23.11.1967
Neðri deild: 21. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

46. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það er náttúrlega alltaf vel þegið og ekki sízt á þessum erfiðu tímum fyrir þjóðfélagið, að fá eitthvað létt inn á milli. Ber þess vegna að þakka innlegg hv. 5. þm. Norðurl. v. En þar sem þessar umr. hafa nú snúizt að nokkru leyti um stöðu landbúnaðarins í dag, þá vil ég minna á, að þar er ekkert gamanmál á ferðinni, heldur þvert á móti mjög alvarlegt mál.

Hæstv. landbrh. sagði, að hlut bænda ætti að tryggja sem bezt og hann hefði jafnvel verið nokkuð vel tryggður undanfarið. Og hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði, að hann væri engu lakari heldur en hlutur annarra stétta. Hins vegar liggur það fyrir af skýrslum Hagstofunnar til margra ára, þar sem birtar eru upplýsingar um tekjur vinnustéttanna í þjóðfélaginu, að tekjur bændastéttarinnar hafa verið lægri heldur en annarra atvinnustétta, a, m. k. hin síðari ár — verulega mikið lægri. Og mér finnst ástæða til að vekja athygli á því hér, að samkv. úrtökum Hagstofunnar fyrir árið 1966 hafa tekjur íslenzkra bænda hrapað niður. Persónulegar tekjur bóndans eru ekki nema rétt um 100 þús. kr. í staðinn fyrir um 190 þús. kr., sem honum er ætlað að hafa samkv. grundvelli. Og þetta er í æpandi ósamræmi við tekjur annarra stétta eftir því, sem næst verður komizt. Ég hef vikið að því fyrr í umræðum, að þær tekjuupplýsingar, sem nú liggja fyrir, byggjast á tveimur úrtökum. Annað úrtakið varðandi bændur er unnið á Hagstofunni, en hitt í Efnahagsstofnuninni, og þar gæti því átt sér stað eitthvert ósamræmi. En þótt þar skakkaði nokkru, getur það ekki munað svo miklu, að það skýri, hvað ósamræmi er hér ákaflega mikið á milli tekna bænda og viðmiðunarstéttanna. Og þegar við þetta bætist það, sem þegar er upplýst, þó að ekki liggi fyrir um það heildartölur, að lausaskuldasöfnun hjá bændum hefur verið mjög mikil á síðustu tveim árum, þá má það vera ljóst öllum, sem þessi mál hugleiða, að horfur eru alvarlegar. Og það er þess vegna engin furða, þótt á þessum dögum, þegar fara fram ýmsar byltingar og umbrot í efnahagslífinu, þá sé verulegur uggur innan bændastéttarinnar um það út af fyrir sig, hvernig hlutur hennar kemur út úr þeim umbrotum.

Ég vil svo aðeins leyfa mér að endurtaka það, sem ég sagði við fyrri hluta þessarar umr., að það er mín skoðun, að það sé fullkomin ástæða til þess fyrir bændasamtökin að taka til íhugunar og endurskoðunar fyrir sitt leyti verðlagsmál landbúnaðarins og fleiri þætti varðandi skipulagsmál hans.