26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í D-deild Alþingistíðinda. (3113)

196. mál, lánveitingar úr Byggingasjóði ríkisins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða um samkomulagið milli ríkisstj. og verkalýðsfélaganna og hvort það samkomulag hafi verið haldið eða ekki, heldur um íslenzka löggjöf og framkvæmd hennar, að svo miklu leyti sem það er hægt á örfáum mínútum.

Í gildi eru l. um íbúðalán og um öflun fjármagns til íbúðalána og sú löggjöf á að vera fyrir alla landsmenn. Í 7. gr. reglugerðar frá 21. sept. 1965 segir svo um það, hvernig þessu fé skuli úthlutað, að því skuli úthlutað til íbúðalána milli hinna ýmsu kaupstaða, kauptúna og annarra þeirra staða, þar sem íbúðarhús eru byggð á útmældum lóðum, að einum þriðja í hlutfalli við íbúatölu hlutaðeigandi staðar og tveim þriðju hlutum eftir tölu fullgildra lánsumsókna byggðarlagsins.

Að sjálfsögðu gera menn ráð fyrir því um land allt, að fjármagni íbúðalánasjóðs sé úthlutað eftir þessum reglum, þar sem þær hafa verið gerðar kunnar. Nú kemur það hins vegar fram í þessum umræðum, að það hefur verið hafður sá háttur á, að það er stofnað til mikilla framkvæmda, byggingar tólf til þrettán hundruð íbúða að því er sagt er, á einum stað í landinu og til þessarar framkvæmdar, sem að vísu er ekki nema að nokkru leyti hafin, þá er búið að taka, ef ég skil rétt það, sem hæstv. ráðh. sagði, 100 millj. kr. úr íbúðalánasjóði, þessum sameiginlega lánasjóði alls landsins. Ég vil aðeins beina því til hæstv. ráðh., hvort honum finnist þetta ekki dálítið vafasamt réttlæti, sem hann með þessum hætti stendur fyrir að framkvæma, vitandi eða óafvitandi, viljandi eða óviljandi, að taka af þessu sameiginlega fé slíkar upphæðir til framkvæmda á einum stað og láta það koma niður á öðrum, þannig að þeir fái ekki lán eða fái þeim mun lægri lán. Ég veit ekki og hef ekki séð neitt yfirlit um það, hvernig ástatt er um framkvæmd þessarar greinar reglugerðarinnar í landinu í heild. En mér er kunnugt um það á einstökum stöðum, að þar hefur ríkt mjög mikil óánægja út af lánaúthlutuninni og því hefur verið haldið fram, að þeir staðir, sem þar er um að ræða, væru stórlega afskiptir. Nú vil ég ekki fullyrða um það, en vera má, að það stafi af því, að menn telji, að þessi mikla framkvæmd, Breiðholtsáætlunin, komi fram sem mismunun á milli staða, enda virðist svo vera.

Nú ætla ég ekki að hafa um þetta fleiri orð, heldur aðeins vekja athygli á þessu einkennilega ástandi, sem er á úthlutun húsnæðislánafjárins, sem af þessu hefur skapazt, og ég ætla að láta það alveg ósagt, hverjir eiga sök á því, að þetta ástand hefur skapazt. Þetta er ekkert réttlæti. En af því að hæstv. ráðh. var að segja það áðan, að honum væri ljúft að veita meiri upplýsingar en beðið hefði verið um í fsp., sem fyrir liggur, þá hefði ég viljað mælast til þess við hann, að hann léti þinginu í té annaðhvort núna eða síðar yfirlit um úthlutun húsnæðislánafjármagnsins, t.d. á árunum 1966 og 1967, eftir stöðum, þannig að það komi fram, hvernig framkvæmd hafi verið ákvæði 7. gr. reglugerðarinnar frá 21. sept. 1965. Og vil ég svo bara enn einu sinni vekja athygli á þessu ástandi, sem þarna hefur skapazt og nokkuð hefur verið lýst í umræðunum og sem ég held, að menn ættu að geta orðið sammála um, hvað sem öðru líður, að ekki sé rétt eða eðlileg framkvæmd þeirrar löggjafar fyrir landið allt, sem sett hefur verið, og ekki heldur þeirrar reglugerðar, sem í gildi er í sambandi við þá löggjöf.