12.12.1967
Efri deild: 31. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

23. mál, almannatryggingar

Jón Árnason:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá atriði í ræðu hv. 2. þm. Austf., sem ég vildi segja um nokkur orð.

Það er rétt, sem kom fram hjá honum, að þessi brtt. á þskj. 115 er til þess ætluð að skapa rekstursgrundvöll undir sjúkrahúsin. Og það er líka rétt, sem þar kom fram, að þar með dreifist meira út byrðin á milli sveitarfélaganna en nú á sér stað. Hann taldi, að í sumum tilfellum mætti líta svo á, að ekki þyrfti að komast fullur jöfnuður á, það væri viss aðstaða, sem skapaðist í þeim sveitarfélögum, sem sjúkrahúsin rækju.

Að sumu leyti er það rétt, að þar geti verið um víss hlunnindi að ræða, að sumu leyti er það ekki rétt. Þar á ég við það, að segja má, að það sé rétt, að þar sem slík stofnun sem sjúkrahús er, skapast nokkur tekjumöguleiki fyrir viðkomandi sveitarfélag í gegnum opinbera skatta, útsvör og annað þess háttar. Þar kemur aftur á móti það, að þetta sama sveitarfélag verður að leggja á sína borgara allmikla byrði til þess að standa straum af stofnkostnaði og byggingarkostnaði húsanna á fyrsta stigi. Ég hygg, að ekki sé gert ráð fyrir því, a.m.k. hefur það ekki komið fram í viðræðum, sem hafa átt sér stað í sambandi við þetta, að viðkomandi sveitarfélög fái inn í reksturskostnaðinn aðstöðu til þess að afskrifa stofnkostnaðinn svo og svo mikið. Eðli legur reksturskostnaður verði hins vegar borinn uppi á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir.

Þá sagði hv. þm., að það væri aðstaða í viðkomandi sveitarfélögum til þess að fylgjast með rekstrinum og halda honum niðri sem eðlilegustum af þeim sökum, en skv. því, sem brtt. segir, er hér veitt nokkurt aðhald, því að það á að miða við eðlilegan reksturskostnað, „enda séu gjöldin í samræmi við hagkvæman rekstur og þá þjónustu, sem stofnunin veitir. Heilbrigðismálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um starfssvið n. og framkvæmd.“

Ég álít, að með þessu ákvæði í brtt. sé skapað visst aðhald fyrir viðkomandi sveitarfélög, sem reka þessi sjúkrahús. Þetta hefur verið þannig, eins og hér kom fram hjá frsm., að samningar hafa átt að eiga sér stað milli Tryggingastofnunar ríkisins og sjúkrahúsanna. Þetta hefur þó verið þannig í reyndinni, að samningar hafa í mörgum tilfellum ekki átt sér stað, heldur hefur það verið rn., sem hefur úrskurðað daggjöldin, og reynslan er sú, að daggjöldin hafa ekki svarað raunverulegum kostnaði á undanförnum árum, og þess vegna er lagt til, að þessi leiðrétting verði hérna gerð.