28.04.1969
Neðri deild: 82. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða þetta stórmál almennt, enda sennilega ekki til mikils. Ágreiningur um málið er áreiðanlega mikill hér á hv. Alþ., og hann hefur verið það innan landhelgisn. líka. eftir því sem mér heyrðist á hv. 3. þm. Sunnl., því eftir hans ræðu að dæma virðist n. hafa verið svona annan hvern dag eða svo á mótum þess að klofna, og það er ekkert óeðlilegt, málið er þess eðlis. En ég verð þó að segja það í örfáum orðum, að mér finnst þessar gífurlegu veiðiheimildir, sem nú á að lögfesta, frekar óhugnanlegar og boði eiginlega ekki gott fyrir íslenzka landhelgi og íslenzkar fiskveiðar, þegar fram í sækir: Ég veit ekki nema þetta endi með því, að við verðum komnir í 4 mílna landhelgi áður en langt um líður hvað veiðiskip okkar sjálfra snertir, en það er bezt að vera ekki með neinar hrakspár í þessu efni samt. Landhelgisn. hefur lagt sig mjög fram um að mínum dómi að kynna sér skoðun manna í öllum kjördæmum landsins í þessu máli. Hún hefur unnið mikið verk, og það ber sannarlega að viðurkenna. Hitt er annað mál, hvernig henni hefur tekizt að vinna úr þeim og komast að niðurstöðum, þar sjáum við í þessu frv. Við þm. Vestf. höfum haldið fundi um þetta mál nokkrum sinnum, og við sóttum fundinn, sem landhelgisn. boðaði á Ísafirði í vetur, eins og ætlazt var til. Þar kom greinilega fram, að mjög mikil andstaða er ríkjandi á Vestfjörðum gegn því, að leyfðar verði botnvörpuveiðar innan fiskveiðilandhelginnar. Þau mótmæli voru yfirgnæfandi. Hinu er ekki að neita, að það komu fram raddir, sem óskuðu eftir nokkurri rýmkun innan landhelginnar, og það var að ég ætla eingöngu um það að geta hagnýtt sér kolann að haustinu til, og voru till. þeirra um tvö veiðisvæði, tvö hólf, sem svo eru kölluð. Það er ekkert óeðlilegt þó Vestfirðingar standi gegn botnvörpuveiðum innan fiskveiðilandhelginnar. Það mun engin landsbyggð hafa borið svo lítið úr býtum, þegar landhelgin var stækkuð 1958, sem Vestfirðingar. Þeir höfðu enga flóa, sem nutu friðunar við þá ráðstöfun, að því undanteknu, að Vestfirðir liggja að Breiðafirði og Húnaflóa. Þeir höfðu engar eyjar þar úti fyrir, þar sem hægt var að ákveða grunnlínupunkta. Þeirra landhelgisstækkun 1958 var því hverfandi lítil móts við það, sem varð hjá ýmsum öðrum landshlutum. Og samkvæmt þessu hafa þeir jafnan staðið gegn því að leyfa botnvörpuveiðar innan landhelginnar. En þótt ekki væru meiri óskir en ég nefndi áðan fram bornar á Ísafjarðarfundinum um botnvörpuveiðar innan landhelgi, þá höfum við Vestfjarðaþm. samt fallizt á, að leyfðar verði slíkar veiðar í 2 hólfum, og þær till. hefur landhelgisn. tekið upp. Við höfum aftur á móti tilkynnt landhelgisn. með bréfi 24. marz, í fyrsta lagi um þessi 2 hólf, sem við gætum sætt okkur við, að tekin verði upp, en við tókum þar einnig fram, að við gætum ekki fallizt á önnur atriði, sem við vissum að lágu í loftinu, en þau eru fyrst og fremst auknar veiðiheimildir í Húnaflóa og svo umfram allt auknar heimildir í Breiðafirði. Þessu höfum við mótmælt með 2 bréfum til landhelgisn., 24. marz og 15. apríl. Við höfum samstöðu um þetta mál, a.m.k. enn sem komið er, Vestfjarðaþm. allir, og nú leggjum við áherzlu á það við þá hv. þn., sem fær málið til meðferðar, að hún taki þessar ábendingar okkar til greina. Ég flyt henni bókstaflega þau skilaboð frá okkur öllum, að þetta er ósk okkar og krafa, að ekki verði auknar veiðiheimildir í Húnaflóa eða í Breiðafirði. Landhelgisn. hafði fund á Sauðárkróki m.a. Þangað sóttu Strandamenn, og þar mótmæltu þeir þeim hugmyndum að auka veiðiheimildir í Húnaflóa. Ég geri ekki ráð fyrir, að aðrir séu dómbærari um það, hvaða áhrif botnvörpuveiðar í Húnaflóa mundu hafa, en þeir, og ég get ekki skilið það, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Sunnl., hvað hann meinti með því að fiskur hefði ekki gengið í Húnaflóa að undanförnu og engar botnvörpuveiðar hefðu verið þar, hvort það ætti að skilja það svo, að til þess að fá fiskigöngu í Húnaflóa þyrfti að fara þangað og veiða með botnvörpu. Nei, ég held, að það geti ekki verið. Ég held, að það sé allt annað, sem veldur fiskileysi í Húnaflóa, en það, að það hafi vantað þar botnvörpuna. Ég hef aldrei heyrt þess getið áður. Hitt vita menn nú t.d., að eftir hafísár þá hefur fiskur gengið í Húnaflóa, og er það að mínum dómi a.m.k. vegna þess, að erlendu veiðiskipin geta ekki verið fyrir Norðurlandi að skarka þar og fiskurinn hefur frið til að ganga inn. Það er sennilega það eina gagn, sem hafís hefur gert hér. Ég flyt því hv. þn. þær óskir okkar Vestfjarðaþm. í fyrsta lagi, að togveiðar verði ekki heimilaðar í Húnaflóa lengra inn frá ytri mörkum núverandi fiskveiðilandhelgi en 8 mílur, en samkv. till. landhelgisn. í þessu frv. á að þræða inn með Ströndum frá Horni inn á móts við Selsker og þaðan þvert yfir flóann í Ásbúðarrif, og við það kæmi stórt togveiðisvæði í flóanum. Í öðru lagi, að engar togveiðiheimildir verði leyfðar í Breiðafirði umfram það, sem nú er þar í gildi, og meiri kröfur ætlum við ekki að gera til hv. n. en þetta. Ég tel það ekki þó við óskum eftir, að lagfæring verði gerð á hólfinu milli Rits og Kögurs, hún er svo smávægileg. Í frv. segir, að lína skuli dregin frá Rit í norðvestur, en með því móti nær hólfið út, lítið þó, í norðurkant Djúpálsins. Þessu er Vestfirðingar andvígir. Það er ósk okkar, að þessari línu sé stefnt lítið eitt austur á við, annað höfum við ekki við það að athuga. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. að þessu sinni, en ég legg áherzlu á þessar óskir okkar til hv. þm. um Húnaflóa og Breiðafjörð, því ég þarf varla að taka það fram við hv. þm., að Breiðafjörður er þó sannarlega veiðisvæði Vestfirðinga. Af öllum Vestfjörðum er meira og minna sótt suður á Breiðafjörð, og hinar gífurlegu auknu veiðiheimildir, sem nú á að fara að lögfesta í Breiðafirði eru alvarlegur hlutur fyrir Vestfirðinga. Á fundinum á Ísafirði komu ekki neinar óskir fram um rýmkun nema um þessi 2 hólf, sem við höfum fallizt á og n. hefur tekið upp í frv. Og ég tek undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að útgerðarmenn okkar, sjómenn og almenningur út um land vita ekkert um þessar till., hvernig þær líta út, því þær eru nú fyrst að koma fram. Og það er mjög slæmt að geta ekki fengið rökstuddar skoðanir þeirra í þeim, þegar loksins till. eru komnar fram, í staðinn fyrir að þetta verði nú keyrt í gegnum þingið á skömmum tíma.