12.05.1969
Efri deild: 92. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Mér er satt að segja lítt skiljanleg þessi háreysti hjá hv. 1. þm. Vesturl. út af þeim orðum, sem féllu hér í dag um skuldir starfsmanna ríkisstofnana. Ég veit ekki betur en að því sé vikið í aths. yfirskoðunarmanna við ríkisreikning, að það sé allvíða, sem það komi fyrir, að starfsmenn skuldi stofnunum. Ég veit ekki betur en að ástæðan til, að ég gerði þetta að umtalsefni, væri ábending hv. 11. þm. Reykv., þar sem hann tók það fram, að hann teldi. að það væri mjög varhugavert og bæri að koma í veg fyrir það, að til slíkra skulda væri stofnað. Ég tók undir þetta, en man nú ekki nákvæmlega, hvaða orðalag ég hafði um það. Ég hef ekki fyrir mér neitt handrit að ræðu, þannig að það er alltaf vafasamt að fullyrða nákvæmlega um það, en það kann vel að vera, að ég hafi sagt, að það hafi átt sér allvíða stað, að þessar skuldir hafi myndazt. Ég tók jafnframt fram, að þessar skuldir hefðu farið mjög minnkandi og ríkisendurskoðunin hefði gengið í það, að þetta yrði lagfært. Hvernig hv. þm. getur fundið það út úr þessum orðum mínum, og ég vil segja hv. 11. þm. Reykv. og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings, að hér sé verið að drótta að opinberum stofnunum og forstöðumönnum þeirra, að þeir yfirleitt vanræki skyldur sínar, er mér algerlega hulið. Ég er alls ekki reiðubúinn til þess að tilnefna þessar stofnanir hér. Ég bið hv. þm. að afsaka það.

Mér er kunnugt að vísu um stofnanir, þar sem þetta hefur gerzt. Ég er heldur ekki reiðubúinn til að tilgreina það, hvaða starfsmenn hér eiga hlut að máli og ég býst ekki við, að neinn undrist það, þó að ég hafi ekki hér í huga mínum nafnalista yfir þá, sem skulda sínum stofnunum. En úr því að hv. þm. hefur skilið orð mín þannig, að ég ætti við, að þetta væri nokkurn veginn almenn regla í ríkisrekstrinum, þá fer því víðs fjarri. Þetta eru, sem betur fer, tiltölalega fá tilfelli, en þó of mörg og hefur of oft komið fyrir, eins og hv. í 1. þm. Reykv. sagði. Ég endurtek aðeins það og eina svarið, sem ég get við þessu gefið, er það, að þetta hefur komið fyrir. Það er alllangt síðan var reynt að uppræta það, og það hefur áreiðanlega alltaf verið reynt að koma í veg fyrir það, að slíkar skuldir hafi stofnazt.

Ég er hv. 11. þm. Reykv., sem á þetta benti sérstaklega í dag, sammála um það, að það beri að koma í veg fyrir það, að til skulda sé stofnað hjá starfsmönnum opinberra stofnana og það mun verða gert. Hv. þm. verður að afsaka það, þó að ég sé hvorki reiðubúinn til þess hér að tilgreina stofnanir, þar sem þetta hefur komið fyrir né heldur, og þá miklu síður, einstaka starfsmenn, sem kunna að skulda sínum stofnunum. Það eitt hefur gerzt í þessu, sem ég endurtek einnig og sagði í dag, að ríkisendurskoðunin fylgist mjög vandlega með þessu og sér til þess, að þetta sé lagfært.