29.04.1969
Neðri deild: 83. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Á þskj. 588 höfum við, ég og hv. 5. þm. Austf., gefið út sérstakt nál. um þetta frv., og var verið að útbýta því nú á fundinum.

Mér telst svo til, að ríkisstj. sé búin að fá lántökuheimildir á þessu þingi, sem nema samtals 960 millj. kr., og enn er eftir að afgreiða eitt stjórnarfrv. um 150 millj. kr. lántöku auk þess frv., sem hér liggur fyrir. Fyrst og fremst er hér um erlendar lántökur að ræða, en skuldirnar við útlönd eru orðnar ískyggilega miklar. Það er talið, að vextir og afborganir af útlendum lánum þjóðarinnar á þessu ári muni nema yfir 30% af heildarverðmæti útfluttrar vöru frá landinu, eins og það var árið, sem leið, 1968, og enn er hæstv. ríkisstj. á þeysispretti út um lönd, bæði í Evrópu og Ameríku, að leita eftir lánum. En á sama tíma er margt í sukki hjá henni hér heima og sem dæmi um það er, að hún lætur ekki innheimtumenn sína víða um land skila á réttum tíma þeim ríkistekjum, sem þeir innheimta, heldur lætur vera hjá þeim tugi og jafnvel hundruð millj.

Við í I. minni hl. fjhn. leggjum áherzlu á það, að áður en ríkisstj. notar þær lántökuheimildir, sem hún fær samþykktar á Alþingi, láti hún innheimtumenn sína skila til ríkissjóðs öllu því innheimtufé, sem þeir geyma í sinum vörzlum og geri ráðstafanir til þess, að þeir skili framvegis öllum ríkistekjum til ríkisins jafnóðum og þeir innheimta þær. Ég gerði þetta mál að umtalsefni hér á fundinum fyrr í dag í sambandi við umr. um ríkisreikninginn, og skal ekki hafa um það fleiri orð.

Í þessu frv. fer ríkisstj. fram á heimild til að taka vörukaupalán hjá ríkisstj. Bandaríkjanna, svo nefnd PL-480 lán, allt að 1.6 millj. dollara. Slík lán hafa verið tekin áður þar í landi, og þar sem þetta lán mun fást með hagstæðari kjörum en annað lánsfé teljum við í 1. minni hl. fjhn. ekki rétt að beita okkur á móti því, að það verði tekið, enda fyrirhugað samkv. frv. að verja því til gagnlegra hluta. Þá fer stjórnin einnig fram á heimild til að afla lánsfjár innanlands með sölu ríkisskuldabréfa eða spariskírteina að upphæð 75 millj. kr. Við þetta er það að athuga, að slík lán hafa verið tekin nokkur síðustu árin, og það fé, sem menn verja til kaupa á slíkum skuldabréfum og spariskírteinum, er nær eingöngu tekið út úr bankakerfinu, tekið af inneignum í bönkum og sparisjóðum, og fyrir þá sök verða þessar lánastofnanir miður færari en ella um það að bæta úr lánaþörf atvinnufyrirtækjanna. En eins og kunnugt er, hefur lánsfjárþörf atvinnufyrirtækjanna vaxið mjög að undanförnu, m.a. vegna þrálátra gengisfellinga. Við teljum því varhugavert að gera meira að því, eins og nú er ástatt, að taka þannig fé út úr bankakerfinu, nema jafnframt séu gerðar ráðstafanir til þess, að Seðlabankinn hætti að nota þá heimild, sem hann hefur til að binda hluta af sparifjáraukningu innlánsstofnana, og við flytjum því brtt. um það. Þá flytjum við einnig brtt. um að skuldabréfin eða sparifjárskírteinin, ef þau verða gefin út, verði skráð á nöfn eigenda. Þetta getur áreiðanlega orðið til þess að auðvelda skattyfirvöldum sitt starf. Þó að bréfin eða skírteinin verði ekki framtalsskyld og séu skattfrjáls, þá er hægt að skrá þau á nöfn eigenda og það gæti í mörgum tilfellum orðið til að auðvelda skattyfirvöldum sitt eftirlitsstarf. En það er skylt, að mínum dómi, að gera allt, sem unnt er, til þess að auðvelda þeim að komast að hinu rétta um framtöl manna og geta ákveðið skattgreiðslur samkv. því.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa þessar brtt. okkar, sem eru tvær. Það er fyrst við 1. gr., að við hana bætist: „Enda noti Seðlabanki Íslands ekki heimild sína til að binda hluta af sparifjáraukningu banka, sparisjóða og annarra innlánsstofnana á árinu 1969.“ Þetta á aðeins að gilda fyrir þetta ár, þetta bann við því, að hann noti þessar heimildir. Og hin brtt. er við 3. gr., að við hana bætist ný mgr. þannig: „Skuldabréfin og spariskírteinin skulu skráð á nöfn eigenda.“