28.02.1968
Sameinað þing: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í D-deild Alþingistíðinda. (3183)

199. mál, Alþingishús

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svör hans. Ég hygg, að þau hafi verið eins glögg og kostur var á miðað við það, hvernig málin standa í dag. En ég ræð það af svari hans, að það sé ætlunin að endurlífga þessa n., sem hefur verið starfandi á undanförnum árum og ekki hefur neitt látið fá sér koma. Það er sjálfsagt rétt að reyna það einu sinni enn, hvort nokkur árangur næst með þeim hætti,

En ég vildi leggja áherzlu á það, að hæstv. forsrh. og aðrir góðir menn hlutuðust til um það, að n. skilaði áliti sem fyrst. Ef henni tækist ekki að ná samkomulagi, kæmi það fram, og þingið fengi þá aðstöðu til þess sjálft að segja álit sitt um þetta efni. Það, sem er að sjálfsögðu mest aðkallandi í þessum efnum, er að tekin sé ákvörðun um, hvort það eigi að nota núverandi alþingishús að einhverju leyti áfram eða byggja nýtt, og þá liggur það fyrst fyrir að ákveða staðinn, því að staðarvalið er undirstaða þess, að hægt sé að hefja annan undirbúning, teikningar o.s.frv.

Ég endurtek það, að ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans. Mér sýnist á því, sem hann sagði, að hann hafi áhuga á að hraða þessu máli. Ég legg svo enn einu sinni áherzlu á það, að sú n., sem fær þetta mál enn á ný til meðferðar, leggist nú ekki á það, heldur hraði afgreiðslu þess sem mest.