17.04.1968
Sameinað þing: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í D-deild Alþingistíðinda. (3240)

205. mál, átta stunda vinnudagur

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Þegar mér barst sú fsp., sem hér er til umr., óskaði ég eftir því við formann vinnutímanefndar, sem svo hefur verið nefnd, að hann gæfi upplýsingar um störf n., og skal ég lesa það hér á eftir. Ég tel óþarft að lesa ályktunina sjálfa, sem er starfsgrundvöllur n. Hv. fyrirspyrjandi hefur begar gert það, og ég tel óþarft að endurtaka það nú. En svör formanns n. eru þannig, að ég tel, að það sé fullnægjandi svar.

„Eins og þál. sú ber með sér, sem n. starfar eftir, er hér um flókið og margþætt verkefni að ræða. Má segja, að frekar hefði verið um að ræða verkefni fyrir heila stofnun, sem hefði haft á að skipa hópi sérfræðinga, frekar en fámenna n. manna. Reyndist t.d. þrátt fyrir heimild ályktunarinnar ákaflega erfitt að fá þá sérfræðilegu aðstoð, sem nauðsynleg var við lausn verkefnisins. Endanlegu áliti n. hefur ekki verið skilað, þótt álitsgerðir liggi fyrir um mörg einstök verkefni, sem n. var falið að vinna að með ályktun Alþ., og hún skilaði miklu starfi og víðtæku á árunum 1962 til og með 1965, þ. á m. álitsgerðum í vandamálum, sem komu upp á þessum árum í samskiptum launþega og vinnuveitenda og voru sprottin af þeim vandamálum, sem þál. fjallaði um.“

Ég vil samkv. lista, sem fylgdi þessari grg. formannsins, lesa hér upp fyrirsagnir á nokkrum þeirra grg., sem n. hefur látið gera:

Greinargerð um áhrif vinnutíma á hag atvinnurekstrar og launþega eftir Þóri Einarsson. Greinargerð um áhrif vinnutímalengdar á vinnuþrek og afköst eftir Matthías Jónasson. Samanburður á vinnutíma í ýmsum löndum. Stytting vinnutímans. Aðferðir, sem beitt hefur verið til þess að ná styttum vinnutíma í ýmsum löndum. Þróun samningsbundins vinnutíma Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, Trésmiðafélags Reykjavíkur og Hins íslenzka prentarafélags. Um orlofsréttindi á Íslandi. Og að lokum: Skýrslur um vinnutímalengd, sem voru undanfari Kjararannsóknarnefndar.

„Nefndin safnaði miklum upplýsingum frá nágrannalöndum okkar og víðar að um vinnutímalengd og leiðir, sem farnar hefðu verið til raunhæfrar styttingar vinnudagsins. Fljótlega varð ljóst, að upplýsingar, sen fengust frá Noregi, mundu verða til mestrar hjálpar, og kom tvennt til: Aðstæðurnar í atvinnulífi og atvinnuháttum eru í Noregi líkari okkar en annars staðar finnast, og ýtarlegar skýrslur um styttingu vinnudagsins eru til frá Noregi frá árunum 1954-1959, og veittu þær margs konar upplýsingar.

Seint á árinu 1964 hafði vinnutímanefnd gert frumdrög að frv. um vinnuvernd og hafði til hliðsjónar þau ákvæði norsku vinnuverndarlaganna, sem um vinnutímann fjalla Norsk lög um vinnuvernd fjalla einnig um öryggi á vinnustöðum, um vinnu kvenna, barna og ungra starfsmanna, um vinnulaun, uppsagnir, vinnureglugerðir, vinnueftirlitsráð, sem jafnframt gegnir störfum öryggiseftirlits, og um refsiákvæði við brotum á lögum.

Mjög kom til álita hjá vinnutímanefnd, hvort ekki bæri að sameina og samræma sambærileg íslenzk drög í einn lagabálk. Sú skoðun varð þó ofan á að slík frumvarpssmíð væri tæpast í verkahring n. og e.t.v. ekki tímabær að sinni, enn fremur í ljósi ályktunar Alþ. að snúa sér fyrst og fremst að því að ákveða um vinnutímann sjálfan.

Í byrjun apríl 1965 var frv. ásamt ýtarlegum skýringum og með þeim fylgiritum, sem fyrir lágu hjá n., sent til þessara aðila og beðið um athugasemdir og umsagnir um það: Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands. Félags íslenzkra iðnrekenda og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Voru þessir aðilar beðnir um svör innan eins til tveggja mánaða. Á seinni hluta ársins voru ítrekaðar óskir bornar fram til þessara aðila um álit þeirra og athugasemdir, en fyrst í marz 1966 bárust loks svör frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Félagi íslenzkra iðnrekenda. Lögðust báðir þessir aðilar heldur gegn lagasetningu á þessu sviði og töldu samningaformið heppilegra, en gerðu þar fyrir utan nokkrar athugasemdir við frv. sjálft. Frá öðrum aðilum hafa svör ekki borizt.

Með hliðsjón af þessum undirtektum þeirra höfuðaðila, sem átti að hafa samráð við um lausn vandamálsins, og þeirri skoðun n., að löggjöf um hámarksvinnutíma og takmörkun yfirvinnu væri nauðsynleg, svo að frekari árangri og raunhæfari yrði náð, tilkynnti formaður vinnutímanefndar félmrh. sama vor, að eins og málin stæðu virtist ekki tímabært að halda áfram störfum nefndarinnar.“

Samkv. framansögðu, þ.e. svörum formannsins, virðist ekki ástæða til að vænta endanlegs álits n. að svo stöddu.