25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

104. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Varðandi síðari fsp. hv. 5. landsk. þm. um snurpuvír, er hann minntist á, þá kemur mér það mjög á óvart, ef það er kerfið sjálft, sem hindrar það, ég held það hljóti nú eitthvað annað að hafa verið, einhver stirðleiki í því, kvartanir berast yfirleitt ekki um slíka hluti. Stöðuglega koma upp svona vandamál, og það eru kannski varahlutir í vél, sem þarf auðvitað eins og hann sagði að afgreiða í mikilli skyndingu og tollvörðum hefur verið heimiluð tiltölulega mjög frjálsleg meðferð á í bili, þannig að hægt sé að deponera eða gefa út tékk, eitthvað slíkt, þannig að örugglega sé vitað, að það sé nægileg upphæð, sem sé greidd, þegar svona er um að ræða.

Ég held, að það sé misskilningur líka, að það sé vélakerfið, sem hindrar það, vegna þess að á þessu stigi málsins kemur það ekki inn í vélarnar, það fara ekki öll tollskjöl inn í vélar, áður en þau eru afgreidd, það kemur til seinna, þannig að ég held, að það hljóti nú að vera, að það hafi verið einhver stirðleiki í þessu, því eins og ég segi, ég er viss um, að ef það ekki hefur verið, þá væru búnar að koma margfaldar kvartanir yfir ráðuneytið yfir slíkum hlutum, því að það er áreiðanlegt, að þetta er stöðugt að koma fyrir hjá útgerðarmönnum, og það er hjá flugfélögum, og það er hjá ótalmörgum aðilum í sambandi við vélar, sem alls ekki mega stöðvast, sem vantar eitt og eitt stykki í. Sé hins vegar um eitthvað slíkt að ræða, þá er auðvitað sjálfsagt að athuga það, því það er rétt hjá þm., að slíkt má ekki koma fyrir og á ekki að skipta neinu máli. Mér fannst ósköp eðlilegt, að sú athugasemd kæmi fram, sem hann gat hér um áðan varðandi lán á tollum, ég hef sjálfur fullkomna varfærni í huga í því efni, vegna þess að ríkissjóður hefur ekkert efni á því að fara að stunda almennar lánveitingar á tollum, og það er alls ekki ætlunin í þessu heldur. Það er önnur gr., sem er næsta gr. þarna í frv., um það, að gert er ráð fyrir, að heimilað sé að stytta allverulega þann tíma, sem vörur megi liggja ótollafgreiddar, og þetta var mjög erfitt að gera án þess að veita eitthvert svigrúm á móti til þess að auðvelda að framfylgja þessari kröfu til hlítar. Og skoðun tollyfirvalda og tollstjórans hér a.m.k., sem fyrst og fremst hefur nú haft með þetta mál að gera, og ég hef einmitt rætt þetta atriði við hann, er sú, að þetta ætti síður en svo að leiða til þess, að tollar kæmu seinna inn, heldur mundi það beinlínis leiða til þess, að vörur yrðu teknar úr tolli mun fyrr, og af því leiddi, að tollurinn raunverulega kæmi alls ekki síðar inn en ella. Hinu er ekki að leyna, að auðvitað getur þetta verið viss fyrirgreiðsla við innflytjendur, ef þeir geta losað út sínar vörur og kannski selt þær áður en til tollgreiðslu kemur. Hvort það er svo slæmt skal ég ekki um segja, þar sem erfiðleikar eru taldir vera miklir hjá innflytjendum, þannig að það er kannski ekki það versta, ef það hefur ekki þau áhrif, að það seinki beinlínis tollafgreiðslu. Ég held nú sannast sagna, að þetta geti aldrei orðið í mjög stórum stíl. Ég efast um það, að fyrirtækin fái þá fyrirgreiðslu í sínum viðskiptabönkum, að þeir hiklaust ábyrgist fyrir þá skilyrðislaust að borga fyrir þá tollana, þegar á þurfi að halda, ég er ekki alveg viss um það a.m.k. Að slík aðstoð sem þessi komi misjafnlega niður er auðvitað alveg rétt, en ég veit ekki, hvort það er nokkuð óeðlilegt, og það verður auðvitað á öllum sviðum, sem það kemur misjafnt niður, eftir því hvort fyrirtæki hefur traust eða ekki traust. Og það er auðvitað engin leið að lána slíka tollavöru aðilum, sem ekki hafa það traust, að þeir geti sett öruggar tryggingar, því það er alveg ljóst, að það kemur ekki til mála, að þetta sé veitt sem almenn lán, þannig að tollurinn þurfi að standa í innheimtuaðgerð. Hann er þá búinn að missa sinn haldsrétt á vörunum, og það er alveg útilokað að taka á sig neina slíka áhættu, enda hefur þetta ekki verið kannað til hlítar, vegna þess að það verður ekki gert fyrr en vitað er, hvort þessi lög verða sett og með hvaða hætti reglur verða látnar um þetta gilda, en mín hugsun er sú, að þetta verði yfirleitt ekki gert nema þegar um stór vörupartí er að ræða, sem er mjög mikilvægt að geta losað úr tollafgreiðslu sem fyrst, og þá aðila, sem geta þá sett skilyrðislausa bankatryggingu fyrir greiðslu tollanna á alveg tilteknum tíma, þannig að að því verði gengið. Það er heldur ekki ætlunin, að þetta verði langtímalán, síður en svo, það er vel hægt að hugsa sér, að það gæti líka orðið skilyrðum bundið, þannig að t.d. yfir áramót verði lán ekki látin standa. Allt þetta þarf að kanna mun nánar, enda eru mjög frjálsar hendur, sem fjmrh. eru settar í þessu heimildarákvæði til þess að binda þetta öllum þeim skilyrðum, sem honum sýnist.