25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

104. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég tel sjálfsagt að kanna til hlítar það atriði, sem hv. þm. minntist á, um þessa vélaþrælkun, sem við erum nú orðnir undirorpnir. Því miður vill nú verða svo með þessa blessaða tækni, að það er oft á mörgum sviðum, að mennirnir verða þrælar vélanna, en ekki húsbændur þeirra. Það er sjálfsagt að kanna það, og eins og ég sagði áðan, ég held ekki, að það geti verið, að þetta sé sú almenna regla. Það er áreiðanlegt, að það hefði komið fljótt hljóð úr horni, ef svo hefði verið t.d. í sambandi við flugfragtina, sem er afgreidd með miklum hraða yfirleitt, að þá er auðvitað mikið af svona vörum, sem koma einmitt sem skyndisendingar, og um þetta hafa ekki borizt kvartanir, en þetta skal ég láta kanna. Varðandi hitt atriðið, sem hv. þm. minntist á, að það gætu verið vissar vörusendingar, sem kannski kæmu hingað á óeðlilegum tíma og leiddu til þess, að væntanlegir notendur þeirra eða eigendur þyrftu að borga tolla af þeim löngu áður en þær kæmu til nota, þá skil ég nú ekki, að almennt séð þurfi þetta að vera vandamál. vegna þess að auðvitað þarf ekki að borga toll af vörunni, ef hún er ekki leyst út. Það er þá bara hjá einstökum útgerðarmönnum, ef þeir leysa til sín vöruna og liggja svo með hana og geta ekki komið í notkun, þá er auðvitað ekkert hægt við því að gera og engin leið að veita ívilnanir með það, en væri um það að ræða, að vara væri flutt inn í stórum stíl löngu áður — af einhverjum sérstökum ástæðum — heldur en kæmi til nota á henni, þá eru tveir möguleikar til, annars vegar sá að setja vöruna í tollvörugeymslu — það þarf þá ekki að greiða af henni toll — eða þá hitt, sem ég tel ekkert útilokað, að hægt væri að fá gjaldfrest gegn því, að varan væri sett í geymslu og alls ekki tekin til notkunar fyrr en eðlilegur tími er kominn. Það eru til um þetta ákveðin dæmi, þar sem hefur verið veitt undanþága, og nefni ég þar t.d. timburflutninga frá Sovétríkjunum, sem hafa verið háðir því vandamáli, að vegna íss í rússneskum höfnum hefur orðið að flytja þessar vörur til landsins óeðlilega snemma, löngu áður en varan hefur verið notuð, og það hefur verið veittur sérstakur frestur á tollgreiðslu á þessari vöru, ef hún hefur verið flutt þannig inn miklum mun fyrr en eðlilegt væri. Þetta tel ég ekkert útilokað, að væri hægt að gera, og er sjálfsagt að verði tekið til athugunar. Hitt held ég, að liggi í augum uppi, að það er auðvitað gersamlega útilokað að taka tillit til þess, þó að einhver aðili leysi út vöru og svo komi til, að hann þurfi ekki á henni að halda fyrr en löngu seinna. Það er auðvitað ekki hægt, nema hér sé um meiriháttar vörupartí að ræða, sem sé þá hægt að koma fyrir í ákveðnum vörugeymslum, sem ekki aðrir eigi aðgang að en tollgæzlumenn sjálfir. Þetta yrði að vera skilyrði, þegar um svona vöruafgreiðslu er að ræða.