09.11.1967
Efri deild: 14. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

45. mál, alþjóðasamþykkt um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er um heimild fyrir ríkisstj. til að staðfesta alþjóðasamning um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna og gerast aðili að þessari samþykkt.

Þessi samþykkt er frá 10. okt. 1957, en Ísland hefur ekki enn gerzt aðili að henni.

Þetta frv. var flutt hér á Alþingi á síðasta þingi og náði þá ekki fram að ganga — var ekki útrætt, m.a.s. ekki í annarri deildinni. Það var flutt í Nd. og er þess vegna endurflutt hér óbreytt frá því, sem það var, þegar það var borið fram síðast.

Ábyrgð útgerðarmanna á tjónum, sem skip útgerðarmannsins kunna að valda, hefur verið með nokkuð gamaldags hætti hér hjá okkur. Það var á sínum tíma sett inn í siglingalögin, sem sett voru 1914 og giltu til ársins 1963, en ákvæði þeirra laga um þetta mál voru þau, að útgerðarmaður var ábyrgur fyrir tjóni, sem skip hans olli, með andvirði skipsins og farmgjaldi, sem tekið hafði verið fyrir þann farm, sem í skipinu var.

Það hefur reynzt ýmsum aðilum — og í a.m.k. einu tilfelli okkur — ákaflega erfitt að láta ábyrgðina miðast við þetta. Þess vegna hefur verið gerður alþjóðasamningur — fyrst í Brüssel 1904 — þar sem ábyrgð útgerðarmanna var takmörkuð við jafnháa upphæð og andvirði skipsins nam og 10% í viðbót, þó þannig að ábyrgðin skyldi ekki fara fram úr 8 sterlingspundum fyrir hverja rúmlest, þegar aðeins var um eignatjón að ræða, og ekki fram úr 16 sterlingspundum á rúmlest, þegar jafnframt eða eingöngu komu til bætur fyrir líftjón eða líkamstjón.

Norðurlandaþjóðirnar — allar nema Ísland — gerðust aðilar að þessari samþykkt, en Ísland — einhverra hluta vegna — gerði það ekki. Nú hefur þessari alþjóðasamþykkt um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna verið breytt nokkuð með þessum alþjóðasamningi, sem hér hefur verið lagður fram, svo að kröfurnar, sem gera má til útgerðarmanns, eru að vísu eins og áður miðaðar við verð skipsins að viðbættum 10%, en ábyrgðin er miðuð við tiltekna fjárhæð fyrir hverja rúmlest, þó þannig breyttri, að í stað 8 og 16 sterlingspunda komi 1000 svo kallaðir frankar fyrir rúmlest, þegar eingöngu er um eignatjón að ræða, en til viðbótar 2100 frankar fyrir rúmlest eða samtals 3100 frankar fyrir hverja rúmlest, þegar um hvort tveggja er að ræða — bæði eignatjón og líkamstjón. Þessi franki, sem þarna er nefndur, er ekki raunveruleg mynteining neinnar þjóðar, heldur er hann skilgreindur sem mynt, sem hafi ákveðið gullinnihald í franka, og lætur nærri, að 1000 slíkir frankar séu taldir jafngilda 24 sterlingspundum. Eftir núverandi gengi íslenzku krónunnar á hverju sterlingspundi ætti einn franki af þessu tagi að samsvara um það bil 2,90 kr.

Þetta kerfi hefur nú verið tekið upp af mörgum, og að því er ég ætla flestum, siglingaþjóðum, og það hefur þess vegna reynzt nauðsynlegt, að Íslendingar gerist aðilar að þessum samningi. Það hefur, eins og ég gat um í upphafi, komið fyrir, að Íslendingar hafa orðið hart úti í þeim tilvikum, þar sem íslenzkt skip hefur valdið tjóni, sem hlutaðeigandi útgerðarmaður hefur átt erfitt með að bæta. Þess vegna er það talið sjálfsagt og nauðsynlegt að takmarka þau kröfuréttindi, sem þeir eiga, er fyrir tjóninu hafa orðið af völdum hins íslenzka skips.

Ég þarf nú ekki að fara nánar út í þetta. Samningurinn er allur í heild prentaður sem fskj. með málinu bæði á ensku og íslenzku. Ég vil þó geta þess, að það, sem tafði fyrir málinu í Nd. í fyrra, var — að því er ég ætla — ekki efni samningsins í sjálfu sér, heldur fyrst og fremst það, að þýðingin á íslenzku þótti ónákvæm. Sú aðferð hefur þó verið valin hér að flytja frv. óbreytt, en skyldi hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, telja, að þar mætti eitthvað betrumbæta, vildi ég leyfa mér að leggja til, að það yrði gert á fyrsta stigi málsins hjá n. og hún gengi úr skugga um, hvort og hvað það væri í íslenzku þýðingunni, sem lagfæra þyrfti. Ég tel, að það megi ekki koma fyrir aftur, að lagfæring á texta verði til þess, að frv. nái ekki fram að ganga.

Þessu frv. þarf svo að fylgja nokkur breyting á siglingalögum til samræmis við samninginn, og frv. í þá átt, hygg ég, að hafi verið borið fram í þessari hv. d. Það heyrir ekki undir mig, heldur sjútvmrh., og vænti ég, að þau — þ.e. frv. — geti nú fylgzt að, svo að málið fái heildarafgreiðslu á þessu þingi. Það eru ekki mjög miklar breytingar, sem á siglingalögunum þarf að gera. Við höfum fengið til þess — og eins til þess að ganga frá þessu frv. — fyrrverandi hæstaréttardómara, dr. Þórð Eyjólfsson, þannig að ég vænti, að fyrir því sé vel séð, að samræmi sé á milli þessa frv. og siglingalaganna.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn., en þar ætla ég, að siglingalagabreytingin sé til athugunar.