19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

1. mál, fjárlög 1968

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt bv. 2. landsk. þm., Eðvarð Sigurðssyni, brtt. við eina af brtt. þeim, sem meiri hl. fjvn. hefur lagt fram. Till. okkar mun ekki vera komin úr prentun, en ég vil leyfa mér að gera grein fyrir henni engu að síður. Hér er um að ræða brtt. við lið þann í brtt. meiri hl. fjvn., sem merktur er 25, og fjallar um iðnskóla. Og till. er í því fólgin, að fjárveiting til Iðnskólans í Reykjavík, sem meiri hl. leggur til, að verði 2 millj. 840 þús. kr., hækki í 6 milljónir 500 þúsund kr. Svo sem kunnugt er, er verið að byggja allmikla viðbyggingu við Iðnskólann í Reykjavík. Þetta er gert til framkvæmda á löggjöf, sem sett var hér á þingi fyrir rúmum tveimur árum um nýja tilhögun iðnfræðslunnar um, að tekin verði upp verkkennsla, og það er eins og allir hv. þm. vita, ákaflega brýn nauðsyn, ef við viljum fylgjast með í þeirri tækniþróun, sem er að gerast allt umhverfis okkur. Hér á Íslandi eru nú um 60 iðngreinar löggiltar, en í 50–55 þeirra eru iðnnemar. Hins vegar hefur verkkennsla sú, sem um var rætt í þeim lögum, sem hér voru sett fyrir rúmum tveimur árum, ekki verið tekin upp nema í tæpum 20 iðngreinum og það við ákaflega léleg skilyrði. Ástæðan hefur verið fyrst og fremst húsnæðisskortur, ekki sízt við stærsta skólann, hér í Reykjavík. Iðnfræðsluráð gerði á sínum tíma í samráði við iðnfræðslunefnd áætlun um byggingu viðbyggingar við Iðnskólann í Reykjavík. Þar var áætlað, að sú bygging ætti að kosta 68.6 millj. kr. og rísa á árunum 1967–1973. Gerð var framkvæmdaáætlun fyrir hvert ár um sig, og á árinu 1967, yfirstandandi ári, átti að verja til þessara framkvæmda 17 millj. kr. í húsbygginguna og 3,4 millj. kr. í vélar og tæki eða samtals 20,4 millj. kr. Hins vegar var aðeins varið til þessara þarfa 4–5 millj. kr. á þessu ári. Á næsta ári, því, sem við erum nú að ákveða fjárlög fyrir, var ráðgert í þessari áætlun, að fjárframlög til húsbyggingarinnar yrðu 13 millj. kr., en 3,3 millj. færu í vélar og tæki eða samtals 16.3 millj. kr. Og síðasta stórátakið átti svo að koma á árinu 1969, 12,5 millj. kr. í bygginguna og 3.4 millj. kr. í vélar og tæki eða samtals 15.9 millj. kr. Síðan átti að verja 4 millj. kr. á ári eftir það til þess að fullgera bygginguna.

Í fjárlagafrv. nú er aðeins gert ráð fyrir því, eins og ég sagði áðan, að lagðar séu fram úr ríkissjóði rúmar 2.8 millj. kr. En samkv. þessari áætlun, sem ég var að greina hér frá, hefði hlutur ríkisins átt að vera 6,5 millj. kr. af byggingarkostnaðinum einum, þó að sleppt sé vélum og tækjum. Till. okkar hv. 2. landsk. þm. fjallar um það eitt, að framlög ríkisins verði í samræmi við þessa áætlun. Gangurinn við þessa byggingu hefur verið hörmulega hægur. Það standa þarna eins konar húsatóftir, eins og allir hv. þm. vita, og ég fæ ekki betur séð, ef áfram verður haldið jafnlitlum fjárveitingum til þessara framkvæmda, en þarna sé að endurtaka sig sagan um Borgarspítalann, sem nú er búinn að vera í byggingu í nærri tvo áratugi. Verði gangurinn ekki betri með iðnskólabygginguna en verið hefur að undanförnu, er sýnt, að hún verður ekki komin upp fyrr en á seinustu árum 9. áratugsins, og ég held, að hv. þm. ættu að geta gert sér ljóst, hvaða áhrif slíkt hefur einmitt á það, sem ég var að geta hér um áðan, tæknimenntun og iðnþróun á Íslandi. Ég vil því vænta þess, að þessari till. verði tekið af þeim skilningi, sem hún verðskuldar, einmitt vegna þess að það er svo stutt liðið síðan Alþingi setti þá löggjöf, sem ætlunin er að framkvæma í þessu húsi.

En um leið og ég mæli fyrir þessari litlu till., langar mig til þess að lýsa sérstakri ánægju minni vegna þeirra till. fjvn., að framlag til bókasafnshúss skuli nú í fyrsta skipti tekið á fjárlög. Ég hef vikið að þessu nauðsynjamáli nokkrum sinnum undanfarnar vikur, m.a. við 2. umræðu fjárlaga, og hæstvirtur fjmrh. tók þá máli mínu líklega, og hefur eins og hans var von og vísa ekki látið sitja við orðin tóm. Ég tel að vísu, að upphæð sú, sem till. fjallar um, 11/2 millj. kr., sé til muna of lág, en mun þó ekki þetta árið flytja hækkunartill. Ég tel ákvörðunina um fjárveitingu úrslitaatburð í sögu þessa máls, eftir að fyrsta skrefið hefur verið stigið, ætti að vera auðveldara að þoka málinu áfram stig af stigi. Ég þykist vita, að hæstv. menntmrh. hljóti að fagna því alveg sérstaklega, að geta nú í verki hafizt handa um framkvæmd þeirrar þáltill., sem hann stóð sjálfur að fyrir áratug, en hefur allt til þessa reynzt orðin tóm. En raunar þarf hæstv. menntmrh. að huga að fleiru en fyrsta undirbúningi að byggingu bókasafnshúss. Annað verkefni, sem tengt er sameiningu safnanna, hefur lengi verið brýnt. Hæstv. menntmrh. vék sjálfur að því hér á þingi fyrir tveimur árum, þegar hann svaraði fsp. um bókasafnsmál frá hv. 5. þm. Reykv., en þá sagði hæstv. menntmrh., með leyfi hæstv. forseta:

„Í þessu sambandi hefur athyglinni sérstaklega verið beint að því verkefni að koma á fót sérstakri skráningarmiðstöð, þ.e.a.s. gera ráðstafanir til þess að á einum stað sé til yfirlit um öll sérfræðibókasöfn, ekki aðeins þessi tvö, heldur öll sérfræðibókasöfn opinberra stofnana, svo að sjá megi á einum stað, hvaða vísinda- og fræðibækur séu til í innlendum söfnum og þá, hvar þær séu fyrir hendi. Á s.l. vori var efnt í menntmrn. til umræðufundar með fulltrúum ríkissafnanna stóru og þeirra opinberu stofnana, sem eiga sér einhver sérfræði- eða vísindabókasöfn. Og er haldið áfram athugun á því, hvernig þessu skráningarmiðstöðvarmáli megi hrinda sem skjótast og haganlegast fram. Þá vil ég einnig láta þess getið, að æskilegt væri, að komið yrði á fót upplýsingamiðlun, t.d. í sambandi við skráningarmiðstöðina, þar sem menn geti fengið m.a. ljósritaða úrdrætti úr vísindabókum og sérfræðitímaritum. Slíkt er farið að tíðkast mjög í ýmsum nálægari löndum, og er til mikils hægðarauka fyrir vísindamenn og fræðimenn. Mun verða haldið áfram athugun á því að koma upp skráningarmiðstöð fyrir öll vísindasöfn í Reykjavík a.m.k. og e.t.v. upplýsingaþjónustu í sambandi við þá miðstöð.“

Eins og hæstv. ráðh. benti á, er hér um mjög mikilvægt verkefni að ræða, tengt sjálfri hugmyndinni um sameiningu safnanna. En þrátt fyrir þau fyrirheit, sem gefin voru um framtak á þessu sviði 1965, hefur ekkert verið aðhafzt síðan. Er þess að vænta, að einnig þetta mál komist nú á framkvæmdastig hjá hæstv. ráðh.

Lokatölur hæstv. ríkisstj. um heildartölur fjárl., tekjuöflun annars vegar og gjöld hins vegar, hafa nú loks verið birtar okkur þm. Tekjuáætlunin hefur verið vefengd með ýmsum rökum. Glöggskyggnir menn telja, að hæstv. ríkisstj. ætli að sópa í ríkissjóð mun hærri upphæðum en hún viðurkennir nú, enda hefur það verið háttur hennar fyrr, að ráðstafa með því móti hundruðum millj. kr. án samráðs við Alþ. Sjálf viðurkennir ríkisstj., að tekjurnar verði á 3. hundrað millj. kr. meiri en gjöldin og hún boðar, að hún ætli að endurgreiða almenningi þá upphæð með tollalækkunum. Okkur er síðan ætlað að fallast á þessa tekjuöflun í trausti þess, að við það fyrirheit verði staðið og án þess að við höfum hugmynd um, hvernig fyrirhugaðri tollalækkun verði háttað. Félagar verzlunarráðsins hafa fengið vísbendingu um það atriði, en ekki hið háa Alþingi. Ég verð að viðurkenna, að traust mitt á hæstv. ríkisstj, er það takmarkað, að ég er ekki reiðubúinn til að gefa henni sjálfdæmi á þessu sviði. En ríkisstj. ætlar sem sé að hafa þann hátt á að innheimta af almenningi mun meira fé en jafngildir þörfum fjárl. og lofar að endurgreiða mestan hluta af þessum umframtekjum. Eigi að hafa þennan hátt á, koma margar og brýnar þarfir til álita, auk þeirra, sem hæstv. ríkisstj. hefur nefnt.

Ég vil minna hv. alþm. sérstaklega á ástandið í húsnæðismálum í tilefni af því, að minni hl. fjvn, flytur till. um 55 millj. kr. aukið framlag til þeirra þarfa. Hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins liggja nú um 2000 umsóknir óafgreiddar og verði ekki að gert, mun enginn þessara umsækjenda fá eyri frá stofnuninni fyrr en á árinu 1969 og þá aðeins minni hl. þeirra. Umsóknir vegna lánveitinga í ár áttu að berast fyrir 16. marz, og höfðu þá komið yfir 1300 umsóknir. Af þeim hópi fengu 500–600 manns úrlausn, en um 800 umsækjendur fengu engar fjárveitingar hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins. Síðar á þessu ári hafa bætzt við 1200 umsækjendur, svo að hópur hinna óafgreiddu er nú um 2000, eins og áður segir. Ef allur sá hópur ætti að fá úrlausn samkv. reglum stofnunarinnar, þyrfti hún 700–800 millj. kr. til viðbótar venjulegum tekjum sínum. Sú tala gefur nokkra hugmynd um það, að hér er um stórfellt neyðarástand að ræða.

Almennar lánagreiðslur úr byggingarsjóði ríkisins verða á næsta ári um 200 millj. kr., en þær hafa áður numið um 400 millj. kr. Ástæðan fyrir þessum stórfellda samdrætti á almennum lánveitingum er sú, að nær 200 millj. kr. eru teknar frá vegna byggingarframkvæmdanna í Breiðholti. Þær framkvæmdir eru, sem kunnugt er, árangur af kjarasamningum, sem verkalýðsfélögin gerðu 1965. Til þess að stuðla að lausn á mjög umfangsmiklu verkfalli, sem þá var hafið hér í höfuðborginni, lofuðu ríkisstjórn og Reykjavíkurborg, að byggðar skyldu í þágu meðlima verkalýðsfélaganna 1250 íbúðir á árabilinu 1966–1970. Íbúðir þessar skyldu seldar með miklu betri kjörum en hér hafa tíðkazt, þótt slík kjör þyki sjálfsögð og almenn regla í nágrannalöndum okkar. Ákveðið var, að 80% af andvirði íbúðanna skyldi lánað til 33 ára og greiðast með jöfnum afborgunum, en 20% greiðast í fjórum áföngum á tímabilinu frá því að úthlutun færi fram og þar til tveimur árum eftir að flutt væri í íbúðina. Hér var um að ræða mjög verulega aðgerð til þess að leysa húsnæðisvandamál láglaunafólks, og verkalýðsfélögin tóku tillit til þessa fyrirheits í kjarasamningum sínum 1965 samkv. þeirri meginreglu alþýðusamtakanna að meta hvers kyns félagslegar umbætur til jafns við kauphækkanir. Verkafólk sætti sig sem sé við lægra kaup í trausti þess, að hæstv. ríkisstj. legði fram fjármagn til þess að tryggja umbætur í húsnæðismálum. En hverjar hafa efndir hæstv. ríkisstj. orðið á þessu sviði? Ríkisstj. hefur ekki aflað neins nýs fjármagns til þessara framkvæmda. Reykjavíkurborg hefur lagt fram sinn hlut, — aflað hefur verið lána úr atvinnuleysistryggingasjóði, en frá ríkisstj. hefur ekki komið neitt nýtt fjármagn. Hún hefur aðeins velt verkefninu yfir á byggingarsjóð ríkisins, án þess að tryggja honum nýjar tekjur á móti. Það fjármagn, sem notað hefur verið til framkvæmda í Breiðholti, hefur þannig verið klipið af almennum lánveitingum byggingarsjóðs ríkisins með þeim afleiðingum, sem ég var að lýsa hér áðan, — almennar lánveitingar úr byggingarsjóði ríkisins verða á næsta ári helmingi lægri en þær hefðu ella orðið. Hér er um að ræða mjög alvarlegar og ótvíræðar vanefndir af hálfu hæstv. ríkisstj., vanefndir sem jafngilda samningsrofi. Og þessar vanefndir bitna á þúsundum fjölskyldna. Ekki sízt hefur fólk utan Reykjavíkur ástæðu til að benda á, að hlutur þess hefur verið skertur mjög verulega. Þessi staðreynd ásamt þeim örlögum júní-samkomulagsins, sem mönnum eru nú í fersku minni, mætti vera verkalýðshreyfingunni sönnun þess hversu tryggilega þarf að ganga frá öllum málum í samskiptum við ríkisstj. Fögur orð hrökkva skammt.

Reynsla sú, sem þegar hefur fengizt af úthlutun íbúða í Breiðholtshverfi, er raunar sönnun þess einnig, hversu alvarlegt ástandið er í húsnæðismálum. Í haust var úthlutað 283 íbúðum í þessu nýja hverfi. Umsóknarrétturinn var sem kunnugt er mjög þröngur, bundinn við þá, sem erfiðasta aðstöðu hafa. Samt bárust 1440 umsóknir um þessar 283 íbúðir, um 5 fjölskyldur sóttu um hverja íbúð. Úthlutunarnefndin greindi síðan frá því, að það hefði í rauninni verið óvinnandi verk að velja úr þessum umsækjendahópi. Á 6. hundrað umsækjenda bjuggu við hreint neyðarástand og á 4. hundrað að auki þurftu á tafarlausri úrlausn að halda. Í viðtali, sem birtist í Þjóðviljanum 8. okt. í haust, greindi einn nm., Guðmundur J. Guðmundsson, frá ástandinu í húsnæðismálum eins og það kom í ljós af umsóknum þessum, en Guðmundur er sá fulltrúi verkalýðshreyfingarinnar, sem mest hefur unnið að Breiðholtsframkvæmdum frá upphafi. Hann stóð að samningunum 1965, hefur síðan verið fulltrúi Alþýðusambands Íslands í framkvæmdanefnd byggingaráætlunar og starfaði að fyrstu úthlutuninni, eins og ég sagði áðan. Mér þykir rétt að lesa hér stuttan kafla úr lýsingum Guðmundar, með leyfi hæstv. forseta. Guðmundur J. Guðmundsson segir:

„Staðreyndin er sú, að menn gera sér yfirleitt enga grein fyrir því, hversu bágborið ástandið er í húsnæðismálum hér í Reykjavík og nágrenni. Ég þekkti að vísu sumt fyrir, annað kom manni mjög á óvart. Það sem maður þekkti gerst fyrir, voru íbúðir t.d. í Höfðaborginni og alls konar skúrræflar, sem notaðir eru sem íbúðir í úthverfum borgarinnar. En það, sem kom manni verulega á óvart, var í fyrsta lagi, hvað geysistór hópur ungra hjóna og hjónaefna búa í íbúð ásamt foreldrum sínum, þar sem þegar var þó yfirleitt fullsetið fyrir. Mörg dæmi eru til um, að ung hjón séu með 1, 2 og 3 börn í einu herbergi hjá foreldrunum. Þá eru mörg dæmi þess, að ung hjón eða hjónaefni verða að búa sitt í hvoru lagi vegna húsnæðisleysis. Það er sérstaklega brýnt að leysa vandamál þessa fólks af þeim ástæðum, að víða eru fyrir hendi ýmsir sambýliserfiðleikar, fyrir nú utan þau áhrif, sem slíkt hefur á uppeldi barnanna. Þetta unga fólk hefur hvorki efni né aðstöðu til þess að fara út í húsbyggingar eftir þeim möguleikum, sem hið almenna húsnæðismálalánakerfi hefur upp á að bjóða. Leiguhúsnæði er ekki fyrir hendi nema við okurverði, ef um sæmilegt húsnæði er að ræða, eða heilsuspillandi húsnæði, sem teflir heilsu barnanna í hættu, og það einnig er í mörgum tilfellum mjög dýrt. Þetta húsnæðisleysi unga fólksins er dulið, ef svo mætti að orði kveða. En það hefði áreiðanlega ekki veitt af öllum þessum 283 íbúðum til þess eins að leysa vandræði þessa fólks.

Í öðru lagi kemur það manni á óvart, að víða er búið í ófullnægjandi íbúðum í kjöllurum húsa, sem sum hver eru nýleg. Umsóknum þessa fólks, sem býr við slík skilyrði með hundruð barna á framfæri sínu, fylgdi oft umsögn lækna um, að hætta væri á varanlegu heilsutjóni barnanna, ef búið yrði lengur í viðkomandi íbúð. Í kjallaraíbúðum virðist víða vera svo mikill slagi og raki, að börn, sem búið höfðu í þeim, höfðu verið kvefuð allan veturinn og mörg komin með krónískt bronkítis. Svona kjallaraíbúðir eru til í allri Stór-Reykjavík.

Í þriðja lagi er svo víða búið í herfilegum húsakynnum, t.d. í Blesugróf, sumarbústöðum upp með Suðurlandsbraut. Öll eru þessi húsakynni þannig, að heitið mannabústaður hljómar eins og háð í grennd við þau. Einstök dæmi eru sannast sagna ótrúleg. T.d. er það til, að ekki sé vatnslögn inn í húsið né frárennsli frá því. Og það eru því miður langmest barnafjölskyldur, sem búa í þessum hreysum.

Húsaleiga virðist sífellt fara hækkandi og ekkert síður í eldri húsum. Jafnvel meðan n. sat að störfum barst henni vitneskja frá umsækjendum um, að húsaleiga þeirra hefði verið hækkuð. T.d. var meðalíbúð í einu tilfellinu hækkuð um 2000 kr. Stöðvunarlögin svo nefndu eru einber markleysa á þessu sviði, enda engin lög til um hámark húsaleigu og ekkert eftirlit. Mjög algengt er, að fjölskylda þurfi að greiða sem svarar dagvinnutekjum láglaunamanna í húsaleigu fyrir mánuðinn. Það kom alloft fyrir, að umsækjendur höfðu greitt 72, 79, 84 þús. kr. og jafnvel meira fyrir fram fyrir árið í húsaleigu og uppsögn vofði yfir, ef ekki var greitt árið fyrir fram. Þetta fólk á engra kosta völ. Það er mergsogið af húsaleiguokrurum. Heimilisfaðirinn grípur hverja eftir- og næturvinnustund, sem gefst, húsmóðirin vinnur úti og börnin snapa það, sem til fellur. Þetta fólk kemst ekki út úr vítahringnum. Eigin íbúð er fjarlægur draumur. Ef það svo sleppir hinu dýra húsnæði, bíða kjallarar, sumarbústaðir, uppgerðir bílskúrar o.s.frv. Og barnafólkinu gengur langerfiðlegast að fá húsnæði. Það neyðist til að taka hverjum þeim afarkostum, sem settir eru. Og það er hlutskipti hundraða barna í Reykjavík að alast upp í gersamlega óviðunandi húsakynnum, sem hafa varanleg áhrif á heilsu þeirra til líkama og sálar.“

Þetta var lýsing Guðmundar J. Guðmundssonar á þeim viðhorfum, sem blöstu við honum, þegar hann vann að því að úthluta þessum 283 íbúðum í Breiðholtshverfinu. Þessar lýsingar eru til marks um það, hversu óhjákvæmilegar byggingarframkvæmdirnar í Breiðholti voru, hversu brýn nauðsyn það er að gera sérstakar ráðstafanir í þágu þess fólks, sem alls ekki getur hagnýtt sér hið almenna húsnæðislánakerfi, jafnvel þótt það kerfi gæti veitt þá úrlausn, sem því er ætlað lögum samkv., en því fer mjög fjarri. Það er því ákaflega þungur áfellisdómur yfir hæstv. ríkisstj., að hún skuli hafa brugðizt gersamlega þeirri skyldu sinni að tryggja nýtt fjármagn til þessara framkvæmda, að afskipti hennar skuli hafa orðið þau ein að ganga stórlega á lánsfjármöguleika hinna almennu húsbyggjenda.

Þetta stórfellda vandamál ætti að vera okkur þm. ofarlega í huga einmitt nú, vegna þess að nýbúið er að framkvæma stórfellda gengislækkun, sem mun hækka byggingarkostnað mjög verulega. Reynslan af gengislækkunum 1960 og 1961 sannaði, hversu alvarleg áhrif slíkar kollsteypur hafa á íbúðarhúsabyggingar. Framkvæmdir við íbúðarbyggingar minnkuðu um 15% árið 1960 á landinu öllu frá árinu áður, og 1961 var samdrátturinn í íbúðabyggingum frá 1959 orðinn 43%. Í Reykjavík varð þó þessi þróun enn þá alvarlegri. Samdrátturinn 1960 varð 20% frá árinu áður og og á árinu 1961 höfðu byggingarframkvæmdir í Reykjavík minnkað að verðmæti um hvorki meira né minna en 48%. íbúðarhúsabyggingar í höfuðborginni höfðu dregizt saman um því sem næst helming af völdum gengislækkana. Síðan fóru byggingarframkvæmdir smátt og smátt vaxandi á nýjan leik, eftir að samtökum launafólks tókst að bæta kjörin og einkanlega eftir að vísitölugreiðslur á kaup voru samningsbundnar á nýjan leik. Samt hafa íbúðarhúsabyggingar á Íslandi ekki náð þeirri tölu, sem nauðsynleg er talin vegna fólksfjölgunar og endurnýjunar. Talið er, að byggja þurfi 1700–1800 íbúðir á ári um allt land til að fullnægja eðlilegum þörfum, en síðustu árin hafa íbúðarhúsabyggingar yfirleitt ekki náð nema 1400–1500 íbúðum. Það væri lítið raunsæi, ef við horfðumst ekki í augu við þá staðreynd, að við okkur blasir nú hætta á sömu þróun, stórfelldum samdrætti á byggingum íbúðarhúsa. Þar hjálpast margt að, stóraukinn byggingarkostnaður af völdum gengislækkananna, tilfinnanleg skerðing á kjörum launamanna, sem nú er óðum að koma til framkvæmda, og þar að auki sú alvarlega staðreynd, að hið almenna lánakerfi er verr undir það búið að rækja skyldur sínar en það hefur verið árum saman. Till. þær, sem hér eru fluttar af stjórnarandstöðunni, hrökkva vissulega skammt til að leysa þennan vanda. Þær eru miklu frekar ábending til stjórnarvaldanna um að gefa þessu vandamáli gaum. Hins vegar hefur hæstv. ríkisstj. það á valdi sínu að greiða verulega fyrir íbúðarhúsabyggingum einnig með öðru móti, til dæmis ef hún hætti að gera íbúðabyggingar að féþúfu fyrir ríkissjóð með óhæfilegri innheimtu á tollum og söluskatti, og væri fróðlegt að heyra, hvort slík áform eru uppi í sambandi við þá endurskoðun á tollum, sem nú er rætt um. Einnig væri hægt að láta aðstoð við íbúðarhúsabyggingar nýtast mun betur með því að endurskoða sjálft lánakerfið í samræmi við félagsleg viðhorf. Þessu var raunar einnig lofað í yfirlýsingu þeirri um húsnæðismál, sem ríkisstj. sendi frá sér 9. júní 1965 til lausnar á verkföllunum, en þar var m.a. komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Unnið verði að því af hálfu ríkis og sveitarfélaga að tryggja láglaunafólki húsnæði, sem ekki kosti það meira en hóflegan hluta árstekna. Í þessu skyni verði nú hafin endurskoðun laga um verkamannabústaði og gildandi lagaákvæða um opinbera aðstoð vegna útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis með það fyrir augum að sameina til frambúðar í einum lagabálki og samræma öll ákvæði um opinbera aðstoð við húsaæðisöflun láglaunafólks.“

Ekki bólar neitt á efndum þessa loforðs frekar en fjármagni til framkvæmdanna í Breiðholti. Hæstv. ríkisstj. reynir nú mjög að halda því að launafólki, að hún vilji milda áhrif gengislækkunarinnar sem mest. Hún kveðst vera fús til samvinnu um að takmarka verzlunarálagningu. Hún segist vilja lækka tolla til að takmarka ris hinnar nýju vísitölu. Hún segist vilja rétta aftur að nokkru leyti hag viðskiptavina almannatrygginganna. Á sama tíma og hæstv. ríkisstj. magnar verðbólguna rétt einu sinni, kveðst hún vilja hafa hemil á henni. Menn geta haft mismikla trú á góðum vilja hæstv. ríkisstj. á þessum sviðum, og ég er í hópi hinna dauftrúuðu. En á það vil ég benda hæstv. ráðh. að það verður enginn hemill hafður á verðbólguþróun á Íslandi meðan ekki er nægilegt framboð á íbúðarhúsnæði með viðunandi kjörum. Á meðan skortur er á þeirri lífsnauðsyn, sem heitir íbúðarhúsnæði, mun ein kollsteypan elta aðra í efnahagsmálum okkar. Skortur á þessari vöru býður heim braski og okri jafnt á íbúðum sem fjármagni. Og undan því verður ekki komizt, að launafólk mun gera þær kaupkröfur, sem óhjákvæmilegar eru til að rísa undir íbúðarkostnaði á hverjum tíma. Efnahagur þjóðarheildarinnar er nú slíkur, að hver ný kynslóð gerir réttilega kröfu til þess að búa í sómasamlegu húsnæði og ef sú lífsnauðsyn er seld dýru verði, mun engri ríkisstj. og engu Vinnuveitendasambandi takast nema skamma stund að koma í veg fyrir þær kauphækkanir, sem þarf til að rísa undir íbúðakostnaðinum. Hver einasti maður, sem eitthvað hefur hugsað um verðbólguþróunina á Íslandi, hlýtur að hafa gefið þessari staðreynd gaum. En samt verður þess ekki vart, að ríkisstj. og sérfræðingar hennar hafi neitt sinnt þessu viðfangsefni í sambandi við nýjustu gengislækkunina, þá þriðju á sama áratugnum, þrátt fyrir reynsluna af tveimur þeim fyrri. Haldi hæstv. ríkisstj. áfram að berja höfðinu við steininn á þessu sviði, t.d. með því að fella þær afar takmörkuðu till., sem hér liggja fyrir um aukin framlög til íbúðarhúsabygginga, er hún sjálf að leggja til óhrekjanlegustu röksemdirnar fyrir næstu kauphækkun.