19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

1. mál, fjárlög 1968

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Í fjárlagafrv. því, er hér er til umr., er svo ráð fyrir gert, að til hafnarmannvirkja samkv. 4. gr., þ.e. til greiðslu á eftirstöðvum framlaga, sem ríkissjóður skuldar í framkvæmdum þeim, er búnar eru, skuli verja 20 millj. 350 þús. kr. Ef upphæð þessi hefði staðið óbreytt af hálfu meiri hl. fjvn., hefði verið hægt að sætta sig við það út af fyrir sig, enda þótt ríkið skuldi um 75 millj. kr. í þessum framkvæmdum. En þegar á það er litið, að samkv. þskj. 171 er upphæðin til þessarar greiðslu lækkuð niður í 10 millj. kr., þá svarar það framlag til þess, að skuldahallinn verði borgaður á sjö árum eða því sem næst tveimur kjörtímabilum. Þetta er afleitt og kemur sér mjög illa fyrir mörg bæjar- og sveitarfélög, ekki sízt þegar það er haft í huga, að þetta eru ekki einu skuldir hins opinbera vegna framkvæmda á vegum sveitarfélaganna. Þannig hefur verið búið að opinberum umbótum hin síðari ár, að bæjar-, sveitar- og sýslufélög sitja með skuldir, vegna þess að ríkið hefur ekki staðið skil á sínum lögbundnu framlögum til framkvæmdanna. Á það vil ég minna, að aðstaða sveitarfélaganna er nú mun lakari en oft áður, þar sem atvinna hefur verið minni og greiðslugeta fólks mun lakari þar af leiðandi og því erfitt allvíða með innheimtu útsvara. Það hefur líka komið sér afar illa, að ríkið hefur lækkað framlag úr jöfnunarsjóði um 20 milljónir króna á þessu ári, samhliða því, sem lækkuð voru framlög til opinberra framkvæmda um 10%. En áður hafði ríkisstj. lækkað framlög vegna opinberra framkvæmda um 20%, svo það er ekkert undarlegt, þó að mörg bæjar- og sveitarfélög finni fyrir því, hvernig staðið hefur verið að framkvæmdamálunum, samhliða því, sem réttur þeirra hefur verið skertur á öðrum sviðum af hæstv. ríkisstj.

Hafnarmarmvirki eru mjög víða undirstaða atvinnulífsins. Sjávarútvegur er útilokaður þar, sem ekki eru viðunandi hafnir. Svo er einnig um vöruflutninga allvíða hér á landi. Það er því ófrávíkjanleg krafa, að ríkið standi við sitt í þessum efnum í framtíðinni. Í Vesturlandskjördæmi standa yfir hafnarframkvæmdir á 10 stöðum, að vísu misjafnlega kostnaðarsamar, en alls staðar hallar á ríkið að standa við sinn hlut í þessum framkvæmdum. Með það í huga, hversu brýn þörf er á að sveitarfélögum verði sem fyrst borgað það, sem þau eiga hjá ríkinu fyrir hafnarframkvæmdir, höfum við, hv. 4. landsk. þm. og hv. 3. þm. Vesturl. ásamt mér, flutt brtt. þá, sem er á þskj. 195, VI. liður, um að hækka úr 10 millj. í 14 millj. kr. framlag til greiðslu á skuldum ríkisins vegna hafnarmannvirkja, sem unnið hefur verið að á undanförnum árum.

Hér er mjög hóflega í sakirnar farið hjá okkur Vestlendingum, eins og jafnan hefur átt sér stað áður, þegar við höfum flutt till. En ég vil líka minna á það, að hér er um þýðingarmikið mál að ræða, sem snertir alla hv. alþm., þar sem þeirra kjördæmi njóta einnig nokkurs í samþ. till. þeirrar, sem hér um ræðir. Ég vænti þess, að hv. þm. meti réttilega þýðingu þessa mikilvæga máls og samþykki till. okkar um hækkun á framlagi til að borga niður skuldir vegna hafnarmannvirkja.