09.05.1969
Neðri deild: 91. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

250. mál, vegalög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar hæstv. ráðh. lagði þetta frv. hér fyrir d. í gær, leit hann til baka. Var að rifja upp, hvað hefur verið varið miklu af ríkisfé til vegamála árið 1958. Samkv. ríkisreikningi voru það á því ári 83.3 millj. kr. En það hefur margt breytzt síðan. og m.a. hefur allur kostnaður við vega- og brúagerðir hækkað stórkostlega. Þannig er kostnaður við nýbyggingu vega nú samkv. vísitölu Vegamálaskrifstofunnar 179% hærri heldur en hann var 1958. Kostnaður við vegaviðhaldið er 193% hærri, og kostnaður við brúabyggingar er 264% hærri nú heldur en hann var 1958. Samkv. þessum tölum reiknast mér svo til, að ef ríkið ætlaði að leggja fram fé til þessara samgöngumála, sem væri jafnmikið að notagildi eins og það, sem lagt var fram 1958, þyrfti það nú að vera 249 millj. kr. En hvað er það mikið, sem ríkissjóður leggur nú fram til þessara mála?

1963 var gerð breyting á vegal. Þá var stofnaður svonefndur Vegasjóður, og ríkissjóður afhenti honum nokkra tekjustofna, sem hann hafði áður haft. Hann afhenti honum benzínskattinn. En áður hafði ríkið tekið í sinn sjóð 1.14 kr. af hverjum benzínlítra. Ríkissjóður afhenti Vegasjóði einnig gúmmígjald svonefnt og þungaskatt af öllum bifreiðum. Það er mjög auðvelt að reikna út, hvað þetta framlag ríkisins, þ.e.a.s. benzínskatturinn, sem ríkið afsalaði sér til Vegasjóðs og gúmmígjaldið, er stór hluti af tekjum Vegasjóðs samkv. þeirri vegáætlun, sem nú liggur fyrir, t.d. fyrir árið 1969. Það er dálítið erfiðara að reikna út þungaskattinn. því að breytingarnar á honum voru þannig, en þó er hægt að komast nokkuð nálægt þessu, og sú áætlun, sem ég hef gert um þetta í heild, sýnir það, að af þeim 482.9 millj. nettó, sem áætlað er, að Vegasjóður hafi í tekjur af þessum tekjustofnum, sem ég nefndi, munu 144 millj. vera af þeim tekjustofnum, sem ríkissjóður afhenti Vegasjóði árið 1963, um 144 millj., en samkv. því, sem ég sagði áður, hefði ríkissjóður þurft nú að leggja fram til þessara mála eða þyrfti á þessu ári að leggja fram 249 millj., til þess að notagildi þess framlags væri jafnmikið og ríkisframlagsins til vega- og brúagerða 1958. Þarna vantar því röskar 100 millj. frá ríkissjóði, til þess að hann leggi fram jafnmikið fé til vegamála nú eins og hann gerði fyrir 11 árum. Það eru rúmar 100 millj. En í staðinn fyrir það, að hæstv. samgmrh. krefjist þess, að ríkið leggi nú fram til þessara mála ekki minna heldur en gert var fyrir l l árum, þá leggur hann hérna fram frv. um það, að það skuli enn hækka benzínskattinn, sem þeir þurfa að borga, sem nota þá nauðsynjavöru, og hækka hann mikið. Nú er á það að líta, að á þessum 11 árum, sem ég hef hér nefnt, síðan 1958. hafa tekjur ríkissjóðs margfaldazt, og tekjur ríkissjóðs af innfluttum ökutækjum og varahlutum til þeirra hafa líka margfaldazt, þannig að ríkissjóður stæði vel við það áreiðanlega að leggja fram ekki minna fé til þessara mála heldur en hann gerði fyrir 11 árum, og vitanlega ætti hann að leggja fram miklu meira, þegar litið er til þess, hvað ríkistekjurnar hafa vaxið stórkostlega á þessu tímabili. Hann ætti að gera það. En í staðinn fyrir að heimta, að það sé gert, leggur hæstv. samgmrh. fram þetta frv. um að bæta enn einum skatti á nauðsynjavörur almennings. Þetta kalla ég lélega frammistöðu.