01.11.1967
Sameinað þing: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í D-deild Alþingistíðinda. (3049)

193. mál, dreifing sjónvarps

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Spurt er um, hvað líði dreifingu sjónvarps til Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðis. Um það er þetta að segja:

Að undanförnu hefur verið og er enn unnið að mælingum á Akureyrar- og Eyjafjarðarsvæðinu til undirbúnings sjónvarpi á þessu svæði. Ekki er vitað með vissu, hvenær undirbúningsvinnu verður lokið, en stefnt er að því, að það verði sem allra fyrst.

Svo sem kunnugt er, á sendistöð á Skálafelli að annast sendingu sjónvarpsmyndarinnar norður til Eyjafjarðar. Búið er að bjóða út tækin fyrir þá stöð, og eru tilboð nú að berast. Verður gengið frá pöntunum á tækjunum fyrir áramót. Til þess að hraða sem mest sjónvarpssambandi við Akureyrar- og Eyjafjarðarsvæðið, er gert ráð fyrir því að koma upp bráðabirgðastöð á Vaðlaheiði haustið 1968, af því að ekki er hægt að ganga frá pöntun hinnar endanlegu stöðvar á Vaðlaheiði fyrr en lokið er öllum mælingum frá Vaðlaheiði austur á Fjarðarheiði og víðar. Gert er ráð fyrir að byggja varanlega stöð á Vaðlaheiði fyrir árslok 1969. Nú þegar er búið að framkvæma hluta af nauðsynlegum mælingum, og verður þeim haldið áfram næsta sumar, svo fljótt sem unnt verður. Nauðsynleg tæki verða tilbúin til þessarar starfrækslu fyrir norðan, þegar hún getur hafizt að mælingum loknum, og er miklu skemmri afgreiðslufrestur á bráðabirgðastöðinni en aðalstöðinni.

Þá er spurt um það, hvenær sé ráðgert, að sjónvarp nái til allra landshluta. Um það er þetta að segja:

Gert er ráð fyrir, að sjónvarp nái til allra landshluta á árinu 1969, og hafa verkfræðingar Landssímans sent skýrslu um það efni, Skýrslugerðinni var lokið 13. sept. 1967. Þetta jafngildir að sjálfsögðu ekki því, að bókstaflega allir landsmenn muni þá eiga kost á sjónvarpsþjónustu, enda er miklum tæknilegum erfiðleikum bundið að tryggja sendingu góðrar sjónvarpsmyndar til afskekktra staða og auk þess mjög dýrt. En framkvæmdum við aðalsendistöðvar í öllum landshlutum og helztu aukastöðvar mun verða lokið 1969.

Framkvæmdir við dreifingu sjónvarpsins eru að sjálfsögðu bæði tæknimál og fjárhagsatriði. Ríkisútvarpið mun hafa nægilegt fé til framkvæmdanna miðað við þá áætlun, sem gerð hefur verið og unnið verður eftir. Framkvæmdirnar verða að fara eftir því, sem mælingar og tæknirannsóknir segja til um, en þeim eru skorður settar af árstíðum og veðri, en mikið hefur verið unnið að þeim og þeim flýtt eftir föngum, og verður því haldið áfram. Yfirleitt hafa framkvæmdir við dreifingu sjónvarpsins gengið vel fram að þessu, og mun láta nærri, að um 140 þús. landsmanna hafi nú færi á að hagnýta sér sjónvarp, þ.e.a.s. um mikinn hluta Suðurlands og víða um Suðvesturland. Hinn 28. okt. s.l. var opnuð sjónvarpssendingarstöð á Kambanesi, og þar með nær sjónvarp til Búðardals og nágrennis. Tæki nýju sjónvarpsstöðvarinnar í Vestmannaeyjum, sem komin voru, hafa nú verið sett upp, og er verið að prófa þau. Verður sú stöð tekin í notkun alveg á næstunni, og á hún að bæta mjög þá þjónustu, sem þegar er fyrir hendi. Eiga þá að vera til frambúðar ágæt sjónvarpsskilyrði um Árnessýslu sunnanverða, Ölfus, Flóa og Skeið og um Rangárvallasýslu alla að segja má og austur í vesturhluta Austur-Skaftafellssýslu. Í undirbúningi er að koma sjónvarpinu í Biskupstungur og Hrunamannahrepp, og síðar í haust verður það væntanlega komið austur á Síðu og e.t.v. austur í Höfn í Hornafirði, en þó er ekki unnt að fullyrða það nú. Í undirbúningi er einnig stöð fyrir uppsveitir Borgarfjarðar, Hvalfjörð og Kjós. Þess vegna má nú segja, að sjónvarpskerfið nái nú austan úr Vestur-Skaftafellssýslu vestur í Búðardal með nokkrum eyðum, sem unnið er að að fylla, og verður síðar í haust komið austur á Síðu og e.t.v. austur í Hornafjörð.

Vona ég, að þetta verði talin fullnægjandi svör við fsp., sem fyrir liggja.