06.05.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta mikið. Það voru aðeins nokkur atriði í ræðu hv. 3. þm. Sunnl., sem ég vil víkja að. Hann vildi halda því hér fram, að landhelgisnefndin hefði í öllum efnum fylgt óskum Vestfirðinga, og af því leiðir, ef þetta væri rétt hjá honum, að við þm. Vestf. erum þá á móti óskum Vestfirðinga. Það hlýtur að vera (GuðlG: Þetta sagði ég aldrei...) Nei, en hvernig er hægt að samræma þetta? Það er það, sem ég er að spyrja um. Ef landhelgisnefndin fylgir óskum Vestfirðinga, þá fylgjum við þm. þeim ekki, það er áreiðanlegt.

Hv. þm. sagði, að það hefði ekki verið minnzt á Húnaflóa á Ísafjarðarfundinum. Ég held, að hann segi þetta alveg rétt. Það var ekki rætt um Húnaflóa á Ísafjarðarfundinum. En var ekki rætt um hann á Sauðárkróksfundinum, og mættu ekki Strandamenn þar og ég ætla einhverjir Húnvetningar og mótmæltu harðlega veiðiheimildum inni í Húnaflóa?(Gripið fram í.) Nú, hv. þm. segir, að það séu engar veiðiheimildir ætlaðar inni í Húnaflóa. M.ö.o. Húnaflóinn nær þá ekki lengra en út að línu frá Selskeri í Ásbúðarrif. En í frv. sjálfu frá þessum hv. þm. stendur „nema í Húnaflóa utan við grunnlínu“ o.s.frv. Þarna eru þó nm. farnir að tala um Húnaflóa utan við þessa grunnlínu úr Selskeri í Ásbúðarrif. Og hvernig er nú hægt að koma þessu saman, að Húnaflóinn nái ekki nema út að þessari línu, en sjálfir tala þeir um Húnaflóa utan við línuna í sjálfu frv:? (Gripið fram í.) Nei, ég held, að á Sauðárkróksfundinum hafi verið greinilega mótmælt veiðiheimildum þarna í Húnaflóa, og það vita það allir, að fiskimiðin hjá þeim Strandamönnum og Skagstrendingum eru fyrir norðan þessa línu fyrst og fremst. Þess vegna eru þeir á móti þessu. Og var þetta ekki nóg? Var þetta ekki nóg vitneskja fyrir hv. landhelgisnefnd til þess að vita, hvað þeir vildu þarna, sem mest áttu í húfi? Þá segir hann, að það hafi ekki verið minnzt á Breiðafjörð. Það var minnzt á veiðisvæðin fyrir ströndum Vestfjarða í einni heild og harðlega mótmælt að auka veiðiheimildirnar frá því, sem þá var, nema af tveim eða þremur mönnum á Ísafjarðarfundinum, sem óskuðu eftir tveimur hólfum. Að öðru leyti var því mótmælt af Vestfirðingum yfirleitt að auka þessar veiðiheimildir. Og var það ekki nóg? Áttu þeir að telja upp hvern einasta stað fyrir ströndum Vestfjarða? Var þetta ekki nóg vitneskja? Ætli við séum þá í einhverju ósamræmi við vilja Vestfirðinga í þessu máli, þegar við flytjum um þetta till.? Nei, ég held síður en svo. Hv. þm. talaði um, að það væri ósanngjarnt að vilja loka Breiðafirði. Það er ekkert um það að ræða núna. Það er búið að samþykkja veiðisvæði inn um Breiðafjörð svo að segja jafnlangt og fiskur gengur. Við erum ekki að flytja núna neina brtt. við það, heldur aðeins að togurunum verði ekki heimiluð veiði í þessu eina hólfi, fjögurra mílna hólfinu suður af Bjargtöngum og suður flóann, en öllum öðrum skipum verði heimilt að veiða þar, án þess að við flytjum frekari brtt. við það. Þetta er nú öll lokunin, sem við erum með á ferðinni í dag. Alveg eins er um Húnaflóann. Við ætlum ekki að hrófla frekar við því, sem búið er að samþykkja að öðru leyti en því, að togarar fari ekkí inn í flóann. Hin skipin öll, upp að 350 tonna stærð, mega þá gera það, eftir því sem búið er að samþykkja og við höfum ekki frekar flutt till. um. Hvað er þá ósanngirnin mikil hjá okkur? Hún er sú hvað þetta snertir, þessar till. í dag, að við verðum lausir við togarana, stóru skipin, á þessum tveimur blettum og búið. (Gripið fram í.) Ef hv. þm. veit það ekki enn, þá held ég, að það sé vonlaust að sannfæra hann um það, það sem eftir er af þessum degi.