06.12.1967
Sameinað þing: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í D-deild Alþingistíðinda. (3090)

43. mál, sameining Landsbókasafns og Háskólabókasafns

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson) :

Herra foreti. Fyrir rúmum áratug samþ. Alþ. ályktun, þar sem einróma var mörkuð sú stefna, að „sameina skyldi Landsbókasafn og Háskólabókasafn, og yrði síðan eitt vísindalegt þjóðbókasafn í landinu, en Háskólabókasafnið yrði miðað við handbóka- og námsþarfir stúdenta og kennsluundirbúning og rannsóknir háskólakennara“.

Áður en þessi samþykkt var gerð hér á þingi, höfðu vandamál safnanna beggja verið rædd mikið og lengi. Þegar árið 1916 voru þrengsli farin að torvelda störf á Landsbókasafni, enda voru þar þá til húsa bæði Náttúrugripasafn og Þjóðminjasafn. Síðan liðu 34 ár, þar til Þjóðminjasafnið var flutt, og 44 ár, þar til Landsbókasafnið gat tekið vistarveru Náttúrugripasafns til sinna nota, en allan þann tíma lýstu bókaverðir óhæfilegum þrengslum og erfiðleikum. Í fyrra komst Finnbogi Guðmundsson landsbókavörður svo að orði í Ríkisútvarpinu, að húsið væri að springa utan af bókakosti sínum. Hann líkti ástandinu við síldarmjölsgeymslu, þar sem hætta væri á, að hitnaði í mjölinu, ef stæður væru ekki fluttar til. Hliðstæðar og engu áhrifaminni lýsingar hafa heyrzt af ástandinu á Háskólabókasafninu.

Till. um að sameina bæri Landsbókasafn og Háskólabókasafn var borin fram 1941 af Guðmundi Finnbogasyni þáv. landsbókaverði með þeim augljósu rökum, að Íslendingar megnuðu aðeins að koma upp einu fullgildu vísindalegu bókasafni og starfrækja það svo, að viðunandi væri. Ekki voru allir sammála Guðmundi Finnbogasyni um þessa skoðun þá m.a. varð vart andstöðu gegn henni í hópi háskólaprófessora. Skoðuninni óx hins vegar fylgi, og 1956 gerðust þau tíðindi, að hæstv. menntmrh. skipaði n. til að athuga, „hvort fjárhagslega og skipulagslega muni eigi hagkvæmt að sameina Háskólabókasafn og Landsbókasafn að einhverju eða öllu leyti, þannig að Háskólabókasafnið yrði framvegis handbókasafn fyrir Háskólann, en Landsbókasafnið tæki við öðrum hlutverkum þess.“ Í n. áttu sæti 5 sérfróðir menn: Þorkell Jóhannesson, Birgir Thorlacius, Bjarni Vilhjálmsson, Björn Sigfússon og Finnur Sigmundsson. Þeir urðu allir sammála um, að sjálfsagt væri að sameina söfnin í eina bókhlöðu. En til þess að svo mætti verða þyrfti óhjákvæmilega að reisa nýtt bókasafnshús. Fundu þeir húsinu stað á Melum, vestan Suðurgötu, gegnt lóð Háskólans. Jafnframt lýstu þeir því á áhrifaríkan hátt, hver nauðsyn væri að hefjast handa án tafar.

Álit þeirra fimmmenninganna var í heild lagt fyrir Alþ. ásamt þeim till. þeirra, að söfnin yrðu sameinuð og að reist yrði bókasafnshús í næsta nágrenni við Háskólann, til þess að sameining safnanna yrði framkvæmanleg, eins og komizt er að orði. Í ályktun Alþ. frá 1957 var lýst einróma samþykki við niðurstöður n. Ekki var þó ákvörðunin um nýtt bókar safnshús tekin formlega upp í ályktunina, heldur fól þingið ríkisstj. „að gera nauðsynlegar ráðstafanir í þessa átt“. Hins vegar fór það ekki fram hjá neinum manni, að nýtt bókasafnshús var forsenda þess, að unnt væri að framkvæma ályktunina um sameiningu safnanna.. Það kom einnig fram í umræðunum. Hæstv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, komst svo að orði:

„Þess má geta, að n. taldi og lagði á það áherzlu, að brýna nauðsyn bæri til þess að byggja fljótlega nýtt bókasafnshús. Á því er enginn vafi, að að því rekur áður en langt um líður, að brýna nauðsyn beri til þeirra framkvæmda.“

Og aðalmálsvari stjórnarandstöðunnar, sem þá var, hæstv. núv. forsrh., Bjarni Benediktsson, komst svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ljóst, að héðan af verða þessi söfn ekki sameinuð til fulls, nema viðbótarbygging eða ný bygging komi til, eins og hæstv. menntmrh. gat um. Ýmsir telja, að núv. Landsbókasafnsbygging sé ekki til frambúðar, a.m.k. fyrir safnið í heild, og vegna tryggari geymslu og öryggis þurfi að koma upp nýrri, sameiginlegri bókhlöðu, og hafa menn þá látið sér detta í hug, að það yrði gert á Háskólalóðinni. Þetta eru atriði, sem hafa verið í athugun í menntmrn. og með þess starfsmönnum og aðstoðarmönnum undanfarin ár. Ég fagna því, að hæstv. menntmrh, skuli nú leita staðfestingar Alþ. á þessari stefnu.“

Alþingismenn gerðu sér þannig að sjálfsögðu fullkomlega ljóst, að með ályktuninni um sameiningu safnanna voru þeir að fela ríkisstj. að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að reisa nýja bókhlöðu. Þegar ég spyr hæstv. menntmrh., hvað líði framkvæmd ályktunar þessarar, sem nú er orðin meira en 10 ára gömul, á ég auðvitað fyrst og fremst við það, hvað líði undirbúningi að slíkri bókasafnsbyggingu.