06.05.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. 29. marz í vetur sendum við allir 4 þm. Norðurl. v., sem eigum sæti hér í þessari hv. d., bréf til landhelgisnefndarinnar, sem var þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Viljum leyfa öllum togskipum veiðar inn að 8 mílum frá grunnlínu (þá miðum við auðvitað við þá grunnlínu, sem í gildi er), en togbátum að 6 mílum á tímabilinu frá 1. október til 1. maí.

2. Leggjum áherzlu á, að engar undanþágur verði leyfðar til togveiða á Húnaflóa og Skagafirði innan ofangreindra marka.“

Það var vitað, að sá af þm. kjördæmisins, sem á sæti í hv. Ed., var þessu samþykkur, þó að við næðum ekki til hans til að skrifa undir bréfið, þegar við afgreiddum það. En það er af þessu að segja, að sú hv, n., þó að mikið sé talað um, að hún hafi verið að reyna að miðla málum, tók þetta á engan hátt til greina, sem við fórum hér fram á, alls ekki, og því var það, að við tókum þátt í því með hv. þm. Vestfjarðakjördæmis að flytja um þetta brtt. við framkomið frv. við 2. umr. Og brtt. okkar voru felldar sem kunnugt er. Nú gerum við tilraun til þess að fá þetta hólf, sem þeir vilja opna þarna innar í Húnaflóa, friðað fyrir stóru skipunum, fyrir togurunum, viljum miða veiðiheimildina á þessu svæði þarna inni í flóanum við skip, sem eru 350 smálestir og þar fyrir neðan. Og ég vil benda á það, að það eru einmitt a.m.k. á tveimur stöðum í þessu frv. slíkar heimildir til togveiða miðaðar við skip af þessari stærð. Það er í C2 við Suðausturland og það er í E2 á Reykjanes- og Faxaflóasvæði. Þarna eru veiðiheimildir á vissum svæðum miðaðar við skip af þessari stærð, 350 rúmlestir eða minna. Og ég tel það sanngjarnt, að það sama verði látið gilda um þetta svæði þarna á Húnaflóa, úr því að ekki fékkst samþykkt að friða það að öllu leyti fyrir togveiðum. Og ég vona, að hv. þdm. geti því á þessa brtt. fallizt. [Fundarhlé.]