19.12.1967
Sameinað þing: 24. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

1. mál, fjárlög 1968

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða almennt um fjárlagafrv. eða einstaka liði þess, en mæla hér fyrir örfáum brtt., sem við flytjum fjórir saman, þm. af Austurlandi, ég og hv. þm. Lúðvík Jósefsson, Páll Þorsteinsson og Vilhjálmur Hjálmarsson.

Það er fyrst brtt. á þskj. 171, I. lið, c-undirlið um skóla. Að þar verði bætt inn fjárveitingu til barnaskólabyggingar að Búðum í Fáskrúðsfirði, 250 þús. kr., þ.e.a.s. til undirbúnings því verki og til þess að sá skóli fái sæti á fjárl. Það er ekki farið fram á meira. En þannig er ástatt á þessum stað, að skólinn er orðinn óhæfur, má segja. Þar hefur fjölgað börnum og mikil framþróun er þar í plássinu með auknu atvinnulífi og fólksfjöldi vaxandi og orðið mjög aðkallandi að hefjast handa um nýja barnaskólabyggingu.

2. till. er við 4. gr. og 5. gr. Það eru tvær brtt. saman, en þær eru báðar um sama efni. Formsins vegna verða þær að vera tvær. Þær eru um, að 500 þúsund kr. verði veittar til þess að gera laxastiga í Lagarfossi í Lagarfljóti. Enginn lax er fyrir ofan fossinn, en vatnasvæðið talsvert mikið að Lagarfljótinu. Mundi verða stórfelldur búhnykkur fyrir allt Austurland, ef það tækist að fá laxgengd í Lagarfljót og árnar, sem í það falla. Það var fyrir nokkuð löngu siðan gerð tilraun í þessa átt og gerður laxastigi, en hann reyndist ekki heppilega byggður og hefur ekki komið að neinum notum. Þarna er veiðifélag, en að sjálfsögðu mun það ekki hafa bolmagn til þess að gera þetta óstutt frekar en aðrir, þar sem líkt stendur á. Fjárveiting er af svo skornum skammti í fjárlagafrv. í þessu skyni, að litlar horfur eru á, að nokkuð fengist til laxastigabyggingar í Lagarfossi, ef engu verður breytt frá því, sem nú hefur verið gengið frá þeim málum. Því höfum við leyft okkur að leggja fram þessa brtt. um að bæta inn sérstökum lið, 500 þús. kr.

Þá er brtt. við 4. gr. um fjárveitingar til þess að byggja nýja flugvelli og lagfæra og endurbæta þá, sem fyrir eru, og leggjum við til, að þessi liður verði hækkaður um 5 millj. kr. Þannig er ástatt um þennan lið, að hann er með öllu ófullnægjandi, eins og ég veit, að hv. fjvn.-menn gera sér ljóst, því að þeir hafa fengið glöggar upplýsingar um þessi mál, veit ég, frá flugmálastjórninni. Sérstaklega hvílir þetta þungt á okkur Austfirðingum, vegna þess að flugvellir okkar eru mjög ófullkomnir allir, en umferð ákaflega mikið vaxandi og meira vaxandi þar en nokkurs staðar annars staðar, og leiðir það af því, hversu atvinnulíf hefur eflzt á Austurlandi á síðustu árum, vegna þess hvernig síldin hefur hagað göngu sinni. Þangað streymir mikill mannfjöldi á sumrin og haustin, eins og kunnugt er. Þetta er aðkomufólk, sem þarf að komast fram og til baka, og látlaus straumur sjómanna af fiskveiðiflotanum, sem er að fara í leyfi og erinda sinna heim og svo til skips og með hin margvíslegustu erindi að ferðast fram og aftur. Það kemur sér því ákaflega illa, hvernig ástatt er um flugvellúna, og vil ég fara nokkrum orðum um hvern þeirra, en við hugsum okkur, að þeir nytu góðs af þessari fjárveitingu, ef hún fengist hækkuð um þessa fjárhæð.

Ég vil fyrst nefna Vopnafjörð. Þannig er ástatt á Vopnafirði, að byggðin er mjög einangruð, því að marga mánuði ársins er nálega ekki um neinar aðrar samgöngur að ræða, síðan strandferðum hrakaði svo mjög sem raun er á orðin, en fara um loftið. Vegir eru þannig og aðstaða öll, að þeir lokast að vetri til. Þarna er að vísu flugvöllur, en allsendis ófullnægjandi, og ber brýna nauðsyn til að lengja flugbrautina og bera rækilega ofan í völlinn.

Neskaupstaður er eins og kunnugt er vaxandi kaupstaður og mikið framleiðslupláss, en einangraður landmegin marga mánuði ársins vegna þess, hve hár fjallvegurinn er, sem að honum liggur, og þá lítt á aðrar samgöngur að stóla. Fjallvegurinn er á milli Neskaupstaðar og aðalflugvallarins á Austurlandi á Egilsstöðum. Þarna verður því að hafa sérstakan flugvöll, sem hefur verið byggður. En það er sama um hann að segja og svo marga aðra, að það ber brýna nauðsyn til að lengja flugbrautina, og þar vantar einnig öryggistæki mjög tilfinnanlega. Flugskýli lítið hefur verið sett þar upp, en fátækt flugmálastjórnarinnar var svo mikil, að hún gat ekki lagt neitt í flugskýlið, þó að það væri hennar skylda að koma því á fót, og urðu byggðarmenn sjálfir að koma flugskýlinu upp, og skuldar flugmálastjórnin þeim andvirðið.

Þá er það Egilsstaðaflugvöllur, sem er aðalflugvöllurinn fyrir Austurland. Hann er orðinn svo mikill liður í samgöngukerfi landsins, að þangað koma og þaðan fara fleiri í lofti en nokkurs staðar annars staðar að fráskilinni Reykjavík og Akureyri. Hann er þriðji mesti umferðarvöllur landsins. En ástatt er þannig á þessum stað, að þar vantar flugstöð. Að vísu er hún nú langt komin, búið að starfa að henni í nokkur ár. En ástandið hefur verið þannig undanfarið, að það hefur orðið að afgreiða farangur farþeganna úti. Það hefur ekki verið hægt að koma við slíkri afgreiðslu nema að litlu leyti inni og sjá allir, þvílíkt neyðarástand það er. Nú er að rætast úr þessu nokkuð með flugstöðina, sem þó er eftir að greiða síðasta áfangann af. En þá kemur næst að byggja upp norðurenda flugbrautarinnar, sem er með öllu ófullnægjandi, þarf að lengja flugvöllinn til norðurs, rífa endann upp og gera hann úr betra efni, miðað við það, hversu myndarlegar flugvélar eru nú komnar í notkun.

Þá vil ég nefna Hornafjarðarflugvöll, sem er nýlegur í Árnaneslandi, en var áður fyrir sunnan fljótið, bráðabirgðavöllur, sem lagður var niður fyrir tveimur árum og þessi tekinn í notkun, og var það mikil endurbót. En það er sama sagan, að þar er ekki um mikið meira en hálfklárað verk að ræða. Það þarf að lengja aðalbrautíma og styrkja hana. Þá er þar nánast engin flugstöð, þar vantar líka ljósabúnað, sem veldur stórkostlegum vandkvæðum, eins og nærri má geta. Það eru því talsvert stórfelldar framkvæmdir enn eftir þarna, svo að vel sé fyrir öllu séð.

Loks nefni ég flugvöllinn á Fagurhólsmýri í Öræfum. Það hefur orðið að leggja niður ferðir í Öræfin með hinum nýtízkulegri vélum, vegna þess að völlurinn þolir ekki þessar vélar. Það þarf að malbera brautina til þess að svo megi verða. Það má nærri geta, hvernig þetta kemur sér, því fólkið þarna hefur fram að þessu mest nú um æðilanga hríð treyst á flugsamgöngur, einnig varðandi vöruflutninga sína. Svo er þess að gæta, að í þetta byggðarlag er sívaxandi ferðamannastraumur, eins og eðlilegt er. Og nú er kominn þjóðgarður í Öræfin, sem betur fer, og vex þá vonandi enn ferðamannastraumurinn í þetta byggðarlag, ef sæmilega er fyrir öllu séð. Þarna er því brýn þörf framkvæmda.

Nú mega menn heyra á því, sem ég hef sagt með fáum orðum um þessa 5 flugvelli, fyrir utan annað smærra, sem mætti nefna, að það er ærin þörf fyrir verulegar úrbætur í þessu efni í þessum landshluta, og það ætla ég, að þeim þm. sé ljóst, sem hafa kynnt sér þessi málefni, t.d. rætt við flugmálastjórnina, sem ég býst við, að flestir þm. hafi gert vegna sinna héraða og bera þá vitneskju, sem þeir hafa fengið þar, saman við fjárveitinguna, sem fyrirhuguð er í fjárl., að brýn nauðsyn sé á því að hækka þessa fjárveitingu, og jafnvel kannske fáar fjárveitingar fjárl. brýnni.

Ég leyfi mér að afhenda hæstv. forseta þessar till. skrifl., en þær hafa líka farið í prent. Ég tók þann kost að mæla fyrir þeim strax, þó að þær væru ekki komnar prentaðar, til þess að flýta fyrir. Og vona ég, að málin gjaldi þess ekki.