas Thoroddsen og Unnsteinn Beck. Friðjón Skarphéðinsson var langelztur sem lögfræðingur af þessum mönnum og hafði einnig gegnt þeim stöðum, að ég hygg, að það hafi ekki þótt álitamál, að hann hlyti þessa stöðu, en hann var nú því miður ekki með sjálfstæðisskírteini upp á vasann.

Hinn 16. júlí 1967 skipaði ég Jónas Thoroddsen bæjarfógeta á Akranesi. Um það sóttu 4 aðrir menn, ungir menn og sumir ópólitískir, en mér var kunnugt um, að sumir voru sjálfstæðismenn. Um hina veit ég ekki. Ég get nefnt þá Jónatan Þórmundsson, ungan, efnilegan Iögfræðing, og Sverri Einarsson, einnig efnilegan lögfræðing. En Jónas Thoroddsen var langelztur þessara manna og hafði áður gegnt sjálfstæðu embætti, verið borgarfógeti í Reykjavík.

Hinn 21. júní 1967 skipaði ég Ófeig Eiríksson í bæjarfógetaembættið á Akureyri. Um það sótti einn annar, Sigurður M. Helgason, sem lengi hafði gegnt fulltrúastöðu í embættinu. Þarna getur verið álitamál, og ég ætla aðeins að staldra við það, hvernig eigi að skipa, í embætti eins og þetta. Það sækir um það fulltrúi, sem er búinn að vera þar mjög lengi og hefur gegnt sínu fulltrúastarfi óaðfinnanlega eftir því sem mér er bezt kunnugt um, og oft gegnt embættinu í fjarveru fógetans. Ég hef áður lýst því sjónarmiði mínu, að ég hef látið ráða og haft í huga í sambandi við embættaveitingar, bæði í sambandi við þetta mál og önnur, hvaða öðrum embættum menn hafi gegnt, og ég hef viljað leggja á það áherzlu, að eftir þeim sé munað, sem gegnt hafa lélegum embættum um langan tíma eða hinum minni, þegar betri embætti eru veitt. Það hafði ég í huga og gerði þinginu grein fyrir á sínum tíma í sambandi við veitingu Einars Ingimundarsonar fyrir bæjarfógetaembættinu í Hafnarfirði og sýslumannsembættinu í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Ófeigur Eiríksson hafði verið fulltrúi á Siglufirði á sínum tíma og gegnt því embætti í fjarveru fógetans. Síðan hafði hann verið bæjarfógeti í Neskaupstað. Það voru auðvitað bæði nokkuð lítil embætti og afskekkt og svo mjög, að þegar Neskaupstaðarembættið var auglýst, eftir að Ófeigi var veitt Akureyri, sótti enginn um það embætti. Það stendur nú fyrir dyrum að gera aðra tilraun. En ég fékk fráfarandi bæjarfógeta á Akranesi, sem hafði látið af embætti fyrir aldurs sakir, til þess að gegna þessu embætti fram til vorsins.

Hv. 1. flm. þáltill. vék t.d. að því, að það gæti verið rétt að hafa þá aðferð að láta sýslunefndir og bæjarstjórnir segja álit sitt, þegar á að veita stöður sýslumanna og bæjarfógeta og það hefði t.d. kannske getað haft áhrif á dómsmrh., þegar embættið var veitt í Hafnarfirði. Ég man ekki betur en faðir minn segði mér það, að þegar hann sótti um Akureyri á sínum tíma og sýslumannsembættið í Eyjafjarðarsýslu — hann var þá kornungur lögfræðingur og hafði verið fulltrúi þar hjá embættinu — en Steingrímur Jónsson, sem þá var sýslumaður á Húsavík, sótti um embættið, reyndur embættismaður og stjórnmálamaður á merkum tíma hér, eins og kunnugt er, og miklu eldri, að þá komu áskoranir frá sýslunefndum og ágætum vinum hans í Eyjafirði og á Akureyri um að honum yrði veitt embættið, en Steingrími Jónssyni var veitt embættið og síðan föður mínum Húsavík eða Þingeyjarsýslan réttara sagt. Og ég hygg, að það mundi oft fara svo hjá sýslunefndunum, að þeir, sem hefðu starfað einhvern tíma með þeim, annaðhvort sem fulltrúar eða embættismenn, hlytu meðmælin, og þá mundu kannske miklu fremur persónuleg sjónarmið ráða en hjá þeim ráðh., sem á þó að vera pólitískt ábyrgur gerða sinna í sambandi við embættaveitingar. Þessu vildi ég nú leyfa mér að skjóta hér inn.

Hinn 9. ágúst 1967 veitti ég borgarfógetaembætti í Reykjavík Sigurði Helgasyni, en um það embætti sóttu alls 4 menn, 3 aðrir fulltrúar. Þetta voru allt fulltrúar, og allir hinir fulltrúarnir voru sjálfstæðismenn og höfðu allir reynzt vel í sínum störfum, en Sigurður Helgason hlaut þetta embætti.

Það getur vel verið, að aðrir í minni stöðu hefðu veitt einhver af þessum embættum öðruvísi en ég. En menn sjá bara af þessu, hvað það er fráleitt að halda því fram, að það sé alveg óumdeilanlegt og hafi sérstaklega í seinni tíð verið augljóst, hversu embættaveitingarnar séu pólitískar. Það sjá menn af því, sem ég hef gert grein fyrir. Það er í fjölmörgum tilfellum, að enginn efi er á því, hver af eðlilegum, almennum ástæðum á að hljóta embættið. Í öðrum tilfellum er aðeins einn umsækjandi og í mörgum tilfellum einungis sjálfstæðismenn, sem sækja um embættið, og svo er ég ásakaður fyrir það að velta sjálfstæðismönnum og engum öðrum embætti. Menn verða að vita svolítið, hvað þeir eru að tala um, og þess vegna er það svo langt í frá, að listinn í Alþýðumanninum, sem hv. 1. flm. vitnaði til, hafi nokkuð sannað hans mál, að pólitískar embættaveitingar hafi farið í vöxt, vegna þess að þetta var aldrei nema hálfkveðin vísa. Það var engin grein gerð fyrir því, hvernig á hefði staðið í sambandi við embættaveitingarnar, eins og ég hef verið að reyna að gera grein fyrir hér um þær embættaveitingar, sem ég hef sjálfur staðið að.

Að öðrum þræði hef ég veitingar á læknisembættunum. Ég held, að það séu ein 18—20 læknisembætti, sem ég hef veitt. Ég hef ekki heyrt neinn tala um þær embættaveitingar, en ég minnist hins vegar frá fyrri tíð töluvert mikilla deilna, sem staðið hafa um læknaembættaveitingar og ekki sízt af pólitískum ástæðum.

Mér þykir vænt um að hafa fengið tækifæri til þess að geta gert hv. Sþ. grein fyrir þessu máli, eins og ég sagði áðan, í þeirri von, að menn geti talað fordómalaust og rólega um þessi mál, án nokkurra æsinga út af einstökum aðgerðum í sambandi við embættaveitingarnar.

Það er misskilningur hjá hv. 1. flm., að það sé táknrænt fyrir það, hve embættaveitingarnar séu orðnar pólitískar, hve fáir sækja um embættin úti á landi. En það er ekki táknrænt fyrir það, að þær séu pólitískar. Það er varla hægt að fá menn, því miður, héðan úr Reykjavík eða nágrenni til þess að sækja um ágætis embætti úti á landi, beztu embættin. Þetta er bara af því, að menn vilja ekki vera úti í dreifbýlí, sem kallað er, eða úti í kaupstöðunum og kauptúnunum úti á landi, og sjálfum finnst mér þetta mjög geigvænlegt, og ég hef verið alveg undrandi á því, hversu ungir lögfræðingar og aðrir sækjast lítið eftir því að byrja sinn feril í embættum úti á landi. Og þetta á við mörg fleiri embætti eða störf, sem mér er allvel kunnugt um. Mér er kunnugt um, hvað hefur verið erfitt um vik t.d. við að fá jafnvel menn til þess að taka að sér stjórn útibúa bankanna, sem eru þó með beztu stöðum úti á landi, af því að menn fást ekki til þess að sækja þangað. Og þar er engum pólitískum ástæðum fyrir að fara.

Aðeins vegna þess, að það hefur verið margstaðhæft, að embættaveitingarnar hafi óumdeilanlega orðið miklu pólitískari í seinni tíð, vil ég minna á, að í dómsmálaraðherratíð framsóknarmanna, þegar þeir fóru með embættaveitingarnar frá 1935—1942, eru veitt 13 sýslumanns- og bæjarfógetaembætti. Ég skal ekki fara frekar út í þessar embættaveitingar að öðru en því, að 12 framsóknarmönnum eru veitt þessi embætti, og einn sjálfstæðismaður hlaut embætti í þessari tíð. Fyrstu embættin fimm eru auglýst, eins og þá var venja og talið, að rétt væri að gera og hefur alltaf verið gert um þau embætti, sem konungur veitti, en þau svara til þeirra embætta, sem forseti veitir nú og er beinlínis orðið bundið með lögum frá 1854, en var þá venja. Fyrstu fimm embættin eru auglýst. Síðan eru embættin ekki auglýst úr því. En fyrir utan það, sem ég sagði áðan, eru fjögur af þessum embættum veitt gagnstætt ákvæðum laga. Mennirnir uppfylla ekki skilyrði til þess að setjast í embætti, til þess að vera skipaðir í embætti, en það eru fjórir ungir framsóknarmenn á þessum tíma settir í embætti til þess að öðlast reynsluna, sem lögin gera ráð fyrir að þeir hafi, hjá sjálfum sér, til þess svo að hægt sé að skipa þá eftir þrjú ár.

Það var deilt mikið um Hafnarfjörð. Ég skal ekki rifja það upp, en dómsmrh., sem þá fór með völd, auglýsti öll þau 10 embætti, sem kom til greina að skipa í meðan hann var dómsmrh., nema eitt, Hafnarfjörð. Hann skipaði í embættið án auglýsingar. Hefði ég haft sama hátt á og ekki auglýst embættið, og við skulum segja, veitt yngsta manninum, Birni Sveinbjörnssyni, embættið og honum hefði enzt aldur til að halda því til sjötíu ára aldurs, þá hefðu engir átt kost á því að sækja um þetta embætti í meira en hálfa öld, í 55 ár.

Ég ætla mér alls ekki á nokkurn hátt að gera neina tilraun til þess að hvítþvo mig af þeim embættaveitingum, sem ég hef staðið í. En það hefur verið dregin upp ákaflega röng mynd og gefið í skyn allt annað um þær embættaveitingar en rétt er og satt, og ég er sannfærður um og hef það mikla trú á réttsýni hv. 1. flm. þessarar till. og sérstaklega vegna þess, hve hann vill leggja mikla áherzlu á, að menn séu réttlátir og hlutlausir, að hann, eftir að hafa fengið þessa greinargerð um þær embættaveitingar, sem ég hef staðið að, tali nokkru varlegar um þær og gefi nokkru minna í skyn um pólitískar og óréttlátar embættaveitingar en hann hefur gert fram að þessu.