04.03.1969
Neðri deild: 60. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

160. mál, umboðsþóknun og gengismunur gjaldeyrisbankanna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þegar fjárlög voru afgreidd nú fyrir jólin, var einn af tekjupóstum, sem þar var settur inn, 15 millj. kr. hækkun á áætluðum hluta ríkissjóðs af tekjum gjaldeyrisbankanna vegna umboðsþóknunar og gengismunar. Það var þá skýrt frá því, að ástæðan væri sú, að það þætti eðlilegt, að aukning sú á tekjum gjaldeyrisbankanna á þessum lið, sem beinlínis stafaði af gengisbreytingunni, rynni til ríkissjóðs en ekki til bankakerfisins. Það hefur verið meginhugsunin í sambandi við t.d. öll viðskipti, ákvarðanir um álagningu og annað þess konar, að viðkomandi aðilar högnuðust ekki sérstaklega á gengisbreytingunni, og ef ráðstöfun væri ekki gerð í þessa átt, sem ég gat um og þetta frv. fjallar um, mundu tekjur gjaldeyrisbankanna beinlínis vegna gengisbreytingarinnar hækka allverulega. Það var gert ráð fyrir því, að hækkunin yrði um 15 millj. kr. Nánari athugun hefur hins vegar leitt í ljós, að hér muni hafa verið nokkuð ofáætlað, en þessi upphæð geti numið 10–12 millj. kr. Frv. það, sem hér er flutt, er til þess flutt að fá það lögfest, að bankarnir skili 60% í stað 50% af tekjum sínum vegna þessara viðskipta, en þessi hækkun prósentunnar mun samsvara því, sem ég gat um, að bankarnir skili að öllu leyti þeirri hækkun, sem kemur fram vegna gengisbreytingarinnar nú, og á ekki að leiða til neinnar sérstakrar útgjaldaaukningar fyrir bankana.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð nema tilefni gefist. Grg. frv. útskýrir nákvæmlega, hvað hér er um að ræða, og að sjálfsögðu, ef frekari upplýsinga gerist þörf, mun þeirra verða aflað fyrir þá hv. n., sem fær málið til meðferðar.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn.