16.05.1969
Efri deild: 96. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Af því að þær brtt., sem nú hafa verið fluttar og teknar til umr., lágu ekki fyrir, þegar ég flutti framsöguræðu mína, þá vildi ég aðeins með örfáum orðum marka afstöðu mína til þeirra, þó að ég geti verið stuttorður, þar sem ég að öllu leyti get tekið undir það, sem hæstv. fjmrh. þegar hefur sagt um aðaltill., þ.e.a.s. þá að hækka þá fjárhæð, sem heimilt sé að afla fjár til innanlands.

Hvað þessa till. snertir, þá get ég vissulega alveg tekið undir það með hv. 11. þm. Reykv., að atvinnuvandamál skólafólks á komandi sumri er alvarlegt þjóðfélagsvandamál, sem ber að vinna að því að leysa með öllum raunhæfum úrræðum, sem til greina koma. En að mínu álíti mundi það aðeins vera sýndin ein í þessu efni að samþ. þá brtt., sem hér hefur verið flutt. Að mínu áliti þýðir það lítið að samþ. lántökuheimildir til handa hæstv. ríkisstj., hvort sem það er í samræmi við afgr. þessa máls eða annarra, nema maður geri sér einhverja grein fyrir möguleikunum á því að afla þess lánsfjár, sem um er að ræða, annað hvort innanlands eða erlendis, og á þetta auðvitað við, hversu góð og nauðsynleg málefni, sem þarna kann að vera um að ræða. Nú munu hv. flm. sennilega svara því til, að fyrir því sé séð með því að afnema bindiskylduna. En þetta er í rauninni ekki nema sýndin, það er raunverulega ekki séð fyrir neinu fjármagni með þessu móti. Við verðum að aðgæta það, að það skapast í rauninni ekkert fjármagn í Seðlabankanum. Fjármagn er sparnaður, en ekki seðlaútgáfa. Hv. 11. þm. Reykv. er það vel ljóst, sem bankastjóra, að viðskiptabankarnir hafa auðvitað að jafnaði ekki annað fé til umráða en það, sem þeim berst sem sparifé. Þeir geta að vísu til bráðabirgða tekið lán í Seðlabankanum, en allar slíkar lánveitingar af hálfu Seðlabankans eru að jafnaði aðeins hugsaðar til bráðabirgða, að leggja fram peninga til þess að brúa bilið milli þarfarinnar fyrir peninga og þess, að fjármagnið komi inn með öðrum hætti. Mergurinn málsins í þessu sambandi er sá, að þeir fjármunir, sem Seðlabankinn þannig bindur, eru ekki neinir fjármunir til frjálsrar ráðstöfunar. Seðlabankinn annast útlánastarfsemi og annað, sem hann þarf fjármagn til, og á sama hátt og viðskiptabankarnir geta ekki sótt sitt fjármagn annað en til almennings, getur Seðlabankinn ekki sótt það fjármagn, sem hann hefur til ráðstöfunar, annað en þá til viðskiptabankanna. M.ö.o.: með því að samþ. þessa till., þá væri hv. d. að ákveða, að sama spariféð skuli notað tvisvar eða að það sparifé, sem viðskiptabönkunum berst, skuli notað þar, og Seðlabankinn eigi svo einnig að nota sama spariféð. Ef þetta væri raunhæfur hugsunarháttur, þá væri lánsfjárskorturinn auðleystur, því ef bæði Seðlabankinn og viðskiptabankarnir geta notað sama spariféð, þá ætti raunar ekkert að vera því til fyrirstöðu, að bæjar- og sveitarfélög, sem oft vantar fjármuni líka, notuðu þetta fé einnig, þannig að það yrði þá notað þrisvar sinnum. Og hvað ríkissjóð snertir, sem hefur nóg á sinni könnu, væri þá ekki ráð að leysa fjárhagsvandamál hans með því að nota þetta sama sparifé í fjórða sinn, þannig að hann fengi það einnig til ráðstöfunar? En þetta veit ég, að hv. flm. er jafnljóst og öðrum, að getur ekki gengið, svo að því miður mundi það aðeins vera sýndin tóm að samþ. þessa till. Vil ég þó endurtaka það, sem ég sagði, að mér er vel ljóst, hvert nytjamál hér í rauninni er um að ræða. En það verður að sjá fyrir fjármagni einnig í þágu nytjamála. Á meðan ekki er fyrir því séð, þá eru samþykktir af þessu tagi lítils virði.

Ég ætlaði þá að endingu aðeins að víkja að gömlum kunningja hér í hv. d. í sambandi við meðferð þessa máls eða sams konar mála á undanförnum þingum, en það er sú brtt. hv. nm. í fjhn., að skírteinin skuli skráð á nafn. Ég sagði, að þetta væri gamall kunningi, en það skal viðurkennt, að þessi gamli kunningi er nú í nokkuð nýtri og betri búningi en hann áður hefur verið. Áður hafa verið fluttar um það till., að bréfin skyldu vera framtalsskyld, án þess að vera skattskyld, nokkuð sem hvergi þekkist annars staðar, og ég hef hvað eftir annað leiðrétt, en nú er ekki um það að ræða, heldur að bréfin skuli skráð á nafn. Mér skilst, að tilgangur hv. flm. með þessu sé sá, að koma þannig í veg fyrir það, að tekjum, sem sviknar kunna að vera undan skatti, sé ráðstafað til kaupa á þessum bréfum. Vera má, að sá tilgangur gæti út af fyrir sig náðst, að aðilar, sem mórauða samvizku hafa gagnvart skattayfirvöldum, mundu skirrast við að leggja peninga sína í slík bréf, ef það lægi fyrir, að skattayfirvöld hefðu aðgang að þeim, og er ég nú þó ekki alveg viss um, að sá tilgangur mundi nást að fullu, því að mundu þá ekki þessir aðilar, ef þeir endilega vilja ráðstafa þeim peningum, sem sviknir hafa verið undan skatti, á þann hátt að kaupa ríkisskuldabréf, fara þá leið að skrá bréfin á nöfn barna eða annarra venzlamanna, sem ekki væru framtalsskyldir? En vera má samt, að þessi tilgangur mundi nást að einhverju leyti.

Á hinu má vekja athygli, sem ég að vísu hef gert áður í umr. um þetta eða svipuð mál, að með þessu er ekkert spor stigið í áttina að koma í veg fyrir, að skattsvik eigi sér stað, því að það eru auðvitað þúsund leiðir til þess að fela tekjur, sem sviknar eru undan skatti, aðrar en að kaupa ríkisskuldabréf fyrir þessar tekjur. Það er í fyrsta lagi auðvelt, ef menn ætla að spara þessar tekjur, að kaupa einhverjar aðrar eignir, sem auðvelt er að fela fyrir skattayfirvöldum. Enn einfaldari er þó sú leið að eyða tekjunum blátt áfram og þannig er það jafnt með skattsviknar tekjur sem aðrar tekjur, að 90% eða meira af þeim er varið til einhvers konar eyðslu. Hins vegar er ekki nema gott um það að segja, ef það er eins konar siðvæðingarsjónarmið, sem liggur þessu að baki, — að ríkið eigi ekki að hafa viðskipti við þá aðila, sem kunna að gerast brotlegir við skattalög, — en ég held nú að sá tilgangur mundi aðeins að takmörkuðu leyti nást með þessu, því að það er annar möguleiki til þess að koma þessum peningum í lóg með viðskiptum við ríkið, t.d. að kaupa áfengi fyrir þessa peninga, og enginn getur haft eftirlit með því, hvort þeir peningar, sem ráðstafað er til slíkra kaupa, hafa verið sviknir undan skatti eða ekki.

Ég vil aðeins undirstrika það, sem ég áður hef sagt, að það er í rauninni blindgata, þegar talað er um ráðstafanir til þess að hamla gegn skattsvikum, að leggja svo mikla áherzlu á eftirlit með eignum. Í því sambandi ber að hafa hugfast, að það er svo afskaplega lítill hluti af tekjum sínum, sem fólk yfirleitt ráðstafar til eignaaukningar. Það mun ekki hafa verið gerð könnun á því hér á landi, hve stór sá hlutur. Þó veit ég, að í Bretlandi var talið fyrir nokkrum árum, að það væri aðeins um 5% af tekjunum, sem almenningur eða einstaklingar verðu til eignaraukningar, og með ólíkindum má telja, að íslenzkur almenningur sé í rauninni sparsamari en brezkur, líkurnar eru miklu frekar fyrir hinu gagnstæða. Í öðru lagi þá er að vísu e.t.v. hægt að hindra það, að skattsviknum tekjum sé ráðstafað til eignaaukningar á einhvern ákveðinn hátt, t.d. með því að kaupa ríkisskuldabréf, en þá eru ótal leiðir aðrar til þess að fela slíkar eignir. Þetta er aldrei nema lítið brot, bæði af skattsviknum tekjum og öðrum tekjum, enda er það einnig í þeim löndum, þar sem skattayfirlit yfirleitt er talið strangast, eins og í hinum enskumælandi löndum, að þar eru yfirleitt ekki neinir eignaskattar, og eignir alls ekki framtalsskyldar. Stjórnvöld þar telja þetta atriði skipta ákaflega litlu máli. Nei, en út frá því raunsæja sjónarmiði, að vitað er, að það er 90% eða meira af tekjum manna, sem er ráðstafað til neyzlu, þá eru þær leiðir, sem farnar eru þar til þess að hafa eftirlit með því, að tekjur teljist fram, þær að hafa eftirlit með neyzlunni, ekki satt? Skattayfirvöld hafa þar sérstaka njósnalögreglu, ef svo mætti segja, sem fylgist með útgjöldum manna, og ef hún kemst t.d. að því, að maður hefur farið til Flórída í sumarleyfi með fjölskyldu sína, þá á viðkomandi á hættu að vera spurður sem svo: Hvar fékkstu þá peninga, sem þú ráðstafaðir á þann hátt? Ég er ekki að gera hér neinar till. um það, að svipaðar leiðir ættu að vera farnar hér á landi, en það er á þeim grundvelli, sem að því máli ber að vinna. Hitt hefur ákaflega litla þýðingu með eignaeftirlitið, og ber í rauninni að harma það, að sú skynsamlega ráðstöfun út af fyrir sig að hafa sparifé skattfrjálst, sem er einhver skynsamlegasta ráðstöfun í efnahagsmálum, sem hér hefur verið gerð undanfarna áratugi, og ég hugsa, að það sé fátt, sem í eins ríkum mæli hefur þó átt þátt í því að halda okkar efnahagsmálum á kili, þrátt fyrir verðbólgu: hefur verið gerð tortryggileg með því að benda á það, sem ég að vísu tel í öllum meginatriðum á algjörum misskilningi byggt, að þetta torveldi að einhverju verulegu leyti eftirlit með skattframtölum.