06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í D-deild Alþingistíðinda. (3207)

150. mál, starfsaðstaða tannlæknadeildar háskólans

Menntmrh. ( Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Spurt er annars vegar um það, hvað hafi verið gert, og hins vegar, hvað sé fyrirhugað til þess að bæta starfsaðstöðu tannlæknadeildar Háskólans. Í svari við fsp. á Alþ. í okt. 1965 gerði ég nokkra grein fyrir þróun tannlæknakennslunnar við Háskóla Íslands og þeim vandamálum, sem þá steðjuðu að í þessu efni. Skulu nokkur atriði rakin hér að nýju og vikið að því helzta, er síðan hefur gerzt í málefnum tannlæknakennslunnar.

Lög um tannlæknakennslu við Háskóla Íslands voru sett 1947, en áður hafði verið starfrækt tveggja ára námskeið fyrir tannlækna til viðbótar miðhlutaprófi í læknisfræði. Alls hefur Háskólinn brautskráð 65 tannlækna, en skráðir stúdentar við tannlæknanám hérlendis eru nú 43. Tannlæknakennslan fór fyrstu árin fram í háskólabyggingunni, en fluttist þaðan árið 1958 í nýtt húsnæði í landsspítalabyggingunni. Var gerður samningur um afnot þess húsnæðis til ársins 1969. Framan af árum innrituðust að jafnaði 4 stúdentar á ári í tannlæknanám, en þeim fór smáfjölgandi. Árið 1960 voru innritaðir 10 stúdentar, 1961 12, 1962 18 og 1963 11.

Haustið 1964 treystist læknadeild ekki til þess að taka nema 8 nýstúdenta í tannlæknanámíð, nema fyrirheit fengist um, að aðstaða kennslunnar yrði efld að húsnæði, tækjakosti og mannafla. En er slík efling væri tryggð, var talið æskilegt að taka inn 15 nýstúdenta. Ríkisstj. heimilaði þá Háskólanum að innrita 15 stúdenta og hét nauðsynlegum fjárveitingum til kennslunnar. Í framhaldi af því var fjárveiting til tannlæknastofu Háskólans í fjárl. 1965 aukin um 800 þús. kr. eða í 1599 þús. kr., eða meira en tvöfölduð frá fyrra ári. Í fjárl. 1966 voru í samræmi við till. Háskólans veittar 1 millj. 729 þús. kr. til tannlækningastofunnar. En í fjárl. 1967 var fjárveitingin enn hækkuð um nær 50% eða í 2 millj. 522 þús. kr. Vegna breyttrar tilhögunar fjárl. er fjárveiting til tannlæknakennslu ekki sérstakur liður í fjárveitingu til Háskólans á þessu ári, en er í raun svipuð og á s.l. ári. Það skal tekið fram, að þessar fjárhæðir eiga við fjárveitingar til tannlækningastofunnar einnar, en þar eru ekki taldar fjárveitingar til fastra kennaralauna. Frá árinu 1964 hafa bætzt við alls 8 kennarar til tannlæknakennslu. Taka 4 þeirra prófessorslaun, 1 dósentslaun og 3 lektorslaun. 1964 var heildarfjárveiting til tannlæknakennslu 2.4 millj. kr. Á þessu ári er hún 5.3 millj. kr., eða meiri en helmingi hærri en 1964.

Árið 1965 ágerðust vandkvæði tannlæknakennslunnar i húsnæðismálum, einkum að því er varðaði verklega kennslu. Var af Háskólans hálfu talið, að til lausnar þessa vanda kæmu þrjár leiðir til greina: Í fyrsta lagi sérstök bygging fyrir tannlæknadeild, en slík bygging var þá talin mundu kosta fullbúin tækjum 40—45—50 millj. kr., í öðru lagi húsnæði, sem yrði hluti af stærri byggingarheild í þágu læknakennslu, og í þriðja lagi bráðabirgðahúsnæði. Læknadeild hafði þetta haust, 1965, ekki talið sér fært að veita nýjum stúdentum viðtöku í tannlæknanám. Af hálfu menntmrn. var ítrekað, að ríkisstj. væri reiðubúin til alls skynsamlegs stuðnings við öflun viðbótarhúsnæðis handa tannlæknakennslunni og til þess að greiða kostnað við þá auknu kennslu, sem inntaka nýrra stúdenta krefðist. Hins vegar var talið einsýnt, að báðar hinar fyrri leiðir til úrbóta í húsnæðismálinu, þær sem nefndar voru hér að framan, þ.e.a.s. nýbygging sér eða í samlögum við aðra læknakennslu, mundu seinfærari en svo, að þær mættu koma að haldi til að ráða fram úr þeim vandamálum, sem bráðastrar úrlausnar kröfðust. Var því ýtarlega kannað, hvaða bráðabirgðaráðstafanir væru tiltækar þar til frambúðarlausn fengist. Sú könnun fór fram á vegum Háskólans og beindist einkum að tvennu: útvegun viðbótarhúsnæðis fyrir verklegu kennsluna og möguleika til að tryggja stúdentum námsvist erlendis í síðari hluta námsins, en það er einkum sá hlutinn, sem krefst mikils húsnæðis og dýrra tækja.

Þegar athugað var um möguleika á að leysa húsnæðisþörfina með auknu leiguhúsnæði, kom í ljós að á því úrræði voru miklir annmarkar. M.a. var örðugt að fá hentug húsakynni, og leiga reyndist hærri en svo, að Háskólinn teldi rétt að fara þá leið.

Árið 1966 rýmkaðist þó nokkuð um verklegu kennsluna við það, að samkomulag tókst við 5 tannlæknaháskóla á Norðurlöndum um, að þeir tækju við einum stúdent hver til klínisks náms að loknu fyrrihlutaprófi við Háskóla Íslands. Var hér um að ræða tannlæknaháskólana í Árósum, Kaupmannahöfn, Umeå, Stokkhálmi og Osló. Samkomulag þetta tókst í framhaldi af því, að Háskóli Íslands hafði haustið áður boðið rektor Tannlæknaháskólans í Kaupmannahöfn hingað til lands m.a. til þess að ræða við hann um málefni tannlæknakennslunnar hér á landi. Um frambúðarstefnuna í þeim málum var það álit danska rektorsins, að í bili væri ekki æskilegt að miða tannlæknakennsluna hér við að brautskrá fleiri en 7—8 kandídata á ári. Þar sem talið hafði verið, að fást þyrftu 15 kandídatar árlega, yrði að reyna að semja við erlenda háskóla um að taka við íslenzkum tannlæknastúdentum, svo að bilið yrði brúað. Benti rektorinn í því sambandi einkum á nýstofnaða tannlæknadeild við Gautaborgarháskóla. Í framhaldi af því átti rektor Háskóla Íslands viðræður við forráðamenn Gautaborgarháskóla, og jafnframt var málið tekið upp af hálfu menntmrn. við sænska menntmrn. Í ljós kom, að námsvist fyrir 8—10 nýstúdenta á ári mundi fáanleg gegn greiðslu af íslenzkri hálfu vegna rekstrarkostnaðar. Var áætlað, að sú greiðsla mundi nema um 15 þús. sænskum kr. eða ríflega 125 þús. ísl. kr. á ári fyrir hvern námsmann miðað við verðlag ársins 1963. Að athuguðu máli var það sameiginleg skoðun Háskólans og menntmrn., að ekki væri tiltækilegt að taka þessu tilboði að svo stöddu, enda hefði tilkostnaður á hvern nemanda með þessu móti orðið öllu meiri en kennslukostnaður var áætlaður á hvern fullmenntaðan tannlækni við Háskóla Íslands.

Sumarið 1966 fór menntmrn. þess á leit við dóms- og kirkjumrn., að samkomulagið um afnot tannlæknakennslunnar á húsnæðinu í landsspítalabyggingunni yrði framlengt til ársins 1972 eða þar til þeir stúdentar, sem hæfu nám í tannlækningum haustið 1966, hefðu að öllu eðlilegu lokið námi. Á þessa framlengingu var fallizt af hálfu dóms- og kirkjumrn. Var tekið fram, að það væri gert í trausti þess, að n. sú, sem skipuð var þá um haustið til þess að semja áætlun um þróun Háskólans næstu 20 árin, gerði ákveðnar till. um húsnæðismál tannlæknakennslunnar. Þetta var tilkynnt Háskólanum, og Iítur menntmrn. því svo á að málefni þessi séu til athugunar hjá háskólanefnd, en henni var samkv. skipunarbréfi ætlað að hafa lokið störfum á árinu 1968. Haustið 1966 fór ekki fram skráning nýstúdenta í tannlæknanámið sjálft, en ákveðið var að taka við þeim, er stæðust með tilskildum árangri forpróf í efnafræði vorið 1967. Voru samkv. því skráðir til náms á öðru ári haustið 1967 9 stúdentar til tannlæknanáms. Hins vegar voru aðeins tveir stúdentar skráðir til náms á fyrsta ári s.l. haust, og telur forstöðumaður tannlæknakennslunnar, að þar hafi óvissa um námsaðstöðu til lokaprófs valdið nokkru um.

Menntmrn. var ókunnugt um þá ákvörðun læknadeildar á s.l. hausti að tilkynna umsækjendum um vist í tannlæknadeild, að ekki væri hægt að tryggja þeim nema 5 ára námsvist í deildinni hérlendis. Ef til rn. hefði verið leitað um þetta efni, hefði það talið rétt og verið reiðubúið til þess að beita sér fyrir framlengingu leigusamningsins við dóms- og kirkjumrn. um eitt ár enn, til þess að þeir, sem hófu nám á s.l. hausti, gætu örugglega lokið námi sínu hér á landi.

Af því, sem hér hefur verið sagt, er ljóst, að starfsaðstaða tannlæknakennslunnar hefur að vísu verið efld til muna á undanförnum árum með aukningu kennslukrafta og stórhækkuðum fjárveitingum til tannlækningastofunnar. Hins vegar hefur ekki enn verið ákveðin frambúðarlausn á húsnæðismálum kennslunnar. En það atriði er ásamt öðrum málefnum, er varða framtíðarþróun Háskóla Íslands, til athugunar hjá háskólanefndinni frá 1966, sem væntanlega lýkur störfum á þessu ári. Í n. eiga sæti 9 menn: 3 fulltrúar Háskólans, formenn menntmn. Alþ., formaður Bandalags háskólamanna, formaður stúdentaráðs og fulltrúar tilnefndir af fjmrn. og menntmrn.

Með þessu vona ég, að hv. flm. telji fsp. sinni svarað.