11.03.1968
Efri deild: 68. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Auður Auðuns:

Herra forseti. Eins og hefur verið margrakið hér í umr., hefur ekki fengizt neinn samstæður meiri hl. í heilbr.- og félmn. við afgreiðslu þessa frv., og má segja, að menn greindi meira og minna á um allar gr. frv. aðrar en 3. gr. Sem einn þeirra þriggja nm. í heilbr.- og félmn., sem að ná1. og brtt. 1. minni hl. standa, ætla ég að leyfa mér að leggja hér örfá orð í belg.

1. gr. frv. er sú, sem hvað mest voru skiptar skoðanir um, og með þeim hæstaréttardómi, sem vitnað hefur verið til hér í umr., verður ekki annað séð en að kollvarpað yrði þeirri framkvæmd, sem tíðkazt hefur hjá sveitarfélögunum við álagningu aðstöðugjalds á fjölþættan rekstur. Við það skapast eðlilega vandi, sem ekki verður fram hjá litið, og það þýðir ekki í því sambandi að tala um gjaldkerasjónarmið eða aðgangsharða skattheimtu.

Ég vil taka undir það, sem hæstv. fjmrh. áðan sagði, að sveitarfélögunum er eðlilega nauðsynlegt að afla sér tekna til þess að standa undir sínum útgjöldum, og ef þau yrðu fyrir þeim tekjumissi, sem framkvæmd í samræmi við niðurstöðu hæstaréttardómsins mundi leiða til, þá yrðu þau að bæta sér það upp með öðru móti, annaðhvort með því að hækka hjá sér aðstöðugjaldsstigana, sem sveitarfélögin reyndar sum hver eru með þegar í lögleyfðu hámarki, eða hækka útsvörin eða fara báðar leiðir samtímis. Teknanna verða þau allavega að afla til að standa undir útgjöldunum, og við megum gjarnan minnast þess hér, hv. alþm., að mikill hluti af útgjöldum sveitarfélaganna er beinlínis lögboðinn og hefur verið lagður þeim á herðar með samþykktum, sem hafa verið gerðar hér á hv. Alþ. Ég nefni það t.d., að ég ætla, að það sé ekki fjarri lagi að segja, að af rekstrarútgjöldum Reykjavíkurborgar, ef miðað er við fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár, séu milli 50 og 60, allavega um 50%, beinlínis lögboðin útgjöld. Og þá eru ekki talin með útgjöld, sem raunverulega eru einnig lögboðin, við skulum segja t.d. stjórn borgarinnar, brunavarnir, ýmiss konar heilbrigðisþjónusta og slíkt, sem löggjöfin ætlar sveitarfélögunum að annast og þau verða að standa undir.

Þessi margumræddi hæstaréttardómur sýnist manni að muni leiða til þess, að það verði engar smugur til þess að leggja aðstöðugjald á einstakar greinar í fjölþættum atvinnurekstri. Í því tilfelli var um að ræða annars vegar iðnað, iðnrekstur, húsgagnaframleiðslu og hins vegar verzlun, en í sjálfum tekjustofnal. er greint mjög skilmerkilega á milli þessara tveggja atvinnugreina, þar sem hámarksaðstöðugjald er í 10. gr., stafl. c, ákveðið 11/2% fyrir iðnrekstur, en hins vegar í stafl. d er hámark 2% fyrir annan atvinnurekstur, og þar undir fellur verzlun. Þá má benda alveg sérstaklega á það, sem reyndar hefur komið hér fram og kemur fram í aths. við frv., að framkvæmd í samræmi við niðurstöðu hæstaréttardómsins mundi leiða til þess, að margþættur atvinnurekstur mundi greiða minna fyrir sömu aðstöðu en ef hver þáttur hans væri rekinn sjálfstætt, og með því væri gjaldendum mismunað. Við skulum athuga það, að aðstöðugjöldin eru í eðli sínu, eins og reyndar nafnið bendir til, hugsuð sem greiðsla fyrir þá aðstöðu, sem sveitarfélagið skapar fyrir margháttaðan atvinnurekstur. Ef við tökum til dæmis fiskveiðar, þá þarf að skapa hafnaraðstöðu og löndunarskilyrði. Ef við tökum aftur vinnsluna, ef við tökum fiskiðnað, t.d. hraðfrystihús, þá er frumskilyrðið auðvitað að hafa raforku, og það mætti taka margt fleira. Þetta gerir það að verkum, að fjölþættum atvinnurekstri, sem borgar aðeins aðstöðugjald á síðasta stigi, er þarna ívilnað á kostnað annarra, og fram hjá því verður ekki gengið, enda er það sérstaklega undirstrikað í aths. við frv. af stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga.

Þá vil ég leyfa mér að víkja aðeins örfáum orðum að 2. gr. frv. Hv. 1. þm. Vesturl. flytur á þskj. 322 brtt. við þá gr.brtt. er samhljóða brtt. 1. minni hl. svo langt sem hún nær. Hins vegar er þar lagt til, að burt falli niðurlag 2. gr., sem veit að sveitarfélögum, þar sem er sameiginleg innheimta opinberra gjalda, sem er enn sem komið er eins og við vitum aðeins hér í Reykjavík. Ég ætla, að menn séu sammála um það, að slíkt fyrirkomulag sé æskilegt og horfi til sparnaðar, en það hefur þó sýnt sig, eins og fram hefur komið, að það skapar Reykjavík verulegt óhagræði, því enda þótt borgin fái í mjög mörgum tilfellum aðeins hluta af útsvari einstakra gjaldenda í árslok við uppgjör, verður þó að veita þeim fullan útsvarsfrádrátt á næsta ári ef þeir hafa greitt sem svarar útsvarinu í sameiginleg opinber gjöld. Haldist sá háttur á, er vægast sagt mjög vafasamt, að æskilegt sé fyrir sveitarfélagið, í þessu tilfelli Reykjavík, að vera áfram aðili að slíkri sameiginlegri innheimtu, sem þó hefur sína miklu kosti, og ég býzt við, að ekkert sveitarfélag fýsi að koma á hjá sér sameiginlegri innheimtu opinberra gjalda við slíka aðstöðu, sem getur valdið því verulegu óhagræði og leiðir m.a. til þess, að hækka verður útsvörin á skilvísum gjaldendum.

Um brtt. hv. 4. þm. Norðurl. e. vil ég aðeins segja það, að ég er henni algjörlega mótfallin. Það er enginn vafi á því, að frádráttarheimildin hefur örvað mjög útsvarsinnheimtuna, en þarna er með þessari till. verið að leggja til að slaka mjög á frá því, sem tíðkazt hefur og nú er gert. Samþykkt þeirrar till. mundi þýða lélegri innheimtu, og hún mundi þýða það einnig, að það yrði að þyngja útsvörin á skilvísum gjaldendum, vegna þess að það yrði veittur frádráttur fyrir því, sem kann að verða greitt af útsvörum hinna, sem ekki standa í skilum. Ég verð að segja það, að þegar umr. fara fram um skattheimtu sveitarfélaganna, verð ég a.m.k. að ganga út frá því meginsjónarmiði, að menn eigi að greiða sín gjöld. Mér heyrist allt að því, að sumir hv. þm. telji, að það þurfi ekki að taka það allt of hátíðlega. Í sambandi við Gjaldheimtuna hér í Reykjavík eða hina sameiginlegu innheimtu hefur verið um það talað, að það væri verið að setja Reykvíkinga skör lægra heldur en aðra landsmenn, en meginsjónarmiðið hlýtur þó að vera það, að menn eigi að standa í skilum með sín gjöld, opinberu gjöld, hvort heldur er til ríkis eða sveitarfélaga, og á það hefur líka verið bent, að Reykjavík situr sem sveitarfélag við annað borð en hin sveitarfélögin í landinu, eins og löggjöfin er nú.

Ég skal þá ekki hafa fleiri orð um þetta mál, en vil taka undir það með hv. frsm. 1. minni hl., að ég vænti þess, að hv. þdm. geti fallizt á þær brtt., sem við flytjum á þskj. 317.