11.03.1968
Efri deild: 68. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 2. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 3. landsk. hefur gert hér grein fyrir áliti 1. minni hl., en þannig fór í þessari n., að n. klofnaði í 4 hluta, og er þó ekki mikið, sem á milli skilur, og mun það koma í ljós við atkvgr., að einstakir nefndarhlutar eiga sitt á hvað samleið hver með öðrum.

Ég vil í örfáum orðum gera grein fyrir mínum till. Það eru ekki mörg ár síðan farið var að lögbjóða sama útsvarsskala um allt land. Lengi vel gilti sú meginregla að jafna niður útsvörum eftir efnum og ástæðum. Hver sveitar-, bæjar- og borgarstjórn hafði þá í hendi sér, hverjar reglur hún setti sér við niðurjöfnun útsvara. Þetta var að mörgu leyti frjálslegt og virtist vera árekstralítið, í það minnsta í hinum fámennu sveitarfélögum. Síðustu árin hafa gilt sömu hámarksreglur fyrir allt landið, að því er varðar álagningu útsvara. Nær það bæði til fastákveðinna gjalda og heimildarákvæða l. Ef þarfir allra sveitarfélaga væru svipaðar, þá gætu þessar reglur verið nokkuð réttlátar, en það, sem á milli ber, er m.a., að þarfirnar eru mjög misjafnar og gjaldendur einnig misjafnlega sterkir fjárhagslega. Þó að sömu reglur gildi, eru útsvör afar misjöfn eftir því hvar er á landinu, og sömu útsvarsreglur hafa ekki heldur leitt til þess að jafna aðstöðumuninn á milli gjaldenda hinna ýmsu sveitarfélaga. Fasteignaskatturinn mun vera eini gjaldstofninn, þar sem fullt samræmi er á milli hjá hinum einstöku sveitarfélögum. Að því er varðar aðstöðugjaldið er það heimildarákvæði í l. og því á valdi sveitarstjórna hvort þær notfæra sér þessa heimild og þá hvað mikið og á hvern hátt. Skattstjórarnir reikna aðstöðugjaldið, eftir að sveitarstjórnir hafa sagt fyrir um það, hvort eða hversu mikið heimildin verður notuð. Þar sem einstaka sveitarstjórnir notfæra sér þessa heimild, en aðrar ekki, sé ég enga ástæðu til þess að breyta l. í þessum efnum, enda þótt hæstaréttardómur hafi fallið á annan veg en ýmsir hafa óskað sér. Ég tel að Alþ. eigi jafnan að setja sín l. án tillits til þess, hverju dómstólar og einstakir aðilar kunna að óska eftir hverju sinni.

Ég hef ýmislegt við þennan tekjustofn að athuga, ekki sízt það, að hann er byggður á rekstrargjöldum og fer hækkandi eftir því sem fleiri óhöpp henda, t.d. þegar veiðarfæri fara forgörðum hjá útgerðarmönnum eða tíðarfar er óhagstætt búrekstri bænda, grasbrestur og þar af leiðandi aukinn kostnaður við fóðurkaup samfara minni tekjum. Ég efast um það, að höfundar þessa heimildarákvæðis l. hafi gert sér þetta nógu vel ljóst í upphafi. Það virðist heldur ekki neinum hagstætt, hvorki sveitarstjórn, bæjarfélögum né íbúum þeirra, að íþyngja skattþegnunum og auka álögur á þá, þegar óhöpp dynja yfir. En þetta er eitt það versta við aðstöðugjaldið. Þennan gjaldstofn þarf því að skoða frá rótum og finna annan í hans stað, sem nær til eyðslunnar, en ekki til óhappanna. Meðan hér er um mjög vafasamt heimildarákvæði að ræða, sé ég ekki ástæðu til að breyta miklu í þessum efnum, þar sem fyrir liggur, að þennan tekjustofn þarf að endurskoða betur en hér er lagt til af 1. minni hl. n.

Ég er þeirrar skoðunar, að jöfnunarsjóð sveitarfélaga eigi að nota meira en nú er gert til þess að bæta aðstöðu þeirra sveitarfélaga, sem verst eru sett og minnst rými hafa til tekjuöflunar, því að eins og nú er, verður að skapast vandræðaástand innan bæjar- eða sveitarfélaga, áður en nokkur aðstoð er hugsanleg úr jöfnunarsjóði, þar sem nýta verður hvern einasta tekjustofn eins og auðið er samkvæmt lögum og leggja að auki 20% ofan á útsvör, að því er varðar tekju- og eignarútsvörin.

Ég vil taka það fram, að ég er sammála 1. minni hl. n. um breytingar á 31. gr. laga um frádrátt á útsvari frá hreinum tekjum. Hins vegar tel ég gegna öðru máli um síðari hl. 2. gr. þessa frv., þar sem talað er um sameiginlega innheimtu útsvars og annarra opinberra gjalda. Á meðan ekki gilda sömu reglur um frádrátt á skatti frá hreinum tekjum, tel ég bezt að halda þessu hvoru fyrir sig, tekjum sveitarfélags annars vegar og tekjum ríkissjóðs hins vegar, og einnig að innheimtan verði þar af leiðandi óháð hvor annarri. Ég legg því til, að síðari hl. 2. gr. þessa frv., sem 1. minni hl. n. mælir með, falli niður.

Eins og fram kemur í brtt. minni, legg ég enn fremur til, að 34. gr. l. breytist þannig, að hækkun útsvars megi ekki fara fram úr 5% í stað 20%, sem nú er í l. Ef bæjar- eða sveitarfélag kemst ekki af með alla tekjustofna í hámarki og 5% ofan á tekju- og eignarútsvör að auki, þá er gjaldabyrði gjaldenda í hlutaðeigandi sveitarfélagi það þungbær, að nauðsyn krefst þess, að hjálp komi til og jöfnuður eigi sér stað strax úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga, því að annars fara flestir gjaldendur burtu, á meðan útsvör eru lægri annars staðar, hjá öðrum sveitarfélögum. Af framansögðu tel ég nauðsynlegt að lækka þann hundraðshluta, sem bæta skal ofan á útsvör áður en aukaframlag fæst til þess að fyrirbyggja fólksflótta og þar með að stuðla að því, að gjaldabyrðin jafnist betur milli sveitarfélaganna en nú er.

Þá vil ég taka fram, að ég er sammála 1. minni hl. n. um að stytta þann tíma, sem bráðabirgðaákvæði l. á að gilda, en jafnframt að fella niður strax heimildina um frádrátt vegna tekna eiginkonu og sjómannafrádráttinn, þannig að sömu reglur gildi í þessum efnum bæði varðandi tekjuskatt og útsvar.

Herra forseti. Ég hef í stórum dráttum gert grein fyrir brtt. mínum á þskj. 322. Jafnframt vil ég minna á nauðsyn þess að endurskoða gildandi l. um tekjustofna sveitarfélaga og finna nýja tekjustofna, sem geta orðið til þess að jafna þann aðstöðumun, sem nú ríkir við niðurjöfnun útsvara, og vænti ég þess, að hv. þm. geti fallizt á þær brtt., sem ég hef hér lagt fram.