12.10.1967
Sameinað þing: 0. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

Stjórnarsamningur

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti.

Á ríkisráðsfundi þann 10. október tilkynnti ég, að Alþfl. og Sjálfstfl. hefðu komið sér saman um að starfa áfram saman í ríkisstj. með sömu mönnum og sömu starfsskiptingu og verið hefur nú að undanförnu. Samningur sá, sem að baki þessari ákvörðun liggur, hljóðar svo:

Alþfl. og Sjálfstfl. hafa nú haft samvinnu í ríkisstj. síðan haustið 1959 eða í 8 ár. Hefur þetta samstarf staðið lengur samfleytt en nokkur önnur samvinna um stjórn landsins. Við upphaf þess mótuðu flokkarnir nýja stefnu í efnahagsmálum. Markmið hennar var að styðja að aukningu þjóðartekna og bættum lífskjörum með því að beina framleiðslu og viðskiptum inn á hagkvæmar brautir, rétta við greiðslujöfnuð við önnur lönd og endurvekja lánstraust þjóðarinnar erlendis. Stefna sú, sem fylgt hefur verið, hefur ásamt mikilli framleiðslu og hagstæðu útflutningsverðlagi sjávarafurða hin síðari ár fram á árið 1966 orðið þess valdandi, að þjóðartekjur hafa á undanförnum árum vaxið meira en á nokkru öðru sambærilegu skeiði, þannig að lífskjör þjóðarinnar jafnt til sjávar og sveita hafa að undanförnu verið betri og batnað örar en nokkru sinni fyrr. Þetta á sinn þátt í því, að þjóðin hefur vottað stjórnarflokkunum traust í þeim tvennum alþingiskosningum, sem háðar hafa verið frá því, að þeir gengu saman í ríkisstj. Alþingiskosningarnar nú í sumar leiddu í ljós, að stjórnarflokkarnir hafa meiri hl. kjósenda að baki sér og hlutu meiri hl. í báðum deildum Alþingis. Það er þess vegna ótvíræður vilji kjósenda, að stjórnarflokkarnir haldi samstarfi sínu áfram, enda hafa þeir ákveðið að gera það.

Verkefni þau, sem nú blasa við, eru hins vegar mjög ólík þeim, sem verið hefur við að etja á undanförnum árum. Verðfall á helztu útflutningsvörum, erfitt árferði víða um land og aflatregða hafa á síðustu misserum gerbreytt viðhorfum í íslenzkum efnahagsmálum. Vegna þess að allur almenningur hefur að undanförnu fengið hlutfallslega meira en fyrr af stórauknum þjóðartekjum verður ekki hjá því komizt, að samdráttur þeirra um sinn leiði nú til minnkandi tekna launþega jafnt og annarra. En aðalviðfangsefnið hlýtur að vera að koma í veg fyrir, að þessir örðugleikar leiði til atvinnuleysis og varanlegrar kjaraskerðingar. Til þess að það takist, þarf að gera ráðstafanir til þess að ná jafnvægi í tekjum og gjöldum ríkissjóðs, helztu atvinnugreina og þjóðarbúsins í heild. Verðfallið, sem hófst fyrir rúmu ári, gerði að verkum, að augljóst var, að útflutningsatvinnuvegirnir gætu ekki risið undir aukningu framleiðslukostnaðar. Ákvað ríkisstj. því að beita sér fyrir verðstöðvun í trausti þess. að launþegar æsktu þá ekki launahækkunar. Í þessu skyni varð ríkisstj. að stórauka niðurgreiðslur vöruverðs samfara öðrum ráðstöfunum jafnframt því, sem aðstoð við sjávarútveginn var aukin. Var þetta kleift í bili án nýrrar tekjuöflunar vegna mikils tekjuafgangs ríkissjóðs á árinu 1966, enda voru þá taldar horfur á, að verðfallið yrði ekki varanlegt. Nú hefur raunin orðið önnur, svo að bersýnilega er ekki unnt að minnka fyrirgreiðslur við sjávarútveginn, og ef halda ætti öllum þeim niðurgreiðslum, sem eiga sér stað, auk fjáröflunar til þess að greiða óhjákvæmilegan kostnaðarauka ríkisbúsins vegna fólksfjölgunar og skuldbindinga, sem þegar hvíla á ríkinu, þyrfti á næsta ári að afla um 750 millj. kr. nýrra tekna, til þess að ríkisbúskapurinn yrði hallalaus. Þess vegna hefur ríkisstj. ákveðið að fella niður þær niðurgreiðslur á íslenzkum landbúnaðarafurðum, sem ákveðnar hafa verið vegna verðstöðvunarinnar. Er hér um að ræða niðurgreiðslur að upphæð 410 millj. kr. á ársgrundvelli.

Þá hefur verð áfengis og tóbaks nú verið hækkað og er áætlað, að það auki tekjur ríkissjóðs á næsta ári um 75 millj. kr. Óhjákvæmilegt er að fallast á till. Tryggingastofnunar ríkisins um hækkun iðgjalda um rúmlega 60 millj. kr., því að ella væri fjárhag stofnunarinnar stefnt í voða. Leyfð verður hækkun daggjalda sjúkrahúsa, sem frestað var í ár með sérstökum greiðslum úr ríkissjóði. Þá munu afnumdar undanþágur, sem í gildi hafa verið um greiðslu söluskatts af póst- og símagjöldum og afnotagjaldi af hljóðvarpi og sjónvarpi. Eykur það tekjur ríkisins um 40 millj. kr. Jafnhliða fjárlagafrv. mun ríkisstj. leggja fyrir Alþ. frv. um sérstaka tekjuöflun og aðrar nauðsynlegar ráðstafanir vegna efnahagsörðugleikanna. Ætlunin er að leggja skatt á farmiða til útlanda, 3000 kr. á hvern miða, og er gert ráð fyrir, að þessi skattur afli ríkissjóði um 60 millj. kr. tekna á ári. Enn fremur verður lagt til, að við álagningu eignarskatts verði fasteignamat í kaupstöðum og kauptúnum tólffaldað í stað þess, að það er nú sexfaldað, en sexfaldað í sveitum, þar sem engin matshækkun er nú, og verður þessi hækkun þó lægri en hins nýja fasteignamats. Jafnframt verður lágmarksskattskylda nettóeigna tvöfölduð til þess að hækkun fasteignamatsins komi ekki niður á fólki, sem er tiltölulega eignalítið. Auk þess munu verða gerðar ýmsar ráðstafanir til sparnaðar í opinberum rekstri.

Með framangreindum ráðstöfunum á ríkisbúskapurinn að geta orðið hallalaus á næsta ári, en það er frumskilyrði þess, að hægt sé að ráða við þá efnahagsörðugleika, sem nú steðja að. Þessar ráðstafanir og þá auðvitað fyrst og fremst niðurfelling þeirra niðurgreiðslna, sem upp hafa verið teknar síðan verðstöðvunin komst á, hljóta að auka framleiðslukostnað. Kauplagsnefnd og hagstofan hafa reiknað út tvær vísitölur um breytingar á framfærslukostnaði. Samkv. gildandi lögum breytist kaupgjald í samræmi við breytingar á eldri vísitölunni. Það verður hins vegar ekki vefengt, að nýrri vísitalan er réttari mælikvarði á breytingu raunverulegs framfærslukostnaðar, því að hún er miðuð við neyzluvenjur á árinu 1965, en ekki 1953–1954, eins og hin fyrri, þegar lífskjör almennings voru miklu lakari en nú. Nýrri vísitalan er talin munu hækka um 4–5% í kjölfar þeirra ráðstafana, sem nú hefur verið lýst. Á hinn bóginn er fullvíst, að atvinnuvegir landsmanna geta ekki, eins og nú horfir, greitt hækkað kaup. Þess vegna er nauðsynlegt að koma í veg fyrir, að þessi hækkun framfærslukostnaðar valdi tilsvarandi kauphækkun, og eru því í frv. ákvæði um það, að kaup skuli ekki hækka vegna þessara ráðstafana. Að frátöldum slíkum óhjákvæmilegum verðhækkunum eins og þeim, sem taldar hafa verið, mun ríkisstj. áfram fylgja verðstöðvunarstefnu og er gert ráð fyrir, að ákvæði núgildandi verðstöðvunarlaga séu framlengd með því frv., sem áður er getið um. Jafnframt er ætlunin, að hin nýja vísitala taki gildi 1. marz n.k. og miðist kaupgjald framvegis við hana á sama hátt og verið hefur samkv. hinni eldri vísitölu. Þær ráðstafanir, sem nú hafa verið taldar, eru tvímælalaust lágmark þess, er gera þarf atvinnuvegunum til styrktar. Á undanförnum árum hefur ávallt þurft að framkvæma öðru hverju aðgerðir af því tagi, sem nú eru ráðgerðar. Slíkt er auðvitað óæskilegt. Til þess að eyða nauðsyn þvílíkra skyndiaðgerða ætið öðru hverju þarf að gera atvinnuvegi þjóðarinnar fjölbreyttari og síður sveiflum háða jafnframt því, sem markvisst verði að því unnið að auka framleiðni í öllum atvinnugreinum, sem og hagkvæmni í rekstri ríkis og sveitarfélaga. Stjórnarflokkarnir eru sammála um, að þetta sé á meðal mikilvægustu verkefna næstu ára, og mun ríkisstj. leggja höfuðáherzlu á, að árangur náist í þessum efnum.

Í þessu skyni mun ríkisstj. beita sér fyrir, að framleiðslugetu atvinnuveganna verði nýtt sem bezt, enda verði þessa gætt, bæði í rekstri og fjárfestingum. Í sjávarútvegi verður lögð sérstök áherzla á endurnýjun þorskveiðiflotans og þá endurskipulagningu fiskvinnslunnar, sem nú þegar er hafin, þannig að betur nýtist þau tæki, sem þegar eru fyrir hendi. Í landbúnaði verði stefnt að því að auka framleiðni og fjölbreytni framleiðslunnar, þannig að hann verði í framtíðinni fær um að fullnægja margbreytilegum þörfum innlends markaðs og flytja út vörur án uppbóta úr ríkissjóði. Í iðnaði verði haldið áfram að styrkja viðleitni fyrirtækja til að laga sig að þeim breyttu aðstæðum, sem frjáls innflutningur og lækkandi tollar skapa. Sérstaklega verði stefnt að eflingu þeirra iðngreina, sem eðlilegastur starfsgrundvöllur er fyrir hér á landi, svo sem iðnaði í tengslum við framleiðsluatvinnuvegina, þar á meðal skipasmíða og skipaviðgerða, veiðarfæraiðnaðar og netagerða og stuðlað verði að stofnun iðngreina til hagnýtingar náttúruauðlinda. Í viðskiptum verði lögð áherzla á að efla nýja verzlunarhætti, er lækki dreifingarkostnað, jafnframt því sem sett verði löggjöf um eftirlit með einokunarverðmyndun og samtökum um verðlagningu.

Um opinberan rekstur og framkvæmdir mun ríkisstj. leggja áherzlu á, að gerðar séu hliðstæðar ráðstafanir og í atvinnurekstri til lækkunar tilkostnaðar. Fjárlaga- og hagsýslustofnunin mun hafa forystu um að beita sér fyrir þessu í samvinnu við einstök ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög. Jafnframt því, sem unnið verði að framleiðniaukningu hvarvetna, sem við verður komið, telur ríkisstj. að halda beri áfram stóriðjuframkvæmdum, svo að öll landgæði, þar á meðal fossaafl og jarðhiti, nýtist þjóðinni allri til heilla. Í því skyni telur ríkisstj., að leita beri samvinnu við erlenda aðila eftir því, sem þörf er á, jafnframt því, sem úrslitayfirráð Íslendinga séu tryggð á sama veg og gert var um þær framkvæmdir, er þegar hefur verið ráðizt í. Sem fyrst verði kannaðir til hlítar möguleikar á vinnslu nytsamra efna úr sjó og undirbúin stækkun Áburðarverksmiðju.

Markaðsaðstöðu erlendis þarf að bæta, m.a. með tafarlausri fullnaðarkönnun á möguleikum á aðild að Fríverzlunarbandalaginu jafnframt því, sem leitað verði viðhlítandi samnings við Efnahagsbandalagið, enda sé það ljóst frá upphafi, að full aðild kemur þar ekki til greina. Stöðugt verði unnið að öflun nýrra markaða í samvinnu við samtök atvinnuveganna. Með þessum og öðrum ráðum verði stuðlað að því, að þjóðartekjur geti sem skjótast aukizt á ný og mun þess eftir föngum gætt, að jafnframt því, sem atvinnurekstur búi við skilyrði, er veiti möguleika til áframhaldandi vaxtar, fái almenningur svo mikinn hluta aukins arðs, sem unnt er. Um þessar og aðrar efnahagsráðstafanir til tryggingar kjörum almennings og atvinnurekstri, hyggst ríkisstj. hafa samráð við almannasamtök, þar á meðal stéttarfélög. Þessi er meginstefnan, sem samkomulag hefur orðið um að fylgja, og hefur jafnframt verið samið um framgang nokkurra sérstakra mála. Haldið verði áfram að starfa að áætlunargerð um framkvæmdir og efnahagsþróun eftir því, sem reynsla hefur leitt í ljós, að við eigi hér á landi. Sérstök áherzla sé á næstu árum lögð á áætlunargerð til eins árs í senn til stuðnings við mörkun stefnu í efnahagsmálum og fjármálum jafnframt því, sem unnið sé að áætlunum til langs tíma um einstakar greinar opinberra framkvæmda og opinbers rekstrar. Hraðað verði áætlunum um þróun einstakra byggðarlaga og landshluta og reynt eftir föngum að hagnýta áætlunargerð um þróun atvinnugreina til langs tíma. Almannatryggingar verði endurbættar í samræmi við fengna reynslu hér og annars staðar og leitazt við, að íslenzkt tryggingakerfi haldist í fremstu röð. Kappsamlega verði haldið áfram undirbúningi almenns lífseyrissjóðs fyrir alla landsmenn.

Í húsnæðismálum verði öll aðstoð af hálfu ríkisins samræmd, svo að sem flestir möguleikar skapist fyrir nægilegum byggingum með sem minnstum tilkostnaði, enda verði, jafnframt því, sem opinber stuðningur við byggingar haldist, stuðlað að eðlilegri samkeppni í byggingum. Gerð verði áætlun til nokkurra ára, hliðstæð þeirri, sem nú er hafin framkvæmd á í Reykjavík, um fjöldaframleiðslu íbúða fyrir efnalítið fólk annars staðar í þéttbýli, þar sem þörf er fyrir hendi. Verðtrygging húsnæðislána verði samræmd reglum um víðtæka verðtryggingu fjárskuldbindinga, sem er í undirbúningi. Stefnt verði að því að bæta enn menntunarskilyrði æskunnar í því skyni, að hún öðlist þá þekkingu og tækni, sem allar framfarir byggjast nú á í vaxandi mæli. Fram fari allsherjarendurskoðun á framfærslukerfinu og í því sambandi lögð sérstök áherzla á áframhaldandi undirbúning og framkvæmd áætlana í menntamálum. Stefnt verði að því, að vaxandi hlutfallstala hvers árgangs stundi framhaldsnám. Haldið verði áfram endurbótum í löggjöf og framkvæmd í heilbrigðismálum. Sett verði ný lög um almennt og samræmt heilbrigðiseftirlit í öllu landinu. Lagt verði kapp á að ljúka áætlunargerð um byggingar heilbrigðis- og rannsóknarstofnana í tengslum við Landsspítalann og framtíðartengsl hans og annarra heilbrigðisstofnana við Læknadeild háskólans. Unnið verði að aukinni hagkvæmni á grundvelli nýrrar tækni í rekstri sjúkrahúsa og á annan hátt gerðar ráðstafanir, til þess að aukin fjáröflun til heilbrigðismála nýtist sem bezt. Endurskoðað verði skipulag yfirstjórnar heilbrigðismála.

Gerð verði áætlun um varanlegar vegabætur og leitað lánsfjár til þeirra framkvæmda, enda verði umferðargjald lagt á notkun varanlegra vega jafnskjótt og fyrir fram ákveðnum áföngum er náð. Landgræðsla og gróðurvernd verði efld og aukin eftir því, sem föng eru á.

Fjármálakerfi ríkisins verði endurskoðað, þar á meðal skipting tekjustofna milli ríkis og sveitarfélaga ásamt verkaskiptingu þeirra á milli. Gerð verði áætlun um lækkun innflutningstolla með þeim hætti, að ekki valdi óeðlilegri truflun á atvinnurekstri, sem fyrir er. Haldið verði áfram athugun á hagkvæmni þess, að tekið verði upp staðgreiðslukerfi við skattgreiðslu jafnframt því, sem leitazt verði við að gera skattheimtu ríkisins einfaldari og öruggari. Sett verði ný löggjöf um stjórnarráðið og hina æðstu umboðsstjórn. Teknar verði upp viðræður milli stjórnmálaflokkanna um þá breytingu á stjórnarskránni, að Alþingi verði ein málstofa. Endursamþykkt verði á þessu þingi stjórnarskrárfrv. um lækkun kosningaaldurs í 20 ár. Nauðsynlegar breytingar á kosningalögum til Alþ. verði gerðar. Efnt verði til sérfræðilegrar könnunar af Íslands hálfu á því, hvernig vörnum landsins verði til frambúðar bezt háttað. Unnið verði áfram að friðun fiskimiða umhverfis landið og viðurkenningu á rétti Íslands yfir öllu landgrunninu.“