17.04.1969
Neðri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það hefur verið venja frá því að hafin var gerð framkvæmdaáætlana 1963, að fjmrh. hafi gefið Alþingi yfirlitsskýrslur um ástand í efnahagsmálum og þróun þeirra mála s.l. ár. Ég mun ekki gera það í þetta sinn af tveimur ástæðum bæði vegna þess, að mjög mikil gagnasöfnun fór fram í sambandi við þróun efnahagsmála í sambandi við viðræður stjórnmálaflokkanna á s.l. hausti, þannig að yfirlitsskýrslur lágu þá fyrir um þau efni, sem rædd munu hafa verið þá í stjórnmálaflokkunum, og einnig er þess að gæta, að aðstæður allar í efnahagsmálum nú eru það óljósar, að það er mjög erfitt um vik á þessu stigi að gera spá um þróunina á þessu ári. Ég mun því í þetta skipti láta mér nægja að gera grein fyrir áætluninni sjálfri og þeim framkvæmdum, sem beinlínis er fyrirhugað að ráðast í á þessu ári til viðbótar þeim framkvæmdum, sem ráðizt verður í samkv. þegar gerðum ákvörðunum Alþ. í fjárl.

Undanfarin ár hefur nokkuð verið að því fundið, að þessi framkvæmdaáætlun kæmi fram seint á þingi og mönnum gæfist því ekki tóm til þess að íhuga sem skyldi allar hliðar þessa máls. Á þessu varð breyting á þessu ári svo sem ég skýrði frá á Alþ. í fyrra, að ég mundi stefna að, en sú breyting var í því fólgin, að með fjárlagafrv. í haust var látin fylgja grg. um framkvæmdaáætlunina, þ.e.a.s. þau viðfangsefni, sem ríkisstj. teldi óumflýjanlegt að sinna til viðbótar þeim framkvæmdamálum, sem sérstaklega voru tekin til meðferðar í fjárl. Í þeirri grg. var tekið fram, að óumflýjanlegt væri að gera sérstakar ráðstafanir til fjáröflunar umfram það, sem þá var sýnilegt, að hægt væri að ná með hinni venjulegu lánsfjáröflun og yrði því naumast um annað að ræða en að taka inn í fjárl. ýmsar framkvæmdir, ef á annað borð ætti að þeim að vinna. Þetta var gert í ýmsum tilfellum, og sumar framkvæmdir, sem þar var gerð grein fyrir, teknar inn í meðferð Alþ. á fjárlagafrv. Út af stóðu hins vegar margar framkvæmdir, sem gert var ráð fyrir í þessum drögum að framkvæmdaáætlun, að auðið mundi verða að fjármagna með lánsfé, og það eru þær framkvæmdir, sem nú liggur fyrir í því frv., sem hér er til umr., að taka afstöðu til á hinu háa Alþ., því að í sambandi við fjárlagameðferðina var engin ákvörðun tekin um framkvæmdaáætlunina, enda var hún birt þar sem fskj. til upplýsinga fyrir þm. og þá til aths., ef ástæða þætti til, en hins vegar ljóst, að síðar á Alþ. yrði að leita sérstakra heimilda, þegar að því kæmi að ákvarða nánar um einstakar framkvæmdir og fjáröflun til þeirra.

Með þessu frv. er leitað heimilda Alþ. til ákveðinnar fjáröflunar í sambandi við þær framkvæmdir, sem ríkisstj. telur óumflýjanlegt að afla fjár til. Annað hvort er þar um beinar framkvæmdir að ræða eða lánagreiðslur, sem þarf að standa undir og ekki er gert ráð fyrir í fjárl. af ýmsum ástæðum. Samtals nemur þessi heildarfjárhæð 225 millj. kr., sem er verulega lægri upphæð en var á s.l. ári, en þá var náð saman endum á þann veg, að allverulegur hluti af framkvæmdaláni ensku, sem þá var tekið, rann til framkvæmdaáætlunarinnar, en nú er ekki gert ráð fyrir að það gefist. Það lán, sem nú hefur verið tekið af ríkissjóði, verður notað til framkvæmda að vísu á þessu ári eða næsta ári, en það verður ákveðið síðar af stjórn framkvæmdasjóðsins í samráði við ríkisstj. hvernig því lánsfé verður varið og er það ekki innan ramma þessa frv. Það er gert ráð fyrir, að þessara 225 millj. kr. verði aflað með tvennum hætti, annars vegar útgáfu spariskírteina, sem er gert ráð fyrir, að verði jafnhá fjárhæð og var á s.l. ári eða 75 millj. kr. í nýjum skírteinum, en aftur á móti er gert ráð fyrir, að til viðbótar komi 80 millj. kr. í endurseldum spariskírteinum í stað þeirra skírteina, sem innleyst hafa verið. Það hafa jafnan á undanförnum árum verið gefin út ný skírteini og fjöldinn af þeim, sem hefur átt hin eldri skírteini, hefur óskað eftir því að halda þeirri skírteinaeign sinni áfram, þannig að hér er ekki um nýtt álag á bankakerfið að ræða, heldur aðeins endurnýjun á þessum lánum.

Það er gert ráð fyrir því, að þessi spariskírteini verði gefin út með sama hætti og með sömu kjörum og spariskírteini á undanförnum árum. Mér er það vel ljóst, að það hefur komið hér fram í umr. á Alþ., að það eru nokkuð skiptar skoðanir um spariskírteini þessi og réttindi þau, sem þeim fylgja, bæði varðandi undanþágu þeirra frá framtalsskyldu og skattfrelsi þeirra. Ég tel ekki mögulegt að breyta þessu meðan í gildi eru þau ákvæði um sparifé, sem nú eru í gildi. Hins vegar getur verið full ástæða til að taka þetta mál til heildarathugunar og geri ég ráð fyrir, að það verði gert í sambandi við þá endurskoðun skattalaga, sem verður óumflýjanleg í sambandi við staðgreiðslukerfið, og þá komi bæði þetta og ýmis önnur atriði til sérstakrar athugunar.

Þá er í öðru lagi gert ráð fyrir því, sem er sams konar fjáröflun og á undanförnum árum, að heimild verði veitt til þess að taka vörukaupalán hjá Bandaríkjastjórn, svokölluð PL-480 lán, sem gert er ráð fyrir, að nemi í ár allt að 1.6 millj. dollara. Þessar fjáröflunarleiðir eru þær sömu og verið hafa undanfarin ár til framkvæmdaáætlana ríkisins sjálfs, en eins og hv. þm. er kunnugt hefur framkvæmdaáætlunin verið í tvennu lagi, annars vegar ríkisframkvæmdirnar og hins vegar fjármögnun stofnsjóða atvinnuveganna, en eftir að Framkvæmdasjóður Íslands var settur á laggirnar kemur það í hans hlut að afla fjár til stofnsjóða atvinnuveganna, sem væntanlega verður gert með samvinnu við bankakerfið og eftir atvikum með einhverri fjáröflun eftir öðrum leiðum. En af þeirri ástæðu kemur það ekki í minn hlut að gera grein fyrir þeim kafla áætlunarinnar hér, enda hefur ekki verið endanlega frá því máli gengið, en verður væntanlega til upplýsingar innan tíðar eftir að stjórn Framkvæmdasjóðsins hefur gengið frá þeirri fjáröflun endanlega.

Ég skal þá víkja með örfáum orðum að þeim framkvæmdum, sem hér er um að ræða. Vitanlega getur það alltaf orkað tvímælis, hverju á að verja fé til og hvað langt á að ganga í því efni á hverju ári. Það hefur verið á það bent hér áður, sem er alveg rétt, að þær framkvæmdir, sem eru stöðugt vandamál, að segja má, er mjög vafasamt að fjármagna með lántökum, heldur á að koma til bein fjárveiting úr ríkissjóði hverju sinni, þó að þetta hafi verið gert í ýmsum tilfellum til að hraða framkvæmdum. Aftur á móti eru aðrar framkvæmdir, sem eru annað hvort alveg sérstaks eðlis og ekki að búast við hliðstæðum framkvæmdum á næstu árum eða þá framkvæmdir, sem með einhverjum hætti standa undir sér sjálfar. Til þess konar tegunda framkvæmda er ekkert óeðlilegt og raunar sjálfsagt að taka lán. Það, sem réði varðandi val þeirra framkvæmda, sem nú er gert ráð fyrir að afla fjár til á þessu ári, er fyrst og fremst mat á því, hvað væri óumflýjanlegt í þessum efnum, og hygg ég, að naumast geti það orkað tvímælis, að svo sé um alla þá liði, sem eru hér upp taldir. Það hefur ekki verið venja áður í sambandi við frv. sem þessi að lögfesta nákvæmlega til hverra hluta eða til hverra framkvæmda lánsféð skyldi ganga, en mér fyndist ekki óeðlilegt, enda eðlileg ósk frá hv. Alþ., að það sé gert, ef þess er kostur, þegar frv. er lagt fram og þar sem við þykjumst sjá endanlega fyrir nú, hverjar þarfirnar verði í hverju einstöku tilfelli, þá er beinlínis gert ráð fyrir því í 7. gr. frv. að skipta fénu nú þegar þannig, að hér verður um formlegar fjárveitingar að ræða sambærilegar við það, sem er við meðferð fjárl.

Fjárveiting sú, 24.3 millj. kr., sem gert er ráð fyrir að verja til borana og rannsókna á Reykjanesi, er í sambandi við hugsanlega saltvinnslu og sjóefnaverksmiðju á Reykjanesi. Það getur naumast verið um það ágreiningur, eins og ástatt er í okkar atvinnulífi, að það beri brýna nauðsyn til að kanna alla möguleika til eflingar þess. Þarna hefur verið unnið að verulegum undirbúningsrannsóknum á s.l. ári, en þeir, sem fyrir þeim standa, telja óumflýjanlegt að halda þeim áfram til þess að fá endanlega úr því skorið, hvort saltvinnsla og sjóefnagerð sé hagkvæm eða ekki, og það er vitanlega mikilvægt, að sú niðurstaða fáist sem fyrst. Og lágmarksnauðsyn í þessu sambandi er talin vera 24.3 millj. kr., sem hér er ætlunin að verja lánsfé til.

Boranir í Námaskarði. Um þær er það að segja, að þar er um að ræða leit að heitu vatni og jarðgufu, raunar kannske varla leit, því að það er vitanlegt, að þar er um næga orku að ræða, en borun eftir orku til þess að fullnægja orkuþörfum gufuorkuvers, sem þar hefur verið komið á laggirnar, bæði til þess að fullnægja gufuþörf Kísiliðjunnar og einnig til þess að veita nauðsynlegri orku til gufustöðvar Laxárvirkjunarinnar, sem þar hefur nú verið byggð. Það er talið, að það þurfi að bora þarna þrjár holur enn til þess að nægileg orka fáist, ekki hvað sízt vegna fyrirhugaðrar stækkunar Kísiliðjunnar, og mundi sú framkvæmd ekki koma að gagni, og raunar ekki heldur Laxárvirkjunarstöðin að fullum notum, nema hafizt verði handa þegar í vor um þessa viðbótarborun. Það getur því naumast orkað tvímælis, að hér sé um hina mikilvægustu framkvæmd að ræða.

Þá eru í þriðja lagi 9.3 millj. kr. til rannsókna á efra Þjórsársvæðinu. Það er til áframhaldandi rannsókna vegna virkjunar í Þjórsá. Svo sem hv. þdm. er kunnugt hefur verið gert ráð fyrir því, að virkjun Þjórsár yrði hraðað allverulega með hliðsjón af því, að áformað er, að álbræðslan verði stækkuð örar en áður hafði verið ráðgert, og með hliðsjón af framhaldandi rannsóknum í þessu efni verður því ekkí skotið á frest að gera þarna viðbótarathuganir og er þessi fjárhæð við það miðuð.

Á undanförnum árum hefur það ætíð verið óumflýjanlegt að afla verulegs lánsfjár vegna Rafmagnsveitna ríkisins. Fjárhagur Rafmagnsveitnanna er stórkostlegt vandamál út af fyrir sig, sem ég skal ekki ræða hér, en eftir nákvæma könnun á fjárhagsaðstöðu Rafmagnsveitnanna og óumflýjanlegri fjárþörf í sambandi við framkvæmdir á þessu ári þá er talið nauðsynlegt að verja 42 millj. kr. til Rafmagnsveitnanna. Ég skal ekki rekja þær framkvæmdir í einstökum atriðum. Þar er fyrst og fremst um að ræða Smyrlabjargaárvirkjun, sem hafizt var handa um á síðasta ári, og auk þess margvíslegar minni framkvæmdir, sem óumflýjanlegt er að vinna að til þess að halda raforkukerfinu í viðunandi lagi.

Þá er í fimmta lagi gert ráð fyrir að verja 13.4 millj. kr. til framkvæmda á Keldnaholti, þ.e. við byggingar rannsóknastöðvanna þar. Þar er fyrst og fremst haft í huga að fá fullnægjandi starfsaðstöðu fyrir Rannsóknastofnun iðnaðarins og ljúka greiðslum vegna Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, sem ekki var til nægilegt fé til á s.l. ári og varð því að fá nauðsynlega bráðabirgðafjáröflun, en nú þarf að koma á fast því láni. Það er mikil nauðsyn, að Rannsóknastofnun iðnaðarins komist þarna inn eftir, ekki eingöngu vegna þarfa hennar sjálfrar heldur vegna mikils húsnæðisskorts Háskólans, svo að hægt verði að losa húsnæði það, sem Rannsóknastofnunin nú er í og það hefur því verið talið óumflýjanlegt að greiða fyrir því, að þetta geti orðið með þessum hætti.

Landshafnirnar hafa jafnan verið á framkvæmdaáætlun á undanförnum árum. Nú er gert ráð fyrir aðeins smávægilegum framkvæmdum í landshöfnum, það er fyrst og fremst í Þorlákshöfn, og skuldagreiðslum, sem nema 5.8 millj. kr.

Þá eru tvö vegavandamál, sem gleypa stóran hluta af þessu fé, sem nú er til ráðstöfunar. Annars vegar er það Hafnarfjarðarvegur í Kópavogi. Það hefur verið gerður samningur um það við Kópavogskaupstað, að fjár yrði aflað til þeirrar vegagerðar ekki á þann hátt, að ríkið leggi það fé endanlega fram, heldur verði það síðar greitt af þéttbýlisfé Kópavogskaupstaðar, en það kemur að sjálfsögðu ekki til ráðstöfunar jafn ört og framkvæmdum miðar, og er því óumflýjanlegt að afla á þessu ári 43.5 millj. kr. handa Kópavogi í þessu skyni, sem endurgreiðist síðar, eins og ég sagði, af þessu fé. Þá er hið stöðuga vandamál, sem er Reykjanesbraut. Til hennar hefur verið aflað fjár í framkvæmdaáætlun undanfarin ár, og er svo einnig nú. Þar er um að ræða fé til þess í rauninni að velta áfram þeim skuldabagga, sem á þessum vegi hvílir. Það verður ekki gert til langframa, heldur verður að taka ákvarðanir innan tíðar um það, hvernig eigi að leysa þetta vandamál. Það er ljóst, að veggjaldið, ef það er ekki hækkað frá því, sem það er nú, og sú fjárveiting, sem er fyrirhuguð í vegáætlun, nægja engan veginn til þess að greiða niður það lánsfé, sem hvílir nú á þessum vegi, þannig að það verður að taka um það ákvörðun innan tíðar með hverjum hætti þetta skuli gert. Endalaust verður þessu ekki velt áfram og tekjur þær, sem nú eru til ráðstöfunar, nægja ekki nema til að greiða vextina af þeim skuldum, sem á veginum hvíla. Vegna Reykjanesbrautar í Breiðholti er smávægileg fjárhæð til greiðslu á láni, sem tekið var til bráðabirgða vegna byggingaráætlunarinnar, sem gerði nauðsynlegt að leggja þennan veg. Þá er gert ráð fyrir, að 10 millj. kr. verði lagðar til Menntaskólans við Hamrahlíð. Fjárveitingar til menntaskóla voru hækkaðar verulega í fjárl. yfirstandandi árs, en það hefur hins vegar komið í ljós, að ekki er talinn möguleiki á að fresta þeim framkvæmdum við Hamrahlíðarskóla, sem talið var í haust, að gerlegt væri að gera, heldur verði að hefjast handa nú þegar á þessu ári til þess að ljúka þeirri framkvæmd á næsta ári. En til þess er óumflýjanlegt að fá a. m. k. 10 millj. kr. nú, og yrði þá hafizt handa um þessa stækkun skólans nú í vor. Gert er ráð fyrir, að Lögreglustöðin í Reykjavík fái sömu lánsfjárhæð og var á framkvæmdaáætlun í fyrra. Þar er um mikla byggingu að ræða, eins og hv. þdm. er kunnugt, og auðvitað óviðunandi með öllu að reyna ekki að ljúka henni. Hún er búin að vera lengi í smíðum. Við þetta bætist nokkurt fé, sem veitt er nú á fjárl. í því skyni að koma upp fangaklefum í Lögreglustöðinni og leysa Síðumúla af hólmi, þannig að hann gæti verið sem venjulegt fangelsi og þannig leyst nokkuð fangelsisvandamálin. Sú ákvörðun var tekin í sambandi við fjárl. og ræði ég það ekki frekar hér.

Þá er loks lagt til, að 3 millj. kr. gangi til rannsókna á perlusteinsvinnslu. Um það mál hefur verið bæði rætt mikið á undanförnum árum og einnig töluvert mikið að rannsóknum þessum unnið í sambandi við ýmsa erlenda aðila, sem gert hafa á þessu könnun, en þær kannanir hafa hingað til ekki verið sérlega jákvæðar, a.m.k. er talið mjög vafasamt, að þarna sé um mjög verðmæta vöru að ræða, eins og menn höfðu vonað, en engu að síður er talið nauðsynlegt að fá endanlega niðurstöðu í þessu máli og gera það nú á þessu ári, og hafa verið gerðir samningar við erlent fyrirtæki í þessu efni, en áætlað er að þær framkvæmdir muni kosta um 3 millj. kr. Þetta er í stuttu máli sagt sú ráðstöfun fjár, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Vitanlega getur sú hv. n., sem fær málið til meðferðar, átt þess kost að fá nánari upplýsingar um einstök atriði eftir því, sem hún óskar, og sé ég því ekki ástæðu til þess að vera að þreyta hv. þdm. á lengra máli að sinni.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.